Fatlaðir. Samningur um stuðningsþjónustu við fatlaða. Rannsóknarreglan.

(Mál nr. 1965/1996)

Hjónin A og B kvörtuðu yfir uppsögn svæðisskrifstofu um málefni fatlaðra á Suðurlandi á samningi þeirra um stuðningsþjónustu við fatlaðan dreng, sem gerður hafði verið við þau á grundvelli 21. gr. laga nr. 59/1992, um málefni fatlaðra.

Umboðsmaður tók fram að stuðningsforeldri sem undirritaði samning um þjónustu við fatlað barn bæri ábyrgð á því að samningurinn væri efndur réttilega og í samræmi við þær skyldur sem hann legði því á herðar. Í samningi um slíka þjónustu og þeim réttarheimildum sem hann styðst við yrði á hinn bóginn gert ráð fyrir því að umönnun og forsjá barns sé í höndum stuðningsfjölskyldu. Í ljósi þessa gat umboðsmaður ekki fallist á það með félagsmálaráðuneytinu að fortakslaust verði litið á það sem vanefnd á samningi um þjónustu stuðningsfjölskyldu við fatlað barn að stuðningsforeldri væri fjarri heimili sínu um tíma, meðan hinn fatlaði dveldi þar, enda væri þá öðrum til að dreifa innan fjölskyldunnar, færum um að sinna umsjárskyldum.

Umboðsmaður vísaði til 10. gr. stjórnsýslulaga og hinnar óskráðu meginreglu um rannsóknarskyldu stjórnvalds. Hann tók fram að ekki hefði verið gripið til uppsagnar samningsins vegna meintra vanefnda og yrði hún því ekki réttlætt á þeim grunni. Taldi umboðsmaður að starfsmanni svæðisskrifstofunnar hefði verið skylt að huga að því, hvort afstaða stuðningsforeldris til áframhaldandi þjónustu við hinn fatlaða hefði breyst. Niðurstaða umboðsmanns var að svæðisskrifstofa um málefni fatlaðra á Suðurlandi hefði með tilgreindri ráðstöfun sinni slitið samningi um þjónustu stuðningsfjölskyldu án þess að sú niðurstaða byggðist á viðhlítandi heimildum.

Beindi umboðsmaður þeim tilmælum til félagsmálaráðuneytisins að það tæki mál A og B til athugunar að nýju, óskuðu þau þess, og leitaðist þá við að rétta hlut þeirra.

I.

Hinn 3. desember 1996 leituðu til mín hjónin A og B, og báru fram kvörtun vegna

uppsagnar svæðisskrifstofu um málefni fatlaðra á Suðurlandi á samningi, sem gerður hafði verið við þau um þjónustu við fatlaðan dreng, X, sbr. 21. gr. laga nr. 59/1992, um málefni fatlaðra. Lýtur kvörtunin annars vegar að því, að uppsögn samningsins hafi ekki byggst á málefnalegum sjónarmiðum. Hins vegar hafi ákvæði stjórnsýslulaga nr. 37/1993 um tilkynningarskyldu, andmælarétt og rökstuðning verið brotin gagnvart þeim.

II.

Málsatvik.

1.

Samningur sá, sem vísað er til hér að framan, var undirritaður 15. janúar 1996. Er hann á stöðluðu eyðublaði frá félagsmálaráðuneytinu og ber yfirskriftina „samningur um þjónustu stuðningsfjölskyldu við fatlaða skv. reglugerð nr. 155/1995“. Samkvæmt samningnum skyldi X, sem er fæddur árið 1985, vera í umsjá stuðningsfjölskyldu í þrjá sólarhringa í hverjum mánuði frá 1. febrúar til 31. júlí 1996. Er í samningnum mælt fyrir um það, að þóknun fyrir sólarhringsþjónustu samkvæmt 11. gr. tilvitnaðrar reglugerðar skuli nema ákveðnum hluta mánaðarlauna samkvæmt tilgreindum launaflokki og í því sambandi tekið mið af því, að X þurfi á gæslu að halda og verulegri aðstoð við athafnir daglegs lífs. Þá er í samningnum svohljóðandi ákvæði um ábyrgð og umönnunarskyldu:

„Samkvæmt samningi þessum er hinn fatlaði í umsjá stuðningsfjölskyldunnar sem ber alla ábyrgð á umönnun hans og velferð í hvívetna meðan dvölin varir.“

Undir samninginn rituðu B, en hún er þar ein tilgreind sem stuðningsforeldri, C, sem er starfsmaður svæðisskrifstofu um málefni fatlaðra á Suðurlandi, og móðir X.

2.

Fyrir liggur, að framangreindum þjónustusamningi var slitið 18. apríl 1996. Samningsaðila greinir hins vegar á um nánari tildrög þess. Þannig hafa þau A og B jafnan staðhæft, að um einhliða uppsögn af hálfu svæðisskrifstofu hafi verið að ræða. Kemur þessi skilningur þeirra skýrlega fram í bréfi, sem Halldór ritaði félagsmálaráðherra 15. maí 1996, en þar spyrst hann fyrir um ástæður uppsagnar. Í ódagsettri greinargerð C, starfsmanns svæðisskrifstofu um málefni fatlaðra á Suðurlandi, sem rituð var að beiðni félagsmálaráðuneytisins og í tilefni af framangreindu bréfi A, er því hins vegar haldið fram, að stuðningsmóðir hafi óskað eftir því að segja samningnum upp. Eru tildrög uppsagnarinnar rakin í greinargerðinni. Segir þar, að 2. apríl 1996 hafi C borist munnleg ábending um það, að stuðningsmóðir hafi ekki verið stödd í Vestmannaeyjum helgina 8. til 10. mars 1996, en X hafi þá dvalið á heimili stuðningsfjölskyldu á grundvelli samningsins. Jafnframt hafi komið fram í ábendingunni, að 10 ára gömul stúlka hafi gætt X þann tíma, sem eiginmaður stuðningsmóður hafi verið fjarverandi. Ábending þessi hafi síðar verið staðfest skriflega. Þessu næst segir meðal annars svo í greinargerðinni:

„Í framhaldi af þessari ábendingu var ákveðið að undirrituð færi til Vestmannaeyja til viðræðna við stuðningsmóður og móður drengsins... Markmið þess fundar var að athuga hvort þessar ábendingar væru réttar. Þann 17. apríl fór undirrituð til fundar við þær [...]. Á þessum fundi kom í ljós að móðir hafði vitneskju um fjarveru stuðningsmóður þessa umræddu helgi og var ekki ósátt við það. [B] stuðningsmóðir upplýsti undirritaða um að ábending væri ekki rétt að því leyti að 16 ára synir hennar og 12 ára dóttir hefðu hugsað um [X] í 2 tíma á föstudagskvöldinu vegna þess að eiginmaður hennar starfar í félagsmiðstöð fyrir unglinga í [Vestmannaeyjum]. Kvöldið eftir hefði eiginmaður hennar [...] tekið [X] með sér í vinnu því það hefði verið diskótek fyrir unglingana til [klukkan] 21:30. Undirrituð sá ekki ástæðu til þess að gera neitt frekar í málinu að öðru leyti en því að ítreka að stuðningsmóðir hefði annað skipulag á þeim helgum sem [X] væri hjá þeim og ítrekaði ég einnig að hún væri ábyrgðarmanneskja fyrir samningi þar sem hún skrifar undir hann.

[...]

Skilaboð lágu fyrir til undirritaðrar frá [D] [...] um að [B] stuðningsmóðir [X] óskaði eftir að segja samningi strax upp og fékk undirrituð þessi skilaboð þann 18. apríl [1996] og sama dag var send tilkynning til ríkisféhirðis.“

Í svarbréfi félagsmálaráðuneytisins við framangreindri fyrirspurn A kemur að auki fram, að ráðuneytið hafi haft um það upplýsingar frá Félagsmálastofnun Vestmannaeyjabæjar, að X hafi verið skilinn eftir í umsjá barnungra stúlkna í einhvern tíma á meðan hann dvaldi hjá stuðningsfjölskyldu helgina 30. og 31. mars 1996. Er í bréfi ráðuneytisins, sem er dagsett 8. nóvember 1996, gengið út frá því, að umræddum samningi hafi verið sagt upp af hálfu svæðisskrifstofu og leitast við að gera grein fyrir efnislegri heimild hennar til slíkrar ráðstöfunar. Segir þar meðal annars:

„Hvorki í [lögum nr. 59/1992] né [reglugerð nr. 155/1995] er [...] að finna ákvæði um uppsögn samnings um þjónustu stuðningsfjölskyldu. Ráðuneytið telur hins vegar að skýra beri ákvæði 1. gr., 8. og 21. gr. laga um málefni fatlaðra nr. 59/1992, meginreglur þeirra laga, svo og II. kafla reglugerðar, nr. 155/1995, út frá markmiðinu um að veitt sé sem allra best þjónusta. Leiki hinn minnsti vafi á því að þjónusta við fatlað barn hjá stuðningsfjölskyldu sé trygg fyrir velferð barnsins verður að telja að forsenda samningsins sé brostin. Forsendan telst í senn veruleg sem og ákvörðunarástæða. Með ákvörðunarástæðu er átt við að forsendan um að hafið væri yfir vafa að aðbúnaður barns væri tryggur hjá stuðningsfjölskyldu hafði úrslitaáhrif um að samningurinn var gerður. Forsendan telst einnig veruleg að mati ráðuneytisins með vísan til laga um málefni fatlaðra og þess markmiðs að fötluðum sé veitt sem allra best þjónusta. Heimild til uppsagnar samningsins í máli þessu byggist því á brostinni forsendu samkvæmt almennum samningarétti.“

Með hliðsjón af framansögðu og miðað við þær upplýsingar, sem félagsmálaráðuneytið hafði undir höndum við athugun sína á málinu, er það niðurstaða þess, að uppsögn á umræddum þjónustusamningi af hálfu svæðisskrifstofu hafi verið í samræmi við lög. Hins vegar er það álit ráðuneytisins, að meðferð hennar á málinu hafi farið í bága við ákvæði 20. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

III.

Ég ritaði félagsmálaráðherra bréf 10. desember 1996 og óskaði eftir því, með vísan til 7. og 9. gr. laga nr. 13/1987, um umboðsmann Alþingis, að ráðuneyti hans skýrði viðhorf sitt til kvörtunarinnar og lét mér í té gögn málsins. Svarbréf ráðuneytisins barst mér 6. febrúar 1997. Í því segir meðal annars svo:

„Ráðuneytið telur að Svæðisskrifstofa Suðurlands hafi brugðist rétt við upplýsingum um að ekki væri allt með felldu með því að kanna málið og veita stuðningsmóður tækifæri á að skýra mál sitt með fundi sínum með stuðningsmóður og móður barns 17. apríl 1996 (sá fundur hefði mátt eiga sér stað fyrr en 17. apríl að mati ráðuneytisins). Ráðuneytið telur því að með þeim fundi hafi Svæðisskrifstofa bæði séð til þess að málið væri upplýst sem og að andmælareglu stjórnsýslulaga væri fullnægt. Athygli vekur að stuðningsmóðir andmælir því ekki að hún hafi verið fjarverandi frá barninu, en leiðréttir einungis hver hafi gætt barnsins á meðan. Þegar þessar upplýsingar stuðningsmóður lágu fyrir telur ráðuneytið að rétt hefði verið að bjóða stuðningsmóður þegar upp á að segja samningi upp skriflega. Atburðarásin var hins vegar sú að starfsmaður svæðisskrifstofu lét nægja „að ítreka að stuðningsmóðir hefði annað skipulag á þeim helgum sem [X] væri hjá þeim“ auk þess sem starfsmaðurinn ítrekaði að stuðningsmóðir væri ábyrg fyrir samningnum eins og segir í greinargerð svæðisskrifstofu. Síðan segir í nefndri greinargerð að daginn eftir framangreint viðtal við móður og stuðningsmóður, eða 18. apríl, lágu fyrir skilaboð til svæðisskrifstofu um að stuðningsmóðir [X] óskaði að segja samningi upp. Af hálfu svæðisskrifstofu voru viðbrögð þau að þegar í stað var haft símsamband við ríkisféhirði og tilkynnt um riftun samningsins. [...]

Með hliðsjón af framangreindu tekur ráðuneytið fram:

Bent skal á hina óvenjulega þungu ábyrgð sem stuðningsforeldri þroskahefts barns tekst á herðar við það að taka þroskaheft barn inn á einkaheimili sitt. Vart þarf að fara orðum um varnarleysi þroskahefts barns. Jafnframt hvílir rík ábyrgð á stjórnvöldum málefna fatlaðra að sjá til þess að þjónusta við fatlaða sé í samræmi við lög og reglugerðir, þ.e. sé ávallt sú besta sem völ er á til að barnið nái sem mestum þroska og búi við örugg uppeldisskilyrði. Vísast um þetta til laga um málefni fatlaðra nr. 59/1992 og reglugerðar nr. 155/1995.

Leiki vafi á að stuðningsforeldri rísi undir þeirri þungu ábyrgð sem það tekst á hendur við undirritun samnings sem stuðningsfjölskylda er að mati ráðuneytisins hafið yfir vafa að forsenda fyrir samningi af þessu tagi er brostin. Hér ríkja sams konar sjónarmið og í barnaverndarmálum þar sem vafi er gjarnan skýrður barninu í hag, enda mál þetta í eðli sínu jafnframt barnaverndarmál.

Í 1. mgr. 9. gr. reglugerðar, nr. 155/1995, segir: „Stuðningsfjölskylda ber ábyrgð á velferð barns meðan á dvöl hjá henni stendur og skal hlúa að barninu á sem víðtækastan hátt.“ Í samningi um þjónustu stuðningsfjölskyldu sem undirritaður er af stuðningsmóður í því máli sem hér er til umfjöllunar segir svo: „Samkvæmt samningi þessum er hinn fatlaði í umsjá stuðningsfjölskyldunnar sem ber alla ábyrgð á umönnun og velferð hans í hvívetna meðan dvölin varir.“ Bent skal á í þessu sambandi að ábyrgð stuðningsforeldris hefur ávallt verið skilin svo að það sé stuðningsforeldrið sjálft, það sem undirritar samninginn, sem sé skylt að vera hjá barninu allan tímann sem dvöl stendur yfir. Sú ábyrgð verður ekki framseld öðrum. Bent skal á að hér er um skammtímaþjónustu að ræða, samfelld dvöl fer að jafnaði ekki yfir þrjá sólarhringa á mánuði, en getur þó farið upp í fimm sólarhringa á mánuði, sbr. 1. tölul. 2. mgr. 8. gr. reglugerðar nr. 155/1995.

Ráðuneytið telur að niðurstaða í máli þessu hafi verið sú sama hvort sem þær utanaðkomandi tilkynningar um að barnið hafi verið skilið eftir í umsjá ungra stúlkna væru á rökum reistar eða barnið var skilið eftir hjá 16 ára sonum stuðningsmóður í 2 tíma eitt kvöld eins og stuðningsmóðir skýrir sjálf frá í viðtali við starfsmann svæðisskrifstofu. Aðalatriði varðandi niðurstöðu málsins er að mati ráðuneytisins það að endurteknar utanaðkomandi tilkynningar annars vegar og þær upplýsingar sem fram komu á fundi starfsmanns svæðisskrifstofu með stuðningsmóður hins vegar sem lýst er í greinargerð svæðisskrifstofu sýna að ekki var forsvaranlegt að treysta stuðningsmóður lengur fyrir barninu. Af hálfu stjórnvalda sem bera ábyrgð á velferð fatlaðra barna er skylt að bregðast við þegar kringumstæður eru með þeim hætti sem voru í máli þessu. Ráðuneytið telur raunar að svæðisskrifstofa hafi í þessu efni gengið of skammt þegar starfsmaður lét kyrrt liggja eftir viðtal við stuðningsmóður 17. apríl í stað þess að gefa stuðningsmóður þegar í stað kost á að segja samningi upp. Eins og áður hefur komið fram bárust svæðisskrifstofu skilaboð daginn eftir fundinn með stuðningsmóður um að stuðningsmóðir kysi að segja upp samningi. Um málsmeðferð á því stigi málsins telur ráðuneytið að af hálfu svæðisskrifstofu hefði verið rétt að veita stuðningsmóður færi á að segja upp samningi skriflega, í stað þess að hringja til ríkisféhirðis og tilkynna uppsögn. Tekið skal sérstaklega fram að ráðuneytinu hefur láðst að láta þessa atriðis getið í bréfi sínu til [A], dags. 8.11.1996. Aftur á móti vísar ráðuneytið til þess sem fram kemur í nefndu bréfi þess til [A] að svæðisskrifstofa beitti ekki réttri málsmeðferð við riftun samningsins gagnvart stuðningsmóður.

Með hliðsjón af framangreindu ítrekar ráðuneytið þá niðurstöðu sína sem fram kom í bréfi þess til [A] um að brostin væri forsenda fyrir áframhaldandi samningi við stuðningsforeldri í máli þessu. Aftur á móti voru ágallar á málsmeðferð Svæðisskrifstofu Suðurlands við uppsögn samningsins. Um málsmeðferðina fram að þeim tíma, upplýsingaöflun og andmælarétt, telur ráðuneytið hins vegar að ákvæðum stjórnsýslulaga hafi verið fullnægt.“

Með bréfi 7. febrúar 1997 gaf ég þeim A og B kost á að gera athugasemdir við framangreint bréf félagsmálaráðuneytisins og bárust þær mér í bréfi, dags. 23. apríl 1997. Er þar sérstaklega mótmælt þeim skilningi ráðuneytisins, að stuðningsforeldri, sem undirritar samning um þjónustu stuðningsfjölskyldu við fatlað barn, geti eitt haft umönnun samkvæmt samningnum með höndum. Orðalag 1. mgr. 9. gr. reglugerðar nr. 155/1995 vísi þannig eindregið til þess, að það sé stuðningsfjölskylda í heild sinni, sem annist hina samningsbundnu þjónustu og gæti velferðar barnsins.

Með bréfi til A og B, dags. 22. september 1997, óskaði ég eftir því, að þau skýrðu sérstaklega afstöðu sína til áðurgreindrar staðhæfingar starfsmanns svæðisskrifstofu um riftun samnings af hálfu stuðningsmóður og tildrög hennar. Svarbréf þeirra barst mér 2. október 1997. Er þar fullyrt, að um einhliða uppsögn svæðisskrifstofu hafi verið að ræða og í því sambandi vísað til svohljóðandi frásagnar í fyrrgreindu bréfi A til félagsmálaráðuneytisins, sem var ritað um það bil einum mánuði eftir að svæðisskrifstofa leit svo á samkvæmt áðursögðu, að samningurinn væri úr gildi fallinn:

„Svæðisskrifstofa sagði upp gildandi samningi algerlega einhliða án fyrirvara vegna þess að við vorum ekki ánægð með stöðu mála.“

IV.

Í forsendum og niðurstöðu álits míns, dags. 17. febrúar 1998, sagði svo:

„1.

Svo sem rakið hefur verið hér að framan, leit svæðisskrifstofa um málefni fatlaðra á Suðurlandi svo á, að umræddur samningur um þjónustu stuðningsfjölskyldu við fatlaðan dreng, X, hefði fallið úr gildi 18. apríl 1996, tæpum þremur og hálfum mánuði fyrr en gildistímaákvæði samningsins sagði til um. Til grundvallar þessari ályktun og þeirri ráðstöfun svæðisskrifstofunnar, að beina tilkynningu til ríkisféhirðis um niðurfellingu á greiðslum til stuðningsfjölskyldu, lágu skilaboð frá utanaðkomandi aðila þess efnis, að stuðningsmóðir „óskaði eftir að segja samningi strax upp“. Skilaboð þessi munu hafa borist svæðisskrifstofunni hinn tilgreinda dag og var þá þegar gripið til framangreindrar ráðstöfunar af hennar hálfu.

Í 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 er kveðið á um svonefnda rannsóknarreglu. Í henni felst, að stjórnvald skuli sjá til þess að mál sé nægilega upplýst, áður en ákvörðun er tekin í því. Ákvæði þetta er byggt á óskráðri meginreglu, sem hefur víðtækara gildissvið en ákvæðið sjálft. (Alþt. 1992–1993, A-deild, bls. 3292.) Af því leiðir, að ekki verður gagnályktað frá ákvæðinu á þá lund, að rannsóknarskylda stjórnvalda nái einvörðungu til þess, þegar þau taka ákvörðun um rétt eða skyldu manna í skilningi 2. mgr. 1. gr. stjórnsýslulaga.

Ekki var gripið til framangreindrar ráðstöfunar 18. apríl 1996 sem úrræðis vegna meintra vanefnda á samningi. Verður hún því ekki réttlætt á þeim grunni. Þá er það álit mitt, að áður en til þess gat komið að svæðisskrifstofa gripi til umræddrar ráðstöfunar sinnar, hafi starfsmanni hennar verið skylt að huga að því, svo sem atvikum var háttað og í samræmi við vandaða stjórnsýsluhætti og meginregluna um rannsóknarskyldu stjórnvalda, hvort afstaða stuðningsforeldris til áframhaldandi þjónustu við hinn fatlaða hefði breyst frá því, sem fram kom á fundi aðila, er haldinn var daginn áður, en þar gerði starfsmaðurinn ákveðnar athugasemdir við efndir samnings af hálfu stuðningsmóður og í tilefni af ábendingu, sem skrifstofunni hafði borist. Laut hún svo sem áður greinir að því, að X hefði verið skilinn eftir í umsjá barnungra stúlkna um tíma, á meðan hann dvaldi hjá stuðningsfjölskyldu helgina 30. og 31. mars 1996. Hins vegar var ekki talin ástæða til að grípa til frekari aðgerða af þessu tilefni og ekki verður séð, að slit eða riftun á samningi hafi borið á góma á fundinum. Við þessar aðstæður gat ekki með réttu komið til þess, að umrædd skilaboð yrðu túlkuð sem yfirlýsing um slit á samningi aðila. Þá voru ekki heldur forsendur til að meta stöðu mála á þann veg, að fyrir lægi ósk frá stuðningsforeldri um að samningi yrði slitið.

Þegar framangreint er virt, er það álit mitt, að með fyrrgreindri ráðstöfun sinni 18. apríl 1996 hafi svæðisskrifstofa einhliða bundið enda á umræddan þjónustusamning, án þess að sú niðurstaða byggðist á viðhlítandi heimildum.

2.

Miðað við framangreinda niðurstöðu, að því er tekur til slita á umræddum samningi, tel ég ekki ástæðu til að fjalla um þá þætti kvörtunarinnar, sem lúta að tilkynningarskyldu, andmælarétti aðila og rökstuðningi fyrir stjórnvaldsákvörðun.

V.

1.

Umræddur samningur um þjónustu stuðningsfjölskyldu við drenginn X var, svo sem fram er komið, grundvallaður á 21. gr. laga nr. 59/1992, um málefni fatlaðra, og reglugerð nr. 155/1995, um þjónustu við fötluð börn og fjölskyldur fatlaðra, sem sett var með stoð í lokamálslið ákvæðisins. Í athugasemdum, sem fylgdu frumvarpi því, sem varð að lögum nr. 59/1992, segir svo um ákvæði þetta:

„Í greininni er kveðið á um að fjölskyldur fatlaðra barna skuli eiga kost á þjónustu stuðningsfjölskyldna. Hér er um nýmæli í lögunum að ræða enda þótt þessi þjónusta hafi verið veitt frá árinu 1985, en þá var sett reglugerð um þjónustu stuðningsfjölskyldna með heimild í gildandi lögum. Hlutverk stuðningsfjölskyldna er að taka fatlaðan einstakling í sólarhrings vistun í skamman tíma í þeim tilgangi að létta álagi af fjölskyldu hans. Miðað er við að samfelld dvöl fari að jafnaði ekki yfir þrjá sólarhringa í mánuði. Þess er ekki krafist að stuðningsfjölskyldur láti í té sérstaka þjálfun eða hæfingu. Þjónusta þessi er mjög mikilvægur þáttur stoðþjónustu enda má leiða að því líkum að hún geri sumum aðstandendum fatlaðra barna kleift að annast börn sín sem ella yrði þeim ofviða.“ (Alþt. 1991–1992, A-deild, bls. 2464.)

Samkvæmt hinu tilvitnaða lagaákvæði skal dvöl fatlaðs barns hjá stuðningsfjölskyldu bundin í samningi og miðast við ákveðið tímabil. Þá er í samningi um stuðningsþjónustu tekið fram, að hinn fatlaði sé í umsjá stuðningsfjölskyldunnar og beri hún ábyrgð á umönnun hans og velferð í hvívetna á meðan dvölin varir. Um skyldur stuðningsfjölskyldu er að öðru leyti fjallað í reglugerð nr. 155/1995, einkum 2. og 9. gr. hennar. Þar segir svo:

„2. gr.

Fjölskyldur fatlaðra barna skulu eiga kost á stuðningsfjölskyldu og skulu svæðisskrifstofur beita sér fyrir því að þær sé að finna eftir því sem þörfin segir til um.

Hlutverk stuðningsfjölskyldu er að taka fatlað barn í umsjá sína í skamman tíma í þeim tilgangi að létta álagi af fjölskyldu þess. Slíkri umsjá fylgir ekki krafa um að stuðningsfjölskyldan láti í té sérstaka þjálfun eða hæfingu umfram þá daglegu þjálfun sem felst í þeim kröfum sem gerðar eru til uppeldis barnsins.

[...]

9. gr.

Stuðningsfjölskylda ber ábyrgð á velferð barns meðan á dvöl hjá henni stendur og skal hlúa að barninu á sem víðtækastan hátt. Þetta á jafnt við um fæðuval, tilfinningalíf og heilsufars- og félagslega líðan barns. Óheimilt er að beita barn líkamlegri hirtingu. Stuðningsfjölskylda skal virða 10. gr. laga nr. 74/1984, um tóbaksvarnir, þess efnis að viðhafa ekki tóbaksreykingar í návist þeirra barna sem þjónustunnar njóta.

[...]“

2.

Stuðningsforeldri, sem undirritar samning um þjónustu við fatlað barn, ber ábyrgð á því að hann sé efndur réttilega og í samræmi við þær skyldur, sem hann leggur því á herðar. Í samningi um slíka þjónustu og samkvæmt þeim réttarheimildum, sem hann styðst við samkvæmt framansögðu, er á hinn bóginn almennt gert ráð fyrir því, að umönnun og umsjá fatlaðs barns sé í höndum stuðningsfjölskyldu. Í ljósi þessa get ég ekki fallist á það með félagsmálaráðuneytinu, að fortakslaust verði litið á það sem vanefnd á samningi um þjónustu stuðningsfjölskyldu við fatlað barn, sé stuðningsforeldri um tíma fjarverandi frá heimili sínu, á meðan hinn fatlaði dvelst þar, enda sé þá öðrum til að dreifa innan fjölskyldunnar, sem talist geta færir um að sinna umsömdum umönnunar- og umsjárskyldum. Um síðastgreinda atriðið fer eftir aðstæðum hverju sinni. Getur þannig til þess komið, að þessi skylda stuðningsforeldris verði sjálfkrafa leidd af aðstæðum á heimili stuðningsfjölskyldu og þeirri fötlun, sem sá, er þjónustunnar á að njóta, býr við. Að þessum tilvikum frátöldum verður krafa um stöðuga viðveru stuðningsforeldris að mínu áliti ekki gerð án samningsákvæðis, er mæli fyrir um hana.

3.

Í 54. gr. laga nr. 59/1992 er kveðið á um það, að hver sá, sem starfar samkvæmt lögunum, skuli gæta fyllstu þagmælsku um það, sem hann kemst að í starfinu. Í 7. gr. reglugerðar nr. 155/1995, um þjónustu við fötluð börn og fjölskyldur fatlaðra, er síðan lagt fyrir svæðisskrifstofu að sjá til þess, að stuðningsfjölskylda undirriti þagnarheit varðandi þær upplýsingar, sem hún fær um einkahagi hins fatlaða og fjölskyldu hans. Þar segir jafnframt, að þagnarskylda haldist eftir að störfum er lokið.

Samningur sá, sem hér er til umfjöllunar, er, svo sem áður greinir, gerður á eyðublað frá félagsmálaráðuneytinu. Þar er að finna staðlað ákvæði um þagnarheit. Inn í ákvæðið hefur slæðst villa, sem færir efnislegt inntak þess í það horf, að þagnarskylda hefjist eftir að starfi lýkur. Hafi ekki verið úr þessu bætt, mælist ég til þess, að það verði gert án tafar. Þá legg ég áherslu á það, að jafnan sé að því gætt í tengslum við gerð samninga af því tagi, sem hér um ræðir, að undirritun þagnarheits sé hagað í samræmi við tilvitnað reglugerðarákvæði, þar sem hún á annað borð þykir eiga við.

VI.

Niðurstaða.

Samkvæmt framangreindu er það meginniðurstaða mín í máli þessu, að svæðisskrifstofa um málefni fatlaðra á Suðurlandi hafi með tilgreindri ráðstöfun sinni 18. apríl 1996 slitið samningi um þjónustu stuðningsfjölskyldu við fatlaðan dreng, án þess að sú niðurstaða byggðist á viðhlítandi heimildum. Eru það tilmæli mín til félagsmálaráðuneytisins, að það taki mál B til athugunar að nýju, komi fram ósk um það frá henni, og leitist þá við að rétta hlut hennar.“

VII.

Með bréfi, dags. 10. maí 1999, óskaði ég eftir upplýsingum félagsmálaráðherra um, hvort A hafi leitað til ráðuneytisins á ný og þá hvort einhverjar ákvarðanir hafi verið teknar af því tilefni.

Í svari félagsmálaráðuneytisins, dags. 7. júní 1999, kemur fram að ekki hafi borist ósk frá A og B um að taka málið til nýrrar meðferðar.