A kvartaði m.a. yfir því, að ósamræmi væri í framkvæmd starfsmanna Siglingamálastofnunar við veitingu haffærisskírteina. Taldi A það hefði leitt til þess, að sumir bátar, sem svipað var ástatt um og bát hans X, hefðu fengið haffærisskírteini fyrir 18. ágúst 1990 og hefðu þar að leiðandi uppfyllt skilyrði laga til þess að fá veiðileyfi skv. 3. ml. 1. mgr. 5. gr. laga nr. 38/1990 um stjórn fiskveiða.
Við afgreiðslu sjávarútvegsráðuneytisins á veiðileyfi til A var á því byggt, að samkvæmt upplýsingum Siglingamálastofnunar ríkisins hefði bátur A ekki fengið útgefið haffærisskírteini fyrr en 16. október 1990 og hefði A því ekki átt rétt á veiðileyfi á grundvelli áðurgreinds lagaákvæðis.
Í bréfi, er ég ritaði A 18. nóvember 1991 gerði ég A m.a. grein fyrir eftirfarandi:
"Þér haldið því... jafnframt fram, að Siglingamálastofnun ríkisins hafi verið skylt að veita [bátnum X] haffærisskírteini fyrir 18. ágúst 1990, meðal annars með hliðsjón af veitingu haffærisskírteina í öðrum tilvikum. Að mínum dómi eru kröfur yðar um veiðileyfi þannig undir því komnar, hvort þér eigið rétt á leiðréttingu mála yðar varðandi útgáfu haffærisskírteinis. Samkvæmt 6. gr. laga nr. 51/1987 um eftirlit með skipum, annast Siglingamálastofnun eftirlit með því að fullnægt sé ákvæðum gildandi laga og reglugerða um öryggi skipa. Í 1. gr. laga nr. 20/1986 um Siglingamálastofnun ríkisins segir að stofnunin starfi undir yfirstjórn samgönguráðherra. Af framansögðu athuguðu er það álit mitt, að unnt sé að skjóta ákvörðunum Siglingamálastofnunar til samgönguráðuneytisins til úrskurðar.
Samkvæmt 3. mgr. 6. gr. laga nr. 13/1987 um umboðsmann Alþingis er það skilyrði þess að unnt sé að kvarta til umboðsmanns, að æðra stjórnvald hafi fellt úrskurð sinn í málinu. Þar sem ákvörðun varðandi útgáfu haffærisskírteinis til [X] hefur ekki verið skotið til samgönguráðuneytisins, get ég ekki, að svo stöddu, fjallað um þann þátt máls yðar.
Samkvæmt framansögðu er það niðurstaða mín, að ekki séu, eins og sakir standa, uppfyllt lagaskilyrði til þess að ég geti haft frekari afskipti af máli því, sem kvörtun yðar lýtur að."