Starfssvið umbðsmanns Alþingis og skilyrði þess að umboðsmaður fjalli um kvörtun. Dómstólar. Höfundaréttur.

(Mál nr. 901/1993)

Máli lokið með bréfi, dags. 18. nóvember 1993.

A leitaði til mín og kvartaði yfir þeirri ákvörðun heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra að klæða Fjórðungssjúkrahúsið X með plötum, þrátt fyrir mótmæli A sem arkitekts hússins.

Svofellt ákvæði er í 1. mgr. 13. gr. höfundalaga nr. 73/1972:

"Nú nýtur mannvirki verndar eftir reglum um byggingarlist, og er eiganda þó allt að einu heimilt að breyta því án samþykkis höfundar, að því leyti sem það verður talið nauðsynlegt vegna afnota þess eða af tæknilegum ástæðum."

Í bréfi mínu til A, dags. 18. nóvember 1993, sagði m.a. svo:

"Ágreining þann, sem kvörtun yðar er að rekja til, verður að leysa á grundvelli ofangreindra fyrirmæla höfundalaga og reynir þar ekki á reglur stjórnsýsluréttar. Auk þess reynir við slíka úrlausn á tæknileg og listræn sjónarmið. Að mínum dómi er hér um að ræða réttarágreining, sem eðlilegt er að dómstólar leysi úr, enda eiga dómstólar lögsögu um slíkt efni. Það er því niðurstaða mín, að ekki sé rétt að ég fjalli frekar um kvörtun yðar, sbr. 3. tölul. 1. mgr. 10. gr. reglna nr. 82/1988 um störf og starfshætti umboðsmanns Alþingis. Ég tek fram, að ég tek ekki neina afstöðu til þess, hver séu líkleg úrslit málsóknar, ef af henni verður."