Ákvörðun stjórnar ábyrgðasjóðs launa verður skotið til félagsmálaráðuneytis.

(Mál nr. 1779/1996)

A kvartaði yfir því, að ábyrgðasjóður launa hefði hafnað að greiða kröfu hans í þrotabú X hf. Í bréfi, er ég ritaði A 1. október 1996, sagði meðal annars svo:

"Í 1. mgr. 2. gr. laga nr. 53/1993, um ábyrgðasjóð launa vegna gjaldþrota, segir að félagsmálaráðherra fari með framkvæmd laganna og að ábyrgðasjóðurinn lúti þriggja manna stjórn, sem skipuð sé af félagsmálaráðherra. Í 2. mgr. 6. gr. kemur fram, að sjóðstjórn úrskurði um ágreining um greiðsluskyldu samkvæmt lögunum. Þá er ráðherra veitt heimild í 18. gr. laganna til að setja í reglugerð nánari ákvæði um hvernig framkvæmd laganna skuli háttað.

Félagsmálaráðherra fer samkvæmt framansögðu með forræði á málefnum ábyrgðasjóðs launa. Samkvæmt 1. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 getið þér því kært umræddan úrskurð sjóðstjórnarinnar til félagsmálaráðuneytisins. Bendi ég yður á að fara þessa leið, þar sem ekki verður kvartað til umboðsmanns, fyrr en æðra stjórnvald hefur fellt úrskurð sinn í máli, sbr. 3. mgr. 6. gr. laga nr. 13/1987, um umboðsmann Alþingis, og 2. tl. 1. mgr. 5. gr. reglna nr. 82/1988, um störf og starfshætti umboðsmanns Alþingis."