Starfssvið umboðsmanns Alþingis og skilyrði þess að umboðsmaður fjalli um kvörtun. Dómstólar. Skráning lögheimilis.

(Mál nr. 890/1993)

Máli lokið með bréfi, dags. 7. október 1993.

A leitaði til mín og kvartaði yfir því að lögheimili hans væri ekki rétt skráð. Í bréfi mínu til A, dags. 7. október 1993, benti ég honum á, að í 1. og 2. mgr. 11. gr. laga nr. 21/1990 um lögheimili segði svo:

"Leiki vafi á um lögheimili manns samkvæmt lögum þessum skal leita úrskurðar dómara.

Rétt er Þjóðskránni, aðila sjálfum, svo og sveitarfélagi er málið varðar, að beiðast rannsóknar og úrskurðar um lögheimili en dómari fer með málið að hætti opinberra mála. Hann skal að jafnaði leita umsagnar og upplýsinga hjá öllum framangreindum aðilum áður en úrskurður gengur."

Ég greindi A frá því, að það væri skoðun mín, að með mál það, er kvörtun hans lyti að, ætti að fara eftir ofangreindum ákvæðum 11. gr. laga nr. 21/1990. Samkvæmt 5. tölulið 3. gr. reglna nr. 82/1988 um störf og starfshætti umboðsmanns Alþingis næði starfssvið umboðsmanns ekki til ákvarðana og annarra athafna stjórnvalda, sem bera skyldi undir dómstóla samkvæmt beinum lagafyrirmælum. Niðurstaða mín var því sú að lagaskilyrði brysti til þess, að ég gæti fjallað frekar um kvörtun hans.