Lögreglurannsókn. Meðferð ákæruvalds. Bókhaldsrannsókn. Ákvörðun um framhald lögreglurannsóknar.

(Mál nr. 848/1993)

Máli lokið með áliti, dags. 9. nóvember 1993.

A kvartaði yfir rannsókn rannsóknarlögreglu ríkisins og ríkissaksóknara vegna kæru hans yfir meintum fjárdrætti fyrrum meðeiganda hans í X h.f. Ákvörðun ríkissaksóknara um að knýja ekki á um umbeðna framhaldsrannsókn hjá Rannsóknarlögreglu ríkisins var einkum á því byggð, að sjónarmið þess löggilta endurskoðanda, sem var rannsóknarlögreglunni til ráðgjafar í málinu, væru þau, að í fyrirliggjandi gögnum væri ekki að finna neitt, sem gæfi tilefni til að kalla fyrrum meðeiganda A, sem jafnframt var framkvæmdastjóra X h.f., til skýrslugjafar um hin meintu brot og að af hálfu rannsóknarlögreglunnar hefði verið talið, að tæpast væru efni til að leggja út í ítarlega og kostnaðarsama bókhaldsrannsókn eins og málinu var háttað.

Umboðsmaður rakti ákvæði laga nr. 19/1991, um meðferð opinberra mála, varðandi ríkissaksóknara og ákvörðun þess embættis um rannsókn og framkvæmd hennar. Þá gat umboðsmaður þess, að samkvæmt lögunum gæti rannsóknari leitað til kunnáttumanna, þegar þörf væri á sérfræðilegri rannsókn svo sem bókhaldsrannsókn. Ríkissaksóknari færi með æðsta vald við rannsókn opinberra mála og það væri á hans valdi að taka ákvörðun um það, hvort rannsókn máls skyldi haldið áfram eða hætt. Umboðsmaður tók fram, að ákvörðun ríkissaksóknara um framgang rannsóknar hefði verið byggð á vinnu kunnáttumanns á sviði bókhalds og endurskoðunar og meginviðhorf hins löggilta endurskoðanda lægju fyrir. Það væri skoðun hans, að ekki yrði annað ráðið af málsgögnum en að sú niðurstaða ríkissaksóknara, að krefjast ekki frekari aðgerða í málinu á grundvelli afstöðu rannsóknarlögreglu ríkisins, hefði verið reist á lögmætum sjónarmiðum.

I. Kvörtun.

Hinn 21. júlí 1993 leitaði til mín A og kvartaði yfir rannsókn embætta rannsóknarlögreglu ríkisins og ríkissaksóknara á kæru hans á meintum fjárdrætti fyrrum meðeigenda hans í X h.f., en þeir voru jafnframt framkvæmdastjórar félagsins.

II. Málavextir.

Bú X h.f. var tekið til gjaldþrotaskipta 5. júní 1992. Í bréfi skiptastjóra 19. ágúst 1992 kemur fram, að félagið hafi verið stofnað 26. mars 1988. Í ársbyrjun 1990 hafi eignir félagsins verið seldar og starfseminni hætt, en tap hafði verið á rekstrinum. Síðan segir í bréfi skiptastjórans:

"Stjórnarformaður félagsins [A], hefur skýrt undirrituðum frá því að hann hafi ærna ástæðu til að ætla að rekstrartekjur af starfseminni [...] hafi ekki skilað sér til félagsins nema að einhverjum hluta. Í gögnum hans eða félagsins eru ekki til nein sönnunargögn til stuðnings þessum grunsemdum en hann telur að þær megi sanna með lögreglurannsókn...."

Þá rekur skiptastjórinn í bréfi sínu efnislega grunsemdir A. Hinn 4. október 1992 óskaði A eftir því, að ríkissaksóknari rannsakaði bókhald og rekstur X h.f., þar sem mikið hafi vantað á, að skilað hafi verið "allri álagningu og þar með réttum söluskatti" við uppgjör. Ríkissaksóknari ritaði rannsóknarlögreglu ríkisins bréf 5. október 1992. Þar segir meðal annars:

"Eins og fram kemur í ofangreindu bréfi skiptastjórans er það sent með vísan til 84. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl. nr. 21/1991 vegna grunsemda stjórnarformannsins um meint auðgunarbrot af hálfu framkvæmdastjóra hins gjaldþrota félags,...

Þess er beiðst, að skýrsla verði tekin af stjórnarformanni sem jafnframt afhendi bókhaldsgögn félagsins til rannsóknar og stuðnings við nánari afmörkun á meintum brotum, og málið að öðru leyti rannsakað svo sem þurfa þykir og tilefni gefst til."

Í svarbréfi Rannsóknarlögreglu ríkisins 14. janúar 1993 segir meðal annars:

"Gagna hefur verið aflað og leitað hefur verið viðhorfs [Á], löggilts endurskoðanda og eru meðfylgjandi tvær greinargerðir hans ásamt fylgiskjölum. Sérstaklega er vakin athygli á þeirri niðurstöðu endurskoðandans, að ekkert sé að finna í gögnum málsins sem renni stoðum undir þungar ásakanir [A] á hendur framkvæmdastjóranum. Hins vegar kemur fram að ítarleg bókhaldsrannsókn gæti hugsanlega leitt í ljós fjárdrátt sem unnt væri að sanna, en þó aðeins ef fyrirfinnast gögn sem sýna innkomna fjármuni sem ekki eru framtaldir í ársreikningi félagsins.

Eins og máli þessu er háttað telur Rannsóknarlögregla ríkisins tæpast efni til þess að leggja út í ítarlega og kostnaðarsama bókhaldsrannsókn.

Málið sendist yður í einriti, herra ríkissaksóknari, til þóknanlegrar ákvörðunar eða fyrirsagnar."

Hinn 6. maí 1993 ritaði ríkissaksóknari Rannsóknarlögreglu ríkisins svohljóðandi bréf:

"Hér með endursendast gögn, sem fylgdu bréfi yðar, dags. 14. janúar 1993, vegna rannsóknar á ætluðum auðgunarbrotum af hálfu fyrrum framkvæmdastjóra [X] hf....

Af hálfu embættisins hefur verið aflað viðbótargagna sem hér greinir:

1. Bréf frá Samkeppnisstofnun, dags. 1. mars 1993, með upplýsingum um meðal leiðbeinandi álagningu 1989 á ýmsum vöruflokkum í söluturnum.

2. Reikningsyfirlit tékkareiknings [M] við Iðnaðarbanka Íslands hf., Breiðholtsútibú,

3. Reikningsyfirlit tékkareiknings [M] við Samvinnubanka Íslands við Suðurlandsbraut.

Þá eru meðfylgjandi minnispunktar frá stjórnarformanni [X] hf. [A].

Með vísan til framangreindra gagna er þess hér með óskað að haldið verði áfram rannsókn málsins.

Við þá framhaldsrannsókn þykir nauðsynlegt að flokka vörukaup eftir vöruflokkum, eftir því sem mögulegt er, í því skyni að reikna út meðalálagningu samkvæmt þeim gögnum sem aflað hefur verið í málinu. Ennfremur er á það bent að kærandi staðhæfir að fyrir liggi í bókum söluturnsins upplýsingar um útsöluverð einstakra vara.

Þá þykir tilefni til að rannsaka innlegg á ofangreinda tékkareikninga [M].

Að lokinni rannsókn ofangreinds og að fenginni nánari skýrslu fyrrverandi stjórnarformanns, [A], verði hin kærðu kvödd til skýrslugjafar, m.a. um hvernig notkun [M] á tékkareikningnum hafi verið háttað á árinu 1989, svo og hvernig skýrð yrði sú álagning sem bókhald [X] hf. sýnir á þessum tíma.

Að öðru leyti er óskað eftir að málið verði rannsakað eftir því sem skýrslur kærðu kunna að gefa tilefni til."

Með bréfi 10. maí 1993 sendi ríkissaksóknari Rannsóknarlögreglu ríkisins viðbótargögn, sem A hafði lagt fram og vörðuðu staðhæfingar hans um undanskot fyrrum framkvæmdastjóra félagsins á fjármunum þess. Í svarbréfi Rannsóknarlögreglu ríkisins 26. maí 1993 sagði:

"Hér með sendast yður að nýju, herra ríkissaksóknari, gögn ofantilvísaðs máls sem varðar rekstur [X] h.f. á tímabilinu maí 1988 til janúar 1990.

Að fengnum bréfum yðar dags. 6. og 10. þ.m. voru skýrslur teknar af [Þ] og [T], sem [A] tilgreindi í minnispunktum, er fylgdu bréfi yðar dags. 6. þ.m., sem heimildarmenn um misferli [S], auk þess sem tekin var skýrsla af [A].

Með hliðsjón af því sem fram kemur í skýrslum [Þ] og [T] leyfi ég mér nú að senda yður gögn málsins aftur til þóknanlegrar ákvörðunar þótt ekki hafi verið unnin sú rannsóknarvinna sem kveðið er á um í bréfi yðar dags. 6. þ.m."

Hinn 30. júní 1993 ritaði ríkissaksóknari rannsóknarlögreglustjóra bréf. Var afrit þess meðal annars sent A. Í bréfinu segir:

"Vísað er til bréfs yðar herra rannsóknarlögreglustjóri, dagsetts 26. maí sl., þar sem endursend eru þau gögn sem fylgdu bréfum embættisins til yðar dagsettum 6. og 10. maí sl. með beiðni um framhaldsrannsókn á ætluðum auðgunarbrotum fyrrum framkvæmdastjóra [X] hf., þeirra [S] og [M].

Í bréfi rannsóknarlögreglu ríkisins, dagsettu 14. janúar sl., voru kynnt viðhorf hins löggilta endurskoðanda, ráðgjafa yðar í máli þessu, um að í gögnum þeim sem þá lágu fyrir, væri ekki að finna neitt sem gæfi tilefni til að kalla fyrrum framkvæmdastjóra ofangreinds félags til skýrslugjafar um hin meintu brot, og tæpast var efni til þess að leggja út í ítarlega og kostnaðarsama bókhaldsrannsókn eins og máli þessu væri háttað.

Af hálfu embættisins var talið að fyrirliggjandi gögn gæfu tilefni til þess að afla nokkurra viðbótargagna og að þeim gögnum fengnum var ákveðið að senda yður þau með beiðni um framhaldsrannsókn.

Ljóst var að áður en skýrslur yrðu teknar af framkvæmdastjóranum vegna meintra auðgunarbrota, þar sem leitast yrði við að upplýsa lága álagningu og lágt bókfærða vörusölu félagsins, þyrfti að leggja í nokkra undirbúningsvinnu, svo sem nánar var kveðið á um í bréfi dagsettu 6. maí sl. Þá rannsóknarvinnu hefur rannsóknarlögregla ríkisins ekki talið efni til að leggja út í, og byggt þar á því áliti hins löggilta endurskoðanda og ráðgjafa síns í máli þessu að viðbótargögnin breyttu ekki fyrra viðhorfi hans um að eigi væru efni til frekari opinberrar rannsóknar á máli þessu.

Með hliðsjón af framangreindu þykir af ákæruvaldsins hálfu eigi fært að knýja á um áður umbeðna framhaldsrannsókn vegna fyrrgreindra viðhorfa yðar. Eru því eigi efni til frekari aðgerða í máli þessu af hálfu ákæruvalds að svo vöxnu máli."

III. Athugun umboðsmanns Alþingis.

Hinn 5. ágúst 1993 ritaði ég rannsóknarlögreglustjóra og ríkissaksóknara bréf, þar sem ég óskaði eftir því, sbr. 7. og 9. gr. laga nr. 13/1987 umboðsmann Alþingis, að embætti þeirra létu mér í té gögn málsins og skýrðu viðhorf sitt til kvörtunar A. Í bréfi rannsóknarlögreglustjóra 11. ágúst 1993 segir meðal annars:

"Viðhorf til kvörtunarinnar

Af rannsóknargögnum og bréfum sem send voru á milli embætta má glögglega ráða hvernig staðið var að athugun og rannsókn málsins. Þá má geta þess, enda kemur það ekki skýrt fram í málsgögnum, að leitað var til [B], löggilts endurskoðanda, sem hafði fært bókhald fyrir [X] h.f., og veitti hann upplýsingar og lét í té gögn sem ráðgjafi RLR tók til frekari úrvinnslu.

Ég tel að málsgögn beri það með sér að leitast hafi verið við [að] koma málinu í eðlilegan og ákveðinn rannsóknarfarveg með því að afmarka brot, eins og ríkissaksóknari hafði mælt fyrir um. Það hafi hins vegar ekki tekist og rannsóknargögn þá verið endursend ríkissaksóknara sem ákvað að lokum að láta kyrrt liggja.

Eftirmáli

Í bréfum þeim sem rannsóknarlögreglan ritaði ríkissaksóknara í sambandi við málið koma viðhorf til þess eða sakarefnisins ekki skýrt fram, en sjónarmið ráðgjafans, hins löggilta endurskoðanda, eru ótvíræð og afdráttarlaus. Eftirá að hyggja er ég ekki í vafa um að máli þessu hefði verið vísað frá samkvæmt reglum 76. gr. laga um meðferð opinberra mála nr. 19, 1991 eftir frumathugun, ef það hefði borið að með öðrum hætti (frávísunarreglurnar eiga ekki við, berist mál frá ríkissaksóknara), jafnvel án þess að sjónarmiða endurskoðandans hefði verið aflað. Ákvörðun um frávísun hefði í aðalatriðum verið reist á því sjónarmiði að ekki sé rétt að taka til meðferðar rannsóknarbeiðni frá kaupmanni eða verslunarfyrirtæki sem afhendir bókhald ásamt fylgiskjölum og setur fram almennar, órökstuddar, staðhæfingar um að einhver starfsmaður hljóti að hafa dregið sér fé úr rekstrinum vegna þess hve afraksturinn sé slakur."

Með bréfi embættis ríkissaksóknara 1. september 1993 bárust mér gögn málsins, ásamt viðhorfi embættisins til kvörtunarinnar. Þar segir meðal annars:

"Viðhorf embættisins til ofangreindrar kvörtunar og þeirrar rannsóknar sem fram fór í málinu koma fram í bréfum embættisins til rannsóknarlögreglu ríkisins dagsettum 6. maí og 30. júní s.l.

Jafnframt skal tekið fram að vegna þess hve mikið af mun viðameiri málum á sviði efnahagsbrota liggur fyrir á rannsóknarstigi þótti eigi rétt að knýja á um frekari rannsókn í máli þessu."

Með bréfum dagsettum 17. ágúst og 2. september 1993 gaf ég A kost á að senda mér athugasemdir sínar í tilefni af ofangreindum skýringum. Athugasemdir A bárust mér með bréfum hans dagsettum 20. ágúst og 8. september 1993.

IV. Niðurstaða.

Niðurstaða álits míns, dags. 9. nóvember 1993, var svohljóðandi:

"Í V. kafla laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála eru fyrirmæli um ríkissaksóknara, sem er æðsti handhafi ákæruvalds í landinu. Í 27. gr., 2. mgr. 66. gr. og 2. mgr. 76 gr. laganna er mælt fyrir um það, að ríkissaksóknari geti kveðið á um rannsókn máls og mælt fyrir um framkvæmd hennar. Um rannsókn opinberra mála eru fyrirmæli í IX. kafla laga nr. 19/1991. Tekið er fram í 67. gr. laganna, að markmið rannsóknar sé "... að afla allra nauðsynlegra gagna til þess að ákæranda sé fært að ákveða að henni lokinni hvort sækja skuli mann til sakar, svo og að afla gagna til undirbúnings málsmeðferðar". Samkvæmt 1. mgr. 70. gr. laga nr. 19/1991 getur rannsóknari leitað "... til kunnáttumanna þegar þörf er á sérfræðilegri rannsókn, svo sem... bókhaldsrannsókn o.s.frv." Af ákvæðum V. og IX. kafla laga nr. 19/1991 er ljóst, að það er ríkissaksóknari, sem fer með æðsta vald hér á landi við rannsókn opinberra mála. Það er ennfremur á hans valdi að taka ákvörðun um það, hvort rannsókn máls skuli haldið áfram eða hætt.

Af skýringum Rannsóknarlögreglu ríkisins frá 11. ágúst s.l. og ríkissaksóknara frá 1. september s.l. verður ráðið, að sú ákvörðun hins síðarnefnda frá 30. júní s.l., að halda ekki áfram frekari rannsókn á meintum auðgunarbrotum fyrrum framkvæmdastjóra X h.f., hafi verið byggð á vinnu kunnáttumanns á sviði bókhalds og endurskoðunar, löggilts endurskoðanda. Í bréfi Rannsóknarlögreglu ríkisins frá 14. janúar 1993, sem rakið er hér að framan, er gerð grein fyrir meginviðhorfum hins löggilta endurskoðanda til málsins. Það er skoðun mín, að ekki verði annað ráðið af gögnum málsins en að framangreind niðurstaða ríkissaksóknara, að krefjast ekki frekari aðgerða í málinu á grundvelli afstöðu rannsóknarlögreglu ríkisins, hafi verið reist á lögmætum sjónarmiðum.

Er afskiptum mínum af máli þessu því lokið hér með, sbr. a-lið 2. mgr. 10. gr. laga nr. 13/1987 um umboðsmann Alþingis."