Almannatryggingar. Sambúð í skilningi 44. gr. almannatryggingalaga. Tillit til tekna maka. Tekjutrygging. Frekari uppbætur skv. 10. gr. laga nr. 118/1993, um félagslega aðstoð. Rannsóknarreglan.

(Mál nr. 2259/1997)

A kvartaði yfir úrskurði tryggingaráðs þar sem kröfu hennar um greiðslu tekjutryggingar og uppbótar óháð tekjum B var hafnað. A var metin 75% öryrki frá 1. nóvember 1995 og naut örorkulífeyris, tekjutryggingar og uppbótar frá Tryggingastofnun ríkisins. A og B skildu að borði og sæng 1986 og lögskilnaði 1989. Frá 1. ágúst 1990 höfðu þau hins vegar verið skráð til sama heimilis. Var A tilkynnt 1. júlí 1996 að greiðsla uppbótar til hennar félli niður vegna tekna B frá og með 1. ágúst 1996.

Niðurstaða tryggingaráðs var byggð á því að sambúð A og B veitti þeim, á grundvelli 44. gr. almannatryggingalaga nr. 117/1993, sama rétt og hjónum til bóta samkvæmt lögunum. Því skyldi tekið tillit til tekna B við ákvörðun tekjutryggingar A, sbr. 4. gr. reglugerðar nr. 485/1995, um tekjutryggingu samkvæmt lögum um almannatryggingar og við ákvörðun uppbótar skv. 10. gr. laga nr. 118/1993, um félagslega aðstoð.

Umboðsmaður sagði úrlausn málsins lúta að því hvort líta bæri á búsetu A og B sem sambúð í skilningi 44. gr. almannatryggingalaga þannig að þau nytu réttinda almannatrygginga sem hjón og, ef svo væri, hvort lagaheimild væri til skerðingar tekjutryggingar og uppbótar vegna tekna maka.

Umboðsmaður rakti fyrst ákvæði 44. gr. almannatryggingalaga, sögu þess og ummæli í lögskýringargögnum því fylgjandi. Hann tók fram að ekki yrði séð að réttur skv. 1. mgr. 44. gr. tæki til sambúðar, sem ekki teldist til óvígðrar sambúðar, samkvæmt skilgreiningu þess hugtaks. Umboðsmaður skildi niðurstöðu tryggingaráðs svo, að það liti svo á, með vísan til 3. mgr. 44. gr. almannatryggingalaga, að sameiginlegt lögheimili lengur en í eitt ár jafngilti skráningu í sambúð án tillits til forsendna sambúðarinnar, þ.e. hvort jafna mætti henni við sambúð hjóna. Umboðsmaður taldi hins vegar að túlka yrði ákvæði 3. mgr. 44. gr. með hliðsjón af ákvæði 1. mgr. sömu greinar. Samkvæmt henni hefðu karl og kona í óvígðri sambúð sama rétt til bóta og hjón, en önnur sambúðarform hefðu ekki sömu réttaráhrif. Taldi umboðsmaður efni ákvæðisins það að heimilt væri að taka tillit til annarra gagna en skráningar í þjóðskrá, en ekki að í ákvæðinu fælist heimild til þess að þeir, sem hafa átt sameiginlegt lögheimili í tiltekinn tíma, fengju, án tillits til forsendna sambúðar, sjálfkrafa, réttarstöðu hjóna skv. lögum um almannatryggingar. Var það skoðun hans að sameiginlegt lögheimili karls og konu leiddi ekki sjálfkrafa til þess að sambúð þeirra yrði lögð að jöfnu við skráningu í óvígða sambúð, og þar með hjúskap, við ákvörðun um rétt skv. almannatryggingalögum. Vísaði umboðsmaður til dóms Hæstaréttar, H 1993:1156, þessu til stuðnings.

Niðurstaða umboðsmanns var að ljóst væri að úrskurður tryggingaráðs hefði ekki verið byggður á mati á því hvort um hefði verið að ræða sambúð, er jafna mætti til hjúskapar. Það hefði tryggingastofnun borið að athuga sérstaklega, sbr. 10. gr. stjórnsýslulaga, áður en ákveðið var að fella niður uppbót og tekjutryggingu A.

Að því er varðaði skerðingu tekjutryggingar vegna tekna maka vísaði umboðsmaður til álits síns í máli nr. 1815/1996 (sjá kafla 1.1 hér að framan) þar sem hann komst að þeirri niðurstöðu, að ákvæði 4. gr. reglugerðar nr. 485/1995 færu ekki í bága við lög. Hvort slík skerðing væri heimil í þessu máli réðist af því hvort A og B teldust sambúðarfólk í skilningi 1. mgr. 44. gr. almannatryggingalaga eða ekki. Því taldi umboðsmaður að ekki hefðu verið forsendur til ákvörðunar um að fella niður tekjutryggingu A á grundvelli tekna B.

Að því er varðaði uppbætur skv. 10. gr. laga nr. 118/1993, um félagslega aðstoð, rakti umboðsmaður ákvæði 8. og 9. gr. reglugerðar nr. 59/1996, um heimilisuppbót, sérstaka heimilisuppbót og frekari uppbætur skv. 9. og 10. gr. laga nr. 118/1993. Hann rakti að bætur samkvæmt lögum um félagslega aðstoð greiddust eingöngu þeim, sem uppfylltu skilyrði laganna og reglugerða, sem settar eru með stoð í þeim. Réttur lífeyrisþega til uppbótar skv. 10. gr. laga nr. 118/1993 væri háður mati á því, hvort honum væri unnt að framfleyta sér án hennar. Skv. 2. málsl. 2. mgr. 1. gr. laganna væri í reglugerð heimilt að tengja greiðslu bótanna við tekjur, aðrar en húsaleigubætur. Sambúð gæti og haft áhrif á hámark uppbótar lífeyrisþega sbr. 9. gr. reglugerðarinnar. Í reglugerðinni væri hins vegar ekki mælt fyrir um, að tekjur annarra en bótaþega hefðu áhrif á rétt hans til uppbótar, sbr. hins vegar 1. mgr. 8. gr. Það var skoðun umboðsmanns að ekki væri fyrir hendi heimild til að taka tillit til tekna maka eða annars sambúðarfólks við mat skv. 10. gr. laga nr. 118/1993.

Beindi umboðsmaður þeim tilmælum til tryggingaráðs að það tæki mál A til athugunar að nýju, óskaði hún þess, eftir atvikum að teknu tilliti til jafnræðisreglu stjórnsýslulaga og að fengnum heimildum til öflunar þeirra gagna sem nauðsynleg þættu.

I.

Hinn 1. október 1997 leitaði til mín C, héraðsdómslögmaður, fyrir hönd A. Beinist kvörtunin að úrskurði tryggingaráðs frá 2. maí 1997, þar sem hafnað er kröfu A um greiðslu tekjutryggingar og uppbótar óháð tekjum B.

II.

Samkvæmt gögnum málsins eru málavextir þeir, að A var metin 75% örorka frá 1. nóvember 1995 og naut hún örorkulífeyris, tekjutryggingar og uppbótar frá Tryggingastofnun ríkisins. A og B skildu að borði og sæng árið 1986 og lögskilnaði 21. júlí 1989. Þau hafa hins vegar verið skráð til sama heimilis frá 1. ágúst 1990. Samkvæmt bréfi Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 1. júlí 1996, var A tilkynnt, að greiðsla uppbótar til hennar félli niður frá og með 1. ágúst 1996 vegna tekna. Í bréfi tryggingastofnunar til A, dags. 29. júlí 1996, segir:

„Hinn 14. nóvember 1995 undirritaði eiginmaður yðar [B] tekjuyfirlýsingu í lífeyristryggingadeild Tryggingastofnunar ríkisins.

Megininntak hennar var að laun [B] hefðu fallið 1.12.95.

Með undirrituninni skuldbatt hann sig til að láta vita ef einhverjar breytingar yrðu á tekjum ykkar.

Samkvæmt staðgreiðsluskrá Ríkisskattstjóra hefur [B] byrjað að vinna í janúar 1996, en engin tilkynning um það hefur borist Tryggingastofnun ríkisins.

Því er ljóst að þér hafið fengið ofgreidda tekjutryggingu og uppbót frá 1. janúar s.l.

Greiðslum á tekjutryggingar og uppbótar hefur því verið hætt frá 1. ágúst.

Vinsamlega hafið samband við undirritaðan til að semja um hvernig endurgreiðslu á ofgreiddum bótum verður háttað.“

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins var kærð til tryggingaráðs með bréfi, dags. 14. janúar 1997. Um málsatvik segir meðal annars svo í kæru A:

„Er [A] missti síðar heilsuna vegna krabbameins fyrir fáum árum fluttu þau saman á ný til að hún byggi ekki ein. Hins vegar var þar ekki um að ræða sambúð í skilningi laga og réttar þar sem ekkert samlíf var með þeim né sameiginlegt fjárfélag heldur annaðist hvort um sig um sín mál. [...]

Í tilkynningu Tryggingastofnunar dags. 29. júlí er látið liggja að sviksamlegu athæfi [B] og umbjóðanda míns. Hið rétta er að starfsmaður Tryggingastofnunar sem fyllti út skjal, sem ber yfirskriftina „Yfirlýsing um tekjur" og fylgdi bréfi stofnunarinnar, hefur farið býsna frjálslega með útfyllingarheimildir sínar að mati [A] og [B]. Eins og skjalið ber með sér er eina áletrunin sem frá [B] stafar á skjalinu undirritun hans „f.h. [A].“ Annað hefur starfsmaðurinn fyllt út. [B] staðhæfir að starfsmaðurinn hafi fyllt út nafn [B] sem maka eftir að hann undirritaði skjalið enda algerlega andstætt sannleikanum og hans viðhorfi til sambýlis þeirra, hans og [A], að tilgreina hann sem maka.“

Þá segir í kærunni, að ekki hafi verið gætt tiltekinna ákvæða stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Þá er því haldið fram, að hvorki A né B hafi verið krafin sagna um launatekjur B á árinu 1996, hann hafi ekki veitt heimild til að leita slíkra upplýsinga og ekki sé lagaheimild til handa starfsmönnum tryggingastofnunar til þess að afla slíkra upplýsinga af sjálfsdáðum.

Í forsendum og niðurstöðu tryggingaráðs í málinu er vísað til 44. gr. laga nr. 117/1993, um almannatryggingar. Er það álit tryggingaráðs, að ákvæði 3. mgr. 44. gr. laganna eigi við í málinu, þar sem A og B hafi átt sameiginlegt lögheimili frá 1. ágúst 1990 þótt þau væru ekki skráð í sambúð. Þau teljist því sambúðarfólk og hafi sama rétt til bóta og hjón. Skuli því leggja saman tekjur sambýlisfólks við útreikning tekjutryggingar, sbr. 2. og 3. mgr. 4. gr. reglugerðar nr. 485/1995, um tekjutryggingu samkvæmt lögum um almannatryggingar nr. 117/1993.

Um greiðslu uppbótar segir svo í úrskurðinum:

„Ákvæði um greiðslu frekari uppbóta er í 10. gr. laga um félagslega aðstoð nr. 118/1993. Þar segir:

„Heimilt er að greiða frekari uppbætur til elli- og örorkulífeyrisþega ef sýnt þykir að lífeyrisþegi geti ekki framfleytt sér án þess.“

og í reglugerð nr. 59/1996 sem fjallar nánar um greiðslu uppbóta segir í 1. mgr. 8. gr.:

„Heimilt er að greiða frekari uppbætur til elli- og örorkulífeyrisþega ef sýnt þykir að lífeyrisþegi geti ekki framfleytt sér án þess. Við mat á því hvort lífeyrisþegi geti framfleytt sér skal tekið tillit til eigna, svo og annarra tekna bótaþega þar á meðal bóta almannatrygginga og félagslegrar aðstoðar sveitarfélaga eða annarra aðila og eignatekna.“

Í ofangreindum ákvæðum er ekki tekið sérstaklega fram að tekjur maka eða sambýlings skipti máli við ákvörðun uppbótar, en með hliðsjón af öðrum ákvæðum um örorkulífeyri og tengdar bætur verður að telja eðli máls samkvæmt að tekjur maka skipti máli varðandi mat á uppbót.

Varðandi heimildir lífeyristryggingadeildar til að kanna tekjur [A] skv. skattframtölum þá liggur fyrir að [A] undirritaði slíka heimild með umsókn sinni um bætur.

Lífeyristryggingadeild hefur ekki farið að ströngustu ákvæðum stjórnsýslulaga við meðferð og afgreiðslu þessa máls. Það verður þó ekki talið valda ógildingu ákvörðunar deildarinnar.

Fyrir mistök láðist að afla heimildar [B] um upplýsingar úr skattframtölum og er það harmað.“

Kvörtun A lýtur að meðferð málsins hjá Tryggingastofnun ríkisins og efnislegri niðurstöðu tryggingaráðs. Að því er fyrra atriðið snertir, segir í kvörtuninni, að ákvarðanir tryggingastofnunar hafi falist í tilkynningum um niðurfellingu bóta, án þess að henni hafi verið gefinn kostur á að koma á framfæri sjónarmiðum sínum þar að lútandi. Þá hafi stofnunin ekki sinnt leiðbeiningarskyldu í málinu auk þess sem tryggingaráð hafi ekki gætt jafnræðis við afgreiðslu máls hennar. Loks er gerð athugasemd við vinnulag stofnunarinnar að því er snertir öflun upplýsinga um fjárhagslega hagi B.

Um efnislega niðurstöðu tryggingaráðs í málinu segir meðal annars svo í kvörtuninni:

„Í úrskurði tryggingaráðs er með óbeinum hætti komist að þeirri niðurstöðu að [A] eigi ekki rétt á tekjutryggingu vegna tekna [B]. Úrskurðurinn er ekki afdráttarlaus um þetta efni hvað röksemdir snertir. Þar segir:

„[...] Í skilningi almannatryggingalaga teljast þau því sambúðarfólk og hafa sama rétt til bóta og hjón og skal leggja saman tekjur sambýlisfólks við útreikning tekjutryggingar.“

Án þess að það komi fram í úrskurðinum virðist tryggingaráð komast að þeirri niðurstöðu að tekjur [B], þegar þær eru lagðar við tekjur [A], nægi til þess að svipta hana rétti til tekjutryggingar.

Í þessu sambandi skal fyrst áréttað að á engu stigi málsmeðferðar Tryggingastofnunar hefur komið fram hvernig útreikningsdæmi þetta lítur út þ.e. hve miklar tekjurnar eru samanlagt í krónum talið. Það eitt að [B] hafi „logið“ að stofnuninni virðist nægja til að [A] standi réttlaus eftir.“

Þá er því haldið fram í kvörtuninni, að hvergi í lögum sé heimild fyrir því að skerða tekjutryggingu og uppbót á lífeyri á grundvelli tekna maka. Ákvæði 4. gr. reglugerðar nr. 485/1995, um tekjutryggingu samkvæmt lögum um almannatryggingar nr. 117/1993, eigi sér ekki lagastoð. Þá sé í 1. mgr. 8. gr. reglugerðar nr. 59/1996, um heimilisuppbót, sérstaka heimilisuppbót og frekari uppbætur samkvæmt 9. og 10. gr. laga nr. 118/1993, um félagslega aðstoð, einungis rætt um rétt lífeyrisþega og eignir hans og tekjur. Tekna maka sé í engu getið í ákvæðinu.

Þá segir í kvörtuninni, að því sé ekki haldið fram í málinu, að A og B búi ekki undir sama þaki, en því hins vegar mótmælt að Tryggingastofnun ríkisins „gifti“ þau og „titli" B sem maka A. Síðan segir:

„Þau hafi algerlega aðskilinn fjárhag og hvorugt [sé] framfærsluskylt gagnvart hinu. Í annan stað er hún ekki sátt við það að hennar réttindi séu skert eingöngu á grundvelli þess að þau [B] hafi verið gift áður og/eða af þeirri ástæðu að hann er af gagnstæðu kyni og óskyldur henni. Ef aðstæður hefðu verið slíkar hefði staðan allt eins getað verið sú að [A] hefði búið í skjóli systkina eða barna sinna en í slíku tilviki hefði hún notið óskerts bótaréttar. Telur hún sig því ekki njóta jafnræðis á við fólk sem þannig er ástatt um.“

III.

Ég ritaði tryggingaráði bréf 8. október 1997, þar sem þess var óskað, sbr. 7. og 9. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, að tryggingaráð léti mér í té gögn málsins og skýrði viðhorf sitt til kvörtunarinnar.

Umbeðin gögn bárust mér með bréfi tryggingaráðs, dags. 12. nóvember 1997. Samkvæmt bréfinu telur tryggingaráð viðhorf sitt til kvörtunarinnar koma fram í úrskurði kærumálsins.

IV.

Í áliti mínu, dags. 9. júní 1998, sagði svo:

„Eins og rakið hefur verið hér að framan, er niðurstaða tryggingaráðs í máli þessu á því byggð, að sambúð A og B veiti þeim, á grundvelli 44. gr. laga nr. 117/1993, um almannatryggingar, sama rétt og hjónum til bóta samkvæmt lögunum. Því skuli tekið tillit til tekna B við ákvörðun tekjutryggingar A, sbr. 4. gr. reglugerðar nr. 485/1995, um tekjutryggingu samkvæmt lögum um almannatryggingar nr. 117/1993, og við ákvörðun uppbótar samkvæmt 10. gr. laga nr. 118/1993, um félagslega aðstoð.

Úrlausn málsins lýtur samkvæmt framansögðu að því, hvort líta beri á búsetu þeirra sem sambúð í skilningi umræddrar 44. gr. þannig að þau njóti réttinda almannatryggingalaga sem hjón og, ef svo er, hvort lagaheimild sé til skerðingar tekjutryggingar og uppbótar vegna tekna maka.

1.

44. gr. laga nr. 117/1993 hljóðar svo:

„Sama rétt til bóta og hjón hafa samkvæmt lögum þessum einnig karl og kona sem eru í óvígðri sambúð er skráð hefur verið í þjóðskrá lengur en eitt ár. Sama rétt hafa karl og kona sem átt hafa saman barn eða konan er þunguð af hans völdum, enda sé óvígð sambúð þeirra skráð í þjóðskrá. Sama gildir um bótarétt þess sem eftir lifir.

Slíkt sambúðarfólk öðlast aldrei meiri bótarétt en þau hefðu haft ef þau væru hjón. Þó er heimilt að greiða sambúðaraðila slysabætur.

Sameiginlegt lögheimili eða sambúð eftir öðrum ótvíræðum gögnum lengur en eitt ár skal lagt að jöfnu við skráningu sambúðar í þjóðskrá.“

Ákvæði sambærilegt 1. og 2. mgr. 44. gr. var í 60. gr. laga nr. 24/1956, um almannatryggingar. Í athugasemdum með frumvarpinu segir um 60. gr.:

„Athygli skal vakin á því, að reglan um, að sambúðarfólk skuli hafa sömu réttarstöðu og hjón gildir aðeins hvað snertir réttindin, en ekki skyldurnar, sbr. 27. gr. Þess vegna myndi ógift sambúðarkona greiða sjálfstætt iðgjald til lífeyristryggingarinnar, en sæta skerðingu lífeyris, skv. 22. gr. vegna tekna sambúðarmanns og hjónaleysin aðeins fá hjónalífeyri, en ekki tvöfaldan einstaklingalífeyri. – Til þessa liggur m.a. sú ástæða, að reynslan sýnir, að það vill brenna við, að karl og kona, sem búa saman, telja sig búa í hjónasambúð, þegar það er hagstætt, en konuna ráðskonu eða annaðhvort leigjanda hjá hinu, þegar það veitir betri rétt. – Það verður og að teljast þjóðfélagslega hollt, að það sé hagstæðara að ganga í hjónaband en að búa í sambúð, án vígslu.“(Alþt. 1955, A-deild, bls. 527.)

1. mgr. 44. gr. veitir sambúðarfólki sömu stöðu fyrir lögunum og hjónum. Með vísan til orðalags 1. mgr. 44. gr. og framangreindra athugasemda tel ég ljóst, að ákvæðinu sé ætlað að taka til sambúðarforms, sem jafna megi til hjúskapar. Verður því ekki séð, að réttur samkvæmt 1. mgr. 44. gr. taki til sambúðar, sem ekki telst til óvígðrar sambúðar, samkvæmt skilgreiningu þess hugtaks. Ákvæðið tekur samkvæmt framansögðu ekki til aðila, sem búa saman á öðrum forsendum en að framan greinir.

Samkvæmt 3. mgr. 44. gr. skal sameiginlegt lögheimili eða sambúð eftir öðrum ótvíræðum gögnum lengur en eitt ár lagt að jöfnu við skráningu sambúðar í þjóðskrá. Ákvæðið kom inn sem 3. mgr. 52. gr. laga um almannatryggingar, sbr. 10. gr. laga nr. 104/1992, um breytingu á lögum um almannatryggingar, nr. 67/1971, með síðari breytingum. Auk framangreindrar breytingar á 52. gr., var biðtíma frá skráningu sambúðar í þjóðskrá breytt úr tveimur árum í eitt. Í greinargerð með frumvarpi því, sem varð að lögum nr. 104/1992, kemur fram, að í ákvæðinu séu gerðar nauðsynlegar breytingar á 52. gr. laga um almannatryggingar vegna styttingar biðtíma úr tveimur árum í eitt ár. (Alþt. 1992–93, A-deild, bls. 2769.) Frekari skýringar eru ekki í lögskýringargögnum um tilkomu ákvæðis 3. mgr.

Samkvæmt úrskurði tryggingaráðs er niðurstaða í málinu byggð á því, að þar sem A og B hafi átt sameiginlegt lögheimili lengur en eitt ár, beri samkvæmt. 3. mgr. 44. gr. að líta á þau sem sambúðarfólk, þó að þau hafi ekki verið skráð í sambúð. Hafi þau því sama rétt og hjón til bóta. Ég skil niðurstöðu tryggingaráðs svo, að það líti svo á, að sameiginlegt lögheimili lengur en í eitt ár jafngildi skráningu sambúðar í þjóðskrá, án tillits til forsendna sambúðarinnar, þ.e. hvort jafna megi henni við sambúð hjóna. Ég tel hins vegar, að túlka verði ákvæði 3. mgr. 44. gr. með hliðsjón af ákvæði 1. mgr. sömu greinar. Eins og að framan greinir, tekur 1. mgr. 44. gr. til karls og konu í óvígðri sambúð og veitir þeim, að tilteknum skilyrðum uppfylltum, sama rétt til bóta samkvæmt lögunum og hjónum. Annað sambúðarform hefur ekki sömu réttaráhrif. Í ljósi þessa og orðalags 3. mgr. 44. gr. tel ég efni ákvæðisins það, að heimilt sé að taka tillit til annarra gagna en skráningar sambúðar í þjóðskrá við mat á því, hvort til slíkrar sambúðar hafi verið stofnað, sem er grundvöllur réttar skv. 1. mgr. Í því felist hins vegar ekki heimild til þess að þeir, sem átt hafa sameiginlegt lögheimili í tiltekinn tíma, fái, án tillits til forsendna sambúðar, réttarstöðu hjóna samkvæmt lögum um almannatryggingar. Samkvæmt framansögðu er það skoðun mín, að sameiginlegt lögheimili karls og konu leiði ekki sjálfkrafa til þess, að sambúð þeirra verði lögð að jöfnu við skráningu óvígðrar sambúðar og þar með hjúskap, við ákvörðun um rétt þeirra til bóta samkvæmt almannatryggingalögum. Vísa ég hér jafnframt til niðurstöðu Hæstaréttar í málinu nr. 275/1990 (Hrd. 1993:1156), þar sem segir, að þótt óbreytt lögheimili hjóna til frambúðar eftir skilnað kunni að jafnaði að vera til marks um, að sambúð þeirra haldist, verði ekki að óathuguðu máli fullyrt, að því geti ekki í einstökum tilvikum verið á annan veg háttað. Að mínum dómi geymir 3. mgr. 44. gr. aðeins reglu um tilteknar löglíkur á grundvelli ákveðinna atvika, sem þar eru tilgreind. Sú regla leysi hins vegar ekki viðkomandi stjórnvöld undan skyldu til að kanna og leysa úr því, hvort önnur gögn leiði til þeirrar niðurstöðu, að ekki sé um að ræða sambúð, sem falli undir 1. mgr. 44. gr.

Í máli þessu liggur fyrir, að um sameiginlegt lögheimili fyrrverandi hjóna var að ræða. Er því haldið fram, að sambúð þeirra megi rekja til þarfar A á aðstoð vegna veikinda hennar, en hvort um sig annist að öðru leyti um sín mál. Eins og máli þessu er háttað, er það skoðun mín, með vísan til niðurstöðu minnar hér að framan, að úrlausn þess byggist fyrst og fremst á því, hvort um sambúð, sem jafna megi til hjúskapar, hafi verið að ræða. Með vísan til forsendna tryggingaráðs í málinu tel ég ljóst, að niðurstaða þess hafi ekki verið byggð á slíku mati. Hafi mál A verið óljóst um þetta atriði, bar Tryggingastofnun ríkisins að athuga sérstaklega, hvort hún og B hafi haft samstöðu sambúðarfólks í þeim skilningi, sem að framan greinir, áður en tekin var ákvörðun um að fella niður tekjutryggingu og uppbót til hennar á grundvelli tekna B, sbr. 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

2.

Að því er snertir skerðingu tekjutryggingar vegna tekna maka tek ég fram, að í áliti mínu frá 13. apríl 1998 í málinu nr. 1815/1996 var það niðurstaða mín, að ákvæði 4. gr. reglugerðar nr. 485/1995 færu ekki í bága við lög. Teljist A og B sambúðarfólk í skilningi 1. mgr. 44. gr. laga nr. 117/1993, njóta þau ekki rýmri réttar en hjón til bóta, sbr. 2. mgr. 44. gr. Verður því að telja úrlausn þessa þáttar háða ákvörðun um stöðu A og B, sbr. IV. kafla 1 hér að framan.

3.

Í 10. gr. laga nr. 118/1993, um félagslega aðstoð, er fjallað um frekari uppbætur til elli- og örorkulífeyrisþega. Þar segir:

„Heimilt er að greiða frekari uppbætur til elli- og örorkulífeyrisþega ef sýnt þykir að lífeyrisþegi geti ekki framfleytt sér án þess.“

Nánari reglur um slíkar uppbætur eru í 8.–10. gr. reglugerðar nr. 59/1996, um heimilisuppbót, sérstaka heimilisuppbót og frekari uppbætur samkvæmt 9. og 10. gr. laga nr. 118/1993, um félagslega aðstoð, sbr. 1. og 2. gr. reglugerðar nr. 245/1996, um breytingu á þeirri reglugerð. Í 8. og 9. gr. reglugerðarinnar segir:

„8. gr.

Heimilt er að greiða frekari uppbætur til elli- og örorkulífeyrisþega ef sýnt þykir að lífeyrisþegi geti ekki framfleytt sér án þess. Við mat á því hvort lífeyrisþegi geti framfleytt sér skal taka tillit til eigna og tekna bótaþega, þar á meðal bóta almannatrygginga og kostnaðar, sbr. 2. mgr. Frekari uppbætur skulu þó aldrei greiddar til lífeyrisþega sem á eignir í peningum eða verðbréfum yfir 2.500.000 kr., eða hefur heildartekjur, að meðtöldum bótum almannatrygginga yfir 75.000 kr. á mánuði.

Frekari uppbætur er heimilt að greiða vegna:

1. Mikils umönnunarkostnaðar, sem heimilishjálp eða aðrir opinberir aðilar greiða ekki.

2. Verulegs sjúkra- eða lyfjakostnaðar, sem sjúkratryggingar greiða ekki.

3. Húsaleigu sem fellur utan húsaleigubóta.

4. Vistunarkostnaðar á dvalarheimilum, stofnunum svo og sambýlum og áfangastöðum, sem fengið hafa starfsleyfi frá ráðuneyti.

9. gr.

Hámark uppbótar skal vera sem hér segir:

1. Lífeyrisþegi, sem er í hjúskap eða óvígðri sambúð: 90%.

2. Lífeyrisþegi, sem býr einn og er á eigin vegum og nýtur heimilisuppbótar: 70%.

3. Lífeyrisþegi, sem er einhleypur og nýtur umönnunar: 120%.

4. Lífeyrisþegi, sem nýtur sérstakrar heimilisuppbótar: 35%.

Ef einhleypur lífeyrisþegi, sem nýtur umönnunar, getur sýnt fram á verulegan umönnunar-, sjúkra- eða lyfjakostnað sem sjúkratryggingar greiða ekki, og/eða greiðir húsaleigu, er þó heimilt að greiða honum allt að 140% uppbót. Heimilt er að greiða lífeyrisþega sem nýtur sérstakrar heimilisuppbótar og frekari uppbótar skv. 2. og 3. tl. 8. gr. allt að 40% uppbót.“

Í úrskurði tryggingaráðs segir, að ekki sé í ákvæðum framangreindra laga og reglugerðar tekið sérstaklega fram, að tekjur maka eða sambýlings skipti máli við ákvörðun uppbótar, en með hliðsjón af öðrum ákvæðum um örorkulífeyri og tengdar bætur verði að telja eðli máls samkvæmt að tekjur maka skipti máli varðandi mat á uppbót.

Samkvæmt 13. gr. laga nr. 118/1993 skulu ákvæði laga um almannatryggingar gilda um bætur félagslegrar aðstoðar eftir því sem við á, meðal annars um kærurétt til tryggingaráðs og um hækkun bóta. Bætur félagslegrar aðstoðar greiðast hins vegar eingöngu þeim, sem uppfylla skilyrði laganna og reglugerða, sem settar eru með stoð í þeim, sbr. 1. gr. laganna. Tel ég því ljóst, að bótaréttur samkvæmt 10. gr. laga nr. 118/1993 verði aðeins ákveðinn á grundvelli skilyrða þeirra laga.

Eins og rakið hefur verið hér að framan, er réttur lífeyrisþega til uppbótar samkvæmt 10. gr. laga nr. 118/1993 háður mati á því, hvort honum sé unnt að framfleyta sér án hennar. Samkvæmt 2. málsl. 2. mgr. 1. gr. laganna er í reglugerð heimilt að tengja greiðslu bótanna við tekjur, aðrar en húsaleigubætur, eftir því sem við á. Í reglugerð, sem sett er samkvæmt 13. gr. laganna, segir, að við slíkt mat skuli taka tillit til eigna og tekna bótaþega, sbr. 1. mgr. 8. gr. reglugerðar nr. 59/1996, sbr. 1. gr. reglugerðar nr. 245/1996. Þá er í reglugerðinni ákveðið, hver áhrif hjúskapur eða óvígð sambúð skuli hafa á fjárhæð uppbótar, þannig að hámark uppbótar verði 90%, sbr. 1. tölul. 1. mgr. 9. gr. Hins vegar er hámark uppbótar til lífeyrisþega, sem er einhleypur og nýtur umönnunar, 120%, sbr. 3. tölul. 1. mgr. 9. gr., sbr. 2. gr. reglugerðar nr. 245/1996. Sambúð getur þannig haft áhrif á hámark uppbótar lífeyrisþega. Í reglugerðinni er hins vegar ekki mælt fyrir um, að tekjur annarra en bótaþega hafi áhrif á rétt hans til uppbótar, sbr. hins vegar tekjur bótaþega, sbr. 1. mgr. 8. gr. reglugerðarinnar. Með vísan til framangreinds er það skoðun mín, að ekki sé fyrir hendi heimild til að taka tillit til tekna maka eða annars sambúðarfólks við mat samkvæmt. 10. gr. laga nr. 118/1993. Er það því niðurstaða mín, að tekjur B hafi ekki áhrif á rétt A til frekari uppbótar samkvæmt 10. gr. laga nr. 118/1993, óháð því, hvort þau teljist í sambúð samkvæmt 1. kafla hér að framan.

4.

Í niðurstöðu tryggingaráðs í málinu kemur fram, að ráðið telur, að ekki hafi verið farið að ströngustu ákvæðum stjórnsýslulaga við meðferð og afgreiðslu málsins og að fyrir mistök hafi láðst að afla heimildar B um upplýsingar úr skattframtölum. Þá er í þeim gögnum, sem fyrir mig hafa verið lögð, ekki að finna útreikninga eða aðrar vísbendingar um, að ákvörðun í málinu hafi verið byggð á öðru en því, að um sambúð hafi verið að ræða, án tillits til raunverulegra tekna B. Loks tel ég rétt að geta þess, að tryggingaráð hefur ekki tekið afstöðu til þess atriðis í kvörtun A, að niðurstaða tryggingaráðs í máli hennar hafi ekki verið í samræmi við afgreiðslu ráðsins í öðru máli um rétt til frekari uppbótar á grundvelli þeirra laga og reglugerða, sem hér um ræðir. Verður því ekki leyst úr því atriði í áliti þessu.

V.

Samkvæmt framansögðu er það niðurstaða mín í máli þessu, að 3. mgr. 44. gr. laga nr. 117/1993, um almannatryggingar, verði ekki túlkuð svo, að sameiginlegt lögheimili karls og konu leiði sjálfkrafa til þess að líta beri á þau sem sambúðarfólk, sem hafi sama rétt til bóta og hjón samkvæmt 1. mgr. 44. gr. laganna. Tel ég því, að úrlausn þess, hvort fella beri niður bætur til handa A, sé háð því, hvort hún og B hafi samstöðu sambúðarfólks, og að leita hefði átt frekari upplýsinga, sbr. 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, hafi málið verið óljóst að þessu leyti. Með vísan til framangreinds tel ég, eins og máli þessu var háttað, að ekki hafi verið forsendur til ákvörðunar um að fella niður tekjutryggingu A á grundvelli tekna B.

Að því er snertir greiðslu uppbótar samkvæmt 10. gr. laga nr. 118/1993, um félagslega aðstoð, er það niðurstaða mín, að slík uppbót sé ekki háð tekjum annarra en bótaþega.

Með vísan til framangreinds eru það tilmæli mín til tryggingaráðs, að það taki mál A til athugunar að nýju, ef ósk kemur um það frá henni, og hagi þá meðferð þess í samræmi við þau sjónarmið, sem gerð hefur verið grein fyrir í áliti þessu, eftir atvikum að teknu tilliti til jafnræðisreglu stjórnsýslulaga og að fengnum heimildum til öflunar þeirra gagna, sem nauðsynleg þykja til afgreiðslu þess.”

VI.

Með bréfi til tryggingaráðs, dags. 5. apríl 2000, óskaði ég eftir upplýsingum um hvort A hefði leitað til ráðsins á ný og þá hvort einhverjar ákvarðanir hefðu verið teknar í framhaldi af því. Þann 4. júlí s.á. ítrekaði ég þá beiðni.

Í svarbréfi tryggingaráðs frá 7. júlí 2000 kemur fram að C, héraðsdómslögmaður, f.h. A hafi óskað eftir endurupptöku máls hennar í samræmi við framangreint álit mitt með bréfi, dags. 15. júlí 1998. Í svari tryggingaráðs segir svo:

„[...]

Á fundi tryggingaráðs 9da júní 1999 var mál [A] tekið fyrir að nýju og ákvörðun lífeyristryggingadeildar frá 29da júlí 1996 felld úr gildi og málinu vísað til nýrrar afgreiðslu lífeyristryggingadeildar.

Með bréfi dags. 14da september 1999 sendi lífeyristryggingasvið (áður lífeyristryggingadeild) Tryggingastofnunar ríkisins [A] bréf er greindi frá fyrirhugaðri tilhögun á endurgreiðslu bóta til hennar. Í framhaldi af því var gert upp við [A] eftir að umbeðin gögn um hjúskaparstöðu höfðu verið lögð fram.“