Réttarágreiningur sem á undir dómstóla. Verkaskipting dómstóla og umboðsmanns Alþingis.

(Mál nr. 1409/1995)

A, ríkisstarfsmaður, kvartað meðal annars yfir röðun hennar í launaflokka og námsmati samkvæmt kjarasamningi. Í bréfi mínu til A, dags. 29. mars 1995, sagði meðal annars:"Samkvæmt 2. gr. laga nr. 13/1987, um umboðsmann Alþingis, er það hlutverk umboðsmanns að hafa eftirlit með stjórnsýslu ríkis og sveitarfélaga og tryggja rétt borgaranna gagnvart stjórnvöldum landsins. Hann skal gæta þess að jafnræði sé í heiðri haft í stjórnsýslunni og að hún fari að öðru leyti fram í samræmi við vandaða stjórnsýsluhætti. Hver sá, sem telur stjórnvöld hafa beitt sig rangindum, getur borið mál fram við umboðsmann Alþingis. Hins vegar skal kvörtun borin fram innan árs frá því, er stjórnsýslugerningur sá, er um ræðir, var til lykta leiddur, og ef skjóta má máli til æðra stjórnvalds er ekki unnt að kvarta til umboðsmanns fyrr en æðra stjórnvald hefur fellt úrskurð sinn í málinu.

Lög nr. 13/1987, um umboðsmann Alþingis, eru byggð á þeirri forsendu, að um ákveðna verkaskiptingu milli dómstóla og umboðsmanns sé að ræða, og að mál geti verið þannig vaxin að heppilegra sé að leyst verði úr þeim fyrir dómstólum. Mál, er snerta samningsbundin réttindi ríkisstarfsmanna, eru oft þannig vaxin, að við túlkun ákvæða kjarasamninga getur m.a. þurft að líta til þess, hvernig þau hafa verið framkvæmd, tengsla við framkvæmd og túlkun eldri ákvæða kjarasamninga um sama efni, svo og venja, sem kunna að hafa myndast á umræddu sviði. Við úrlausn slíkra mála reynist því iðulega nauðsynlegt að afla sönnunargagna, svo sem vitnaskýrslna, og meta síðan sönnunargildi slíkra gagna. Ég hef því talið rétt að umboðsmaður Alþingis fjalli almennt ekki um slík mál, heldur verði það að vera hlutverk dómstóla.

Samkvæmt framansögðu og með vísan til 3. tölul. 1. mgr. 10. gr. reglna nr. 82/1988, um störf og starfshætti umboðsmanns Alþingis, er niðurstaða mín sú, að ekki sé grundvöllur fyrir frekari afskiptum mínum af kvörtun yðar."