Kæruleiðir í tilefni af synjun borgarskjalavarðar um aðgang að gögnum. Öflun skjala í þágu dómsmáls. Lögsaga dómstóla.

(Mál nr. 688/1992)

Máli lokið með bréfi, dags. 29. október 1992.

Hæstaréttarlögmaðurinn A leitaði til mín fyrir hönd B út af afgreiðslu skattstjórans í Reykjavík og borgarskjalavarðar á beiðni hans um gögn, er talin voru í vörslu Borgarskjalasafns Reykjavíkur. Vörðuðu gögnin álagningu stóreignaskatts á tiltekið fyrirtæki og ákvarðanir skattyfirvalda í Reykjavík af því tilefni. A taldi nauðsynlegt að fá umrædd gögn til þess að leggja þau fram í hæstaréttarmáli, sem hann hafði höfðað fyrir hönd B.

Í bréfi mínu til A, dags. 29. október 1992, sagði m.a. svo:

"Um þann þátt kvörtunar yðar, sem þér beinið að Borgarskjalasafni Reykjavíkur, skal tekið fram, að Borgarskjalasafn telst til héraðsskjalasafna, en um þau gilda fyrirmæli 12.-16. gr. laga nr. 66/1985 um Þjóðskjalasafn Íslands. Samkvæmt 1. gr. þeirra laga er Þjóðskjalasafn Íslands sjálfstæð skjalavörslustofnun undir yfirstjórn menntamálaráðuneytisins og ber ráðuneytinu meðal annars að líta eftir starfsemi héraðsskjalasafna. Í 3. mgr. 14. gr. laga nr. 66/1985 segir, að nánari ákvæði um héraðsskjalasöfn, þ. á m. hverjir séu afhendingarskyldir til þeirra, skuli setja í reglugerð. Þá segir ennfremur í 15. gr. sömu laga, að um lán skjala úr héraðsskjalasafni og notkun þeirra gildi sömu reglur og um Þjóðskjalasafn. Um aðgang að skjölum, sem varðveitt eru í Þjóðskjalasafni, og um notkun þeirra skal mælt í reglugerð, sem menntamálaráðuneytið setur, að fengnum tillögum þjóðskjalavarðar, sbr. 9. gr. laga nr. 66/1985. Lög nr. 66/1985 leystu m.a. af hólmi lög nr. 7/1947 um héraðsskjalasöfn. Með stoð í þeim lögum setti menntamálaráðherra reglugerð nr. 61/1951 um héraðsskjalasöfn. Í 9. tl. 1. mgr. 2. gr. reglugerðarinnar er ákveðið, að í héraðsskjalasöfnum skuli geyma skjöl og bækur "undirskattanefnda" (nú skattstjóra). Í 7. gr. reglugerðarinnar er ráð fyrir því gert, að forstöðumaður héraðsskjalasafns geti bannað afnot skjalagagna og ef sá, er í hlut á, sættir sig ekki við slíka ákvörðun, geti hann borið hana undir þjóðskjalavörð.

Samkvæmt því, sem hér hefur verið rakið, er það skoðun mín, að synjun borgarskjalavarðar um aðgang yðar að umræddum gögnum verði skotið til þjóðskjalavarðar og að ákvörðun þjóðskjalavarðar verði borin undir menntamálaráðuneytið til endanlegs úrskurðar, ef þér viljið ekki una henni. Ég vek athygli á því, að samkvæmt 3. mgr. 6. gr. laga nr. 13/1987 um umboðsmann Alþingis er ekki unnt að kvarta til umboðsmanns, ef skjóta má máli til æðra stjórnvalds og það hefur ekki fellt úrskurð sinn í málinu.

...

Hér er þess ennfremur að gæta, hvernig háttað sé rétti manna til að krefja stjórnvöld um upplýsingar, sem þau ráða yfir. Þar er ekki settum lögum til að dreifa, en skoðun mín er sú, að víðtækastan rétt af því tagi eigi þeir aðilar, sem í dómsmáli hafa hagsmuni af því að slíkar upplýsingar komi fram. Fyrir liggur, að [B] leitar eftir umræddum upplýsingum í þágu dómsmáls, sem hann hefur þegar höfðað og er nú rekið fyrir Hæstarétti. Tel ég því, að það hljóti að koma í hlut dómstóla að fjalla um kröfu hans til þessara upplýsinga. Í samræmi við þá grundvallarstefnu laga nr. 13/1987 um umboðsmann Alþingis, sbr. einkum 2. gr., og reglna nr. 82/1988 um störf og starfshætti umboðsmanns Alþingis, sbr. einkum 4. tölul. 3. gr., að umboðsmaður fjalli ekki um dómsathafnir, er það álit mitt að af þessum ástæðum sé ekki rétt að ég láti umrædda gagnaöflun til mín taka."

Að því leyti sem kvörtunin beindist að skattstjóranum í Reykjavík, tók ég fram í bréfi mínu til A, að af kvörtuninni og gögnum, sem henni fylgdu, yrði ekki séð, hvort og þá með hvaða hætti skattstjórinn hefði tekið ákvörðun um beiðni A um umrædd gögn.