Starfssvið umboðsmanns Alþingis.

(Mál nr. 2195/1997)

Í bréfi sínu til A sagði umboðsmaður að það yrði að telja að innan þess ramma, sem lög settu, væri það í höndum sveitarstjórna að ákveða hvernig málefnum grunnskólans skyldi hagað í sveitarfélaginu, þ.ám. hvernig nýta skyldi það fé, sem ætlað væri til reksturs hans. Þetta byggðist á meginreglunni um sjálfsstjórn sveitarfélaga og því að menntamál væru meðal lögboðinna verkefna sveitarfélaga.

Í gögnum málsins kom fram, að ákvörðun bæjarstjórnar um það, að börn búsett í bæjarfélaginu skyldu, nema í undantekningartilvikum, stunda nám í grunnskólum bæjarins, byggðist á mati hennar á því hvernig það fé, sem bænum væri ætlað að nota til reksturs grunnskólans, yrði best nýtt. Umboðsmaður vísaði til þess, að í greinargerð með frumvarpi því er varð að lögum nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, segir, að vegna reglunnar um sjálfsstjórn sveitarfélaga sé eftirlit hans með stjórnsýslu sveitarfélaga í vissum tilvikum frábrugðið eftirliti hans með stjórnsýslu ríkisins. Hafi lög látið sveitarstjórn eftir vald til að ákveða hvort og hvernig tekjustofnar sveitarfélaga skuli nýttir, endurskoði umboðsmaður t.a.m. ekki þá ákvörðun, hafi sveitarstjórn haldið sig innan ramma laga og byggt ákvörðunina á lögmætum sjónarmiðum. Umboðsmaður taldi að ekki yrði annað séð en að svo hefði verið í máli þessu og gerði því ekki athugasemdir við ákvörðunina.