Starfssvið umboðsmanns Alþingis og skilyrði þess að umboðsmaður fjalli um kvörtun. Málskot til æðra stjórnvalds. Þagnarskylda opinberra starfsmanna.

(Mál nr. 445/1991)

Máli lokið með bréfi, dags. 6. maí 1991.

A óskaði eftir áliti mínu á því, hvort fyrirmæli lögreglustjórans á Keflavíkurflugvelli um þagnarskyldu undirmanna hans samrýmdust ákvæðum laga nr. 38/1954 um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins. Í bréfi mínu, dags. 6. maí 1991, benti ég á að málefni lögreglustjóraembættisins á Keflavíkurflugvelli heyrðu undir utanríkisráðherra, sbr. 13. gr. reglugerðar nr. 96/1969 um Stjórnarráð Íslands, sbr. lög nr. 106/1954 um yfirstjórn mála á varnarsvæðum o.fl. Umrædd ákvörðun lögreglustjórans yrði borin undir utanríkisráðherra. Ekki væri unnt að kvarta til umboðsmanns Alþingis, fyrr en æðra stjórnvald hefði fellt úrskurð sinn í máli, sbr. 3. mgr. 6. gr. laga nr. 13/1987 um umboðsmann Alþingis. Að svo stöddu væri því ekki skilyrði til þess, að ég fjallaði um málið.