Starfssvið umboðsmanns Alþingis og skilyrði þess að umboðsmaður fjalli um kvörtun. Lagasetning Alþingis. Fjárhæð fæðingarstyrks, fæðingarorlofs og dagpeninga við fjölburafæðingu.

(Mál nr. 653/1992)

Máli lokið með bréfi, dags. 17. september 1992.

A kvartaði yfir því, að núgildandi lagaákvæði um fæðingarorlof og lög um fæðingarstyrk og dagpeninga fælu í sér mismunun gagnvart foreldrum fjölbura miðað við foreldra einbura og brytu því í bága við jafnan rétt þegnanna. Í bréfi mínu til A, dags. 17. september 1992, benti ég á að í 5. mgr. 16. gr. og h-lið 26. gr. laga nr. 67/1971 um almannatryggingar hefði löggjafinn tekið skýra afstöðu til þess, hve háan fæðingarstyrk, fæðingarorlof og dagpeninga bæri að greiða við fjölburafæðingu. Þá tók ég fram, að það væri almennt ekki í verkahring umboðsmanns Alþingis að leggja dóm á það, hvernig til hafi tekist um löggjöf, sem Alþingi hefur sett. Ekki væri heldur ætlast til þess að umboðsmaður fjallaði almennt um framkvæmd laga, nema um væri að ræða nánar tilgreindar athafnir, sem kynnu að hafa skert réttindi ákveðinna einstaklinga eða samtaka þeirra. Ég greindi A jafnframt frá því, að það væri skoðun mín, að ekki væru nægileg rök til þess, að ég fjallaði um lög þau, sem A vísaði til í kvörtun sinni, á grundvelli 11. gr. laga nr. 13/1987 um umboðsmann Alþingis. Taldi ég því ekki vera fyrir hendi skilyrði til þess að ég fjallaði frekar um málið.