Almannatryggingar. Örorkubætur.

(Mál nr. 689/1992)

Máli lokið með bréfi, dags. 29. apríl 1993.

I.

A leitaði til mín og kvartaði yfir úrskurði tryggingaráðs frá 18. september 1992, þar sem synjað var umsókn hennar um greiðslu örorkubóta vegna slyss, sem A varð fyrir sem ökumaður bifreiðar 3. desember 1990.

Í úrskurði tryggingaráðs var á því byggt, að þar sem A hefði notið örorkulífeyris ásamt tekjutryggingu samkvæmt II. kafla laga nr. 67/1971 um almannatryggingar, ætti hún ekki samkvæmt 51. gr. laganna samtímis rétt á örorkubótum samkvæmt IV. kafla laga nr. 67/1971, er fjallar um slysatryggingar.

II.

Í bréfi til A, dags. 29. apríl 1993, tók ég fram að kvörtun hennar snerti skýringu á 34. og 51. gr. laga nr. 67/1971. Voru í 1.-3. mgr. 51. gr. svohljóðandi fyrirmæli:

"Bætur samkvæmt lögum þessum teljast bætur greiddar í peningum og hjálp til sjúkra og slasaðra, sem veitt er á annan hátt.

Fjölskyldubætur skulu greiddar án tillits til annarra bóta. Að öðru leyti getur enginn samtímis notið nema einnar tegundar greiddra bóta samkvæmt lögum þessum eða lögum um atvinnuleysistryggingar. Saman mega þó fara:... [a.-f.]

Ef maður á rétt á fleiri tegundum bóta en einni, sem ekki geta farið saman, má hann taka hærri eða hæstu bæturnar. Nú nýtur umsækjandi um dagpeninga annarra lægri bóta, sem veittar eru til langs tíma, og skulu þá dagpeningar nema mismuninum.

..."

Þá sagði svo í bréfi mínu til A:

"Frá því að lög nr. 67/1971 voru sett hafa ofangreind ákvæði staðið óbreytt að efni til. Lög nr. 67/1971 komu í stað laga nr. 40/1963 um almannatryggingar. Voru þar efnislega samhljóða ákvæði í 56. gr. laganna. Í 2. og 3. mgr. 59. gr. laga nr. 24/1956 um almannatryggingar voru svohljóðandi fyrirmæli:

"Enginn getur samtímis notið nema einnar tegundar greiddra bóta samkvæmt lögum þessum eða lögum um atvinnuleysistryggingar. Saman mega þó fara:...

Ef maður á rétt á fleiri en einni tegund bóta, sem ekki geta farið saman, má hann taka hærri eða hæstu bæturnar."

Í almennum athugasemdum við frumvarp það, er varð að lögum nr. 24/1956, segir svo:

"Að lokum er rétt að gera nokkra grein fyrir efnisskipun og uppsetningu þeirri, sem gert er ráð fyrir í frumvarpinu, en þetta er með nokkuð öðrum hætti en í almannatryggingalögunum.

Fyrsti kafli frumvarpsins fjallar um skipulag og stjórn Tryggingastofnunar ríkisins og svarar til I. kafla almannatryggingalaganna. Í frumvarpinu er önnur efnisskipun látin ráðast eftir greinum trygginganna, sem eru þrjár, lífeyristryggingar, slysatryggingar og sjúkratryggingar. Tvær hinar síðar nefndu eru sértryggingar, þar sem lífeyristryggingarnar eru hins vegar almenns eðlis. Sérstakur kafli er fyrir hverja grein trygginganna, II.-IV. kafli, en í V. kafla eru loks ákvæði, sem eru sameiginleg fyrir allar tryggingarnar. Í köflum þeim, sem fjalla um hverja grein trygginganna, er efnisskipunin alls staðar eins. Fyrst eru almenn ákvæði, sem ekki varða beinlínis bótagreiðslur eða iðgjöld, en eru nánast eins konar orðaskýringar varðandi bætur og önnur atriði hlutaðeigandi trygginga. Þá koma ákvæði um bæturnar. Er þar fyrst rakið, hverjir geti eignazt rétt til bóta í hlutaðeigandi tryggingu, þá hverjar bætur sé um að ræða, síðan sérstök grein um hverja einstaka bótategund, sem skýrir nánar frá skilyrðum til bótanna og hver bótaupphæðin sé. Loks eru ákvæði í hverjum kafla um tekjur. Þar segir frá því, hversu fjár er aflað til þess að standast útgjöldin vegna þeirra bóta, sem lögfestar eru. Nánari grein fyrir þessari efnisskipun virðist ekki þörf, vegna þess að hún má kallast sjálfgefin. Kaflanum um sameiginleg ákvæði er einnig skipt í þrjá undirkafla. Fyrst eru sameiginleg ákvæði, sem eingöngu varða bæturnar. Þar næst eru sameiginleg ákvæði sem fjalla um iðgjöld, innheimtu o.fl., sem lýtur að tekjuöfluninni." (Alþt. 1955, A-deild, bls. 512-513.)

Í bréfi gerði ég A svofellda grein fyrir forsendum mínum og niðurstöðum:

"III.

Áðurgreind fyrirmæli 51. gr. laga nr. 67/1971 eru í VI. kafla laganna, sem ber yfirskriftina sameiginleg ákvæði. Í 2. mgr. 51. gr. laganna kemur fram sú meginregla, að enginn geti samtímis notið nema einnar tegundar greiddra bóta samkvæmt lögunum eða lögum um atvinnuleysistryggingar, en síðan eru tilgreindar undantekningar frá þeirri meginreglu. Ég tel ljóst, með hliðsjón af staðsetningu ákvæðisins í lögum nr. 67/1971 og efni þess, að það nái til allra bóta almannatrygginga, þ. á m. bóta slysatrygginga, og að réttur til bóta úr einni af þremur tryggingagreinum almannatrygginga sé ekki óháður rétti til bóta úr annarri tryggingagrein, heldur séu þar tengsl á milli.

Samkvæmt 1. gr. laga nr. 67/1971 teljast almannatryggingar lífeyristryggingar, slysatryggingar og sjúkratryggingar. Í II. kafla laganna, sem fjallar um lífeyristryggingar, er í 12. gr. kveðið á um rétt manna til örorkulífeyris og örorkustyrks. Þar segir ennfremur, að tryggingayfirlæknir meti örorku þeirra, sem sækja um örorkubætur. Í IV. kafla, sem fjallar um slysatryggingar, kemur fram í 1. mgr. 34. gr., að ef slys valdi varanlegri örorku, skuli greiða þeim er, fyrir því varð, örorkulífeyri eftir reglum lokamálsgreinar 12. gr. laganna. Þá segir í 2. mgr. 34. gr. laga nr. 67/1971, að fullur örorkulífeyrir greiðist, ef örorkan nemi 75%. Samkv. 4. mgr. 34. gr. fyrrnefndra laga er heimilt að greiða í einu lagi örorkubætur, sem jafngilda lífeyri hlutaðeiganda um tiltekið árabil, ef orkutap er minna en 50%.

Greiðslur örorkubóta samkvæmt 12. og 34. gr. laga nr. 67/1971 byggjast á örorkumötum tryggingayfirlæknis eða annarra lækna Tryggingastofnunar. Þótt forsendur mata lífeyristrygginga og slysatrygginga séu ekki fyllilega þær sömu, verður samt að telja bæturnar sömu tegundar. Örorkubætur samkvæmt 12. gr. eru ávallt í formi lífeyris. Samkvæmt gögnum málsins eru þér metin 75% öryrki eftir bílslys á árinu 1982 og verður ráðið, að þér hafið af því tilefni fengið greiddan fullan örorkulífeyri ásamt tekjutryggingu, sbr. 12. og 19. gr. umræddra laga. Vegna bílslyss, er þér lentuð í á árinu 1990, voruð þér metin 15% öryrki. Eins og áður er fram komið, hafnaði tryggingaráð umsókn yðar um greiðslu örorkubóta vegna síðastgreinds slyss, þar sem þér nytuð óskerts örorkulífeyris samkvæmt II. kafla laga nr. 67/1971.

IV.

Samkvæmt 1. mgr. 34. gr. laga nr. 67/1971 skal, ef slys veldur varanlegri örorku, greiða þeim, er fyrir því varð, örorkulífeyri eftir reglum lokamálsgreinar 12. gr. eða örorkubætur í einu lagi. Með hliðsjón af meginviðhorfum, sem koma fram í 51. gr. laganna, er það skoðun mín, að í ákvæði 1. mgr. 34. gr. felist, að sá, sem nýtur fulls örorkulífeyris á grundvelli II. kafla laganna, geti ekki samtímis átt rétt til frekari örorkubóta á grundvelli 4. mgr. 34. gr. laganna.

Niðurstaða mín samkvæmt framansögðu er því sú, að úrskurður tryggingaráðs frá 18. september 1992 hafi verið í samræmi við lög og gefi ekki tilefni til athugasemda af minni hálfu."