Ákvörðun um gjald fyrir endurtökupróf við Tækniskóla Íslands verður skotið til menntamálaráðherra.

(Mál nr. 731/1992)

Máli lokið með bréfi, dags. 11. desember 1992.

A kvartaði yfir því, að ákveðið hefði verið að taka gjald fyrir endurtökupróf hjá Tækniskóla Íslands. Taldi A lagaheimild skorta til gjaldtökunnar. Í bréfi mínu til A, dags. 11. desember 1992, benti ég honum á að samkvæmt 2. gr. laga nr. 66/1972 um Tækniskóla Íslands færi menntamálaráðuneytið með yfirstjórn skólans. Yrði ákvörðun um töku gjalds fyrir endurtökupróf því skotið til menntamálaráðherra til úrskurðar. Benti ég honum á að fara þessa leið, þar sem ekki yrði kvartað til umboðsmanns, fyrr en æðra stjórnvald hefði fellt úrskurð sinn í máli, sbr. 3. mgr. 6. gr. laga nr. 13/1987.