Starfssvið umboðsmanns Alþingis og skilyrði þess að umboðsmaður fjalli um kvörtun. Ágreiningur milli sjórnvalda. Ágreiningur um framkvæmd laga um dýravernd.

(Mál nr. 764/1993)

Máli lokið með bréfi, dags. 2. mars 1993.

A, formaður dýraverndarnefndar leitaði til mín. Í erindi hans kom fram, að ágreiningur væri á milli dýraverndarnefndar og sýslumannsins í Grindavík um það meðal annars, hvort staðið hafi verið að málum í samræmi við IV. kafla laga nr. 21/1957 um dýravernd, þegar upp kom grunur um illa meðferð á fiski í fiskeldisstöðinni X.

Í bréfi mínu til A, dags. 2. mars 1993, sagði m.a. svo:

"Samkvæmt 2. gr. laga nr. 13/1987 um umboðsmann Alþingis er það hlutverk umboðsmanns að hafa eftirlit með stjórnsýslu ríkis og sveitarfélaga og tryggja rétt borgaranna gagnvart stjórnvöldum landsins og gæta þess að jafnræði sé í heiðri haft í stjórnsýslunni og að hún fari að öðru leyti fram í samræmi við vandaða stjórnsýsluhætti. Í 1. gr. reglna nr. 82/1988 um störf og starfshætti umboðsmanns Alþingis er hlutverk hans nánar skilgreint svo, að hann skuli gæta þess, að stjórnvöld virði rétt einstaklinga og samtaka þeirra.

Ég tel 2. og 5. gr. laga nr. 13/1987 um umboðsmann Alþingis gefa til kynna, að kvörtun verði aðeins höfð uppi af einstaklingum eða samtökum þeirra. Hins vegar geti aðilar, sem hafa á hendi stjórnsýslu ríkis og sveitarfélaga, almennt ekki kvartað til umboðsmanns út af framkomu annarra stjórnvalda. Er þessi lögskýring studd athugasemdum í greinargerð við frumv. til laga um umboðsmann Alþingis, en þar segir meðal annars: "... einkafyrirtæki, sameignarfélög, hlutafélög, samvinnufélög og hvers konar félög geta leitað aðstoðar umboðsmanns og borið fram kvartanir við hann. Mál, sem umboðsmaður tekur til meðferðar að sjálfs sín frumkvæði, þurfa þó ekki beinlínis að varða réttaröryggi einstakra þegna eða félaga gagnvart stjórnvöldum" (Alþt 1986, A-deild, bls. 2560).

Samkvæmt framansögðu tel ég, að dýraverndarnefnd, sem hefur stjórnsýslu með höndum, sbr. 17. gr. laga nr. 21/1957 um dýravernd, með síðari breytingum, geti ekki kvartað yfir ágreiningi um framkvæmd laga nr. 21/1957 um dýravernd, sem er á milli dýraverndarnefndar og annarra stjórnvalda, sem annast framkvæmd laganna."