Starfssvið umboðsmanns Alþingis og skilyrði til þess að umboðsmaður fjalli um kvörtun. Dómstólar. Lögheimili.

(Mál nr. 1280/1994)

Máli lokið með bréfi, dags. 24. nóvember 1994.

A leitaði til mín og kvartaði yfir þeirri afstöðu Hagstofu Íslands, að hann og B yrðu ekki skráð í sambúð, nema þau ættu sama lögheimili.

Hinn 24. nóvember 1994 ritaði ég A bréf og segir þar meðal annars svo:

"Samkvæmt 2. mgr. 1. gr. laga nr. 21/1990 um lögheimili telst maður hafa fasta búsetu á þeim stað, þar sem hann hefur bækistöð sína, dvelst að jafnaði í tómstundum sínum, hefur heimilismuni sína og svefnstað, þegar hann er ekki fjarverandi um stundarsakir vegna orlofs, vinnuferða, veikinda eða annarra hliðstæðra atvika.

Samkvæmt 7. gr. sömu laga skulu hjón eiga sama lögheimili. Hafi þau sína bækistöðina hvort skv. 1. gr., skal lögheimili þeirra vera hjá því hjónanna, sem hefur börn þeirra hjá sér. Ef börn hjóna eru hjá þeim báðum eða hjón eru barnlaus, skulu þau ákveða á hvorum staðnum lögheimili þeirra skuli vera, ella ákveður Þjóðskráin það. Í lokamálslið 1. mgr. 7. gr. segir síðan, að sama gildi um fólk í óvígðri sambúð eftir því sem við geti átt.

Í kvörtun yðar bendið þér loks á, að tilgreindur þingmaður eigi annað lögheimili en maki hans. Í þessu sambandi tel ég rétt að vekja athygli yðar á 4. mgr. 4. gr. laga nr. 21/1990 um lögheimili, en þar segir, að alþingismanni sé heimilt að eiga áfram lögheimili í því sveitarfélagi, þar sem hann hafði fasta búsetu, áður en hann varð þingmaður. Sama gildir um ráðherra.

Samkvæmt 1. mgr. 11. gr. laga nr. 21/1990 um lögheimili skal leita úrskurðar dómara, leiki vafi á um lögheimili manns. Með vísan til 5. tölul. 3. gr. reglna nr. 82/1988 um störf og starfshætti umboðsmanns Alþingis fellur það ekki undir starfssvið umboðsmanns að fjalla um ákvarðanir stjórnvalda, sem bera skal undir dómstóla samkvæmt beinum lagafyrirmælum. Af þessum sökum fellur það utan valdsviðs míns að fjalla um það, hvar lögheimili yðar skuli skráð lögum samkvæmt og hvort heimilt sé að sambúðarfólk hafi hvort sitt lögheimili."