Starfssvið umboðsmanns Alþingis og skilyrði til þess að umboðsmaður fjalli um kvörtun. Dómstólar. Störf skiptastjóra í þrotabúi.

(Mál nr. 1254/1994)

Máli lokið með bréfi, dags. 3. nóvember 1994.

A leitaði til mín og kvartaði yfir ýmsum atriðum í störfum X, hæstaréttarlögmanns, sem skipaður hafði verið skiptastjóri í þrotabúi A af Héraðsdómi Reykjavíkur.

Hinn 3. nóvember 1994 ritaði ég A bréf og sagði þar meðal annars svo:

"Samkvæmt 76. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. er heimilt að bera upp skriflegar aðfinnslur um störf skiptastjóra við héraðsdómara, sem hefur skipað hann. Telji héraðsdómari aðfinnslur á rökum reistar, getur hann gefið skiptastjóra kost á að bæta úr innan tiltekins frest. Verði skiptastjóri ekki við því eða hafi framferði hans í starfi annars verið slíkt, að ekki verði talið réttmætt að gefa honum kost á að ráða bót á starfsháttum sínum, skal héraðsdómari víkja honum úr starfi þegar í stað með úrskurði.

Samkvæmt 4. tölul. 3. gr. reglna nr. 82/1988 um störf og starfshætti umboðsmanns Alþingis nær starfssvið umboðsmanns ekki til dómsathafna. Samkvæmt 5. tölul. 3. gr. sömu reglna nær starfssvið umboðsmanns heldur ekki til athafna stjórnvalda, sem bera skal undir dómstóla samkvæmt beinum lagafyrirmælum. Af þessum sökum fellur kvörtun yðar utan starfssviðs umboðsmanns Alþingis og eru því ekki fyrir hendi skilyrði laga til þess að ég hafi frekari afskipti af máli þessu."