Valdsvið ríkistollanefndar. Almenn kæruleið tollamála. Virðisaukaskattur við innflutning vöru.

(Mál nr. 1889/1996)

A hf. kvartaði yfir þeim skilningi fjármálaráðuneytisins að gjald, sem innheimt væri fyrir úthlutun tollkvóta, teldist ekki til tollverðs samkvæmt IV. kafla tollalaga, nr. 55/1987, og að ekki bæri að innheimta virðisaukaskatt af slíkum tollkvóta við innflutning.

Í bréfi, sem umboðsmaður ritaði A hf., gerði hann grein fyrir ákvæðum laga um tollkvóta, sem sett voru vegna aðildar Íslands að Alþjóðaviðskiptastofnuninni, og stjórnvaldsfyrirmælum um úthlutun tollkvóta. Þá gerði umboðsmaður grein fyrir sérstökum ákvæðum um innflutning í lögum nr. 50/1988, um virðisaukaskatt. Tók hann fram, að samkvæmt lögum nr. 50/1988 félli virðisaukaskattur stjórnarfarslega undir hið almenna skattkerfi með þeirri undantekningu, að virðisaukaskattur við innflutning vöru heyrði stjórnarfarslega undir tollkerfið og væri innheimtur með aðflutningsgjöldum. Þá fjallaði umboðsmaður um meðferð tollamála, álagningu tollstjóra á tollum og öðrum gjöldum, sem greiða ber við tollafgreiðslu vara, kærur til tollstjóra og endurákvörðunarheimildir ríkistollstjóra, svo og kærur til ríkistollanefndar.

Umboðsmaður taldi ljóst, að það bæri undir tollyfirvöld að skera úr því ágreiningsefni, sem A hf. bar fram. Eins og lausn ágreiningsmála á sviði tollamála væri farið að lögum, þar sem meðal annars væri gert ráð fyrir sérstökum, óháðum úrskurðaraðila, þ.e. ríkistollanefnd, taldi umboðsmaður, að A hf., bæri að bera ágreiningsefnið upp á vettvangi tollamála og leita eftir úrlausn tollstjóra eða eftir atvikum ríkistollstjóra. Ákvarðanir þeirra stjórnvalda gæti hann kært til ríkistollanefndar, sætti hann sig ekki við þær. Taldi umboðsmaður, að afstaða fjármálaráðuneytisins í bréfi þess til A hf. hefði enga bindandi þýðingu fyrir ríkistollanefnd, þegar litið væri til stöðu og hlutverks nefndarinnar að lögum.

Umboðsmaður vísaði til þess, að samkvæmt 3. mgr. 6. gr. laga nr. 13/1987, um umboðsmann Alþingis, væri ekki unnt að kvarta til umboðsmanns, fyrr en æðra stjórnvald hefði fellt úrskurð sinn í máli, ef skjóta mætti máli til æðra stjórnvalds. Samkvæmt því væru ekki skilyrði til þess, að hann fjallaði um kvörtun A hf., fyrr en hann hefði leitað réttar síns hjá tollyfirvöldum, eftir atvikum með kæru til ríkistollanefndar og að gengnum úrskurði hennar.

Í bréfi mínu til A hf., dags. 10. október 1996, sagði meðal annars svo:



I.

"Samkvæmt framansögðu snýst ágreiningur yðar við fjármálaráðuneytið um það, hvort gjald það, sem innheimt er fyrir úthlutaðan tollkvóta, beri að telja til tollverðs, þannig að telja beri gjald þetta með við ákvörðun og innheimtu virðisaukaskatts, sbr. 34. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt.

Í XI. kafla laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, með síðari breytingum, eru sérstök ákvæði um innflutning. Þar segir svo í 1. og 2. mgr. 34. gr.:



"Við innflutning á vöru skal virðisaukaskattur innheimtur af tollverði skattskyldrar vöru að viðbættum tolli og öðrum gjöldum sem á eru lögð við tollmeðferð.

Um ákvörðun tollverðs skulu gilda ákvæði þar að lútandi í tollalögum, nr. 55/1987, með síðari breytingum."



Þá er 37. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, svohljóðandi:



"Virðisaukaskattur af innflutningi skal innheimtur með aðflutningsgjöldum.

Að því leyti sem eigi er ákveðið í lögum þessum eða reglugerð eða öðrum fyrirmælum settum samkvæmt þeim um skattskyldu, úrskurð um skattskyldu, álagningu, innheimtu, lækkun eða endurgreiðslu vegna rýrnunar, skemmda eða endursendingar, lögvernd, sektir, viðurlög, refsingar og aðra framkvæmd varðandi virðisaukaskatt af innfluttum vörum og þjónustu, skulu gilda ákvæði tollalaga, nr. 55/1987, með síðari breytingum, svo og reglugerða og annarra fyrirmæla settra samkvæmt þeim lögum."



Samkvæmt lögum nr. 50/1988 fellur virðisaukaskattur stjórnarfarslega undir hið almenna skattkerfi, þ.e. skattstjóra og ríkisskattstjóra með kæruheimild til yfirskattanefndar, sbr. 29. gr. laganna og lög nr. 30/1992, um yfirskattanefnd, með þeirri undantekningu, að virðisaukaskattur við innflutning vöru heyrir stjórnarfarslega undir tollkerfið samkvæmt XI. kafla laga nr. 50/1988, sbr. tilvitnuð ákvæði hér að framan. Samkvæmt þeim er virðisaukaskattur af innfluttri vöru stjórnarfarslega alveg felldur undir tollkerfið og innheimtur með aðflutningsgjöldum. Er almennt vísað til tollalaga nr. 55/1987 um skattskyldu, álagningu, innheimtu, lögvernd, viðurlög og refsingar og aðra framkvæmd að því leyti sem ekki er sérstaklega ákveðið í virðisaukaskattslögum eða reglugerð eða öðrum fyrirmælum, settum samkvæmt þeim lögum. Samkvæmt þessu er virðisaukaskattur tvískiptur stjórnarfarslega. Slík tilhögun gilti reyndar einnig í tíð söluskatts, því að söluskattur af innflutningi til eigin nota og neyslu innflytjandans féll undir tollkerfið.

Í tollalögum nr. 55/1987 er kveðið á um tollverð og ákvörðun þess, sbr. 1. gr. og IV. kafla laganna. Í X. kafla laganna, sbr. breytingar þær, sem gerðar voru með 26.-28. gr. laga nr. 69/1996, um breytingar á tollalögum nr. 55 30. mars 1987, með síðari breytingum, er fjallað um álagningu tolla, úrskurði tollstjóra, kærur o.fl. Þá er í 35. gr. laga nr. 55/1987, sbr. e-lið 17. gr. laga nr. 69/1996, fjallað um endurákvörðunarheimild ríkistollstjóra á ákvörðunum tollstjóra.

Um álagningu tollstjóra á tollum og öðrum gjöldum, sem greiða ber við tollafgreiðslu vara, og endurákvarðanir aðflutningsgjalda er fjallað í 97.-99. gr. laga nr. 55/1987, sbr. 26. gr. laga nr. 69/1996. Í 100. gr. laga nr. 55/1987, sbr. d-lið 26. gr. laga nr. 69/1996, er kveðið á um kærur til tollstjóra. Segir þar meðal annars svo: "Telji innflytjandi ákvörðun tollstjóra um gjaldskyldu, tollflokkun, tollverð eða fjárhæð aðflutningsgjalda við tollmeðferð vöru eigi rétta getur hann sent skriflega rökstudda kæru, studda nauðsynlegum gögnum, til viðkomandi tollstjóra."

Í 101. gr. laga nr. 55/1987, sbr. 27. gr. laga nr. 69/1996, er fjallað um kærur til ríkistollanefndar. Í 1. mgr. greinarinnar segir svo: "Innflytjandi getur skotið endurákvörðun ríkistollstjóra skv. 35. gr., úrskurði tollstjóra skv. 100. gr. og ákvörðun tollstjóra skv. 142. gr. til ríkistollanefndar innan 60 daga, talið frá póstlagningu úrskurðar eða ákvörðunar." Samkvæmt 38. gr. laga nr. 55/1987, sbr. h-lið 17. gr. laga nr. 69/1996, skal ríkistollanefnd "vera óháður úrskurðaraðili í ágreiningsmálum sem til hennar er skotið skv. 101. og 102. gr. um ákvörðun tolla og annarra skatta og gjalda sem greiða ber við tollafgreiðslu, tollverð, tollflokkun og annað eftir því sem lög þessi mæla fyrir um". Samkvæmt 102. gr. laga nr. 55/1987, sbr. 28. gr. laga nr. 69/1996, skal nefndin úrskurða um kærur um gjöld, sem tollstjórar leggja á innfluttar vörur samkvæmt ákvæðum annarra laga. Í 7. mgr. 101. gr. laga nr. 55/1987, sbr. d-lið 27. gr. laga nr. 69/1996, segir svo: "Úrskurður ríkistollanefndar er fullnaðarúrskurður á stjórnsýslustigi. Málskot til almennra dómstóla um úrlausnarefni sem farið hefur fyrir nefndina frestar eða breytir ekki niðurstöðu hennar fyrr en dómur er genginn."



[II.]

Eins og fram hefur komið, laut málefni það, sem þér báruð upp við fjármálaráðuneytið, að því, hvort reikna bæri gjald það, sem þér greidduð fyrir úthlutaðan tollkvóta, með við ákvörðun tollverðs við innheimtu virðisaukaskatts við innflutning umræddrar vöru.

Ég tel ljóst samkvæmt framansögðu, að það beri undir tollyfirvöld að skera úr þessu ágreiningsefni. Eins og lausn ágreiningsmála á sviði tollamála er farið að lögum og að framan hefur verið rakið, þar sem meðal annars er gert ráð fyrir sérstökum óháðum úrskurðaraðila á þessu sviði, þ.e. ríkistollanefnd, tel ég, að þér eigið að bera upp umrætt ágreiningsefni á þeim vettvangi og leita eftir úrlausn tollstjóra eða eftir atvikum ríkistollstjóra. Ákvarðanir þeirra stjórnvalda getið þér kært til ríkistollanefndar samkvæmt framansögðu, sættið þér yður ekki við þær. Ég tel, að afstaða fjármálaráðuneytisins í bréfi þess, dags. 22. ágúst 1996, hafi enga bindandi þýðingu fyrir ríkistollanefnd, þegar litið er til stöðu og hlutverks nefndarinnar að lögum.

Samkvæmt 3. mgr. 6. gr. laga nr. 13/1987, um umboðsmann Alþingis, er ekki unnt að kvarta til umboðsmanns fyrr en æðra stjórnvald hefur fellt úrskurð sinn í máli, ef skjóta má máli til æðra stjórnvalds. Samkvæmt þessu get ég ekki fjallað um kvörtun yðar, fyrr en þér hafið leitað réttar yðar hjá tollyfirvöldum, eftir atvikum með kæru til ríkistollanefndar og að gengnum úrskurði hennar. Sættið þér yður ekki við þá niðurstöðu, getið þér leitað til mín að nýju.

Samkvæmt því, sem ég hef hér rakið, eru ekki skilyrði fyrir því, að ég fjalli að svo stöddu frekar um kvörtun yðar, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 13/1987, um umboðsmann Alþingis."