Starfssvið umboðsmanns Alþingis og skilyrði þess að umboðsmaður fjalli um kvörtun. Málskot til æðra stjórnvalds. Afgreiðsla Húsnæðisstofnunar ríkisins á láni. Málshraði. Málskot til húsnæðismálastjórnar.

(Mál nr. 312/1990)

Máli lokið með bréfi, dags. 20. febrúar 1991.

A kvartaði annars vegar yfir þeim tíma, sem það tók að fá afgreitt sérstakt 10% lán vegna erfiðleika með útborgun, er stjórn Húsnæðisstofnunar ríkisins ákvað að veita henni 29. september 1988, og hins vegar yfir því, hve langur tími leið frá því, að hún undirritaði veðskuldabréf vegna umrædds láns og þar til það var afgreitt í ágúst 1989.

Í bréfi mínu til A, dags. 19. febrúar 1991, sagði m.a. svo:

"Um fyrri þátt kvörtunar yðar skal tekið fram, að hvorki lög nr. 54/1986 né reglugerð nr. 180/1987 um Byggingarsjóð verkamanna og félagslegar íbúðir geyma ákvæði um, hvernig haga skuli afgreiðslu og útborgun hinna sérstöku 10% lána. Í bréfi Húsnæðisstofnunar ríkisins frá 3. september 1990 kemur fram, að ekki hafi tíðkast að afgreiða umrædd lán fyrr en við lokauppgjör en samkvæmt gögnum málsins fór endanlegt uppgjör fram í júlí 1990. Eru að mínu áliti ekki rök til þess að telja þennan hátt á útborgun umrædds láns vera ólögmætan.

Samkvæmt framansögðu tel ég ekki ástæðu til að fjalla frekar um þennan lið kvörtunar yðar.

Um síðari þátt kvörtunar yðar skal tekið fram, að samkvæmt 3. tl. 5. gr. laga nr. 86/1988 er hlutverk húsnæðismálastjórnar, að skera úr vafa- eða ágreiningsmálum varðandi einstakar lánveitingar og ákveða greiðsludag þeirra. Ég lít svo á, að ágreiningur út af útgáfu umrædds veðskuldabréfs, þ. á m. um ákvörðun á viðmiðun vísitölu, verði samkvæmt framangreindu borinn undir húsnæðismálastjórn. Ég bendi yður á framangreint, þar sem ekki verður kvartað til umboðsmanns, ef unnt er að skjóta máli til æðra stjórnvalds og það hefur ekki fellt úrskurð sinn í málinu, sbr. 3. mgr. 6. gr. laga nr. 13/1987 um umboðsmann Alþingis."