Ákvörðun siglinganefndar verður skotið til tryggingaráðs.

(Mál nr. 1341/1995)

A kvartaði yfir því, að siglinganefnd hefði hafnað umsókn hennar um greiðslu kostnaðar, vegna smáglasafrjógvunar á erlendu sjúkrahúsi. Bréfaskipti áttu sér stað milli mín og tryggingaráðs um það, hvort ákvörðunum siglinganefndar yrði skotið til tryggingaráðs. Í bréfi mínu til A, dags. 2. október 1995, sagði meðal annars svo:"Með tilvísun til kvörtunar þeirrar, sem þér hafið lagt fram, skal upplýst, að mér hefur borist bréf tryggingaráðs, dags. 15. september s.l., sem hér fylgir með í ljósriti. Eins og fram kemur í bréfi tryggingaráðs, hefur ráðið ákveðið, að "...heimilt skuli að kæra niðurstöðu siglinganefndar í einstökum málum [til] tryggingaráðs". Samkvæmt þessu verður þeirri ákvörðun siglinganefndar, að synja yður um að fá að fullu greiddan beinan kostnað vegna smáglasafrjóvgunar á sjúkrahúsi í [...], skotið til tryggingaráðs. Bendi ég yður á þessa leið, þar sem í 3. mgr. 6. gr. laga nr. 13/1987, um umboðsmann Alþingis, er tekið fram, að eigi sé unnt að kvarta til umboðsmanns, ef skjóta má máli til æðra stjórnvalds og það hefur ekki fellt úrskurð sinn í málinu."