Foreldrar og börn. Barnsmeðlög. Framfærsluskylda. Dráttarvextir. Vandaðir stjórnsýsluhættir.

(Mál nr. 1842/1996)

A kvartaði yfir því, að Innheimtustofnun sveitarfélaga hefði ekki staðið við samkomulag um að dráttarvextir af meðlagsskuld hans við stofnunina yrðu felldir niður.

Umboðsmaður rakti ákvæði 5. gr. laga nr. 54/1971, um Innheimtustofnun sveitarfélaga og 9.–11. gr. reglugerðar nr. 214/1973, um innheimtu og skil á meðlögum o.fl. á vegum Innheimtustofnunar sveitarfélaga, um hlutverk innheimtustofnunar við innheimtu meðlaga, skyldu barnsfeðra til greiðslu dráttarvaxta ef meðlag er ekki greitt innan tiltekins tíma og heimild stjórnar innheimtustofnunar til þess að víkja frá dráttarvaxtatöku, sé um sérstaka félagslega erfiðleika að ræða hjá skuldara.

Umboðsmaður taldi ljóst, að ákvörðun stjórnar innheimtustofnunar hefði ekki staðið til þess að allir dráttarvextir af meðlagsskuld A yrðu felldir niður. Hins vegar hefði orðalag bréfs stofnunarinnar, þar sem A var tilkynnt niðurstaða stjórnarinnar gefið aðra afstöðu stofnunarinnar til kynna. Bréfið hefði gefið A ástæðu til að ætla að allir dráttarvextir hefðu verið felldir niður. Innheimtustofnun sveitarfélaga hélt því fram, að A hefði leitað skýringa á efnislegu inntaki bréfsins skömmu eftir að það barst honum og að honum hefði þá verið kynnt bókun stjórnarinnar. Umboðsmaður vísaði til þess, að væri þessi staðhæfing rétt, hefði Innheimtustofnun sveitarfélaga borið að árétta það bréflega við A, að aðeins hefði verið felldur niður helmingur dráttarvaxta. Það hefði verið í samræmi við vandaða stjórnsýsluhætti, og um leið hefði stofnunin tryggt sér sönnun fyrir því, að efni stjórnarsamþykktarinnar hefði verið réttilega komið á framfæri við A. Umboðsmaður taldi þetta hafa verið sérstaklega brýnt, því að A hefði talið, í ljósi skilnings síns á samþykktinni, að skuld hans næmi tiltekinni fjárhæð, sem hann greiddi svo með greiðsluseðli skömmu síðar. Hann ritaði á greiðsluseðilinn athugasemd þess efnis að um lokagreiðslu vegna skuldar á meðlagi væri að ræða, sbr. bréf stofnunarinnar. Umboðsmaður benti á, að ef A hefði fengið þær skýringar á bréfi stofnunarinnar, sem hún héldi fram, hefði stofnunin engu að síður við viðtöku greiðsluseðilsins mátt gera sér grein fyrir því að skilningur A var annar. Hún aðhafðist hins vegar ekkert í tilefni af viðtöku seðilsins.

Það var því niðurstaða umboðsmanns, að A hefði verið rétt að skilja bréf innheimtustofnunar þannig, að stofnunin hefði ákveðið að fella niður alla dráttarvexti af meðlagsskuld hans, enda yrði ekki ráðið af gögnum málsins að stofnunin hefði leiðrétt þennan skilning A innan hæfilegs frests. Lög stæðu því ekki til þess, að Innheimtustofnun sveitarfélaga krefði A um þá dráttarvexti, sem um væri að ræða.

Í málinu kom fram, að það væri venja hjá Innheimtustofnun sveitarfélaga að bakfæra ekki þá dráttarvexti, sem samþykkt hefði verið að fella niður, fyrr en skuldin hefði að öðru leyti verið gerð upp. Væri þetta ástæða þess að vísað hefði verið til þess af hálfu stofnunarinnar, að höfuðstóll skuldar A væri uppgreiddur en helmingur dráttarvaxta enn ógreiddur. Umboðsmaður benti á, að í lögum nr. 54/1971 og reglugerð nr. 214/1973, væri hvergi vikið að því, að stjórn innheimtustofnunar skyldi setja það skilyrði fyrir samkomulagi, eins og því sem hér um ræddi, að skuldin væri jafnframt gerð upp að öðru leyti. Hann taldi hins vegar að stjórninni væri þetta heimilt þegar efni stæðu til þess. Þá væri brýnt að sú afstaða stjórnarinnar kæmi fram í bréfi til skuldara þannig að honum mætti vera hún ljós. Þetta skipti máli um útreikning dráttarvaxta en innborganir gengju fyrst til greiðslu þeirra. Umboðsmaður tók fram, að sú reikningsaðferð innheimtustofnunar að miða niðurfellingu við áfallna dráttarvexti fyrr og síðar, leysti ekki til fulls úr tölulegu misræmi, sem kynni að koma upp í þessu sambandi.

Beindi umboðsmaður þeim tilmælum til stofnunarinnar, að hún tæki mál A til meðferðar að nýju, ef hann óskaði þess, og hagaði þá úrlausn þess í samræmi við þau sjónarmið sem kæmu fram í álitinu.

I.

Hinn 9. júlí 1996 leitaði til mín A, og kvartaði yfir því, að Innheimtustofnun sveitarfélaga hefði ekki staðið við samkomulag um, að dráttarvextir af meðlagsskuld hans við stofnunina skyldu felldir niður.

II.

Í kvörtun A til mín eru málavextir raktir svo:

„Í ársbyrjun 1992 samdi [X] h/f við Innheimtustofnun sveitarfélaga (hér eftir I.S.) um meðlagsskuld mína. Samningurinn var á þá leið að þegar höfuðstóllinn væri greiddur yrðu dráttarvextir felldir niður. Árin 1992 og 1993 greiddi ég höfuðstól skuldarinnar, fékk reyndar frest á greiðslu einu sinni símleiðis og jafnframt loforð um að það hefði ekki áhrif á samninginn. Ég hafði einnig samband við I.S. vegna þess að greiðslur þær sem ég innti af hendi lækkuðu ekki höfuðstól [skuldarinnar. Var] mér tjáð að þar til ég hefði greitt upp höfuðstólinn kæmu greiðslur ekki til lækkunar [á] honum.

Það var í nóvember 1993 að ég fór ásamt sambýliskonu minni [B] til I.S., erindið var að athuga hvort meðlagið væri ekki að fullu greitt og að fá dráttarvextina fellda niður eins og samið var um. Hjá I.S. hittum við fyrir [C], hún sagði að samningurinn hefði einungis tekið til helmings dráttarvaxta, ekki þeirra allra eins og vinnuveitandi minn hafði tjáð mér. Hún benti mér á að sækja skriflega um niðurfellingu á öllum dráttarvöxtum og sagði að í ljósi þess að ég hefði staðið vel við mitt væri líklegt að stjórnin yrði við bón minni.

Ég fór að ráðum [C] sjá bréf dags. 10. nóvember 1993 […]. Svarbréf barst frá I.S. sjá bréf dags. 19. nóvember 1993 [...] þess efnis að erindi mitt hafi verið tekið fyrir stjórn og allir dráttarvextir felldir niður og fyrri samþykkt um helming hefði verið staðfest. Þá reiknaðist mér til að skuld mín væri 21.145.00 sem ég greiddi 3. desember 1993 [...]. Síðan þá hef ég staðið í skilum með meðlagsgreiðslur mínar.

Það er síðan í janúar 1996 að mér barst greiðsluáskorun frá I.S. sjá bréf dags. 15. janúar 1996 [...] í framhaldi af því sneri ég mér til eins af þingmönnum kjördæmis míns og spyr hann álits, hann sagðist athuga málið. Mér barst síðan bréf frá I.S. dags. 21. febrúar 1996 [...] þar segir að stjórnin hafi fjallað um mál mitt og fyrri samþykktir frá [24. febrúar 1992 og 15. nóvember 1993] hafi verið staðfestar. Einnig segir að áfallnir dráttarvextir séu frá upphafi kr. 160.588.– og helmingur þeirra kr. 80.294.– verði felldir niður þegar hinn helmingur verði greiddur. Þá tilkynnist að beðist sé velvirðingar á ritvillu í bréfi stofnunarinnar frá [19. nóvember] 1993 og sagt um hana: „getur ekki haft efnisleg áhrif á niðurstöðu stjórnar“.

Það næsta sem gerist er að mér berst boðun vegna fjárnáms að kröfu I.S. að upphæð kr. 619.071.– [...].“

Í bréfi A til stjórnar Innheimtustofnunar sveitarfélaga, dags. 10. nóvember 1993, sem vitnað er til í kvörtuninni, kemur fram, að hann hafi skilið afgreiðslu stofnunarinnar frá 1992 þannig, að fallist hafi verið á erindi hans um niðurfellingu allra dráttarvaxta. Hann hafi lagt hart að sér í vinnu til þess að greiða höfuðstól skuldarinnar í þeirri trú, að fljótlega yrði hún uppgreidd og hann færi þá að greiða einfalt meðlag á mánuði. Síðar hafi hann komist að því, að einungis hafi staðið til að fella niður helming dráttarvaxta. Af því tilefni hafi hann sett fram þá ósk í þessu bréfi sínu, að stofnunin sæi sér fært „að fella niður dráttarvextina“.

Innheimtustofnun sveitarfélaga sendi A svohljóðandi svarbréf hinn 19. nóvember 1993:

„Stjórn Innheimtustofnunar sveitarfélaga samþykkti á fundi sínum 15. þ.m. erindi yðar dags. 10. s.m. um niðurfellingu á öllum dráttarvöxtum.

Fyrri samþykkt um niðurfellingu á helmingi dráttarvaxta var staðfest.

Þetta tilkynnist yður hér með.“

III.

Með bréfi 12. júlí 1996 óskaði ég eftir því við stjórn Innheimtustofnun sveitarfélaga, með vísan til 7. og 9. gr. laga nr. 13/1987, um umboðsmann Alþingis, að stofnunin skýrði viðhorf sitt til kvörtunar A og léti mér í té gögn málsins, þ. á m. gögn um samþykkt stjórnar stofnunarinnar frá 24. febrúar 1992 og 15. nóvember 1993. Gögn málsins bárust mér með bréfi Innheimtustofnunar sveitarfélaga, dags. 29. júlí 1996. Hinn 7. ágúst 1996 ritaði ég stjórn stofnunarinnar bréf að nýju. Óskaði ég eftir því, með vísan til 9. gr. laga nr. 13/1987, að upplýst yrði, hvort staðið hefði verið við samkomulag A og stofnunarinnar. Þá ítrekaði ég fyrri tilmæli mín um, að stofnunin skýrði viðhorf sitt til kvörtunarinnar að öðru leyti. Í bréfi Innheimtustofnunar sveitarfélaga til mín, dags. 20. september 1996, segir svo meðal annars:

„Vísað er til bréfs stofnunarinnar til umboðsmanns Alþingis dags. 29. júlí s.l. ásamt staðfestum útskriftum af fundargerðum stjórnar stofnunarinnar varðandi mál þetta auk tölvuútskriftar af viðskiptareikningi skuldara við stofnunina. Það skal ítrekað sem fram kemur í útskriftunum úr fundargerðarbókinni að samþykkt var að fella niður helming dráttarvaxta af meðlagsskuld hans gegn greiðslu höfuðstólsins og hins helmings dráttarvaxtanna. Helmingur dráttarvaxtanna hefur ekki verið bakfærður, þar sem venja eða starfsregla hefur verið að bakfæra dráttarvexti eða hluta dráttarvaxta sem samþykkt hefur verið að fella niður ekki fyrr en skuldin hefur að öðru leyti verið gerð upp.

Í þessu tilfelli er höfuðstóllinn uppgreiddur en helmingur dráttarvaxtanna, sem greiða ber, er enn ógreiddur.

Því er mótmælt að stofnunin hafi ekki staðið við sinn hlut að samþykktinni.

Sé talið að mál þetta hafi klúðrast í höndum starfsmanns stofnunarinnar væri ekki óeðlilegt að málið fengi að nýju meðferð á stjórnarfundi í stofnuninni.“

Í tilefni af greiðslustöðuyfirlitum, sem fylgdu gögnum málsins, og í kjölfar símtals við starfsmann Innheimtustofnunar sveitarfélaga 26. september 1996 ritaði ég stofnuninni bréf 1. október 1996 og óskaði eftir því, að gerð yrði grein fyrir aðferð stofnunarinnar við útreikning dráttarvaxta og færslu innborgana. Svar Innheimtustofnunar sveitarfélaga barst mér með bréfi, dags. 3. október 1996. Í bréfinu var staða innheimtumálsins útfærð tölulega. Síðan sagði svo:

„Þegar fjallað er um niðurfellingu á dráttarvöxtum skv. l. nr. 4/1971 og reglugerð nr. 210/1987 af stjórn stofnunarinnar, þá er miðað við áfallna dráttarvexti og miðað við meðfylgjandi útskrift þá liti málið út á þessa leið.

Heildarskuld kr. 710.124.–

Áfallnir dráttarvextir

frá 1. júlí 1986 kr. 708.855.–

Höfuðstóll kr. 1.269.–

eða eins og ég tel mig hafa sagt, nærri uppgreiddur.

Skv. framanrituðu og miðað við stjórnarsamþykkt um niðurfellingu á helmingi dráttarvaxta v/félagslegra erfiðleika, myndu þeir nema kr. 354.427.– en eftirstöðvarnar, sem þyrfti þá að borga kr. 355.697.–

Samþykkt í þessu máli um niðurfellingu á helmingi dráttarvaxta gegn greiðslu 3ja meðlaga á mánuði var gerð 24. febr. 1992 og síðan staðfest á fundum 15. nóv. 1993 og 12. febr. 1996.“

Með bréfi, dags. 13. febrúar 1997, óskaði ég eftir því við stjórn Innheimtustofnunar sveitarfélaga, að hún upplýsti, hvernig háttað væri tilkynningum stofnunarinnar til þeirra, er henni skulda, um greiðslur, sem inna á af hendi, og um stöðu skulda, t.d. um áramót. Í svarbréfi Innheimtustofnunar sveitarfélaga, dags. 18. febrúar 1997, kemur fram, að stofnunin sendir meðlagsskuldurum tilkynningu um skuldastöðu fjórum sinnum á ári, þ.e. í mars, júní, september og desember. Ég ritaði A bréf 19. febrúar 1997 og gaf honum kost á að senda mér athugasemdir sínar í tilefni af bréfi Innheimtustofnunar sveitarfélaga. Í símtali 2. apríl 1997 tjáði A starfsmanni mínum, að hann hefði ekki athugasemdir við bréf stofnunarinnar.

Hinn 12. júní 1997 ritaði ég Innheimtustofnun sveitarfélaga svohljóðandi bréf:

„Ég vísa til símtals starfsmanns míns og [starfsmanns stofnunarinnar] í dag út af kvörtun þeirri, sem [A] hefur borið fram vegna samkomulags hans og Innheimtustofnunar sveitarfélaga um niðurfellingu dráttarvaxta af meðlagsskuld hans.

Í símtalinu kom fram, að [A] greiddi, hinn 3. desember 1993, 21.145 kr. inn á reikning Innheimtustofnunar sveitarfélaga með prentuðum greiðsluseðli frá stofnuninni. Í skýringardálk greiðsluseðilsins ritaði [A] „lokagreiðsla v/ skuldar á meðlagi sbr. bréf ykkar 19.11 1993 um niðurf. drv.“ Ekki verður hins vegar séð, að stofnunin hafi hlutast til um, af þessu tilefni, að [A] yrði gert ljóst, að um misskilning væri að ræða.

Í bréfi Innheimtustofnunar sveitarfélaga til mín, dags. 20. september 1996, er tekið fram, að vera kunni að stjórnin telji ástæðu til að taka mál [A] fyrir að nýju. Með vísan til 9. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, óska ég eftir því, að stofnunin skýri, hvort hún telji ofangreint atriði leiða til þess, að málið verði tekið upp að nýju.“

Í svarbréfi Innheimtustofnunar sveitarfélaga, dags. 2. júlí 1997, segir svo:

„Stjórn Innheimtustofnunar sveitarfélaga tók bréf yðar, dags. 12. júní s.l. varðandi meðlagsmál [A], fyrir á fundi sínum 23. sama mánaðar.

Stjórnin staðfesti fyrri samþykkt um niðurfellingu á helmingi dráttarvaxtanna. Fyrirvari á kvittun frá 3. des. 1993 um lokagreiðslu v/skuldar á meðlagi var ekki samþykktur af stofnuninni.“

Ég ritaði A bréf 21. ágúst 1997, þar sem ég vísaði sérstaklega til áðurgreinds bréfs Innheimtustofnunar sveitarfélaga til hans, dags. 19. nóvember 1993. Í bréfi mínu sagði síðan:

„Í símtali við starfsmann minn hinn 26. september 1996 kom fram af hálfu starfsmanns Innheimtustofnunar sveitarfélaga, að þér hefðuð haft samband við stofnunina í kjölfar þessa bréfs vegna þess, hve það hefði verið óskýrt, og að yður hefði verið greint frá því, hvernig bókanir stjórnarinnar hefðu hljóðað.

Þá vísa ég til bréfs Innheimtustofnunar sveitarfélaga til mín, dags. 18. febrúar s.l., þar sem fram kom, að þér hefðuð fengið sent greiðsluyfirlit fjórum sinnum á ári; í mars, júní, september og desember. Í símtali við starfsmann minn 2. apríl s.l. tókuð þér fram, að þér hefðuð ekki fram að færa athugasemdir vegna þessa bréfs stofnunarinnar.

Í tilefni af ofanrituðu óska ég eftir því að þér upplýsið, hvort og þá hvenær og með hvaða hætti þér fenguð upplýsingar um það ósamræmi, sem er milli ofangreinds bréfs frá 19. nóvember 1993 og umræddra bókana stjórnar Innheimtustofnunar sveitarfélaga. Þá óska ég eftir að þér upplýsið, hvort, og þá hvenær, þér hafið fengið greiðsluyfirlit frá Innheimtustofnun sveitarfélaga eftir að þér greidduð 21.145 kr. hinn 3. desember 1993.“

Mér barst svarbréf A 17. nóvember 1997. Í því segir meðal annars:

„Undirritaður hefur ekki haft samband við starfsmann Innheimtustofnunar sveitarfélaga vegna óskýrleika bréfs þess sem þér vitnið í. Mér hafa borist bréf frá Innheimtustofnun sveitarfélaga fjórum sinnum á ári, ekki er um greiðsluyfirlit að ræða heldur „skuldastöðu“ án nokkurra skýringa og óundirritaða. Þann 10. desember er sú dagsett sem kom eftir að ég greiddi upp höfuðstólinn 3. desember 1993. Ég hef tvisvar fengið lista sem bera yfirskriftina „hreyfingar skuldara“, þann fyrri í nóvember 1993 frá Innheimtustofnun sveitarfélaga að minni ósk, síðari á fjárnámsboðunarfundi frá lögmanni [stofnunarinnar]. Ég hef ekki vitneskju um bókanir stjórnar Innheimtustofnunar sveitarfélaga. Ég hef fengið tvö bréf um samþykktir stjórnarinnar dagsett 19. nóvember 1993 og 21. febrúar 1996. [...] Ég taldi ekki ástæðu til að hafa samband við Innheimtustofnun sveitarfélaga vegna [skuldastöðubréfanna], þeim fylgdu engar skýringar. Ég taldi jafnvel að þetta [væru] starfsaðferðir [stofnunarinnar] að ef ég myndi ekki standa í skilum [...] yrði dráttarvöxtunum skellt inn aftur. Ástæða þeirrar ályktunar er sú að þegar ég hafði samband við Innheimtustofnun sveitarfélaga árið 1992 eða 1993 vegna þess að höfuðstóll skuldar minnar lækkaði ekki var mér sagt að hafa ekki áhyggjur af því. Þegar ég hefði greitt upp höfuðstólinn yrði gengið frá dráttarvöxtunum. Þetta væri gert vegna þess að ef ég stæði ekki við greiðslur yrði samkomulaginu rift. Ég hef greitt meðlagið með syni mínum skilmerkilega síðan ég greiddi upp höfuðstólinn í nóvember 1993.“

IV.

Í forsendum og niðurstöðu álits míns, dags. 6. janúar 1998, sagði svo:

„1.

A kvartar yfir því, að Innheimtustofnun sveitarfélaga hafi ekki staðið við samkomulag, sem hann telur að hafa komist á við stofnunina þess efnis, að allir dráttarvextir af meðlagsskuld hans yrðu felldir niður. Telur A, að hann hafi staðið í skilum með því að greiða eftirstöðvar skuldarinnar að öðru leyti 3. desember 1993 og vera í skilum síðan.

2.

Samkvæmt 1. mgr. 5. gr. laga nr. 54/1971, um Innheimtustofnun sveitarfélaga, annast stofnunin meðlagsinnheimtu hjá barnsfeðrum. Samkvæmt 3. mgr. sömu greinar, sbr. 1. gr. laga nr. 41/1986, skal meðlagsskyldur barnsfaðir greiða dráttarvexti af því, sem gjaldfallið er, greiði hann ekki meðlag innan eins mánaðar frá því að meðlagskrafa féll í gjalddaga. Þar er nú enn fremur mælt fyrir um það, sbr. 1. gr. laga nr. 39/1987, að stjórn Innheimtustofnunar sveitarfélaga sé heimilt að víkja frá þessari dráttarvaxtatöku, ef um sérstaka félagslega erfiðleika er að ræða hjá skuldara. Skuli setja nánari ákvæði um þetta atriði í reglugerð. Á þeim tíma, er hér skiptir máli, gilti í þessu sambandi reglugerð nr. 214/1973, um innheimtu og skil á meðlögum o.fl. á vegum Innheimtustofnunar sveitarfélaga, sbr. reglugerð nr. 210/1987. Ákvæði 9.–11. gr. reglugerðarinnar hljóða svo:

„9. gr.

Nú greiðir meðlagsskyldur barnsfaðir ekki meðlag innan eins mánaðar frá því meðlagskrafa féll í gjalddaga samkvæmt ákvæðum yfirvaldsúrskurðar eða skilnaðarbréfs og skal hann þá greiða dráttarvexti af því sem gjaldfallið er og skulu þeir vera hinir sömu og hjá innlánsstofnunum samkvæmt ákvörðunum Seðlabanka Íslands, sbr. 13. gr. laga nr. 10/1961.

Stjórn Innheimtustofnunar sveitarfélaga er heimilt að víkja frá þessari dráttarvaxtatöku ef um sérstaka félagslega erfiðleika er að ræða hjá skuldara.

10. gr.

Heimilt er stjórn Innheimtustofnunar sveitarfélaga að víkja frá dráttarvaxtatöku eða fella niður dráttarvexti af meðlagsskuldum við eftirfarandi aðstæður:

a) Að skuldari hafi leitað skriflega eftir samkomulagi við stjórn stofnunarinnar um greiðslu skuldarinnar og niðurfellingu dráttarvaxta.

b) Að skuldari hafi sýnt fram á, að hann hafi möguleika á, að standa við greiðslutilboð sitt, væru dráttarvextir felldir niður.

c) Að til skuldarinnar hafi verið stofnað vegna félagslegra erfiðleika skuldara, svo sem af heilsufarsástæðum, ónógum tekjum, skertri starfsorku, mikilli greiðslubyrði, barnamergð eða af öðrum sambærilegum ástæðum.

11. gr.

Að jafnaði skal aðeins fella niður dráttarvexti af meðlagsskuldum einu sinni hjá hverjum skuldara.

Verði samkomulag um greiðslu meðlagsskuldar vanefnt verulega eftir að dráttarvextir hafa verið felldir niður, getur stjórn stofnunarinnar lagt svo fyrir, að skuldin verði tekin til dráttarvaxtareiknings að nýju.“

Framangreind ákvæði eru efnislega samhljóða 8.–10. gr. reglugerðar nr. 491/1996, um innheimtu og skil á meðlögum o.fl. á vegum Innheimtustofnunar sveitarfélaga, sem öðlaðist gildi 20. september 1996.

3.

Skilning sinn á samkomulagi sínu við Innheimtustofnun sveitarfélaga byggir A á bréfi stofnunarinnar, dags. 19. nóvember 1993, sem rakið er hér að framan. Samkvæmt endurriti úr fundargerðarbók hljóðaði afgreiðsla stjórnar stofnunarinnar á máli A 15. nóvember 1993 hins vegar svo:

„Lagt fram erindi [A], dags. 10. nóv. 1993 um niðurfellingu á öllum dráttarvöxtum.

Fyrri samþykkt frá 24. febrúar 1992 um niðurfellingu á helmingi dráttarvaxta var staðfest.“

Af þessu er ljóst, að ákvörðun stjórnar Innheimtustofnunar sveitarfélaga stóð ekki til þeirrar niðurstöðu, að allir dráttarvextir af meðlagsskuld A við stofnunina skyldu felldir niður. Orðalag bréfs stofnunarinnar, dags. 19. nóvember 1993, gaf aðra afstöðu hennar til kynna.

Ég tel, að bréf Innheimtustofnunar sveitarfélaga frá 19. nóvember 1993 hafi gefið A ástæðu til að ætla, að dráttarvextir af meðlagsskuld hans hefðu verið felldir niður í heild, enda þarf sú ályktun ekki að vera í ósamræmi við efni bréfsins að öðru leyti.

Af hálfu Innheimtustofnunar sveitarfélaga hefur verið staðhæft, að A hafi leitað eftir skýringum á efnislegu inntaki bréfsins skömmu eftir að honum barst það í hendur. Honum hafi þá verið kynnt bókun stjórnar frá 15. nóvember 1993. Sé þessi staðhæfing rétt, bar Innheimtustofnun sveitarfélaga að árétta það í bréfi til A, að einungis hefði verið um að ræða niðurfellingu á helmingi dráttarvaxta. Hefði sú ráðstöfun verið í samræmi við vandaða stjórnsýsluhætti, en með henni hefði stofnunin að auki tryggt sér sönnun fyrir því, að efni stjórnarsamþykktarinnar hefði réttilega verið komið á framfæri við A. Var þetta einnig sérstaklega brýnt, þar sem A reiknaðist svo til í ljósi þess, að ákvörðun stjórnar Innheimtustofnunar sveitarfélaga hefði kveðið á um niðurfellingu allra dráttarvaxta, að skuld hans við stofnunina í nóvember 1993 næmi 21.145 krónum. Innti hann þá greiðslu af hendi 3. desember 1993. Í sérstakan skýringarreit á greiðsluseðli frá Innheimtustofnun, þar sem greiðanda er gefinn kostur á að gera grein fyrir innborgun, ritaði A svohljóðandi athugasemd: „lokagreiðsla v skuldar á meðlagi Sbr. bréf ykkar 19.11 1993 um niðurf. drv.“ Hafi A fengið þær skýringar á efnislegu inntaki bréfsins frá 19. nóvember 1993, sem stofnunin heldur fram, mátti stofnunin með viðtöku á greiðsluseðlinum gera sér grein fyrir því, að skilningur A var annar. Viðtaka greiðsluseðilsins með áðurgreindri skýringu A varð ekki tilefni til sérstakra viðbragða af hálfu stofnunarinnar.

Samkvæmt framangreindu er niðurstaða mín sú, miðað við þau gögn, sem fyrir mig hafa verið lögð, að A hafi verið rétt að leggja þann skilning í bréf Innheimtustofnunar sveitarfélaga frá 19. nóvember 1993, að stofnunin hefði ákveðið að fella niður alla dráttarvexti af meðlagsskuld hans, enda verður ekki af nefndum gögnum ráðið, að stofnunin hafi komið á framfæri leiðréttingu á þeim skilningi A innan hæfilegs frests. Í samræmi við þá niðurstöðu standa ekki lög til þess, að Innheimtustofnun sveitarfélaga krefji A um dráttarvexti þá, sem um ræðir í áliti þessu. Eru það tilmæli mín til Innheimtustofnunar sveitarfélaga, að hún taki mál A til meðferðar að nýju, ef ósk kemur fram um það frá honum, og hagi þá úrlausn þess í samræmi við þau sjónarmið, sem gerð hefur verið grein fyrir í áliti þessu.

4.

Í málinu er komið fram, að það sé „venja eða starfsregla“ Innheimtustofnunar sveitarfélaga, að bakfæra ekki dráttarvexti eða hluta dráttarvaxta, sem samþykkt hefur verið að fella niður, fyrr en skuldin hefur að öðru leyti verið gerð upp. Líklega af þessari ástæðu hefur í bréfum Innheimtustofnunar sveitarfélaga til mín, og símtölum, verið fjallað um, að „höfuðstóllinn [sé] uppgreiddur en helmingur dráttarvaxtanna, sem greiða ber, [sé] enn ógreiddur", enda er byggt á því á greiðsluyfirlitum frá stofnuninni, að innborganir ganga fyrst til greiðslu dráttarvaxta, en síðan eftir atvikum til lækkunar á höfuðstól, svo sem almennt tíðkast.

Hér að framan hef ég rakið þau ákvæði laga nr. 54/1971 og reglugerðar nr. 214/1973, sbr. reglugerð nr. 210/1987, sem máli skipta í þessu sambandi. Hvergi er vikið að því í þessum ákvæðum, að stjórn Innheimtustofnunar sveitarfélaga skuli setja þau skilyrði fyrir samkomulagi, sem hér um ræðir, að skuldin sé gerð upp að öðru leyti jafnframt. Ég tel á hinn bóginn ótvírætt, að stjórninni sé þetta heimilt, þegar efni standa til þess. Í þeim tilvikum tel ég brýnt, að sú afstaða stjórnarinnar komi fram í bréfi til skuldara, þannig að honum megi vera hún ljós. Þetta skiptir máli um útreikning dráttarvaxta, en innborganir ganga fyrst til greiðslu dráttarvaxta, svo sem áður er komið fram. Sú útreikningsaðferð Innheimtustofnunar sveitarfélaga, að miða niðurfellingu við áfallna dráttarvexti fyrr og síðar, leysir ekki að fullu úr tölulegu misræmi, sem kann að koma upp í þessu sambandi.“

V.

Með bréfi, dags. 10. maí 1999, óskaði ég eftir upplýsingum um hvort [A] hefði leitað til Innheimtustofnunar sveitarfélaga á ný og þá hvort einhverjar ákvarðanir hefðu verið teknar af því tilefni.

Í svari Innheimtustofnunar sveitarfélaga, dags. 6. október 1999, segir að á stjórnarfundi hjá stofnuninni hinn 23. febrúar 1998 hafi verið gerð svofelld bókun:

„Lagt fram erindi [A], dags. 23. f.m. um niðurfellingu á dráttarvöxtum. Samþykkt að fella niður og bakfæra ¾ hluta dráttarvaxtanna með hliðsjón af álitsgerð umboðsmanns Alþingis. Greiði 2 meðlög á mánuði.“