A kvartaði yfir því, að honum hefði verið gert að greiða gjald samkvæmt 2. mgr. 4. gr. gjaldskrár nr. 215/1991 fyrir Bifreiðaskoðun Íslands hf., sbr. auglýsingu nr. 242/1991, þar sem að hann hefði fært bifreið sína of seint til skoðunar, sbr. 5. gr. reglna nr. 340/1989 um almenna skoðun ökutækja.
Í bréfi mínu til A, dags. 26. október 1992, sagði m.a. svo:
"Samkvæmt 5. tl. 3. gr. reglugerðar um Stjórnarráð Íslands, sbr. auglýsingu nr. 96/1969, fer dóms- og kirkjumálaráðuneytið með mál, er varða bifreiðaeftirlit og umferð. Samkvæmt 5. mgr. 67. gr. umferðarlaga nr. 50/1987 ákveður dóms- og kirkjumálaráðherra gjald fyrir skoðun ökutækja. Í 2. mgr. 4. gr. gjaldskrár nr. 215/1991 fyrir Bifreiðaskoðun Íslands hf., sbr. auglýsingu nr. 242/1991 um breytingu á gjaldskrá fyrir Bifreiðaskoðun Íslands hf., hefur dóms- og kirkjumálaráðherra kveðið svo á, að skoðunargjald vegna ökutækis, sem fært sé til almennrar skoðunar þegar liðnir eru tveir mánuðir frá skoðunarmánuði, skuli vera 20% hærra en gjald fyrir almenna skoðun.
Ákvörðunum Bifreiðaskoðunar Íslands hf. um gjald fyrir bifreiðaskoðun verður skotið til dóms- og kirkjumálaráðuneytisins. Bendi ég yður að fara þá leið, þar sem ekki verður kvartað til umboðsmanns, fyrr en æðra stjórnvald hefur fellt úrskurð sinn í máli, sbr. 3. mgr. 6. gr. laga nr. 13/1987 um umboðsmann Alþingis og 2. tl. 1. mgr. 5. gr. reglna nr. 82/1988 um störf og starfshætti umboðsmanns Alþingis."