Ágreiningur er rís við framkvæmd aðfarar.

(Mál nr. 1377/1995)

A leitaði til mín og kvartaði yfir framkvæmd aðfarar af hálfu sýslumannsins í Reykjavík, er átt hafði sér stað á heimili hans. Byggðist aðförin á úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur frá 26. maí 1994. Taldi A að aðförin hefði verið gerð áður en aðfararfrestur hefði verið útrunninn, og ekki verið framkvæmd í samræmi við ákvæði 3. mgr. 75. gr. barnalaga nr. 20/1992.

Hinn 13. mars 1995 ritaði ég A bréf og sagði þar meðal annars svo:



"Í 14. kafla laga nr. 90/1989, um aðför, eru reglur um úrlausn ágreinings, sem rís við framkvæmd aðfarargerðar eða um endurupptöku hennar, og í 15. kafla laganna er fjallað um úrlausn ágreinings eftir lok aðfarargerðar. Samkvæmt 1. mgr. 92. gr. laga nr. 92/1989 er málsaðilum heimilt að krefjast úrlausnar héraðsdómara um aðfarargerð, ef krafa þess efnis berst héraðsdómara innan átta vikna frá því að gerðinni var lokið. Í 2. mgr. 92. gr. laganna kemur meðal annars fram, að ágreiningur um aðfarargerð eða ákvarðanir sýslumanns um framkvæmd hennar verður ekki lagður fyrir héraðsdómara að liðnum fresti skv. 1. mgr., nema allir málsaðilar séu á það sáttir eða héraðsdómari telji afsakanlegt að málefnið hafi ekki verið lagt fyrir hann í tæka tíð.

Ástæða þess, að ég geri yður grein fyrir framansögðu er sú, að samkvæmt 4. tölul. 3. gr. reglna nr. 82/1988, um störf og starfshætti umboðsmanns Alþingis, nær starfssvið umboðsmanns ekki til dómsathafna. Samkvæmt 5. tölul. 3. gr. sömu reglna nær starfssvið umboðsmanns heldur ekki til athafna stjórnvalda, sem bera skal undir dómstóla samkvæmt beinum lagafyrirmælum. Af þessum sökum fellur kvörtun yðar utan starfssviðs umboðsmanns Alþingis og eru því ekki fyrir hendi skilyrði laga til þess að ég hafi frekari afskipti af máli þessu."