Starfssvið umboðsmanns Alþingis og skilyrði þess að umboðsmaður fjalli um kvörtun. Málskot til æðra stjórnvalds. Málsmeðferð yfirlögráðanda verði borin undir dómsmálaráðuneytið.

(Mál nr. 527/1991)

Máli lokið með bréfi, dags. 19. desember 1991.

A kvartaði yfir því, að sýslumaðurinn í X-sýslu hefði ekki svarað bréfi, er A ritaði honum í tilefni af skýrslu fjárhaldsmanns B. Í bréfi, er ég ritaði A 19. desember 1991, tók ég fram að samkvæmt 1. mgr. 30. gr. laga nr. 68/1984 væru sýslumenn og bæjarfógetar yfirlögráðendur, hver í sínu lögsagnarumdæmi, en dómsmálaráðuneytið færi með yfirstjórn þeirra mála, er lögráð vörðuðu. Taldi ég ljóst, að samkvæmt 1. mgr. 30. gr. laga nr. 68/1984 gæti A borið framangreint kvörtunarefni undir dómsmálaráðuneytið og benti ég A á að fara þá leið.