Fatlaðir. Réttur fatlaðra til almennrar þjónustu ríkis og sveitarfélaga. Frjálst mat.

(Mál nr. 2285/1998)

Hjónin A og B kvörtuðu yfir þeirri ákvörðun menntamálaráðuneytisins að bjóða ekki upp á nám í framhaldsskóla fyrir 18 ára fatlaða dóttur þeirra. Í bréfi umboðsmanns, sem hann ritaði þeim 4. september 1998, sagði meðal annars:

„Samkvæmt 1. gr. laga nr. 59/1992, um málefni fatlaðra, er eitt af markmiðum laganna að tryggja fötluðum jafnrétti og sambærileg lífskjör við aðra þjóðfélagsþegna og skapa þeim skilyrði til þess að lifa eðlilegu lífi. Í 7. gr. sömu laga er síðan kveðið á um það, að fatlaðir skuli eiga rétt á allri almennri þjónustu ríkis og sveitarfélaga. Segir síðan, að ávallt skuli leitast við að veita fötluðum þjónustu samkvæmt almennum lögum á sviði menntunar, heilbrigðis- og félagsþjónustu.

Almenn lög um framhaldsskóla eru lög nr. 80/1996. Í 19. gr. laganna er kveðið á um skyldu stjórnvalda til að veita fötluðum nemendum kennslu og sérstakan stuðning í námi á framhaldsskólastigi. Látin skuli í té sérfræðileg aðstoð og nauðsynlegur aðbúnaður eftir því sem þörf krefur að mati menntamálaráðuneytisins. Þá skuli stefnt að því, að fatlaðir nemendur stundi nám samhliða öðrum nemendum.

Það er skoðun mín, að af framangreindum ákvæðum íslenskra laga, verði ráðin sú stefna löggjafans, að stuðlað sé eftir mætti að jafnrétti fatlaðra og annarra þjóðfélagsþegna. Skuli í því sambandi kappkosta, að veita fötluðum nemendum á framhaldskólastigi sömu möguleika til náms og öðrum nemendum. Af eðli þessara réttinda leiðir hins vegar, að veita ber stjórnvöldum ákveðið svigrúm við skipulagningu og mótun námsframboðs, þannig að tekið sé eftir mætti tillit til þeirra erfiðleika, sem fyrir hendi eru við ákvörðun um forgang verkefna og fjárveitingar.

Í svarbréfi menntamálaráðuneytisins til mín, dags. 19. febrúar 1998, kemur fram, að ráðherra hafi skipað ráðgjafarnefnd, sem í eiga sæti fulltrúar Þroskahjálpar og Umhyggju, félags langveikra barna, til að fjalla um stöðu fatlaðra nemenda í framhaldsskólum. Hlutverk nefndarinnar sé meðal annars að fjalla um það námsframboð, sem fyrir hendi sé á hverjum tíma, og gera tillögur til ráðherra um ný úrræði og annað það sem betur megi fara í starfsemi framhaldsskóla varðandi þá nemendur, sem hlut eiga að máli. Með vísan til þessa og með hliðsjón af þeim sjónarmiðum, sem ég rakti hér að framan um eðli þeirra réttinda, sem hér um ræðir, er það skoðun mín, að ekki sé tilefni til, að ég hafi frekari afskipti af máli umbjóðenda yðar, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.“