Atvinnuréttindi. Úthlutun atvinnuleyfa til leigubifreiðaaksturs.

(Mál nr. 686/1992)

Máli lokið með bréfi, dags. 29. apríl 1993.

I.

A kvartaði yfir því að hún hefði ekki fengið úthlutað atvinnuleyfi til leigubifreiðaaksturs.

Hinn 10. maí 1992 lagði A fram umsókn um atvinnuleyfi til leigubifreiðaaksturs. Óskaði A sérstaklega eftir því, að tillit yrði "... tekið til þeirra veikinda, slysa og endurhæfingar,..." sem hefðu hamlað því, að A gæti stundað akstur leigubifreiðar. Umsjónarnefnd fólksbifreiða á höfuðborgarsvæðinu hafnaði umsókn A 24. júní 1992. Með bréfi 27. júní 1992 óskaði A eftir skýringum nefndarinnar. Í bréfinu lýsti A nánar aðstæðum sínum og hvernig veikindin og afleiðingar umferðarslysa á árinu 1988 hefðu haft áhrif á möguleika hennar til aksturs leigubifreiðar. Jafnframt lýsti A í bréfinu skoðun sinni á því, hvernig meta bæri framangreindar frátafir. Í skýringum umsjónarnefndarinnar frá 14. júlí 1992 segir:

"Umsækjendur um atvinnuleyfi voru 56. Einungis var úthlutað 4 leyfum. Leyfishafar voru valdir eftir starfstímalengd. Sá sem skemmstan tíma hafði af þessum fjórum, var með 4 ár og 3 mánuði. Nefndin mat starfstíma þinn að hámarki 3 ár og 8 mánuði og af þeim sökum varð að hafna umsókn þinni.

Við mat á starfstíma þínum, sem raskaðist vegna slysa og sjúkdóma, var höfð hliðsjón af rétti til launa í sjúkdóms- og slysaforföllum samkvæmt lögum nr. [19/]1979. Hins vegar var sérstökum orlofstíma ekki bætt við starfstímann, enda var það ekki gert hjá öðrum umsækjendum."

Hinn 18. september 1992 synjaði samgönguráðuneytið ósk A um að endurskoða framangreinda ákvörðun umsjónarnefndar fólksbifreiða á höfuðborgarsvæðinu.

II.

Með bréfi samgönguráðuneytisins 18. nóvember 1992 bárust mér gögn málsins. Hinn 6. janúar 1993 óskaði ég eftir því, að ráðuneytið léti mér í té upplýsingar um nánar tilgreind atriði. Umbeðnar upplýsingar bárust mér með bréfi samgönguráðuneytisins 2. febrúar 1993 og fylgdi því bréf umsjónarnefndar fólksbifreiða á höfuðborgarsvæðinu, dags. 26. janúar 1993. Í bréfi nefndarinnar kom eftirfarandi fram:

"Svo sem kunnugt er þurftu menn að hafa að baki starfstíma við akstur að lágmarki 4 ár og 3 mánuði til þess að öðlast atvinnuleyfi vorið 1992. Starfstími [A] að meðtöldum viðurkenndum veikinda- og slysadögum var af nefndinni talinn að hámarki 3 ár og 8 mánuðir og því átti hún ekki kost á atvinnuleyfi. Starfsferill [A] sem launþegabílstjóra hófst 12. ágúst 1986 og síðan er starfstíminn reiknaður til 1. maí 1992 eins og hjá öðrum umsækjendum. Starfsferill hennar var mjög gloppóttur bæði að því er varðar vinnudaga og veikinda- og slysadaga og því torsótt verk að reikna út heildarstarfstímann. Alls starfaði [A] hjá fjórum atvinnuleyfishöfum, þar af lengst hjá [X] í tæplega tvö ár.

Við mat á vinnutímalengd við úthlutun atvinnuleyfa er meðal annars byggt á upplýsingum frá umsækjendum, en þó aðallega á skýrslum frá Bifreiðastjórafélaginu Frama. Eftir 1. júlí 1989 eru þessar skýrslur mjög ítarlegar þar sem öll upplýsingagögnin eru komin í tölvu. Hjá Frama eru einnig til skrár með upplýsingum um starfstíma á næstu árum á undan, og að því er [A] varðar eru þessar eldri skrár mjög nákvæmar. Vinnutími umsækjenda er ávallt miðaður við þá daga, er aksturheimildir Frama tilgreina, en ógerlegt er að afla upplýsinga um það hvort umsækjandi hafi í raun og veru stundað akstur alla þessa daga. Gögn þau, sem umsjónarnefndin notaði við mat á vinnutíma [A] fylgja hér með ásamt nýjum og ítarlegri gögnum úr tölvuskrám Frama.

Um frátafir frá vinnu sökum veikinda og slysa fær nefndin aðallega upplýsingar úr læknisvottorðum en einnig úr skýrslum frá umsækjendum.

Veikinda- og slysadagar umsækjenda reiknast til starfstíma eftir sérstökum reglum nefndarinnar. Þessar reglur eru í reynd einfölduð útgáfa af reglum laga nr. 19/1979. Reglurnar eru þessar:

a. Fyrir veikindi eða slys utan vinnu reiknast ávallt allt að 30 dagar í hverju tilviki.

b. Fyrir vinnuslys og atvinnusjúkdóma reiknast ætíð allt að 90 dagar í hverju tilviki, en þó aldrei nema einu sinni, ef forföll vegna slyss eru ekki samfelld. Síðari forföll reiknast þá sem veikindi.

Í reglum þessum er ekki tekið tillit til starfstímalengdar hjá sama vinnuveitanda, sbr. lög nr. 19/1979, en það bitnar ekki á [A] þar sem hún starfaði lengst tæp tvö ár hjá sama atvinnuleyfishafa.

Veikinda- og slysadagar [A], sem falla undir starfstímann, reiknaðir eftir framangreindum reglum, eru samtals 189 dagar eða ríflega sex mánuðir. Þessi útreikningur er sýndur á sérstöku fylgiblaði. Rétt er að geta þess að [A] fékk enga veikinda- og slysadaga greidda hjá vinnuveitendum sínum.

[A] heldur því fram að vinnudagar hennar hafi verið 1254 og veikinda- og slysadagar, er reiknast til starfstíma, hafi verið 279, og starfstíminn því alls 1533 dagar eða 4 ár og 3 mánuðir. Þessar tölur hennar eru augsýnilega rangar. Vinnudagar hennar voru 1031 en veikinda- og slysadagar, sem teljast til starfstíma voru 189. Samtals gerir þetta 1220 daga starfstíma eða sem næst 3 ár og 5 mánuði. Áætlun nefndarinnar um starfstímalengd, 3 ár og 8 mánuði að hámarki, var því rífleg og ekki á [A] hallað.

Nánari sundurliðun á starfstímanum fer hér á eftir:

Vinnudagar á tímabilinu frá 12. ágúst 1986 til

1. júlí 1989 (sjá skýrslu Frama) 268 dagar

Vinnudagar á tímabilinu frá 1. júlí 1989 til

1. maí 1992 (sjá meðf. gögn) 763 dagar

Veikinda- og slysadagar, sem teljast til

starfstíma (sjá fylgiblað) 189 dagar

Starfstími alls 1220 dagar

Skekkjur [A] felast einkum í tvennu. Hún reiknar of marga veikinda- og slysadaga, og hún telur með vinnudögum þá daga á tímabilinu frá 1. júlí 1989 til 1. maí 1992, sem aðrir launþegar óku í hennar stað.

Að lyktum er rétt að taka það fram að nokkrir umsækjendur, sem sóttu um atvinnuleyfi vorið 1992 en fengu ekki, voru með lengri starfstíma en [A]."

Athugasemdir A við ofangreint bréf bárust mér 24. febrúar s.l.

III.

Í bréfi mínu, dags. 29. apríl 1993, gerði ég A svofellda grein fyrir niðurstöðum mínum í málinu:

"Eins og fram kemur hér að framan, hafið þér um nokkurt skeið starfað sem launþegi við leigubifreiðaakstur. Á grundvelli 3. mgr. 14. gr. laga nr. 77/1989 hafa launþegar í leigubifreiðastjórastétt, haft forgang við veitingu atvinnuleyfa í þrjú ár frá gildistöku laganna, sbr. 12. gr. reglugerðar nr. 308/1989 um fólksbifreiðar, sem notaðar eru til leiguaksturs og takmarkanir á fjölda þeirra. Í 10. gr. reglugerðarinnar kemur fram, að umsjónarnefndir gefi út atvinnuleyfi til leiguaksturs og annist úthlutun þeirra. Er tekið fram, að úthlutun skuli fara fram a.m.k. einu sinni á almanaksári. Af bréfi umsjónarnefndar fólksbifreiða á höfuðborgarsvæðinu 26. janúar 1993 verður ráðið, að við úthlutun atvinnuleyfa samkvæmt lögum nr. 77/1989 hafi verið við það miðað, hversu lengi umsækjendur höfðu stundað leiguakstur og þeim síðan raðað niður eftir lengd starfstíma. Hvorki er í lögum nr. 77/1989, né í reglugerð nr. 308/1989, að finna fyrirmæli um, hvernig meta skuli starfstíma umsækjenda, þ. á m. þeirra, sem ekki hafa getað stundað akstur leigubifreiðar vegna veikinda eða slyss. Í tilvitnuðu bréfi umsjónarnefndarinnar er þeim reglum lýst, sem nefndin hefur stuðst við. Gefur það fyrirkomulag, sem þar er greint frá, ekki tilefni til athugasemda af minni hálfu.

Kvörtun yðar lýtur annars vegar að því, hvernig umsjónarnefnd fólksbifreiða mat veikinda- og slysadaga yðar til starfstíma, og hins vegar að því, hvort við ákvörðun nefndarinnar hafi verið reiknaðir allir "vinnudagar" yðar á tímabilinu 1. júlí 1989 til 1. maí 1992. Það er skoðun mín, eftir að hafa kynnt mér gögn um ákvörðun umsjónarnefndar fólksbifreiða á höfuðborgarsvæðinu á starfstíma yðar, að kvörtun yðar gefi ekki tilefni til frekari athugasemda af minni hálfu."