Ákvarðanir stjórnmálasamtaka falla utan starfssviðs umboðsmanns Alþingis.

(Mál nr. 1416/1995)

A leitaði til mín og kvartaði yfir þeirri ákvörðun stjórnmálasamtakanna X, að ógilda ákvörðun um niðurröðun á framboðslista og efna til nýs prófkjörs. Í bréfi mínu til A, dags. 19. apríl 1995, sagði meðal annars:



"Ég vísa til þeirrar kvörtunar, sem þér báruð fram með bréfi, dags. 27. mars 1995, yfir þeirri ákvörðun [stjórnmálasamtakanna X], að ógilda ákvörðun um niðurröðun á framboðslista og efna til nýs prófkjörs.

Samkvæmt 2. gr. laga nr. 13/1987, um umboðsmann Alþingis, er það hlutverk umboðsmanns að hafa eftirlit með stjórnsýslu ríkis og sveitarfélaga og tryggja rétt borgaranna gagnvart stjórnvöldum landsins. Hann á að gæta þess að jafnræði sé í heiðri haft í stjórnsýslunni og að hún fari að öðru leyti fram í samræmi við vandaða stjórnsýsluhætti. Hver sá, sem telur stjórnvöld hafa beitt sig rangindum, getur borið mál fram við umboðsmann Alþingis. Þar sem [stjórnmálasamtökin X] geta ekki talist stjórnvöld, sem tilheyra stjórnsýslu ríkis eða sveitarfélaga í skilningi 2. gr. laga nr. 13/1987, um umboðsmann Alþingis, falla ákvarðanir þeirra utan valdsviðs umboðsmanns Alþingis.

Samkvæmt framansögðu eru ekki fyrir hendi skilyrði laga til þess að ég hafi frekari afskipti af máli þessu."