Starfssvið umboðsmanns Alþingis og skilyrði þess að umboðsmaður fjalli um kvörtun. Málskot til æðra stjórnvalds. Málskot til fræðslustjóra.

(Mál nr. 411/1991)

Máli lokð með bréfi, dags. 22. mars 1991.

A leitaði til mín vegna ágreinings, er upp kom á milli nemenda og forráðamanna þeirra annars vegar og kennara og skólastjóra grunnskólans X hins vegar. Í bréfi mínu til A, dags. 22. mars 1991, greindi ég A frá því, að ég liti svo á að ágreiningurinn varðaði framkvæmd þágildandi 54. gr. laga nr. 63/1974 um grunnskóla, en þar kæmu fram ákvæði um afskipti kennara, skólastjóra og fræðslustjóra af nemendum vegna hegðunarvandamála. Í reglugerð nr. 512/1975, um skólareglur o.fl. í grunnskólum, væru frekari fyrirmæli um framkvæmd lagagreinarinnar. Í 3. mgr. 7. gr. reglugerðarinnar kæmi fram, að fræðslustjóri skæri úr málum nemenda, sem vísað væri til hans. Þar sem málinu hefði hins vegar ekki verið skotið til fræðslustjóra, brystu skilyrði til þess að ég gæti haft frekari afskipti af málinu að svo stöddu, sbr. 3. mgr. 6. gr. laga nr. 13/1987 um umboðsmann Alþingis.