Starfssvið umboðsmanns Alþingis og skilyrði þess að umboðsmaður fjalli um kvörtun. Málskot til æðra stjórnvalds. Reikningur verðbóta á húsnæðisbætur og við tekjuskattshækkun. Málskot til skattstjóra og ríkisskattanefndar.

(Mál nr. 383/1991)

Máli lokið með bréfi, dags. 25. febrúar 1991.

A kvartaði yfir því, að ekki hefði verið gætt samræmis við ákvörðun verðbóta annars vegar á húsnæðisbætur gjaldárið 1989 og hins vegar á tekjuskattshækkun þetta sama gjaldár.

Í bréfi mínu til A, dags. 25. febrúar 1991, sagði m.a. svo:

"Fyrir liggur, að með úrskurði ríkisskattanefndar nr. 182, 8. mars 1990 voru yður ákvarðaðar húsnæðisbætur gjaldárið 1988 á grundvelli ákvæðis til bráðabirgða II í lögum nr. 49/1987, sbr. 14. gr. laga nr. 92/1987, þ.e.a.s. vegna öflunar íbúðarhúsnæðis í fyrsta sinn á árunum 1984-1987. Ekki voru verðbætur reiknaðar á húsnæðisbæturnar fyrir liðinn tíma í úrskurði þessum. Í tilefni af úrskurði ríkisskattanefndar ákvarðaði skattstjórinn í Reykjavík yður húsnæðisbætur gjaldárið 1989 hinn 19. mars 1990 og endurákvarðaði jafnframt áður álögð opinber gjöld yðar þetta gjaldár vegna niðurfellingar vaxtaafsláttar, er þér höfðuð notið skv. ákvæði til bráðabirgða I í fyrrnefndum lögum. Á þá tekjuskattshækkun, sem leiddi af breytingu þessari lagði skattstjóri verðbætur skv. 3. mgr. 121. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum, og 34. gr. laga nr. 45/1987, um staðgreiðslu opinberra gjalda. Ekki voru verðbætur reiknaðar á húsnæðisbæturnar af hálfu skattstjórans.

Ekki er getið um kærurétt í nefndri endurákvörðun skattstjórans í Reykjavík, en ég tel óyggjandi að hún sé kæranleg til hans skv. 1. ml. 1. mgr. 99. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Þegar skattstjóri hefur fellt kæruúrskurð í málinu má skjóta honum til ríkisskattanefndar innan 30 daga frá póstlagningu úrskurðarins, sbr. 1. mgr. 100. gr. laga nr. 75/1981. Úrlausnir eftir kæruleiðum þessum liggja ekki fyrir.

Samkvæmt 3. mgr. 6. gr. laga nr. 13/1987 um umboðsmann Alþingis er ekki unnt að kvarta til umboðsmanns fyrr en æðra stjórnvald hefur fellt úrskurð sinn í málinu. Eru því ekki skilyrði til þess að svo stöddu að ég fjalli frekar um kvörtun yðar, enda tel ég málsefnin það samfléttuð, að nauðsynlegt sé að tæmdar séu kæruleiðir stjórnsýslunnar vegna verðbóta á tekjuskattsaukann og ekki tækt að fjalla um kvörtunina einvörðungu á þeim grundvelli hvort reikna beri verðbætur á húsnæðisbætur."