Starfssvið umboðsmanns Alþingis og skilyrði til þess að umboðsmaður fjalli um kvörtun. Dómstólar. Réttarágreiningur, sem á undir dómstóla.

(Mál nr. 1151/1994)

Máli lokið með bréfi, dags. 3. nóvember 1994.

A leitaði til mín og kvartaði yfir því að laun hans hefðu ekki verið leiðrétt frá upphafsdegi ráðningar hans hinn 1. ágúst 1984.

Ég ritaði fjármálaráðherra bréf, dags. 5. júlí 1994, og óskaði eftir því að mér yrðu send gögn málsins. Þau bárust mér með bréfi 13. júlí 1994. Í bréfi fjármálaráðuneytisins sagði að námsmatsnefnd menntamálaráðuneytisins hefði fyrst metið nám A haustið 1984 til 153 stiga, sem hefðu skipað honum í 141. launaflokk skv. gildandi kjarasamningum kennara. Í bréfi ráðuneytisins kom fram, að í september 1993 hefði farið fram nýtt mat nefndarinnar á grundvelli sömu gagna og hefði niðurstaða hins nýja námsmats verið 164 stig, sem leiddi til hækkunar um einn launaflokk. Í bréfi ráðuneytisins sagði, að ástæður fyrir hinu breytta mati væru ekki kunnar, en "hvort tveggja sé til að hún breyti mati á ákveðnum prófum eða námi einstaklinga eða hitt að hún vegna mistaka of eða vantelji nám, sem er sjaldgæfara". Loks kemur fram í bréfinu, að of lágt mat sé ávallt bætt allt að fjórum árum, en ofmat sé sjaldnast leiðrétt afturvirkt, heldur frá þeim tíma, er það uppgötvast. Um þetta hafi verið almenn sátt, þar til mál A hefði borið á góma.

Ég ritaði A bréf hinn 3. nóvember 1994 og sagði þar m.a. svo:

"Í kjarasamningi við Hið íslenska kennarafélag, sem er stéttarfélag yðar, er í grein 11.1.1. kveðið á um samstarfsnefnd og er hún skipuð tveimur fulltrúum frá hvorum aðila. Skal nefndin fjalla um ágreining, sem upp kann að koma út af kjarasamningum. Upplýst er, að nefndin hefur fjallað um mál yðar.

Til þess að leysa úr máli yðar, þarf meðal annars að upplýsa ástæður fyrir hinu breytta mati námsmatsnefndar menntamálaráðuneytisins. Við könnun réttarheimilda á þessu sviði, þarf meðal annars að taka afstöðu til þess, hvort venja hafi skapast um það, hvernig staðið skuli að leiðréttingu launa, þegar mistök hafa orðið við mat námsmatsnefndar, sbr. grein 1.3.3.1. og 1.3.3.2. kjarasamnings Hins íslenska kennarafélags. Í því sambandi getur þurft að afla frekari gagna um framkvæmd á þessu sviði, auk þess sem afla getur þurft skýrslna og leggja mat á sönnunargildi þeirra. Hvorki félagsdómur né hinir almennu dómstólar hafa tekið afstöðu til þessa álitaefnis að því er séð verður.

Eftir að hafa athugað mál yðar, er það skoðun mín, að málið sé þannig vaxið, að eðlilegra sé að úr því sé leyst af dómstólum, sbr. 3. tl. 26. gr. laga nr. 94/1986 um kjarasamninga opinberra starfsmanna. Með vísan til 3. tölul. 1. mgr. 10. gr. reglna nr. 82/1988 um störf og starfshætti umboðsmanns Alþingis, er afskiptum mínum af máli þessu því lokið."