Atvinnuleysistryggingar. Varðveisla réttar til atvinnuleysisbóta. EES-samningurinn. Vottorð E-303.

(Mál nr. 2235/1997)

A kvartaði yfir úrskurði úrskurðarnefndar atvinnuleysisbóta þar sem staðfest var sú ákvörðun Atvinnuleysistryggingasjóðs að hafna umsókn A um varðveislu réttar til atvinnuleysisbóta hjá Atvinnuleysistryggingasjóði á meðan A leitaði að atvinnu í öðru EES-landi, þ.e. útgáfu vottorðs E-303, Forsenda þessa var að A hefði ekki fengið greiddar atvinnuleysisbætur í samfelldar fjórar vikur fyrir brottfarardag.

A hafði sagt starfi sínu lausu 31. desember 1996 og sótt um atvinnuleysisbætur hjá Vinnumiðlun Reykjavíkur 23. apríl 1997. Hún hugðist flytja til Noregs 2. júlí sama ár og lagði því fram umsóknina.

Umboðsmaður rakti ákvæði 16.-20. gr. laga nr. 93/1993, um atvinnuleysistryggingar, og 15. gr. reglugerðar nr. 524/1996, um greiðslu atvinnuleysisbóta.

Þá rakti hann 69. og 83. gr. reglugerðar ráðsins (EBE) nr. 1408/71, um beitingu almannatryggingareglna gagnvart launþegum, sjálfstætt starfandi einstaklingum og aðstandendum þeirra, sem flytjast milli aðildarríkja, sbr. reglugerð ráðsins (EBE) nr. 2001/83, um breytingu og endurskoðun á þeirri reglugerð. Tók umboðsmaður fram að þær hefðu orðið hluti EES-samningsins með því að til þeirra var vísað í VI. viðauka samningsins.

Niðurstaða umboðsmanns var, að með vísan til orðalags 2. mgr. 15. gr. reglugerðar nr. 524/1996 yrði ekki séð að sömu tímaskilyrðum yrði beitt um önnur skilyrði en fram kæmu í a - c-liðum hennar, þ.e. atvinnuleysi, skráning hjá vinnumiðlun og að umsækjandi hafi verið reiðubúinn til að þiggja vinnu. Ekki yrði leitt af ákvæði 2. mgr. 15. gr. reglugerðar nr. 524/1996 að það sé skilyrði varðveislu réttar til atvinnuleysisbóta, á meðan leitað er að atvinnu í öðru EES-landi, að umsækjandi hafi notið atvinnuleysisbóta í fjórar vikur fyrir brottfarardag.

Beindi umboðsmaður þeim tilmælum til úrskurðarnefndar atvinnuleysisbóta að hún tæki mál A fyrir á ný, óskaði hún þess.

I.

Hinn 11. september 1997 leitaði til mín A. Kvartaði hún yfir úrskurði úrskurðarnefndar atvinnuleysisbóta frá 21. ágúst 1997, þar sem staðfest er sú ákvörðun Atvinnuleysistryggingasjóðs, að hafna umsókn hennar um varðveislu réttar til atvinnuleysisbóta hjá Atvinnuleysistryggingasjóði á meðan leitað væri að atvinnu í öðru EES-landi, þ.e. útgáfu vottorðs E-303. Beinist kvörtun A jafnframt að niðurstöðu úrskurðarnefndar atvinnuleysisbóta frá 6. ágúst 1997, sem lýtur að missi bótaréttar í 40 daga í upphafi bótatímabils.

II.

1.

Samkvæmt gögnum málsins sagði A starfi sínu hjá X lausu 31. desember 1996. Sótti hún um atvinnuleysisbætur hjá Vinnumiðlun Reykjavíkur 23. apríl 1997. Úthlutunarnefnd atvinnuleysisbóta fyrir Verslunarmannafélag Reykjavíkur taldi hana eiga bótarétt samkvæmt þágildandi lögum um atvinnuleysisbætur, lögum nr. 93/1993. Með vísan til þess, hvernig starfslok hennar bar að, skyldi hún hins vegar missa bótarétt í 40 bótadaga í upphafi bótatímabils samkvæmt 4. tölul. 21. gr. framangreindra laga. Niðurstaða úthlutunarnefndar var staðfest af úrskurðarnefnd atvinnuleysisbóta 6. ágúst 1997. Í úrskurðinum segir meðal annars svo:

"Samkvæmt þágildandi lögum um atvinnuleysistryggingar nr. 93/1993, eiga launamenn sem verða atvinnulausir rétt á atvinnuleysisbótum eftir því sem nánar er kveðið á um í lögunum. Er ljóst að þeir sem kjósa að segja starfi sínu lausu til að leita að annarri vinnu eiga rétt á atvinnuleysisbótum meðan sú atvinnuleit stendur yfir með sama hætti og þeir sem misst hafa atvinnu sína af öðrum ástæðum.

Ef umsækjandi um atvinnuleysisbætur getur ekki bent á aðrar ástæður uppsagnar en leit sína að annarri og/eða betur launaðri vinnu, verður hann að sæta því að bótaréttur hans sé felldur niður í 40 bótadaga í upphafi bótatímabils, sbr. 4. tl. 21. gr. laga nr. 93/1993. Eru núgildandi lög um atvinnuleysistryggingar nr. 12/1997, sams konar að efni til, sbr. 4. tl. 5. gr. þeirra laga um missi bótaréttar.

Ágreiningur launþega og vinnuveitanda um launakjör og/eða önnur starfsskilyrði, er oft gefin sem skýring umsækjanda fyrir uppsögn hans. Starfslok sem rekja má til slíkra atriða hafa hins vegar ekki þau áhrif að felld sé niður 40 bótadaga bið í upphafi bótatímabils. Sama hefur almennt þótt gilda þó að ósætti á vinnustað hafa verið ástæða starfsloka umsækjanda um atvinnuleysisbætur.

Þau tilvik sem talið hefur verið að féllu undir framangreinda undanþáguheimild eru t.d. þegar maki umsækjanda hefur farið til starfa í öðrum landshluta og fjölskyldan hafi af þeim sökum þurft að flytja búferlum. Búferlaflutningar fjölskyldu og uppsögn annars makans á sinni vinnu af þeim sökum hefur þannig verið metin sem gild ástæða í skilningi 4. tl. 21. gr. laga nr. 93/1993. Einnig hefur verið talið að heimildin gæti átt við ef uppsögn megi rekja til þess að umsækjandi, að öðru leyti vinnufær, hafi af heilsufarsástæðum sagt sig frá þeirri vinnu sem hann var í, að því tilskildu að vinnuveitanda hans hafi mátt vera kunnugt um þessar ástæður áður en hann lét af störfum.

Aðrar ástæður geta vissulega komið til greina í einstökum málum og talist gildar í skilningi 4. tl. 21. gr. Sú skylda hvílir hins vegar á manni sem sagt hefur upp starfi sínu að sanna að hið einstaklingsbundna mat hans á aðstæðum sínum innan fyrirtækisins sem leiddu til uppsagnar af hans hendi, megi túlka sem gildar ástæður í skilningi 4. tl. 21. gr. laga nr. 93/1993, sbr. nú í 4. tl. 5. gr. laga um atvinnuleysistryggingar nr. 12/1997. Hafi ástæður þær sem hann tilgreinir ekki þýðingu í skilningi laga um atvinnuleysistryggingar falla niður greiðslur bóta í 40 bótadaga í upphafi bótatímabils í samræmi við meginreglu 4. tl. 21. gr. laga nr. 93/1993.

[...]

Í gögnum þeim sem liggja fyrir úrskurðarnefnd atvinnuleysisbóta eru tvö bréf sem koma til skoðunar við mat á því hvort [...] kærandi hafi sýnt fram á að gildar ástæður hafi verið fyrir starfslokum hans í skilningi framangreindra lagaákvæða. Er þar annars vegar um að ræða bréf kæranda til úthlutunarnefndar sem að framan er lýst og uppsagnarbréf kæranda sem stílað er til starfsmannastjóra fyrrverandi vinnuveitanda hans. Er það álit úrskurðarnefndar að kærandi hafi ekki sýnt fram á með skýringum sínum fyrir uppsögn starfs hjá fyrrum vinnuveitanda sínum, að þær eigi að leiða til þeirrar niðurstöðu að gildar ástæður hafi verið fyrir starfslokum kæranda í skilningi 4. tl. 21. gr. þágildandi laga um atvinnuleysistryggingar."

2.

Í tilefni af fyrirhuguðum búferlaflutningum til Noregs 2. júlí 1997 lagði A fram umsókn um varðveislu réttar til greiðslu atvinnuleysisbóta á meðan leitað væri að atvinnu í öðru EES-landi. Umsókn hennar var hafnað með bréfi, dags. 29. júlí 1997, með vísan til þess, að hún hefði ekki fengið greiddar atvinnuleysisbætur í samfelldar fjórar vikur fyrir brottfarardag. Í bréfinu eru talin helstu skilyrði fyrir útgáfu vottorðs E-303. Í niðurstöðu úrskurðarnefndar atvinnuleysisbóta frá 21. ágúst 1997, í tilefni af kæru A á þessari ákvörðun, segir:

"Í 15. gr. reglugerðar um greiðslu atvinnuleysisbóta nr. 524/1996, eru talin upp þau skilyrði sem uppfylla verður, óski maður eftir því að fá atvinnuleysisbætur greiddar meðan hann leitar atvinnu í öðru EES-landi.

Nánar tiltekið verður maður að fullnægja almennum skilyrðum laga um atvinnuleysistryggingar til að fá greiddar bætur, vera ríkisborgari í EES-landi og hafa á fjórum næstliðnum vikum fyrir brottfarardag:

a. verið atvinnulaus

b. verið skráður samfellt hjá vinnumiðlun og

c. verið reiðubúinn að þiggja vinnu.

Hafi umsækjandi verið úrskurðaður af úthlutunarnefnd til missis bótaréttar í 40 bótadaga í upphafi bótatímabils samkvæmt 4. tl. 21. gr. laga um atvinnuleysistryggingar nr. 93/1993, telst viðkomandi ekki uppfylla almenn skilyrði laga um atvinnuleysistryggingar til að fá greiddar bætur. Verður sá biðtími að líða áður en viðkomandi getur byrjað að uppfylla framangreind skilyrði 15. gr.

Í bréfi kæranda til stjórnar Atvinnuleysistryggingasjóðs virðist á því byggt að nóg sé að uppfylla skilyrðið um skráningu hjá vinnumiðlun, sbr. b. lið 15. gr. reglugerðarinnar. Á þetta fellst úrskurðarnefndin ekki á. Er það ótvírætt skilyrði ákvæðisins að umsækjandi verður að uppfylla öll framangreind skilyrði til að njóta réttar samkvæmt því.

Í máli nr. 4/1997, sem kært var til úrskurðarnefndar atvinnuleysisbóta og kærandi vitnar til í bréfi sínu, var úrskurður úthlutunarnefndar fyrir Verslunarmannafélag Reykjavíkur í máli hans um missi bótaréttar í 40 bótadaga í upphafi bótatímabils samkvæmt 4. tl. 21. gr. staðfestur. Þar sem úrskurður þessi hafði þau áhrif að kærandi naut ekki atvinnuleysisbóta í fullar fjórar vikur fyrir brottfarardag, var Atvinnuleysistryggingasjóði rétt sbr. 15. gr. reglugerðar um greiðslu atvinnuleysisbóta nr. 524/1996, að hafna umsókn hennar um vottorð E-303.

Með vísan til framangreinds og niðurstöðu úrskurðarnefndar atvinnuleysisbóta í máli nr. 4/1997, er ákvörðun Atvinnuleysistryggingasjóðs um að hafna umsókn A um útgáfu vottorðs E-303, staðfest."

3.

Í kvörtun A gerir hún grein fyrir þeim atriðum og aðstæðum á vinnustað, sem leiddu til þess að hún sagði starfi sínu lausu. Telur hún, að starfslok sín hafi borið að með þeim hætti, að skilyrði 4. tölul. 21. gr. hafi verið uppfyllt. Hún hafi því ekki átt að missa bótarétt í fjörutíu daga í upphafi bótatímabils. Þá mótmælir hún því, að för hennar til Noregs í atvinnuleit leiði til þess, að hún fyrirgeri algerlega rétti til atvinnuleysisbóta.

III.

Ég ritaði úrskurðarnefnd atvinnuleysisbóta bréf 30. september 1997, þar sem þess var óskað, sbr. 7. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, að úrskurðarnefnd atvinnuleysisbóta léti mér í té gögn þeirra mála, sem kvörtunin lyti að. Umbeðin gögn bárust mér með bréfi, dags. 7. október 1997.

Ég ritaði úrskurðarnefnd atvinnuleysisbóta bréf á ný 3. nóvember 1997, þar sem þess var óskað, sbr. 7. og 9. gr. laga nr. 85/1997, að úrskurðarnefndin skýrði viðhorf sitt til kvörtunar A, að því er snerti úrskurð nefndarinnar frá 21. ágúst 1997, þar sem ákvörðun Atvinnuleysistryggingasjóðs um að hafna umsókn hennar um útgáfu vottorðs E-303 er staðfest. Sérstaklega var þess óskað, að nefndin gerði nánar grein fyrir því skilyrði, samkvæmt úrskurðinum, að umsækjandi hefði notið atvinnuleysisbóta í fjórar vikur fyrir brottfarardag, til þess að verða talinn eiga rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta, á meðan leitað væri atvinnu í öðru EES-landi.

Í svarbréfi úrskurðarnefndar atvinnuleysisbóta, dags. 6. nóvember 1997, er vísað til ákvæðis 15. gr. reglugerðar nr. 524/1996, um greiðslu atvinnuleysisbóta. Síðan segir svo í bréfinu:

"Ákvæði þetta sem er að finna í IV. kafla framangreindrar reglugerðar er byggt á 69. gr. reglugerðar nr. 1408/71, sbr. og reglugerð nr. 2001/83, um beitingu almannatryggingareglna gagnvart launþegum, sjálfstætt starfandi einstaklingum og fjölskyldum þeirra sem flytjast milli aðildarríkjanna.

Í 1. mgr. 69. gr. reglugerðar nr. 1408/71 segir orðrétt: "Launþegi eða sjálfstætt starfandi einstaklingur sem er með öllu atvinnulaus og uppfyllir skilyrði aðildarríkis fyrir því að fá bætur samkvæmt löggjöf og fer til eins eða fleiri aðildarríkja í leit að atvinnu heldur bótaréttindum sínum með eftirfarandi skilyrðum og takmörkunum:" Er síðan talið upp í stafliðum a.- c. hvaða takmarkanir eru á þessum rétti.

Samkvæmt orðanna hljóðan vísar ákvæði 1. mgr. til landsréttar í einstökum EES-löndum um það hvort að viðkomandi einstaklingur uppfyllir skilyrði laga til að fá atvinnuleysisbætur.

Að mati úrskurðarnefndar atvinnuleysisbóta telst umsækjandi ekki uppfylla almenn skilyrði laga um atvinnuleysistryggingar til að fá bætur, sbr. 15. gr. reglugerðar nr. 524/1994, hafi honum verið úrskurðaður missir bótaréttar í 40 bótadaga í upphafi bótatímabils samkvæmt 4. tl. 21. gr. þágildandi laga um atvinnuleysistryggingar. Verði sá biðtími sem í slíkum úrskurði felst að líða áður en umsækjandi getur byrjað að uppfylla skilyrði 15. gr. reglugerðar nr. 524/1996. Í úrskurði úrskurðarnefndar atvinnuleysisbóta í máli nr. 17/1997, var vísað til niðurstöðu úrskurðarnefndar í máli nr. 4/1997, þar sem komist var að þeirri niðurstöðu að [A] skyldi, þrátt fyrir að hún uppfyllti almenn skilyrði bótaréttar samkvæmt lögum, missa rétt til bóta í 40 bótadaga í upphafi bótatímabils, sbr. 4. tl. 21. gr. þágildandi laga um atvinnuleysistryggingar. Í úrskurði nefndarinnar segir orðrétt um þetta atriði: "Þar sem úrskurður þessi hafði þau áhrif að kærandi naut ekki atvinnuleysisbóta í fullar fjórar vikur fyrir brottfarardag, var Atvinnuleysistryggingasjóði rétt sbr. 15. gr. reglugerðar um greiðslu atvinnuleysisbóta nr. 524/1996, að hafna umsókn hennar um vottorð E-303".

Af hálfu úrskurðarnefndar atvinnuleysisbóta er á það bent að ákvæði 15. gr. sbr. og 69. gr. reglugerðar nr. 1408/71, verði tæpast skilið öðruvísi en að krafa umsækjanda lúti að því að hann fái að halda rétti sínum til greiðslu atvinnuleysisbóta meðan á atvinnuleit í öðru EES-landi stendur, þ.e. að hann fái haldið óslitið þeim rétti sem hann hafði hér á landi til greiðslu bóta þrátt fyrir atvinnuleit í öðru EES-landi. Fái það ekki staðist að hægt sé að gera kröfu um flutning bótaréttar, sem er orðinn til samkvæmt lögum en er ekki virkur vegna úrskurðar um niðurfellingu bótaréttar tímabundið, á grundvelli reglugerðar um greiðslu atvinnuleysisbóta nr. 524/1996, sbr. 69. gr. reglugerð ráðsins nr. 1408/71.

Á það er einnig bent að samkvæmt 83. gr. reglugerðar nr. 574/72, sem kveður á um framkvæmd reglugerðar um beitingu [almannatryggingareglna] gagnvart launþegum og fjölskyldum þeirra sem flytjast milli aðildarríkja, skal atvinnulaus maður sem heyrir undir 1. mgr. 69. gr. skila til stofnunar á nýjum dvalarstað staðfestri yfirlýsingu frá þar til bærri stofnun þar sem fram komi að hann njóti áfram réttar til bóta samkvæmt skilmálum sem mælt er fyrir um í 1. mgr. ákvæðisins til að viðhalda bótarétti. Er hér um að ræða vottorð E-303. Þá segir í a. lið 1. mgr. 83. gr. reglugerðar nr. 574/72, að í yfirlýsingu skuli tilgreina upphæð bóta sem greiða skal hinum atvinnulausa. Jafnframt skal greina í yfirlýsingu þessari, sbr. d. lið ákvæðisins, þann hámarkstíma sem viðhalda má rétti til bóta samkvæmt c. lið 1. mgr. 69. gr. reglugerðar nr. 1408/71.

Ekki verður séð að reglur þessar geri ráð fyrir þeim möguleika að umsækjandi skuli skrá sig bótalaust í því landi sem hann fer til vegna úrskurðar um niðurfellingu bótaréttar samkvæmt úrskurði frá heimaríki hans. Er af þessum sökum ítrekaður sá skilningur sem fram kemur í úrskurði úrskurðarnefndar atvinnuleysisbóta um að umsækjandi um vottorð E-303, sbr. 15. gr. reglugerðar nr. 524/1996, verði að uppfylla öll þau skilyrði sem ákvæðið setur á sama tíma."

Í athugasemdum A, sem bárust mér með bréfi, dags. 17. nóvember 1997, kemur meðal annars fram, að hún hafi verið atvinnulaus frá 21. apríl 1997, og að hinu bótalausa tímabili hafi, samkvæmt hennar útreikningum, lokið 13. júní 1997. Þá ítrekar hún þá skoðun sína, að aðstæður á vinnustað réttlæti uppsögn í skilningi 4. tölul. 21. gr. laga nr. 93/1993.

IV.

Í forsendum og niðurstöðu álits míns, frá 20. júlí 1998, segir:

"1.

Kvörtun þessi lýtur í fyrsta lagi að því, hvort skilyrði hafi verið til að úrskurða um missi bótaréttar í 40 bótadaga samkvæmt 4. tölul. 21. gr. laga nr. 93/1993, um atvinnuleysistryggingar. Samkvæmt ákvæðinu fellur niður bótaréttur þeirra, sem sagt hafa starfi sínu lausu án gildra ástæðna eða misst vinnu af ástæðum, sem þeir sjálfir eiga sök á, í 40 bótadaga í fyrsta sinn. Skerðist bótatímabil sem því nemur.

Í úrskurði úrskurðarnefndar atvinnuleysisbóta frá 6. ágúst 1997 er gerð grein fyrir sjónarmiðum nefndarinnar við mat á uppsagnarástæðum og nokkrum tilvikum, sem talin hafi verið gildar uppsagnarástæður í skilningi framangreinds ákvæðis laga um atvinnuleysistryggingar. Að virtum gögnum málsins og með vísan til rökstuðnings í úrskurði, er það skoðun mín, að sá þáttur kvörtunar A, sem lýtur að niðurstöðu úrskurðarnefndar atvinnuleysisbóta frá 6. ágúst 1997, gefi ekki tilefni til nánari athugunar af minni hálfu, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.

2.

Fjallað er um rétt til atvinnuleysisbóta í 16.-20. gr. laga nr. 93/1993, um atvinnuleysistryggingar. Samkvæmt. 16. gr. eiga þeir rétt til atvinnuleysisbóta, sem eru atvinnulausir og í atvinnuleit og fullnægja skilyrðum 1.-4. tölul. ákvæðisins. Í málinu er ekki deilt um bótarétt A samkvæmt framangreindum ákvæðum. Réttur hennar til bóta féll hins vegar niður í fjörutíu bótadaga, samkvæmt úrskurði úthlutunarnefndar, sbr. 4. tölul. 21. gr. laganna, sem staðfestur var af úrskurðarnefnd atvinnuleysisbóta. Eins og að framan greinir, tel ég ekki ástæðu til athugasemda vegna þeirrar niðurstöðu.

Samkvæmt niðurstöðu úrskurðarnefndar atvinnuleysisbóta frá 21. ágúst 1997 telur nefndin úrskurðinn frá 6. ágúst 1997 jafnframt hafa þau áhrif, að synja verði umsókn A um vottorð E-303, þar sem hún hafi ekki notið atvinnuleysisbóta í fjórar vikur fyrir brottfarardag, og vísar nefndin til 15. gr. reglugerðar nr. 524/1996, um greiðslu atvinnuleysisbóta, í því sambandi.

Í 69. gr. reglugerðar ráðsins (EBE) nr. 1408/71, um beitingu almannatryggingareglna gagnvart launþegum, sjálfstætt starfandi einstaklingum og aðstandendum þeirra, sem flytjast milli aðildarríkja, sbr. reglugerð ráðsins (EBE) nr. 2001/83, um breytingu og endurskoðun á þeirri reglugerð, segir:

"Launþegi eða sjálfstætt starfandi einstaklingur, sem er með öllu atvinnulaus og uppfyllir skilyrði aðildarríkis fyrir því að fá bætur samkvæmt löggjöf og fer til eins eða fleiri aðildarríkja í leit að atvinnu heldur bótaréttindum sínum með eftirfarandi skilyrðum og takmörkunum:

a) að hann hafi verið skráður í atvinnuleit fyrir brottför hjá vinnumiðlun hins lögbæra ríkis og hafi verið reiðubúinn að þiggja þar vinnu í fjórar vikur hið minnsta eftir að hann varð atvinnulaus. Þar til bær stofnun eða vinnumiðlun getur þó heimilað brottför áður en þessi tími er liðinn.

[...]"

Í 83. gr. reglugerðar ráðsins (EBE) nr. 574/72, sem kveður á um framkvæmd reglugerðar ráðsins (EBE) nr. 1408/71, um beitingu almannatryggingareglna gagnvart launþegum og fjölskyldum þeirra sem flytjast á milli aðildarríkja, sbr. reglugerð ráðsins (EBE) nr. 2001/83, eru ákvæði um staðfestar yfirlýsingar þar til bærrar stofnunar um bótarétt viðkomandi og viðhald bótaréttar (vottorð E-303). Vísað er til þessara reglugerða ráðsins í VI. viðauka EES-samningsins og urðu þær þannig hluti hans.

Í 15. gr. reglugerðar nr. 524/1996, um greiðslu atvinnuleysisbóta, segir:

"Maður sem óskar eftir að fá íslenskar atvinnuleysisbætur greiddar meðan hann leitar að atvinnu í öðru EES-landi skal fyrir brottför sækja um staðfestingu á bótarétti til Atvinnuleysistryggingasjóðs (vottorð E-303). Umsókn skal að jafnaði lögð fram eigi síðar en þremur vikum fyrir brottför.

Það er skilyrði fyrir greiðslu bóta í öðru EES-landi að umsækjandi fullnægi almennum skilyrðum laga um atvinnuleysistryggingar til að fá greiddar bætur, sé ríkisborgari í EES-landi og hafi á fjórum næstliðnum vikum fyrir brottfarardag:

a. verið atvinnulaus með öllu,

b. verið skráður samfellt hjá vinnumiðlun og

c. verið reiðubúinn að þiggja vinnu.

Atvinnuleysistryggingasjóði er heimilt að staðfesta bótarétt, enda þótt umsækjandi hafi ekki fullnægt ofangreindum skilyrðum allt fjögurra vikna tímabilið, ef hann sýnir fram á að hann hafi þegar tengsl við viðkomandi land, svo sem vegna starfs eða náms maka þar eða vegna þess að honum hafi sjálfum verið gefin fyrirheit um starf þar."

Með vísan til framangreinds, tel ég að fallast verði á það sjónarmið, sem fram kemur í skýringum úrskurðarnefndar atvinnuleysisbóta frá 6. nóvember 1997, að umsækjandi teljist ekki uppfylla almenn skilyrði laga um atvinnuleysistryggingar til að fá bætur samkvæmt 15. gr. reglugerðar nr. 524/1996, fyrr en að liðnum biðtíma samkvæmt úrskurði um missi bótaréttar.

Samkvæmt gögnum málsins taldist upphaf bótatímabils A 18. apríl 1997. Voru henni greiddir dagpeningar frá 11. júní 1997. Verður því að telja, að 40 daga bótalausu tímabili hafi þá verið lokið og skilyrði 15. gr. reglugerðarinnar því uppfyllt frá þeim tíma.

Samkvæmt niðurstöðu úrskurðarnefndar atvinnuleysisbóta og skýringum nefndarinnar frá 6. nóvember 1997, telur hún almennum skilyrðum bótaréttar samkvæmt lögum um atvinnuleysistryggingar hins vegar ekki fullnægt, nema umsækjandi hafi notið atvinnuleysisbóta í fullar fjórar vikur fyrir brottför.

Samkvæmt 2. mgr. 15. gr. skal umsækjandi fullnægja skilyrðum a-c-liða á fjórum næstliðnum vikum fyrir brottfarardag, sbr. og a-lið 1. mgr. 69. gr. reglugerðar ráðsins (EBE) nr. 1408/71 (í fjórar vikur hið minnsta eftir að hann varð atvinnulaus), til þess að eiga rétt á greiðslu bóta í öðru EES-landi. Með vísan til orðalags 2. mgr. 15. gr. reglugerðarinnar verður ekki séð, að sömu tímaskilyrðum verði beitt um önnur skilyrði en fram koma í framangreindum a-c-liðum þess, þ.e. atvinnuleysi, skráning hjá vinnumiðlun og að umsækjandi hafi verið reiðubúinn að þiggja vinnu. Krafa um, að umsækjandi hafi notið atvinnuleysisbóta í fullar fjórar vikur fyrir brottfarardag, verði því ekki leidd af ákvæði 15. gr. reglugerðar nr. 524/1996, um greiðslu atvinnuleysisbóta.

Með vísan til framangreinds er það skoðun mín, að líta verði svo á, að A hafi fullnægt almennum skilyrðum laga um atvinnuleysisbætur, sbr. 2. mgr. 15. gr. reglugerðar nr. 524/1996, eftir að bótalausu tímabili samkvæmt úrskurði úrskurðarnefndarinnar frá 6. ágúst 1997 lauk 11. júní 1997. Þá tel ég, að sá skilningur úrskurðarnefndar atvinnuleysisbóta, að umsækjandi verði að hafa notið atvinnuleysisbóta í fullar fjórar vikur fyrir brottfarardag eigi sér ekki stoð í umræddri reglugerð nr. 524/1996 eða 69. gr. reglugerðar ráðsins (EBE) nr. 1408/71. Þá verður ekki séð, að málið hafi komið til athugunar á grundvelli 3. mgr. 15. gr. reglugerðar nr. 524/1996, en ég tel að það hefði verið rétt, eins og máli þessu er háttað.

V.

Samkvæmt framansögðu er það niðurstaða mín í máli þessu, að sá þáttur kvörtunar A, sem lýtur að úrskurði úrskurðarnefndar atvinnuleysisbóta frá 6. ágúst 1997, gefi ekki tilefni til athugasemda af minni hálfu. Að því er snertir úrskurð nefndarinnar frá 21. ágúst 1997, er það hins vegar skoðun mín, að ekki verði leitt af ákvæði 2. mgr. 15. gr. reglugerðar nr. 524/1996, um greiðslu atvinnuleysisbóta, að það sé skilyrði varðveislu réttar til atvinnuleysisbóta, á meðan leitað er að atvinnu í öðru EES-landi, að umsækjandi hafi notið atvinnuleysisbóta í fjórar vikur fyrir brottfarardag. Eru það því tilmæli mín til úrskurðarnefndar atvinnuleysisbóta, að hún taki mál A fyrir á ný, komi fram ósk um það frá henni, og leysi þá úr því í samræmi við þau sjónarmið, sem rakin eru í áliti þessu."

VI.

Með bréfi, dags. 10. maí 1999, óskaði ég eftir upplýsingum úrskurðarnefndar atvinnuleysisbóta um, hvort A hefði leitað til hennar á ný og þá hvort einhverjar ákvarðanir hefðu verið teknar af því tilefni. Hinn 28. júní 1999 ítrekaði ég þá fyrirspurn mína.

Svar vinnumálastofnunar barst mér með bréfi, dags. 9. júlí 1999. Þar kemur fram að ákveðið hafi verið að greiða A atvinnuleysisbætur sem nemur tveimur mánuðum vegna atvinnuleitar hennar í Noregi sumarið 1997.