Starfssvið umboðsmanns Alþingis og skilyrði þess að umboðsmaður fjalli um kvörtun. Málskot vegna ákvarðana sveitarstjórna. Niðurfelling fasteignaskatta.

(Mál nr. 417/1991)

Máli lokið með bréfi, dags. 25. nóvember 1991.

A kvartaði yfir því, að hreppsnefnd X-hrepps hefði ákveðið, að aðeins þeir ellilífeyrisþegar, sem náð hefðu 67 ára aldri, skyldu undanþegnir greiðslu fasteignaskatts. Þar sem A hafði stundað sjómennsku lengur en í 25 ár átti hann rétt á töku ellilífeyris frá og með 60 ára aldri, en naut hins vegar ekki umræddrar undanþágu, þar sem hann hafði ekki náð 67 ára aldri. Í bréfi mínu til A, dags. 25. nóvember 1991, benti ég á, að af 2. gr. laga nr. 13/1987 um umboðsmann Alþingis leiddi, að starfssvið umboðsmanns tæki til stjórnsýslu ríkis og sveitarfélaga, en samkvæmt 3. gr. laganna fjallaði umboðsmaður því aðeins um stjórnsýslu sveitarfélaga, að um væri að ræða ákvarðanir, sem skjóta mætti til ráðherra eða annars stjórnvalds ríkisins. Því til viðbótar væri það skilyrði sett í 3. mgr. 6. gr. laga nr. 13/1987, að ekki væri unnt að kvarta til umboðsmanns, fyrr en æðra stjórnvald hefði fellt úrskurð sinn í máli, ef skjóta mætti máli til æðra stjórnvalds. Ég benti síðan á að samkvæmt 4. mgr. 5. gr. laga nr. 90/1990, um tekjustofna sveitarfélaga, væri sveitarstjórn heimilt að lækka eða fella niður fasteignaskatt, sem tekjulitlum elli- og örorkulífeyrisþegum væri gert að greiða. Ég tjáði A að það væri skoðun mín, með hliðsjón af fyrirmælum sveitarstjórnarlaga nr. 8/1986, að hann gæti skotið umræddri ákvörðun hreppsnefndar X-hrepps til úrskurðar félagsmálaráðuneytisins, ef hann teldi, að hreppurinn hefði brotið rétt á sér í málinu. Þar sem hann hefði ekki borið mál sitt undir félagsmálaráðuneytið, brysti hins vegar skilyrði til þess að ég gæti haft frekari afskipti af málinu, að svo stöddu.