Starfssvið umboðsmanns Alþingis og skilyrði til þess að umboðsmaður fjalli um kvörtun. Mál verður borið undir sérstaka eftirlitsstofnun. Hömlur á þátttöku í opinberu útboði.

(Mál nr. 833/1993)

Máli lokið með bréfi, dags. 8. febrúar 1994.

A leitaði til mín f.h. Y h.f. og kvartaði yfir þeirri ákvörðun Vegagerðar ríkisins, að setja Y h.f. óréttmætar hömlur um þátttöku í útboðum vegagerðarinnar.

Í gögnum málsins lá fyrir minnisblað lögfræðings vegagerðarinnar frá 8. júní 1993. Af því varð ráðið, að Vegagerð ríkisins hefði tekið þá ákvörðun, "... að gera ekki, að svo komnu máli, verksamninga um stærri verk við verktakafyrirtækið [X] s.f., síðar [Y] h.f."

Hinn 8. febrúar 1994 ritaði ég A bréf og sagði þar meðal annars svo:

"Samkvæmt 1. gr. samkeppnislaga nr. 8/1993 hafa lögin það markmið að efla virka samkeppni í viðskiptum og skal markmiði þeirra meðal annars náð með því, að "vinna gegn óhæfilegum hindrunum og takmörkunum á frelsi í atvinnurekstri". Í 2. gr. samkeppnislaga nr. 8/1993 segir, að lögin taki til hvers konar atvinnustarfsemi, þ. á m. þeirrar, sem rekin er af opinberum aðilum. Í III. kafla laganna er gerð grein fyrir þeim stjórnvöldum, er sjá um framkvæmd laganna. Í 5. gr. samkeppnislaga nr. 8/1993 er tekið fram, að samkeppnisráð, Samkeppnisstofnun og áfrýjunarnefnd samkeppnismála annist daglega stjórnsýslu á því sviði, sem lögin ná til, og samkvæmt 9. gr. laganna er unnt að skjóta ákvörðunum samkeppnisráðs og Samkeppnisstofnunar til áfrýjunarnefndar samkeppnismála.

Ástæða þess, að ég geri yður grein fyrir framangreindu er sú, að af fyrirmælum 3. mgr. 6. gr. laga nr. 13/1987 um umboðsmann Alþingis leiðir, að ekki er unnt að kvarta til umboðsmanns, ef hlutaðeigandi stjórnvöld hafa ekki áður fellt úrskurð sinn í málinu. Það er skoðun mín, að mál það, er kvörtun yðar lýtur að, verði borið undir áðurgreind stjórnvöld samkeppnismála. Brestur því skilyrði til þess, að ég geti haft frekari afskipti af kvörtun yðar.

Samkvæmt framansögðu bendi ég yður því á, að leita með mál yðar til Samkeppnisstofnunar eða samkeppnisráðs og eftir atvikum til áfrýjunarnefndar samkeppnismála. Ef þér teljið, að þér séuð enn órétti beittir, að fenginni úrlausn þessara stjórnvalda, er yður heimilt að leita til mín á ný."