Starfssvið umboðsmanns Alþingis og skilyrði þess að umboðsmaður fjalli um kvörtun. Málskot til æðra stjórnvalds. Kjörskrá vegna kosningar vígslubiskups.

(Mál nr. 434/1991)

Máli lokið með bréfi, dags. 22. apríl 1991.

A kvartaði yfir samningu kjörskrár vegna kosningar vígslubiskups í Hólastifti 1991. Í bréfi mínu til A, dags. 22. apríl 1991, sagði m.a. svo:

"Í 2. mgr. 43. gr. laga nr. 62/1990, um skipan prestakalla og prófastsdæma og um starfsmenn þjóðkirkju Íslands, er tekið fram, að um kosningu vígslubiskupa og kjörgengi gildi ákvæði laga nr. 96/1980 um biskupskosningu, en ráðherra setji í reglugerð nánari reglur um kosningu og kjörgengi þeirra. Samkvæmt 3. gr. reglugerðar nr. 118/1991 um kosningu vígslubiskupa fer kjörstjórn, sem skipuð er samkvæmt 3. gr. laga nr. 96/1980, sbr. reglugerð nr. 151/1981 um biskupskosningu, með yfirstjórn, undirbúning og framkvæmd vígslubiskupskosningar. Kjörstjórn þessi semur kjörskrá, en um gerð hennar og framkvæmd kosningar fer að öðru leyti eftir fyrirmælum laga nr. 96/1980 og reglugerðar nr. 151/1981, sbr. 4. gr. reglugerðar nr. 118/1991. Í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 96/1980 og 8. gr. reglugerðar nr. 151/1981 er tekið fram, að kjörstjórn úrskurði um kosningarétt og að úrskurði hennar megi skjóta til kirkjumálaráðherra, sem leysi úr málinu til fullnaðar.

Ástæða þess að ég geri yður grein fyrir framangreindu er sú, að samkvæmt 3. mgr. 6. gr. laga nr. 13/1987 um umboðsmann Alþingis er ekki unnt að kvarta til umboðsmanns, ef skjóta má máli til æðra stjórnvalds og það hefur ekki fellt úrskurð sinn í málinu."

Ég tjáði því A að niðurstaða mín samkvæmt framansögðu væri því sú, að skilyrði brysti til þess að ég gæti fjallað frekar um kvörtun hans út af vígslubiskupskjöri.