Heilbrigðismál. Nefnd um ágreiningsmál skv. lögum um heilbrigðisþjónustu. Rökstuðningur. Andmælaréttur.

(Mál nr. 2165/1997)

A kvartaði yfir því að nefnd um ágreiningsmál skv. lögum nr. 97/1990, um heilbrigðisþjónustu, hefði ekki tekið rökstudda afstöðu til erindis síns og ekki staðið við loforð um endurupptöku málsins.

Niðurstaða setts umboðsmanns var, að sú skýring nefndarinnar, að rökstutt álit hefði ekki verið gefið með því að erindi A hefði byggt á röngum forsendum, sbr. 2. gr. nefndra laga, væri fullnægjandi og ekki væri tilefni til athugasemda við að niðurstaða nefndarinnar hefði ekki verið rökstudd. Hins vegar hefði verið rétt að nefndin tæki fram í niðurstöðu sinni ástæðu þess að rökstutt álit var ekki gefið, sbr. 2. gr. starfsreglna nefndar um ágreiningsmál um heilbrigðisþjónustu nr. 150/1985. Um það kvörtunarefni að A hefði verið lofað endurupptöku sagði settur umboðsmaður að þar stæði staðhæfing gegn staðhæfingu og engin efni væru til að taka afstöðu til þess hvor væri rétt. Hins vegar yrði að telja að A gæti enn látið reyna á afstöðu nefndarinnar til beiðni um endurupptöku.

Settur umboðsmaður gerði hins vegar athugasemd við að A var ekki gefinn kostur á að tjá sig munnlega fyrir nefndinni, þrátt fyrir að A hefði óskað þess sérstaklega, og að í 2. mgr. 4. gr. starfsreglna nefndarinnar væri tekið fram að aðilar að kvörtunum og kærumálum skyldu fá færi á að fylgja þeim munnlega eftir.

I.

Með bréfi forseta Alþingis, dags. 11. september 1997, var undirritaður, samkvæmt 14. gr. reglna nr. 82/1988 um störf og starfshætti umboðsmanns Alþingis, skipaður til þess að fara með kvörtun A, þar sem umboðsmaður Alþingis, Gaukur Jörundsson, hafði vikið sæti við meðferð málsins.

Kvörtun A, sem beinist að nefnd um ágreiningsmál samkvæmt lögum nr. 97/1990,um heilbrigðisþjónustu, barst umboðsmanni 30. júní 1997 og er hún svohljóðandi:

„Nefndin tók ekki neina rökstudda afstöðu í málinu þrátt fyrir skýr gögn og embættisbréf og stóð ekki við loforð til endurupptöku málsins en t.d. hafði lögfræðingur minn fengið svar Reykjalundar eftir að niðurstaða nefndar lá fyrir og liggur fyrir bréf lögfræðings um samkomulag að taka málið upp að nýju en varð ekki og ég get eigi sætt mig við þessi málalok.“

Með bréfi dagsettu 12. júlí 1996 beindi lögmaður A kvörtun til framangreindrar nefndar og er bréfið svohljóðandi: „Ég sný mér til kvörtunarnefndar skv. lögum um heilbrigðisþjónustu f.h. [A] og vil kvarta yfir eftirfarandi:

1. Synjun Heilsustofnunar NLFÍ á að sinna beiðni taugalækningadeildar Landspítalans um að [A] kæmist í meðferð á stofnuninni, sbr. bréf [B] yfirlæknis dags. 30. maí 1996. Stofnunin taldi að meðferð þar myndi ekki henta [A]. Af öðrum meðfylgjandi gögnum er ljóst að meðferð á endurhæfingardeild Heilsustofnunar NLFÍ myndi henta [A] ágætlega, eins og hefur sýnt sig í fyrri dvölum hennar þar.

2. Tregðu Reykjalundar til að taka [A] til meðferðar á stofnuninni þrátt fyrir ítrekaðar óskir taugalækningadeildar Landspítalans, sbr. bréf [B] yfirlæknis dags. 30. maí 1996. Inn á stofnunina komst hún síðan ekki fyrr en eftir að heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið hafði gengið í málið, sbr. afrit af bréfi ráðuneytisins dags. 31. október 1995. Innlögnin var bundin því skilyrði af hálfu Reykjalundar að dvöl yrði eigi lengri en 4–6 vikur. Eftir því sem best er vitað hafa aðrir sjúklingar á Reykjalundi ekki þurft að sæta slíkum kjörum heldur hafa þeir fengið að dveljast þar uns viðunandi bati hefur náðst.

3. Framkomu landlæknis í garð [A], en hann hefur hvorki sinnt því að svara bréfum hennar né veitt henni viðtal þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir hennar til að ná fundi hans. Þá hefur landlæknir nánast virt að vettugi bréf frá heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneyti dags. 27. september 1994 um að hann skuli hafa milligöngu um að tryggja henni nauðsynlega læknishjálp og hugsanlega meðferð, sbr. og ítrekun þess bréfs dags. 24. mars 1995. Þá virðist landlæknir ekki hafa sinnt kvörtun [A] vegna dvalarinnar á Heilsustofnun NLFÍ í ársbyrjun 1995, sem framsent var með fyrrnefndu bréfi ráðuneytisins dags. 24. mars 1995.

Hjálögð eru ýmis gögn til frekari skýringar þessa máls, til viðbótar þeim sem þegar hefur verið vísað til. Sérstök ástæða er til að vekja athygli á áðurnefndu vottorði [B]. Þar kemur skýrt fram að hann taldi [A] í slæmu ástandi á árinu 1995 vegna hrygggigtar. Mat [B] var það að [A] væri í ríkri þörf fyrir gigtarmeðferð inni á stofnun við bestu skilyrði. Þá er einnig rétt að benda á vottorð meðferðaraðila á heilsuhæli á Mar y Sol en þangað fór [A] frá Reykjalundi í lok síðasta árs á eigin vegum. Hún lauk ekki þeirri stuttu dvöl sem hún átti að fá á Reykjalundi heldur kaus frekar að fara á eigin vegum á umrætt heilsuhæli enda þá orðin úrkula vonar um að íslenskt heilbrigðiskerfi myndi sinna heilsuvandamálum hennar með viðunandi hætti. Þá mun vottorð frá St. Fransiskuspítalanum á Stykkishólmi um meðferð [A] þar í maí sl. send nefndinni um leið og það berst. Sérstök athygli er vakin á nýlegu viðtali við [A] í Morgunblaðinu.

[A] hefur áður snúið sér til þessarar nefndar með kvörtun. Því erindi var vísað frá á þeirri forsendu að ekki væri ljóst hvert umkvörtunarefnið væri. Í þessu bréfi eru því afmörkuð þrjú kvörtunaratriði sem óskað er eftir að nefndin skoði sérstaklega.

[A] fer þess á leit að koma til viðtals við nefndina til að gera ítarlega grein fyrir kvörtunum sínum“

Kvörtun A svaraði nefndin með bréfi, dags. 17. desember 1996, sem er svohljóðandi:

„Nefndin hefur farið rækilega í gegnum öll framlögð gögn í málinu nr. 5/1996, [A] gegn Heilsustofnun NLFÍ, Reykjalundi og landlækni. Eftir þessa athugun á gögnum málsins telur nefndin að ekki sé ástæða til athugasemda við þá meðferð sem kvörtun [A] lýtur að.“

II.

Ég ritaði bréf til nefndarinnar, í samræmi við 2. mgr. 9. gr. laga nr. 13/1987, um umboðsmann Alþingis, og gaf henni kost á að skýra sjónarmið sín varðandi kvörtun A til umboðsmanns. Sagði og eftirfarandi í bréfinu:

„Í svarbréfi til mín bið ég yður sérstaklega að tilgreina hvort þér hafið hvorki talið ástæðu né lagaskyldu standa til þess að rökstuðningur fylgdi þeirri niðurstöðu sem þér komust að um kvörtun [A] til yðar og þá af hvaða sökum. Ennfremur hvort þér gáfuð „loforð til endurupptöku málsins“ eins og komist er að orði í kæru [A] til umboðsmanns, sem ekki hafi verið staðið við.“

Svarbréf nefndarinnar er dagsett 26. september 1997 og er svohljóðandi:

„Nefndin ákvað á sínum tíma að ljúka máli [A] gegn Heilsustofnun NLFÍ, Reykjalundi og Landlækni með tilkynningu til lögmanns hennar um að ekki væri tilefni til athugasemda við þá meðferð sem kvörtun hennar beinist að. Nefndin taldi ekki ástæðu til frekari rökstuðnings á ákvörðun sinni.

Niðurstöður nefndarinnar fela ekki í sér bindandi ákvarðanir um réttindi eða skyldur málsaðila. Nefndin hefur þó til hliðsjónar við málsmeðferð sína allar meginreglur stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Í 2. gr. starfsreglna fyrir nefnd um ágreiningsmál skv. lögum 97/1990 um heilbrigðisþjónustu nr. 150/1985, kemur fram að sé kvörtun til nefndarinnar augljóslega byggð á röngum forsendum, að mati nefndarinnar, verði álit eigi gefið. Vegna framangreindra sjónarmiða telur nefndin að hún geti takmarkað rökstuðning sinn í þeim málum, þar sem kvörtunin gefur augljóslega, þegar í upphafi, ekki tilefni til nánari athugunar. Byggir nefndin þetta verklag sitt á svipuðum sjónarmiðum og fram koma í 1. mgr. 10. gr. laga nr. 13/1987 um umboðsmann Alþingis.

Hvað varðar fullyrðingar um að lofað hafi verið að taka málið upp aftur hjá nefndinni þá minnast nefndarmenn þess ekki að hafa gefið slíkt loforð hvorki til [A] sjálfrar né lögmanns hennar.“

Ég ritaði A bréf, dags. 9. október 1997, og gaf henni kost á með heimild í 3. mgr. 9. gr. reglna nr. 82/1988 um störf og starfshætti umboðsmanns Alþingis að kynna sér svarbréf nefndarinnar og gera athugasemdir við svörin. Það gerði A með bréfi til mín, dags. 21. október 1997, og einnig kom hún til viðræðu við mig samkvæmt eigin ósk hinn 18. nóvember 1997.

III.

Í forsendum og niðurstöðu álits setts umboðsmanns Alþingis, dags. 12. janúar 1998, sagði svo:

„Í 5. mgr. 3. gr. laga nr. 97/1990 um heilbrigðisþjónustu er kveðið á um að starfa skuli nefnd sem vísa má til ágreiningsmálum almennings og heilbrigðisþjónustunnar. Er málsgreinin svohljóðandi:

„Landlækni er skylt að sinna kvörtunum eða kærum, er varða samskipti almennings og heilbrigðisþjónustunnar. Heimilt er að vísa ágreiningsmálum til sérstakrar nefndar, sem í eiga sæti 3 menn, tilnefndir af Hæstarétti og ráðherra skipar til fjögurra ára í senn. Enginn nefndarmanna má vera starfsmaður heilbrigðisþjónustunnar, og einn skal vera embættisgengur lögfræðingur og jafnframt formaður. Sömu reglur gilda um varamenn. Ráðherra setur nefndinni starfsreglur að fengnum tillögum hennar. Kostnaður vegna starfa nefndarinnar greiðist úr ríkissjóði. Landlæknir og nefndin gera ráðherra árlega grein fyrir þeim kvörtunum sem borist hafa og afdrifum mála.“

Starfsreglur nefndarinnar eru nr. 150 frá 19. mars 1985 og settar samkvæmt 5. tölul. 3. gr. laga nr. 59/1983, um heilbrigðisþjónustu, en lög nr. 97/1990 leystu þau lög af hólmi.

2. gr. reglnanna hljóðar svo:

„Nefndin skal láta í té álitsgerð eftir skriflegri beiðni dómstóla svo og málsaðila um ætlað persónulegt tjón sjúklings af völdum starfsfólks heilbrigðisþjónustunnar. Sé beiðni um álitsgerð augljóslega byggð á röngum forsendum, að mati nefndarinnar, verður álit eigi gefið.“

4. gr. reglnanna hljóðar svo:

„Nefndin tekur aðeins til meðferðar skriflegar kærur eða kvartanir, sem beint er til hennar milliliðalaust, eða mál, sem vísað er til hennar af yfirstjórn heilbrigðismála eða öðrum aðilum í stjórn landsins.

Aðilar að kvörtunum eða kærumálum skulu fá færi á að fylgja þeim eftir munnlega og þá með fulltingi sérfróðra umboðsmanna, ef þeir kjósa. Ennfremur mega þeir leggja fram þau gögn, sem þeir telja að styðji mál sitt. Skal fara um þetta eftir nánari ákvörðun nefndarinnar í hverju máli.“

Kvörtun A til umboðsmanns Alþingis er tvíþætt. Í fyrsta lagi kvartar hún undan því að nefnd um ágreiningsmál skv. lögum nr. 97/1990, um heilbrigðisþjónustu, hafi „ekki tekið neina rökstudda afstöðu í málinu“ og í öðru lagi hafi nefndin ekki staðið „við loforð til endurupptöku málsins“.

Í bréfi nefndarinnar til A 17. desember 1996 kemur fram að hún hafi farið rækilega í gegnum öll framlögð gögn í máli hennar gegn Heilsustofnun NLFÍ, Reykjalundi og landlækni og ekki séð ástæðu til athugasemda við þá meðferð sem A kvartar um. Ekki hefur verið dregið í efa að nefndin hafi kynnt sér framlögð gögn rækilega og ekkert komið fram sem bendir til annars.

Niðurstaða nefndarinnar er ekki rökstudd og hefur nefndin í bréfi sínu til mín, dags. 26. september 1997, greint frá ástæðum þess. Er sá kafli bréfsins þar sem þær ástæður eru greindar svohljóðandi:

„Niðurstöður nefndarinnar fela ekki í sér bindandi ákvarðanir um réttindi eða skyldur málsaðila. Nefndin hefur þó til hliðsjónar við málsmeðferð sína allar meginreglur stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Í 2. gr. starfsreglna fyrir nefnd um ágreiningsmál skv. lögum 97/1990 um heilbrigðisþjónustu nr. 150/1985, kemur fram að sé kvörtun til nefndarinnar augljóslega byggð á röngum forsendum, að mati nefndarinnar, verði álit eigi gefið. Vegna framangreindra sjónarmiða telur nefndin að hún geti takmarkað rökstuðning sinn í þeim málum, þar sem kvörtunin gefur augljóslega, þegar í upphafi, ekki tilefni til nánari athugunar. Byggir nefndin þetta verklag sitt á svipuðum sjónarmiðum og fram koma í 1. mgr. 10. gr. laga nr. 13/1987 um umboðsmann Alþingis.“

Ég skil skýringar nefndarinnar svo að rökstutt álit hafi ekki verið gefið þar sem málið hafi verið afgreitt á grundvelli 2. gr. starfsreglna nefndarinnar, þ.e. að erindi A hafi verið byggt á röngum forsendum. Af þeim sökum tel ég ekki tilefni til athugasemda við það að niðurstaða nefndarinnar hafi ekki verið rökstudd. Á hinn bóginn tel ég að rétt hefði verið að nefndin hefði tekið fram í niðurstöðu sinni að rökstutt álit yrði ekki gefið á grundvelli 2. gr. starfsreglnanna þar sem erindið teldist byggt á röngum forsendum.

Um það kvörtunarefni að nefndin hafi ekki staðið við loforð um að taka mál A upp á nýjan leik kemur fram í svarbréfi nefndarinnar til mín að hún kannast ekki við að hafa gefið slíkt loforð. Um þetta stendur því staðhæfing gegn staðhæfingu og engin efni eru til að taka afstöðu til þess hvor er rétt. Hins vegar ber að benda á það að hvergi kemur fram hjá nefndinni að hún hafi synjað A um að skoða mál hennar á nýjan leik og verður því að telja að A geti enn látið reyna á afstöðu nefndarinnar til slíkrar beiðni.

Í kvörtun A til umboðsmanns kemur ekki fram að hún beinist að því að henni hafi ekki verið gefið tækifæri til þess að fylgja munnlega eftir kvörtun sinni til nefndarinnar, þegar hún var þar til afgreiðslu, en það tækifæri mun hún ekki hafa fengið. Var þó í niðurlagi bréfs lögmanns A til nefndarinnar sérstaklega tekið fram að hún „færi þess á leit að koma til viðtals við nefndina til að gera ítarlegar grein fyrir kvörtunum sínum“.

Vegna þess hvernig kvörtun A til umboðsmanns er úr garði gerð innti ég nefndina ekki sérstaklega eftir afstöðu hennar til þessa atriðis. Í viðtali A við mig, sem fyrr er greint frá, gerði hún athugasemd við að hafa ekki fengið tækifæri til þess að tjá sig munnlega fyrir nefndinni.

Bæði formaður nefndarinnar og A hafa tjáð mér að þau hafi átt viðræður saman eftir að nefndin skilaði áliti sínu.

Þrátt fyrir það hvernig kvörtun A er fram sett þykir ástæða til að taka afstöðu til þessa álitaefnis.

Í 2. mgr. 4. gr. starfsreglna nefndarinnar er tekið fram að aðilar að kvörtunum og kærumálum skuli fá færi á því að fylgja þeim eftir munnlega og með fulltingi sérfróðra umboðsmanna sýnist þeim svo. Þar sem þess var óskað sérstaklega af hálfu A að hún fengi að koma til viðtals við nefndina til þess að gera grein fyrir sjónarmiðum sínum tel ég að nefndinni hafi borið að verða við því enda er andmælaréttur aðila skv. 2. mgr. 4. gr. starfsreglna nefndarinnar í engu háður því hvort nefndin hefur í hyggju að afgreiða mál á grundvelli 2. gr. starfsreglnanna eða ekki.

Samkvæmt framansögðu tel ég það aðfinnsluvert að ekki var orðið við ósk A um að hún fengi að tjá sig sérstaklega fyrir nefndinni áður en mál hennar var afgreitt.

IV.

Niðurstöður.

Samkvæmt framansögðu er það niðurstaða mín að ekki sé ástæða til þess að gera athugasemdir við það að niðurstaða nefndar um ágreiningsmál samkvæmt lögum nr. 97/1990, um heilbrigðisþjónustu, hafi ekki verið rökstudd, þar sem málið var afgreitt á grundvelli 2. gr. starfsreglna nefndarinnar. Á hinn bóginn tel ég að rétt hefði verið að nefndin hefði tekið fram í niðurstöðu sinni að rökstutt álit yrði ekki gefið þar sem erindið teldist byggt á röngum forsendum, sbr. 2. gr. starfsreglnanna.

Þá tel ég það aðfinnsluvert að nefndin gaf A ekki kost á því að tjá sig sérstaklega fyrir nefndinni áður en hún afgreiddi málið.

Staðhæfing stendur gegn staðhæfingu um það hvort nefndin hafi lofað að taka mál A til meðferðar á ný. Rétt er að benda sérstaklega á að hvergi kemur fram hjá nefndinni að hún hafi synjað A um að skoða mál hennar á nýjan leik og verður því að telja að hún geti enn látið reyna á afstöðu nefndarinnar til slíkrar beiðni.

Hvað sem því líður getur A látið reyna á það sérstaklega með nýju erindi hvort nefndin sé reiðubúin til þess að taka málið á ný til meðferðar í ljósi þeirra athugasemda sem gerðar hafa verið hér að framan við meðferð nefndarinnar á máli hennar.“