Starfssvið umboðsmanns Alþingis og skilyrði þess að umboðsmaður fjalli um kvörtun. Ágreiningur milli stjórnvalda. Deila um skipun fulltrúa í stjórn félags.

(Mál nr. 796/1993)

Máli lokið með bréfi, dags. 18. júní 1993.

A, sem sæti átti í ferðamálaráði, leitaði til mín og kvartaði yfir ákvörðun samgönguráðherra, sem beint var til ferðamálaráðs og varðaði Ráðstefnuskrifstofu Íslands.

Í bréfi mínu til A, dags. 18. júní 1993, sagði m.a. svo:

"Samkvæmt 2. gr. laga nr. 13/1987 um umboðsmann Alþingis er það hlutverk umboðsmanns að hafa eftirlit með stjórnsýslu ríkis og sveitarfélaga, að tryggja rétt borgaranna gagnvart stjórnvöldum landsins, svo og að gæta þess að jafnræði sé í heiðri haft í stjórnsýslunni og að hún fari að öðru leyti fram í samræmi við vandaða stjórnsýsluhætti.

Samkvæmt gögnum málsins virðist höfuðdeila málsins standa á milli samgönguráðherra annars vegar og ferðamálaráðs hins vegar um skipun fulltrúa í stjórn Ráðstefnuskrifstofu Íslands. Þar sem hér er því að meginstefnu um að ræða deilu milli opinberra aðila, fellur hún utan starfssviðs umboðsmanns Alþingis, sbr. 2. og 5. gr. laga nr. 13/1987, en samkvæmt þeim verður kvörtun aðeins höfð uppi af einstaklingum og samtökum þeirra. Þá er einnig á það að líta, að af gögnum málsins verður ráðið, að Ráðstefnuskrifstofa Íslands sé einkaréttarlegur aðili, en ákvarðanir og athafnir slíkra aðila falla almennt utan starfssviðs umboðsmanns Alþingis.

Af framansögðu athuguðu tel ég vandkvæðum bundið að taka kvörtun [A] til meðferðar, þar sem hún varðar að verulegu leyti athafnir, sem falla utan starfssviðs umboðsmanns. Af þessum sökum tel ég ekki rétt að fjalla frekar um málið."