Lögreglurannsókn. Seinagangur við rannsókn máls.

(Mál nr. 287/1990)

Máli lokið með áliti, dags. 8. ágúst 1991.

A lagði fram kvörtun á hendur lögreglunni í Reykjavík og ríkissaksóknara vegna tafa á rannsókn máls í tilefni af kæru hans á hendur X fyrir líkamsárás, húsbrot og eignaspjöll, er urðu í desember 1987. Málið barst embætti lögreglustjórans í Reykjavík 5. maí 1988 og lauk það embætti rannsókn málsins með bréfi til ríkissaksóknara 29. mars 1990. Embætti ríkissaksóknara lauk afskiptum sínum af málinu 9. apríl 1990, og krafðist ekki frekari aðgerða, þar sem það taldi að ætluð refsilagabrot væru fyrnd. Umboðsmaður taldi, að skilyrðum almennra hegningarlaga hefði í desember 1987 verið fullnægt til þess að byrja opinbera rannsókn og hefði borið að halda henni áfram með hæfilegum hraða, nema A hefði fallið frá kæru sinni. Taldi umboðsmaður ekki viðunandi, að mál velktust svo lengi í rannsókn hjá lögreglu að hætta væri á að brot fyrndist, eins og gerst hafði í málinu, þótt eðlilegt væri að gefa hlutaðeigendum færi á að gera út um mál sín, þegar brot sættu ákæru eftir kröfu þess, er misgert er við, svo sem brotunum gegn A var farið. Hefði lögreglu borið að ganga eftir því, hvort sættir tækjust með aðilum innan hæfilegs tíma. Taldi umboðsmaður ástæðu til að gagnrýna, hvernig að rannsókn málsins var staðið af hálfu embættis lögreglustjórans í Reykjavík.

I. Kvörtun og málavextir.

Hinn 25. apríl 1990 lagði A fram kvörtun á hendur lögreglunni í Reykjavík og ríkissaksóknara yfir töfum á rannsókn máls í tilefni af því að A hafði kært X fyrir líkamsárás, húsbrot og eignaspjöll. Sá atburður gerðist 27. desember 1987 og var lögreglan í Kjósarsýslu kvödd á vettvang. Tók hún skýrslu af A og öðru vitni. Hann gaf síðan skýrslu fyrir lögreglumanni sama embættis daginn eftir, 28. desember, og bar hann þá fram refsikröfu á hendur X og áskildi sér rétt til að leggja fram bótakröfu síðar.

Hinn 28. janúar 1988 ritaði lögmaður A rannsóknarlögreglunni í Hafnarfirði bréf og óskaði eftir gögnum málsins. Jafnframt sendi lögmaðurinn skýrslu trésmiðs um tjón á húsi og húsmunum. Greinargerð lögmanns A fyrir kröfum um bætur fyrir fjárhagstjón og miska er dagsett 14. apríl 1988 og segir þar meðal annars, að henni fylgi læknisvottorð, en óljóst er hvort svo var í raun. Gögn þessi munu hafa verið send sakadómi Hafnarfjarðar.

Með bréfi sýslumannsembættisins í Kjósarsýslu, dags. 5. maí 1988, var umrætt mál sent lögreglustjóranum í Reykjavík til frekari rannsóknar. Fram kom, að málið hafði verið fengið V, varðstjóra, til meðferðar. V og X bar saman um, að V hefði tekið af honum skýrslu, en ekki lá fyrir, hvenær sú skýrsla var gefin og hefur hún samkvæmt gögnum málsins týnst. Sama máli gegnir um skýrslu, sem V tók af vitni. Var V yfirheyrður af lögreglu um þetta 18. desember 1989. Í skýrslu V sagði meðal annars:

"Mætti segir að þetta hafi verið stuttar skýrslur og nánast ekkert farið út í kæruatriðin. Í þeim hafi hins vegar komið fram að aðilar væru að ræðast við og allar líkur til að sættir tækjust í málinu. Í ljósi þessa hafi málið verið sett í biðstöðu eftir skýrslutökurnar.

Varðandi framburð kærða, [X], segir mætti að hann hafi viðurkennt að hafa valdið þarna tjóni sem hann vildi bæta. Ekki hafi verið rætt um kröfuna sem slíka, þ.e. upphæð kröfunnar."

Í gögnum frá lögreglunni í Reykjavík kom fram, að 14. september 1988 hefði V sent frá sér málið með upplýsingum um að aðilar hefðu verið að ná sáttum með aðstoð lögmanna sinna.

Lögmaður A lýsti í bréfi, dags. 26. júní 1990, sáttaumleitunum af hálfu lögmanns X. Þar segir meðal annars:

"Eins og þér er kunnugt hafði samband við mig á sínum tíma [H] hdl. og leitaði eftir sáttum f.h. umbjóðanda síns X vegna kæru og bótakrafna sem settar höfðu verið fram af þinni hálfu. Hygg ég að við [H] lögm. höfum haft samband u.þ.b. 4-5 sinnum á eins árs tímabili m.a. með fundi á skrifstofu minni. Af hálfu X hefur aldrei komið fram formlegt skriflegt tilboð til sáttar heldur hefur [H] haft uppi sáttaumleitanir sem hvorki hafa lýst skýrri afstöðu X né leitt til neinnar niðurstöðu.

Rétt er að geta þess að langur tími leið á milli þess er [H] hafði samband við mig svo að um afgerandi og eiginlegar sáttaumleitanir var í reynd aldrei að ræða.

Afstaða þín var hins vegar ávallt skýr og framsett með glöggum hætti í samræmi við kröfubréf dags. 14.4.1988."

Í bréfi, dags. 14. september 1989, sendi lögmaður A lögmanni X svofellda orðsendingu:

"Eftir samtal við umbjóðanda minn í dag náði ég ekki tali af þér. Afstaða [A] er skýr. Verði kröfur hans skv. kröfubréfi mínu samþykktar og krafan greidd er af hans hálfu fallið frá kæru í málinu. Ef [X] hafnar þessu þá er ekki um frekari sáttaumleitanir að ræða en beðið niðurstöðu dómara."

Í gögnum frá embætti lögreglustjórans í Reykjavík kom fram, að 12. september 1989 hefði umrætt kærumál verið tekið upp að nýju og málinu úthlutað til R, rannsóknarlögreglumanns. Samkvæmt sömu heimildum setti R sig strax í samband við kærða. Hafi þær upplýsingar fengist hjá honum, að lögmenn aðila væru að reyna að ná sáttum í málinu. Hafi R haldið áfram að hafa samband við kærða til að fylgjast með framgangi málsins. Þegar í ljós hafi komið, að sættir tækjust ekki hafi, kærði þegar verið boðaður til skýrslugjafar.

Hinn 28. september 1989 var X kvaddur fyrir lögreglu til skýrslugjafar. Neitaði hann þá að tjá sig um málsatvik og vísaði til fyrri skýrslu, sem hann hafði gefið fyrir V. Undir X voru við það tækifæri bornar bótakröfur í fyrrnefndri greinargerð lögmanns hans, en X taldi þær allt of háar. Hinn 3. október 1989 var vitni kvatt til skýrslugjafar hjá lögreglu og 18. desember s.á. gaf V fyrrgreinda skýrslu. Í framhaldi af því sendi embætti lögreglustjórans í Reykjavík málið ríkissaksóknara með bréfi, dags. 20. desember 1989.

Með bréfi, dags. 8. janúar 1990, endursendi ríkissaksóknari málið lögreglustjóranum í Reykjavík með fyrirmælum um ítarlegri rannsókn. Var skýrslan tekin af X 14. mars 1990 og málið sent á ný ríkissaksóknara með bréfi, dags. 29. sama mánaðar. Með bréfi til lögreglustjórans í Reykjavík, dags. 9. apríl 1990, lauk ríkissaksóknari málinu. Bréfið er svohljóðandi:

"Eftir viðtöku bréfs yðar, herra lögreglustjóri, dagsetts 29. f.m., sem með fylgdu rannsóknargögn varðandi ætlaða líkamsárás, húsbrot og eignaspjöll af hálfu [X], skal hér með tekið fram, að af ákæruvaldsins hálfu er, eins og nú háttar til, eigi krafist frekari aðgerða í máli þessu, enda verður talið að sök, sem hefði getað varðað við 1. mgr. 217. gr., 231. gr. og 1., sbr. 4. mgr. 257. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940, sé fyrnd samkvæmt 1. tl. 1. mgr. 81. gr. sömu laga."

II. Athugun umboðsmanns Alþingis.

Með bréfum, dags. 2. maí 1990, óskaði ég eftir því við lögreglustjórann í Reykjavík, að mér yrðu afhent gögn þessa máls. Gögnin bárust mér 9. sama mánaðar og 10. júlí 1990 fékk ég athugasemdir A við þau.

Með bréfi 1. október 1990 til dóms- og kirkjumálaráðherra óskaði ég eftir því að ráðuneyti hans skýrði afstöðu sína til kvörtunar A, sbr. 9. gr. laga nr. 13/1987. Greinargerð ráðuneytisins barst mér í bréfi frá 30. nóvember 1990 og hljóðar hún svo:

"Með bréfi yðar, herra umboðsmaður Alþingis, dags. 1. október sl., senduð þér rannsóknargögn í kærumáli [A], á hendur [X], fyrir líkamsárás, húsbrot og eignaspjöll. Óskuðuð þér þess að ráðuneytið skýri afstöðu sína til kvörtunar á töf á rannsókn málsins hjá embætti lögreglustjórans í Reykjavík.

Að beiðni ráðuneytisins hefur rannsóknarlögregla ríkisins látið í té yfirlit um tilhögun rannsóknar af því tagi sem hér um ræðir. Fylgir ljósrit af því yfirliti hjálagt ásamt bréfi rannsóknarlögreglustjóra ríkisins dags. 20. þ.m.

Samkvæmt yfirlitinu er ávallt lögð áhersla á að mál tefjist ekki verulega vegna umfjöllunar um skaðabótakröfu.

Þessi starfstilhögun á að vera viðhöfð hjá lögreglu við rannsókn mála, enda byggist hún á 145. gr. laga um meðferð opinberra mála, þar sem segir að þriðji maður eigi þess kost að koma bótakröfu að í væntanlegu refsimáli, ef hún verði nægilega skýrð án verulegra tafa eða óhagræðis í því máli.

Verður að ætla að töfin stafi einkum af því hversu lengi dróst að finna sáttagrundvöll um bætur, þar sem lögmaður kæranda hafði í bréfi dags. 14. september 1989 lýst því yfir að fallið yrði frá kæru í málinu, ef kröfur hans yrðu samþykktar.

Þótt kærandi eigi þess ekki kost lengur að koma bótakröfu sinni að í refsimálinu, sem nú er fyrnt sbr. bréf ríkissaksóknara, dags. 9. apríl 1990, virðist honum enn í lófa lagið að höfða einkamál á hendur tjónvaldi til heimtu bóta."

Ég gaf A kost á því að koma á framfæri athugasemdum sínum við framanskráða greinargerð dóms- og kirkjumálaráðuneytisins. Bárust mér athugasemdir hans 15. mars 1991.

III. Niðurstaða.

Í niðurstöðu álits míns, dags. 8. ágúst 1991, sagði svo:

"Ástæða er til að ætla, að brot þau, er A kærði samkvæmt því, sem lýst er í I. kafla hér að framan, hafi varðað við 1. mgr. 217. gr., 231. gr. og 1. mgr. 257. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Opinber mál út af slíkum brotum skal því aðeins höfða að almenningshagsmunir krefjist þess, sbr. 2. mgr. 217. gr., eða sá krefjist þess, sem misgert er við, sbr. a-lið 2. töluliðar 242. gr., og 4. mgr. 257. gr. sömu laga. Síðargreindu skilyrði var fullnægt með refsikröfu þeirri, sem A bar fram 28. desember 1987 og hann áréttaði í apríl 1988. Var því fullnægt skilyrði 26. gr. almennra hegningarlaga til þess að byrja opinbera rannsókn. Bar að halda henni áfram með hæfilegum hraða, nema A félli frá kæru sinni, sbr. 28. gr. sömu laga.

Samkvæmt því, sem rakið hefur verið í I. kafla hér að framan, var umrætt mál sent embætti lögreglustjórans í Reykjavík 5. maí 1988. Rannsókn þess lauk með bréfi til ríkissaksóknara 29. mars 1990. Varð niðurstaða ríkissaksóknara sú, eins og fyrr greinir, að brot það, sem kæran laut að, væri þá fyrnt.

Ég tel ekki viðunandi, að mál velkist svo lengi í rannsókn hjá lögreglu að hætta sé á að brot fyrnist, svo sem gerðist í þessu máli. Að vísu er eðlilegt, þegar brot sætir ákæru að kröfu þess, sem fyrir broti verður, að þeim, sem í hlut eiga, sé gefið færi á að gera út um mál sín, áður en rannsókn lýkur, en lögreglu ber, að mínum dómi, að fá á hreint innan hæfilegs tíma, hvort árangur hafi orðið af slíkum tilraunum.

Ekki verður fullyrt, hvað fór milli lögreglumanna, sem önnuðust rannsókn þessa máls, og kærða og kæranda. Hvernig sem á er litið, verður hins vegar ekki talið að sáttaumleitanir síðastgreindra aðila hafi réttlætt þá töf, sem varð. Ekki verður þannig séð, að fullnægjandi ástæður hafi verið til að hætta rannsókn málsins í september 1988. Þá var sérstök ástæða til að hraða rannsókn meira en raun bar vitni, eftir að rannsókn hófst á ný í september 1989, enda mátti þá sjá fyrir, að stefndi í fyrningu sakar. Þá varð það ekki til að greiða fyrir rannsókn málsins, að skýrslur glötuðust, svo sem áður er komið fram.

Niðurstaða mín er sú, að ástæða sé til að gagnrýna, hvernig að umræddri rannsókn var staðið af hálfu embættis lögreglustjórans í Reykjavík."