Opinberir starfsmenn. Ráðning í starf framhaldsskólakennara. Almenn hæfisskilyrði. Undanþágunefnd framhaldsskóla.

(Mál nr. 8076/2014)

A leitaði til umboðsmanns Alþingis og kvartaði yfir ákvörðun framhaldsskólans X um að ráða Y í starf framhaldsskólakennara við skólann. Laut kvörtunin að því að umsækjandinn sem ráðinn var í starfið hefði ekki haft leyfi til að nota starfsheitið framhaldsskólakennari eins og áskilið er í lögum en A hafði slíkt leyfi.

Í málinu lá fyrir að þar sem Y uppfyllti ekki skilyrði laga um að hafa leyfi ráðherra til að nota starfsheitið framhaldsskólakennari hefði framhaldsskólinn X sótt um undanþágu til undanþágunefndar framhaldsskóla á grundvelli 5. mgr. 19. gr. laga nr. 87/2008 til að lausráða hann í starfið. Undanþágunefndin synjaði beiðni skólans og var sú niðurstaða síðar staðfest af mennta- og menningarmálaráðherra.

Umboðsmaður vísaði til þess að samkvæmt 19. gr. laga nr. 87/2008 væri ekki heimilt að ráða umsækjanda um laust kennslustarf í framhaldsskóla, sem ekki fullnægði skilyrði laganna um leyfi til að nota starfsheitið framhaldsskólakennari, ef annar umsækjandi um starfið fullnægði þeim og undanþágunefnd framhaldsskóla og eftir atvikum ráðherra hefði ekki veitt heimild til að lausráða viðkomandi. Umboðsmaður taldi ljóst að framhaldsskólinn X hefði ráðið Y í starfið áður en niðurstaða undanþágunefndar lá fyrir og hefði í framhaldinu hvorki fengið heimild til ráðningarinnar frá undanþágunefndinni né ráðherra. Ákvörðun framhaldsskólans X hefði því ekki verið í samræmi við lög.

Umboðsmaður beindi þeim tilmælum til framhaldsskólans X að leita leiða til að rétta hlut A ef hann óskaði eftir því. Jafnframt mæltist hann til þess að skólinn tæki framvegis mið af þeim sjónarmiðum sem fram kæmu í álitinu.

I. Kvörtun og afmörkun athugunar.

Hinn 10. júlí 2014 leitaði A til umboðsmanns Alþingis og kvartaði yfir ákvörðun framhaldsskólans X að ráða Y í starf framhaldsskólakennara í Z við skólann, skólaárið 2013-2014, í kjölfar auglýsingar starfsins í júní 2013. Lýtur kvörtunin að því að umsækjandinn sem ráðinn var í starfið hafi ekki haft leyfi til að nota starfsheitið framhaldsskólakennari eins og áskilið er í lögum en A hafði slíkt leyfi.

Kvörtunin lýtur einnig að orðalagi í síðari auglýsingu starfsins frá 18. febrúar 2014 þess efnis að „[v]egna þröngra fjárheimilda skólans [væri] æskilegt að umsækjendur [væru] ekki komnir með kennsluafslátt“. Í kvörtun A segir að vel hafi komið til greina af hans hálfu að sækja um starfið en orðalag auglýsingarinnar hafi óbeint gefið í skyn að ekki væri óskað eftir umsókn frá honum eða öðrum kennurum sem komnir væru með kennsluafslátt. A telur tilvitnað orðalag brjóta í bága við jafnræðisreglu.

Eftir að A leitaði til mín barst mér önnur kvörtun vegna framangreindrar auglýsingar þar sem reynir á hvort heimilt sé að líta til þess við mat á umsækjendum um laus kennarastörf hvort viðkomandi hafi áunnið sér svonefndan kennsluafslátt. Einnig liggur fyrir að A sótti ekki um síðara starfið, þ.e. vorið 2014, og af þeim sökum hefur heldur ekki verið tekin afstaða til þess hvort hann hafi fullnægt lágmarkskröfum sem gerðar voru í auglýsingu til að gegna því starfi. Með hliðsjón af framangreindu tel rétt að frekari umfjöllun mín um þetta atriði bíði þar til leyst verður úr hinni nýju kvörtun. Hefur athugun mín lotið að því hvort ákvörðun framhaldsskólans X, að ráða Y í starfið haustið 2013, hafi verið í samræmi við lög.

Ég lauk máli þessu með áliti, dags. 17. nóvember 2014.

II. Málavextir.

A sótti um starf framhaldsskólakennara í Z við framhaldsskólans X í kjölfar auglýsingar sem var birt í júní 2013. Í auglýsingunni var tekið fram að umsóknarfrestur væri til 29. júní 2013 og ráðningartími frá 1. ágúst s.á. Þá sagði m.a. að umsækjendur þyrftu að hafa háskólapróf í viðkomandi kennslugrein og kennsluréttindi. Auk viðeigandi menntunar væri sóst eftir fólki sem ætla mætti að hefðu til að bera góða samskiptahæfni og áhuga á að vinna með ungu fólki.

Fimm umsóknir bárust um starfið og voru þrír umsækjendur boðaðir í viðtöl, þar á meðal A og Y. Af gögnum málsins verður ráðið að það var mat stjórnenda framhaldsskólans X, að loknum viðtölum, að valið stæði á milli A og Y. Framhaldsskólinn hafi þó talið Y hæfasta umsækjandann um starfið.

Með bréfi til undanþágunefndar framhaldsskóla, sem starfar samkvæmt lögum nr. 87/2008, um menntun og ráðningu kennara og skólastjórnenda við leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla, dags. 12. júlí 2013, óskaði settur rektor framhaldsskólans X eftir samþykki fyrir því að ráða Y til starfa sem kennara í Z við skólann frá 1. ágúst 2013. Í bréfinu kom fram að valið hefði að mati rektors staðið á milli A og Y. A hefði kennt sem næmi tveimur önnum í Z. Y hefði meiri menntun í greininni og væri virkur kennari í henni, sem rektor fyndist skipta miklu máli, auk þess sem rektor sæi hann fyrir sér sem framtíðarkennara við máladeildina. Y hefði sýnt kennslu við skólann mikinn áhuga. Þá væri hann skráður í kennslufræði um áramótin 2013-2014.

Með bréfi, dags. 6. september 2013, synjaði undanþágunefndin beiðni framhaldsskólans X um undanþágu fyrir Y til að kenna Z við skólann skólaárið 2013-2014. Þar kom fram að rektor hefði í undanþágubeiðni sinni einkum vísað til þess að Y hefði meiri menntun en A. Að mati nefndarinnar hefðu ekki verið færð fullnægjandi rök fyrir því að ekki væri unnt að mæla með því að A yrði ráðinn til að kenna auglýsta stöðu í Z. Hann væri með BA-próf í Þ og Z, auk cand.mag. prófs í íslensku. Þá hefði hann kennt Z á framhaldsskólastigi. Í bréfinu var vakin athygli á því að samkvæmt 4. mgr. 19. gr. laga nr. 87/2008 gæti málsaðili skotið úrskurði undanþágunefndar til mennta- og menningarmálaráðherra. Ekki væri heimilt að ráða kennara sem undanþágunefnd hefði synjað nema fyrir lægi staðfesting á að ráðherra hefði breytt ákvörðun nefndarinnar.

Með bréfi, dags. 10. september 2013, kærðu skólastjórnendur framhaldsskólans X framangreinda ákvörðun undanþágunefndar til mennta- og menningarmálaráðherra. Í bréfinu sagði m.a. að við athugun á umsóknum um kennslu í Z við skólann hefðu skólastjórnendur talið tvo umsækjendur koma til greina, þ.e. A og Y. Því næst var menntun, kennslureynslu og kennsluréttindum þeirra lýst en síðan sagði:

„Menntun [Y] fellur afar vel að því þróunarstarfi innan [...]deildar [framhaldsskólans X] sem unnið er að. […]

Þegar höfð er í huga víðtæk menntun [Y] á sviði [Æ], starfsferill hans og sú staðreynd að hann hefur verið virkur kennari í [Z] síðastliðin ár töldum við að við værum að ráða hæfasta umsækjandann fyrir [...]deildina með hagsmuni nemenda deildarinnar að leiðarljósi.

Það má einnig nefna það hér að skólanefnd [framhaldsskólans X] taldi það mikinn kost fyrir skólann að ráða ungan kennara sem líklegt má ætla að hefði hug á að gera kennslu við skólann að framtíðarstarfi. […]

Það hefur ekki viðgengist í [framhaldsskólanum X] að láta aldur ráða úrslitum við ráðningar starfsfólks. Þess ber þó að geta hér í ljósi mikils niðurskurðar undanfarin ár og vegna afar erfiðrar fjárhagsstöðu skólans töldu skólastjórnendur það viðbótarávinning að ráða kennara sem ekki er kominn á kennsluafslátt því ekki verður fram hjá því litið að kostnaður vegna kennsluafsláttar er verulega íþyngjandi við rekstur skólans.

Við skólabyrjun um miðjan ágúst lá ekki fyrir ákvörðun undanþágunefndar og því taldi skólinn ekki fært annað til að geta hafið skólastarf en að ráða til starfans þann sem talinn var hæfastur.“

Með úrskurði mennta- og menningarmálaráðuneytisins, dags. 7. febrúar 2014, var ákvörðun undanþágunefndarinnar staðfest. Ráðuneytið taldi að engir annmarkar væru á málsmeðferð nefndarinnar og að telja yrði að ákvörðun hennar hefði byggst á lögmætum og málefnalegum sjónarmiðum.

Að fengnum úrskurði ráðuneytisins auglýsti framhaldsskólinn X starfið á ný með auglýsingu, dags. 18. febrúar 2014.

III. Samskipti umboðsmanns Alþingis og framhaldsskólans X.

Með bréfi, dags. 21. júlí 2014, óskaði ég þess að framhaldsskólinn X veitti mér upplýsingar og skýringar á tilteknum atriðum. Ég tel aðeins þörf á að rekja efni þeirra samskipta að því leyti sem þau hafa þýðingu fyrir athugun mína á málinu, sbr. I. kafla um afmörkun athugunar.

Í fyrsta lagi óskaði ég eftir því að skólinn gerði mér grein fyrir þeim sjónarmiðum sem hefðu ráðið því að Y var ráðinn í stað A þrátt fyrir að Y hefði ekki kennsluréttindi sem áskilin væru í lögum og afstöðu skólans til þess hvort hann hefði beitt ákvæði 5. mgr. 19. gr. laga nr. 87/2008, um menntun og ráðningu kennara og skólastjórnenda við leikskóla, grunnskóla framhaldsskóla, í málinu.

Í svari framhaldsskólans X, dags. 25. ágúst 2014, var menntun og reynslu Y og A lýst sem og viðhorfi þeirra til þróunar [...]deildar skólans. Tekið var fram að eiginleikar, menntun og reynsla A væri síður til þess fallin að ná þeim markmiðum sem stefnt væri að með [...]deild skólans heldur en samsvarandi þættir hjá Y. Y hefði meiri menntun í Z og Æ, hefði hlotið hærri einkunnir í skóla og hefði verið virkur í kennslu í Z síðastliðin ár. Y hefði ekki hlotið réttindi til þess að bera heitið framhaldsskólakennari samkvæmt lögum nr. 87/2008 en hann hefði verið innritaður í nám til öflunar kennsluréttinda við framhaldsskóla við Háskóla Íslands. A hefði svokallað opið eða almennt leyfisbréf til kennslu í framhaldsskólum og myndi samkvæmt núgildandi lögum ekki fullnægja skilyrðum til að fá útgefið leyfisbréf til kennslu í Z sem aðalkennslugrein í framhaldsskóla þar sem hann hefði ekki lokið nægjanlega mörgum einingum í Z. Til viðbótar hefði ekki verið hjá því komist að litið væri til þess sjónarmiðs að A væri, á grundvelli aldurs og kennsluferils, kominn með svonefndan kennsluafslátt en það sjónarmið hefði ekki ráðið úrslitum við mat á umsækjendum. Það hefði verið samdóma álit skólastjórnenda og fulltrúa í skólanefnd að Y væri hæfasti umsækjandinn um starfið. Af þessu leiddi að hvorki rektor né fulltrúar skólanefndar hefðu mælt með því að A yrði ráðinn í starfið. Á þeim grundvelli hefði verið nýtt heimild 5. mgr. 19. gr. laga nr. 87/2008 og leitað til undanþágunefndar til að fá heimild til að lausráða Y.

Í öðru lagi óskaði ég eftir því að skólinn gerði grein fyrir þeim sjónarmiðum sem réðu því að ákveðið hefði verið að auglýsa starfið á nýjan leik, þegar ljóst var að ekki fengist undanþága fyrir Y, í stað þess að ráða annan umsækjanda.

Í svari skólans kom fram að umsóknarfrestur um starfið hefði runnið út 29. júní 2013 og viðtöl farið fram í júlí sama ár. Eftir að tekin hefði verið ákvörðun um ráðningu í starfið hefði beiðni verið send til undanþágunefndar. Skólinn hefði verið settur [...] 2013 og kennsla hafist næsta virka dag. Þar sem ákveðið hefði verið að leita til undanþágunefndar og stutt var í að skólaárið hæfist hefði verið gengið frá ráðningarsamningi við Y áður en kennsla hófst haustið 2013. Hefði sú ákvörðun verið tekin með hagsmuni nemenda að leiðarljósi þar sem nauðsyn hefði staðið til að kennari væri til staðar til þess að kenna Z. Taka hefði þurft þá ákvörðun tímanlega þar sem nýr kennari hefði þurft tíma til að undirbúa kennslu fyrir komandi skólaár. Ákvörðun hefði verið tekin í trausti þess að undanþága fengist frá nefndinni. Ákvörðun undanþágunefndar hefði verið tekin 6. september 2013 og borist skólanum 9. september s.á. Þar sem skólaár var hafið hefði það verið niðurstaðan að valda sem minnstri röskun á skólastarfinu og hagsmunum nemenda í Z. Því hefði staðan hvorki verið auglýst á ný né A boðin hún enda hefði ákvörðun undanþágunefndar verið kærð til ráðherra. Að fenginni niðurstöðu ráðherra 7. febrúar 2014 hefði verið ákveðið að auglýsa starfið á ný í samræmi við meginreglu laga nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, og 3. tölul. 2. mgr. 2. gr. reglugerðar nr. 464/1996, um auglýsingar á lausum störfum.

Athugasemdir A við bréf framhaldsskólann X bárust mér með bréfi, dags. 7. september 2014.

IV. Álit umboðsmanns Alþingis.

1. Lagagrundvöllur málsins.

Um framhaldsskólann X gilda lög nr. 92/2008, um framhaldsskóla. Samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laganna skal skólameistari ráða stjórnendur, kennara og aðra starfsmenn skólans að höfðu samráði við skólanefnd. Í 3. mgr. 8. gr. sömu laga kemur m.a. fram að um skilyrði þess að vera ráðinn kennari við framhaldsskóla fari eftir ákvæðum gildandi laga um menntun og ráðningu kennara og skólastjórnenda við leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla.

Í 1. gr. laga nr. 87/2008, um menntun og ráðningu kennara og skólastjórnenda við leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla, segir að lögin taki til menntunar og ráðningar kennara og skólastjórnenda við leik-, grunn- og framhaldsskóla og lögverndunar starfsheita þeirra. Samkvæmt 2. gr. laganna er markmið þeirra að tryggja að þeir sem leggja stund á kennslu- og uppeldisstörf í leik-, grunn- og framhaldsskólum hafi menntun í samræmi við störf þeirra og ábyrgð. Í almennum athugasemdum við frumvarp það er varð að lögunum segir að frumvarpið feli í megindráttum í sér að ríkari kröfur verði gerðar til kennaramenntunar. Með því sé lögð áhersla á að börn og ungmenni búi við sem best uppeldis- og námsskilyrði. (Alþt. 2007-2008, A-deild, bls. 1918.) Í 1. mgr. 5. gr. laganna segir að sá einn hafi rétt til að nota starfsheitið framhaldsskólakennari og starfa við framhaldsskóla sem til þess hefur leyfi ráðherra. Í leyfisbréfi skuli tilgreina kennslugrein/ar eða sérsvið viðkomandi framhaldsskólakennara samkvæmt nánari ákvæðum í reglugerð. Þá kemur fram í 1. mgr. 8. gr. að ráðherra setji reglugerð þar sem m.a. inntak menntunar framhaldsskólakennara er nánar skilgreint með tilliti til lágmarkskrafna um vægi kennslu- og uppeldisfræða og vægi faggreina.

Í V. kafla laga nr. 87/2008 er fjallað um starfsréttindi og ráðningar í framhaldsskólum. Þar segir í 1. mgr. 13. gr. að til þess að verða ráðinn til kennslu í framhaldsskóla skuli umsækjandi hafa öðlast leyfi til þess að nota starfsheitið framhaldsskólakennari samkvæmt 5. og 21. gr. Miða skuli við að framhaldsskólakennari kenni þær greinar eða á því sviði sem menntun hans nær til.

Í 19. gr. laga nr. 87/2008 er mælt fyrir um undanþágunefnd framhaldsskóla sem ráðherra skipar, sbr. 1. mgr. ákvæðisins. Samkvæmt 2. mgr. ákvæðisins er óheimilt að ráða aðra en þá sem uppfylla ákvæði laganna til kennslu við framhaldsskóla, sbr. lög um framhaldsskóla. Samkvæmt 3. og 5. mgr. 19. gr. laganna er kveðið á um undantekningar frá framangreindu skilyrði. Ákvæði 5. mgr. 19. gr. er svohljóðandi:

„Ef hvorki skólameistari né að minnsta kosti tveir skólanefndarmenn mæla með ráðningu framhaldsskólakennara í kennslustarf getur skólameistari þrátt fyrir ákvæði 2. mgr. leitað til undanþágunefndar og óskað eftir heimild nefndarinnar til að lausráða annan einstakling sem hefur sérmenntun í auglýstri kennslugrein.“

Samkvæmt 4. mgr. 19. gr. laganna getur málsaðili skotið ákvörðun undanþágunefndar til ráðherra. Málskot frestar ekki réttaráhrifum ákvörðunar undanþágunefndar.

Í 7. mgr. 19. gr. segir að starfsreglur undanþágunefndar skulu ákveðnar í reglugerð. Á grundvelli þessa ákvæðis hefur ráðherra sett reglugerð nr. 669/2010, um störf og starfshætti undanþágunefndar framhaldsskóla. Samkvæmt 2. gr. reglugerðarinnar er hlutverk undanþágunefndar framhaldsskóla að meta umsóknir skólameistara um heimild til þess að lausráða til kennslu- og stjórnunarstarfa starfsmann sem ekki hefur leyfi mennta- og menningarmálaráðherra til að nota starfsheitið framhaldsskólakennari. Undanþágunefnd ákveður hvort umbeðin heimild skuli veitt eða henni synjað. Heimild sem er veitt á grundvelli c-liðar 5. gr. reglugerðarinnar er bundin því skilyrði að viðkomandi starfsmaður hafi sérmenntun í auglýstri kennslugrein. Nefndin getur einvörðungu heimilað lausráðningu til kennslustarfa til bráðabirgða og aldrei lengur en til eins árs að fullnægðum þeim skilyrðum sem sett eru í reglugerðinni.Í 5. gr. reglugerðarinnar er fjallað um skilyrði þess að undanþágunefnd fjalli um umsókn skólameistara. Þar er m.a. kveðið á um að laust kennslu- eða stjórnunarstarf í framhaldsskóla hafi verið auglýst í samræmi við nánar tilgreindar reglur, sbr. a-lið, og að þrátt fyrir að framhaldsskólakennari í viðkomandi kennslugrein hafi sótt um starfið geti hvorki skólameistari né að minnsta kosti tveir skólanefndarmenn mælt með ráðningu hans og skriflegur rökstuðningur þessara aðila fylgi með umsókninni, sbr. c-lið. Í 8. gr. er síðan fjallað um mat nefndarinnar á umsóknum sé skilyrðum 5. gr. fullnægt.

Í 13. gr. reglugerðarinnar er kveðið á um málskot til ráðherra. Þar kemur fram að málskot fresti ekki réttaráhrifum ákvörðunar undanþágunefndar og að skólameistara sé ekki heimilt að ráða starfsmann í þessu tilfelli fyrr en ráðherra hafi veitt undanþágu vegna hans.

2. Ákvörðun framhaldsskólans X að ráða í starf kennara í Z.

Í máli þessu liggur fyrir að framhaldsskólinn X réð Y í starf kennara í Z við skólann haustið 2013. Y hafði aftur á móti ekki hlotið leyfi til þess að nota starfsheitið framhaldsskólakennari samkvæmt 5. gr. laga nr. 87/2008, um menntun og ráðningu kennara og skólastjórnenda við leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla. A, sem einnig sótti um starfið, hafði leyfisbréf frá 15. desember 1987 til að nota starfsheitið framhaldsskólakennari og starfa sem slíkur við framhaldsskóla hér á landi á grundvelli 1. gr. þágildandi laga nr. 48/1986, um lögverndun á starfsheiti og starfsréttindum grunnskólakennara, framhaldsskólakennara og skólastjóra. Samkvæmt 2. mgr. 22. gr. laga nr. 87/2008 halda framhaldsskólakennarar með leyfisbréf við gildistöku laganna fullum rétti til jafns við þá sem öðlast starfsréttindi framhaldsskólakennara samkvæmt lögunum. Hefur athugun mín lotið að því hvort ákvörðun framhaldsskólans X, að ráða Y í starfið haustið 2013, hafi verið í samræmi við lög.

Samkvæmt meginreglu 2. mgr. 19. gr. laga nr. 87/2008 er óheimilt að ráða aðra en þá sem uppfylla ákvæði þeirra laga til kennslu í framhaldsskóla, sbr. lög um um framhaldsskóla. Í þessu sambandi verður að hafa hugfast að ákvæði laga nr. 87/2008 mæla fyrir um almenn hæfisskilyrði sem eru í eðli sínu lögfest lágmarksskilyrði sem framhaldsskólakennarar þurfa að uppfylla til þess að geta fengið starf og haldið því. Óheimilt er því að víkja frá slíku skilyrði nema eftir því sem fyrir er mælt í lögum. Ekki er deilt um það í málinu að Y uppfyllti ekki skilyrði laganna enda hafði hann ekki leyfi til að nota starfsheitið framhaldsskólakennari. Framhaldsskólinn X sótti því um undanþágu á grundvelli 5. mgr. 19. gr. til að lausráða hann í starfið. Byggðist beiðnin, eins og fram kemur í skýringum skólans til mín, á því að hvorki rektor né fulltrúar skólanefndar hefðu mælt með því að A yrði ráðinn í starfið. Undanþágunefnd framhaldsskóla synjaði beiðni skólans með bréfi, dags. 6. september 2013. Af bréfinu verður helst ráðið að synjunin hafi byggst á því að skilyrði 5. mgr. 19. gr. laga nr. 87/2008, sbr. einnig c-liðar 5. gr. reglugerðar nr. 669/2010, hafi ekki verið fullnægt. Í bréfi undanþágunefndar segir: „Að mati nefndarinnar eru ekki færð fullnægjandi rök fyrir því að ekki sé unnt að mæla með því að [A] verði ráðinn til að kenna auglýsta kennslu í [Z].“ Var niðurstaða undanþágunefndar staðfest með úrskurði mennta- og menningarmálaráðherra, dags. 7. febrúar 2014.

Í skýringum framhaldsskólans X til mín kem fram sú afstaða skólans að Y hafi verið hæfasti umsækjandann í starfið í umrætt sinn. Jafnframt hefur verið bent á að ákveðið hafi verið að ráða Y í starfið, áður en heimild hefði fengist til þess, þar sem ákvörðun hafi verið tekin um að leita til undanþágunefndar framhaldsskóla og að stutt væri í að skólaár hæfist. Hafi sú ákvörðun verið tekin með hagsmuni nemenda skólans að leiðarljósi. Hvað sem þessum sjónarmiðum skólans líður er ekki heimilt samkvæmt 19. gr. laga nr. 87/2008 að ráða umsækjanda um laust kennslustarf í framhaldsskóla, sem ekki fullnægir skilyrðum laganna, ef annar umsækjandi um starfið fullnægir þeim og undanþágunefnd framhaldsskóla, og eftir atvikum ráðherra, hafa ekki veitt heimild til að lausaráða viðkomandi umsækjanda. Af framangreindu er ljóst að skólinn réð Y í starfið áður en niðurstaða undanþágunefndar lá fyrir og fékk í framhaldinu hvorki heimild til þess frá undanþágunefndinni né ráðherra. Því er það álit mitt að ákvörðun framhaldsskólans X, að ráða Y í laust kennslustarf í Z haustið 2013, hafi ekki verið í samræmi við 19. gr. laga nr. 87/2008.

Ég tek fram að með framangreindri niðurstöðu minni hef ég ekki tekið neina afstöðu til hæfni umsækjenda til að gegna starfinu í umrætt sinn eða lögmætis niðurstaðna undanþágunefndar framhaldsskóla og mennta- og menningarmálaráðherra í málinu.

V. Niðurstaða.

Með vísan til þess sem að framan er rakið er það niðurstaða mín að ákvörðun framhaldsskólans X, að ráða Y, sem ekki var með leyfi til að nota starfsheitið framhaldsskólakennari, í starf kennara í Z við skólann haustið 2013 á sama tíma og umsækjandi með slíkt leyfi sótti einnig um starfið, án þess að hafa fengið undanþágu frá undanþágunefnd framhaldsskóla eða mennta- og menningarmálaráðherra, hafi ekki verið í samræmi við 19. gr. laga nr. 87/2008, um menntun og ráðningu kennara og skólastjórnenda við leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla.

Með tilliti til atvika í þessu máli eru það tilmæli mín til framhaldsskólans X að leitað verði leiða til að rétta hlut A ef hann óskar eftir því. Að öðru leyti verður það að vera verkefni dómstóla að fjalla um hugsanlegar afleiðingar þeirra annmarka sem voru á meðferð þessa máls af hálfu framhaldsskólans X og þar með talið hugsanlegrar bótaábyrgðar ríkisins gagnvart honum. Ég beini jafnframt þeim tilmælum til framhaldsskólans X að skólinn taki framvegis mið af þeim sjónarmiðum sem fram koma í álitinu.

VI. Viðbrögð stjórnvalda

Í svarbréfi framhaldsskólans X, dags. 13. mars 2015, í tilefni af fyrirspurn minni um málið kom fram að rektor og formaður skólanefndar X hafi fundað með fulltrúum mennta- og menningarmálaráðuneytisins 15. desember 2014 þar sem fjallað hafi verið um álitið. Framhaldsskólanum X hafi borist bréf frá A, dags. 29. desember 2014, þar sem þess hafi verið farið á leit að skólinn greiddi honum bætur vegna miska og tekjutjóns án þess að sett hafi verið fram krafa um tiltekna fjárhæð í því tilliti. Bréfið hafi verið framsent mennta- og menningarmálaráðuneytinu þar sem óskað hafi verið eftir liðsinni þess við að leita sátta í málinu sem og að ríkislögmanni yrði falin slík sáttameðferð og A upplýstur um það. Mennta- og menningarmálaráðuneytið hafi framsent erindi skólans til ríkislögmanns með bréfi, dags. 25. janúar 2015, þar sem óskað hafi verið liðsinnis ríkislögmanns við að fá niðurstöðu í málið. Skólinn hafi ekki fengið frekari upplýsingar að svo stöddu um stöðu málsins. Samkvæmt upplýsingum frá embætti ríkislögmanns var málið enn til meðferðar 7. júlí 2015 þar sem beðið var eftir svörum frá A við bréfi ríkislögmanns.

Þá kemur þar fram að í kjölfar álits umboðsmanns hafi verið unnin drög að verklagsreglum skólans þegar sækja á um undanþágu samkvæmt 5. mgr. 19. gr. laga nr. 87/2008 til að lausráða einstakling til kennslustarfa til bráðabirgða. Drögin hafi verið samþykkt af skólanefnd skólans 12. mars 2015 og í bígerð að þær yrðu formlega settar á næstunni. Afrit af verklagsreglunum voru meðfylgjandi. Fram kemur að með reglunum væri ætlunin að tryggja að verklag við framangreint ferli samþýðist ákvæðum laga sem þar um gilda og samræmist í hvívetna vönduðum stjórnsýsluháttum.