Starfssvið umboðsmanns Alþingis og skilyrði þess að umboðsmaður fjalli um kvörtun. Málskot til æðra stjórnvalds. Málsmeðferð við flutning í prófessorsembætti. Úrskurðarvald háskólaráðs í málefnum háskólastofnana.

(Mál nr. 451/1991)

Máli lokið með bréfi, dags. 30. desember 1991.

A kvartaði yfir því, hvernig málsmeðferð hefði verið hagað hjá Háskóla Íslands við flutning hans sem forstöðumanns háskólastofnunar nokkurrar í prófessorsembætti, sbr. fyrirmæli 11. gr. laga nr. 77/1979 um Háskóla Íslands, sbr. lög nr. 8/1985. Að fengnum tilmælum deildarráðs X-deildar skipaði Háskólaráð sérstaka dómnefnd til að meta hæfi A. Taldi nefndin, að A væri vel hæfur til þess að gegna prófessorsembættinu. Við meðferð málsins komu fram mismunandi skoðanir innan X-deildar varðandi stöðu A sem forstöðumanns umræddrar háskólastofnunar. M.a. taldi deildarforseti X, að forsendur fyrir flutningi A úr stöðu forstöðumanns í prófessorsembætti væru ekki fyrir hendi, þar sem A væri ekki lögformlega forstöðumaður stofnunarinnar. Ég tjáði A, að samkvæmt 2. mgr. 2. gr. laga nr. 77/1979 um Háskóla Íslands hefði háskólaráð úrskurðarvald í málefnum háskólans og háskólastofnana og í samræmi við 3. mgr. 6. gr. laga nr. 13/1987 um umboðsmann Alþingis væri ekki unnt að kvarta til umboðsmanns, ef skjóta mætti máli til æðra stjórnvalds, fyrr en æðra stjórnvald hefði fellt úrskurð sinn í málinu.

Ég taldi því, að A ætti kost á því að bera málið undir háskólaráð til úrskurðar. Tók ég fram, að sem æðra stjórnvaldi bæri háskólaráði að taka afstöðu til þess, hvort hið lægra setta stjórnvald hefði gætt réttra aðferða við meðferð málsins. Auk þess væri það á valdi háskólaráðs að leggja til, að forstöðumaður háskólastofnunar yrði fluttur í prófessorsembætti samkvæmt 11. gr. laga nr. 77/1979 og þá að taka afstöðu til þess, hvort uppfyllt væru skilyrði til slíks flutnings. Það væri því niðurstaða mín að fjalla ekki frekar um kvörtunina, meðan úrskurður háskólaráðs í málinu lægi ekki fyrir.