Starfssvið umboðsmanns Alþingis og skilyrði þess að umboðsmaður fjalli um kvörtun. Málskot vegna ákvarðana sveitarstjórna. Málskot til félagsmálaráðuneytis og Hollustuverndar ríkisins.

(Mál nr. 426/1991)

Máli lokið með bréfi, dags. 5. apríl 1991.

A kvartaði yfir ákvörðun bæjarráðs Ísafjarðar um að hafna beiðni hans um niðurfellingu holræsagjalds, sorppokagjalds og vatnsskatts af húseign hans. Í bréfi mínu til A, dags. 5. apríl 1991, sagði m.a. svo:

"Í IV. kafla laga nr. 81/1988 um hollustuhætti og heilbrigðiseftirlit, sbr. lög nr. 28/1990 og lög nr. 47/1990, eru fyrirmæli um samþykktir, sem sveitarfélög setja um þætti, sem ekki er fjallað um í heilbrigðisreglugerð og mengunarvarnareglugerð. Líta verður svo á, að samþykkt nr. 236/1973 um sorphreinsun í Ísafjarðarkaupstað heyri til slíkra samþykkta, en samkvæmt samþykktinni er bæjarstjórn heimilt að innheimta sérstakt sorphreinsunargjald samkvæmt nánari ákvörðun og skal það innheimt með fasteignagjöldum hvers árs. Í 30. gr. laga nr. 81/1988 kemur fram, að rísi ágreiningur um framkvæmd laganna, sé heimilt að vísa málinu til stjórnar Hollustuverndar ríkisins til úrskurðar. Ef aðilar eru ekki sáttir við úrskurð stjórnarinnar, er heimilt að vísa málinu til sérstakrar úrskurðarnefndar, sem starfar samkvæmt lögunum.

Samkvæmt þeim upplýsingum, sem fyrir liggja, er vatnsskatturinn heimtur samkvæmt gjaldskrá nr. 29/1975 fyrir Vatnsveitu Ísafjarðar með síðari breytingum og holræsagjald samkvæmt reglugerð nr. 372/1973 um holræsi fyrir Ísafjarðarkaupstað. Bæði gjaldskráin og reglugerðin eru staðfestar af félagsmálaráðuneytinu. Það er skoðun mín, að ágreiningi um lagaskyldu til að greiða umrædd gjöld verði skotið til félagsmálaráðuneytisins til úrskurðar."

Í bréfi mínu til A benti ég á, að í 3. gr. laga nr. 13/1987 um umboðsmann Alþingis væri tekið fram, að umboðsmaður fjallaði því aðeins um stjórnsýslu sveitarfélaga, að um væri að ræða ákvarðanir, sem skjóta mætti til ráðherra eða annars stjórnvalds ríkisins. Þá kæmi það skilyrði ennfremur fram í 3. mgr. 6. gr. laga nr. 13/1987 að leitað skyldi til æðra stjórnvalds, áður en leitað væri til umboðsmanns. Þar sem fyrrnefnd stjórnvöld hefðu ekki fellt úrskurð sinn í málinu, væri það niðurstaða mín, að skilyrði brysti til þess að ég gæti að svo stöddu fjallað um málið.