Starfshættir nefndar á vegum starfsmannafélags eru utan starfssviðs umboðsmanns.

(Mál nr. 1460/1995)

Í bréfi mínu til A, dags. 26. maí 1995, sagði meðal annars:"Ég vísa til erindis yðar frá 16. maí s.l. Þar berið þér fram kvörtun yfir því, að starfskjaranefnd [X] hafi eigi svarað bréfum yðar frá 15. ágúst 1994, 30. október 1994 og 6. janúar 1995, þar sem þér berið fram óskir um tilfærslu á milli launaflokka vegna aukinnar menntunar yðar. Þér óskið í erindi yðar eftir áliti umboðsmanns Alþingis á því, "hvort starfskjaranefndin hafi hugsanlega brotið lög eða rétt með því að svara í engu ofannefndum bréfum".

Samkvæmt 2. gr. laga nr. 13/1987, um umboðsmann Alþingis, er það hlutverk hans að hafa í umboði Alþingis eftirlit með stjórnsýslu ríkis og sveitarfélaga á þann hátt, sem nánar greinir í lögunum, og tryggja rétt borgaranna gagnvart stjórnvöldum landsins. Skal umboðsmaður gæta þess, að jafnræði sé í heiðri haft í stjórnsýslunni og að hún fari að öðru leyti fram í samræmi við lög og góða stjórnsýsluhætti. Samkvæmt 2. mgr. 5. gr. laga nr. 13/1987 getur hver sá borið fram kvörtun við umboðsmann, sem telur stjórnvald hafa beitt sig rangindum.

Starfskjaranefnd [X] er eigi stjórnvald né heldur telst starfsemi hennar til stjórnsýslu ríkis eða sveitarfélaga. Með hliðsjón af 2. mgr. 5. gr. laga nr. 13/1987 og hlutverki umboðsmanns Alþingis, svo sem því hefur að framan verið lýst, uppfyllir erindi yðar því ekki skilyrði laga nr. 13/1987 til þess að ég taki það til meðferðar, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 13/1987."