Gjafsókn. Skilyrði gjafsóknar. Álitsumleitan. Rökstuðningur.

(Mál nr. 2156/1997)

A kvartaði yfir ákvörðun dóms- og kirkjumálaráðuneytisins þar sem beiðni hans um gjafsókn vegna forsjármáls sem fyrrverandi eiginkona hans höfðaði gegn honum var hafnað, á þeirri forsendu að hann uppfyllti ekki skilyrði a. liðar 1. mgr. 126. gr. laga nr. 91/1991, þ.e. að kostnaður við gæslu hagsmuna í dómsmáli væri honum ekki fyrirsjáanlega ofviða.

Umboðsmaður rakti ákvæði 125. og 126. gr. laga um meðferð einkamála og gat þess að samkvæmt þeim mæti gjafsóknarnefnd hvort skilyrðum 126. gr., fyrir meðmælum með gjafsókn eða gjafvörn, væri fullnægt og að neikvæð niðurstaða væri bindandi fyrir dóms- og kirkjumálaráðherra. Ráðherra hefði heimild í lögum til að setja nánari reglur í reglugerð um starfshætti gjafsóknarnefndar, þar á meðal um viðmiðunarmörk í mati hennar á skilyrðum fyrir gjafsókn, en slík reglugerð hefði ekki verið sett.

Umboðsmaður vísaði til þess, að nefndin hefði lagt til grundvallar umsögn sinni tekjur umsækjanda á árinu 1996 samkvæmt skattframtali, að teknu tilliti til greiðslubyrði hans og fjölskylduhaga. Hann sá í sjálfu sér ekki ástæðu til athugasemda við að nefndin setti sér viðmið á borð við það að líta til skattleysismarka, enda væri beinlínis gert ráð fyrir því að ráðherra setti nefndinni slík mörk í formi reglugerða, og ekki yrði séð að nefnd viðmið byggðust á ómálefnalegum sjónarmiðum. Umboðsmaður sá hins vegar ástæðu til að árétta að jafnframt slíkum almennum sjónarmiðum yrði að koma til heildstætt mat á aðstæðum í hverju máli fyrir sig. Endanleg ákvörðun hlyti ávallt að byggjast á mati á aðstæðum í hverju tilviki.

Umboðsmaður vísaði til álits síns, í máli nr. 753/1993 (SUA 1993:83), þar sem fjallað var um skyldu gjafsóknarnefndar til þess að rökstyðja umsagnir sínar. Með því að umsögn nefndarinnar væri bindandi leiddu meginreglur þær, sem 21. og 22. gr. stjórnsýslulaga eru byggðar á, óhjákvæmilega til þess að gjafsóknarnefnd bæri að rökstyðja þá niðurstöðu að mæla ekki með gjafsókn, því að öðrum kosti væri dóms- og kirkjumálaráðuneytið ekki fært um að rökstyðja synjun, svo sem því bæri. Ljóst væri að umsögn nefndarinnar byggist á matskenndum grundvelli. Síðari málsl. 1. mgr. 22. gr. stjórnsýslulaga mælti fyrir um að í rökstuðningi slíkra ákvarðana skyldi greina frá þeim meginsjónarmiðum sem ráðandi voru við matið. Almennar staðhæfingar uppfylli ekki þær kröfur.

Með því að um endurupptöku málsins var að ræða, þar sem lagðar höfðu verið fram ítarlegri upplýsingar um skuldir, greiðslubyrði og tekjur, taldi umboðsmaður að rökstuðningur nefndarinnar hefði átt að vera mun ítarlegri um það hvaða sjónarmið voru ráðandi, hvernig þeim var beitt og hvaða einstakir þættir í eigna- og skuldastöðu höfðu áhrif og þar með hvaða ráðstöfunartekjur nefndin byggði á að A hefði til að standa straum af kostnaði af gæslu hagsmuna sinna í málinu.

Beindi umboðsmaður þeim tilmælum til gjafsóknarnefndar og ráðuneytisins að mál A yrði tekið upp að nýju, óskaði hann þess.

Umboðsmaður tók fram að í álitinu hefði ekki verið tekin afstaða til þess hvort nefndinni hefði borið skylda til þess að afla frekari upplýsinga um greiðslubyrði A, sbr. 10. gr. stjórnsýslulaga, áður en beiðni hans um gjafsókn var afgreidd öðru sinni.

I.

Hinn 16. júní 1997 leitaði A til umboðsmanns Alþingis. Beinist kvörtun hans að þeirri ákvörðun dóms- og kirkjumálaráðuneytisins frá 30. apríl 1997, að synja beiðni hans um gjafsókn vegna máls, sem höfðað hafði verið fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur á hendur honum.

II.

Samkvæmt gögnum málsins eru málavextir þeir helstir, að A hafði óskað eftir gjafsókn í forsjármáli, sem X, fyrrverandi eiginkona hans, höfðaði gegn honum fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur. Dóms- og kirkjumálaráðuneytið synjaði þeirri umsókn 25. nóvember 1996 með vísan til umsagnar gjafsóknarnefndar frá 13. nóvember s.á., sem taldi, með hliðsjón af tekjum og efnahag A, að skilyrði a-liðar 1. mgr. 126. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, væri ekki uppfyllt. Með bréfi lögmanns A, dags. 10. janúar 1997, var þess óskað, að ráðuneytið breytti fyrri ákvörðun sinni, þar sem ekki hefði verið tekið tillit til skuldastöðu hans, auk þess sem nýjar upplýsingar lægju fyrir þar að lútandi. Dóms- og kirkjumálaráðuneytið synjaði þeirri beiðni í bréfi, dags. 30. apríl 1997, með vísan til svohljóðandi umsagnar gjafsóknarnefndar, dags. 17. apríl s.á.:

„Umsækjandi sækir á nýjan leik um gjafsókn í máli, sem fyrrum eiginkona hans hefur höfðað gegn honum vegna deilu aðila um forsjá tveggja barna þeirra. Með umsögn Gjafsóknarnefndar nr. 229/1996, dags. 13. nóvember 1996 var gjafsóknarumsókn umsækjanda hafnað þar sem að ekki var talið að umsækjandi uppfyllti skilyrði a. liðar 1. mgr. 126. gr. laga nr. 91/1991, eins og nánar er rakið í umsögninni. Í nýrri umsögn eru taldar upp skuldir samtals að fjárhæð 1.088.695 kr. sem umsækjandi bendir á að ekki hafi verið tekið tillit til við afgreiðslu nefndrar umsagnar. Þá upplýsir umsækjandi um hækkaða skatta sem hann hyggist freista að fá breytt og að kveðinn hafi verið upp úrskurður 9. október 1996 um að umsækjandi skuli greiða meðlag með sonum sínum og nemi krafa aftur í tímann 260.000 kr. Að ósk Gjafsóknarnefndar hefur umsækjandi lagt fram skattframtal árið 1997. Samkvæmt framtalinu námu tekjur umsækjanda árið 1996 1.712.226 kr., eignir 277.426 kr. og skuldir 1.190.038 kr. Umsækjandi tekur fram að þar sé ekki tilgreind skuld við Eimskipafélag Íslands hf. Um málsatvik að öðru leyti er vísað til umsóknargagna og fyrri umsagnar Gjafsóknarnefndar.

Umsögn:

Eins og rakið er í fyrri umsögn nefndarinnar nr. 229/1996 er það eindregið skilyrði fyrir veitingu gjafsóknar, að kostnaður við gæslu hagsmuna í dómsmáli verði umsækjanda fyrirsjáanlega ofviða. Með hliðsjón af tekjum umsækjanda árið 1996, greiðslubyrði hans og fjölskylduhögum er það mat Gjafsóknarnefndar, að umsækjandi hafi ekki sýnt fram á að honum sé fyrirsjáanlega ofviða að kosta málsvörn af ráðstöfunartekjum sínum og telur því ekki ástæðu til að breyta fyrri afstöðu sinni. Þá skal tekið fram, að Gjafsóknarnefnd metur hverja umsókn sjálfstætt út frá gjafsóknarskilyrðum óháð því hvort gagnaðili umsækjanda í máli hafi fengið gjafsókn. Er ekki mælt með gjafsókn.“

Samkvæmt kvörtuninni telur A, að gjafsóknarnefnd beri að líta til ráðstöfunartekna umsækjenda fremur en heildartekna og að mat nefndarinnar sé óraunhæft miðað við kostnað við rekstur dómsmáls. Þá telur hann, að jafnræðis hafi ekki verið gætt við úrlausn málsins, en gagnaðila hafi verið veitt gjafsókn í málinu.

III.

Umboðsmaður Alþingis ritaði dóms- og kirkjumálaráðuneytinu bréf 24. júní 1997 og óskaði þess, sbr. 7. og 9. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, að ráðuneytið léti honum í té gögn málsins og skýrði viðhorf sitt til kvörtunar A.

Í svarbréfi ráðuneytisins, dags. 15. júlí 1997, segir meðal annars svo:

„Samkvæmt 4. mgr. 125. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála er ráðuneytið bundið af neikvæðri umsögn gjafsóknarnefndar. Ráðuneytið hefur því talið sér skylt að byggja synjun sína í slíkum málum alfarið á umsögninni, enda verði ekki fundið að meðferð nefndarinnar á máli viðkomandi. Hefur þessi háttur á ákvarðanatöku ráðuneytisins í gjafsóknarmálum áður komið til kasta embættis yðar, án þess að við hann hafi verið gerðar athugasemdir.

Við ákvörðunartöku ráðuneytisins í máli [A] varð ekki séð að nokkur brestur hafi orðið á starfi nefndarinnar hvað þetta varðar. Þau sjónarmið sem nefndin byggir úrlausn sína á eru vel mótuð af langri framkvæmd. Sérstaklega verður að hafa í huga að eðli málsins samkvæmt er nauðsynlegt að einhverjar viðmiðunarreglur séu notaðar þegar meta á efnahag umsækjanda skv. a-lið, 1. mgr. 126. gr. laga um meðferð einkamála, þótt slíkar reglur leysi ekki stjórnvöld undan þeirri skyldu sinni að meta hvert mál sérstaklega.

Gjafsóknarnefnd leggur til grundvallar umsögn sinni upplýsingar sem fram koma í skattframtölum umsækjanda. Mat er því lagt á heildartekjur, að teknu tilliti til atriða svo sem framfærslu barna, skuldabyrði o.fl. Verður ekki annað séð, en það mat hafi verið málefnalegt eins og á stóð og að í þessu felist öðrum þræði mat á ráðstöfunartekjum. Sýnist kvörtun [A] því ekki vera vel grunduð að þessu leyti.

Hvað varðar þá málsástæðu [A], að mat nefndarinnar sé óraunhæft miðað við kostnað við rekstur dómsmáls, vill ráðuneytið taka fram, að eðli málsins samkvæmt er nánast útilokað að gjafsóknarnefnd meti fyrirfram af einhverri nákvæmni hver kostnaður muni verða samfara rekstri málsins. Mat nefndarinnar að þessu leyti byggist því á almennum viðmiðum sem mótast hafa í áralangri framkvæmd.

Máli [A] lauk með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur dags. 11. júlí s.l. [...], þar sem fallist var á megindómkröfu hans en málskostnaðarkröfu hans á hendur gagnaðila, stefnanda málsins, var á hinn bóginn hafnað, með því að eftir atvikum þótti rétt að málskostnaður félli niður. Fyrir matsgerð sem aflað var í þágu málsins var greitt úr ríkissjóði og kom þannig ekki til greiðslu úr hendi aðila máls.

Ráðuneytið vekur athygli á, að gjafsóknarkostnaður gagnaðila [A] var í málinu ákveðinn kr. 280.000,– án virðisaukaskatts. Ráðuneytinu þykir málskostnaður þessi vera í hærra lagi miðað við það sem tíðkast, en hafa má þó í huga að mikil vinna lögmanna fylgir oft málum af þessu tagi. Hins vegar þykir ráðuneytinu ekki að draga megi þá ályktun af þessu, að kostnaður [A] í málinu hafi verið honum fyrirsjáanlega ofviða eða að hann geti ekki staðið straum af þessum útgjöldum af tekjum sínum enda sé miðað við að lögmannskostnaður hans hafi verið svipaður og gjafsóknarkostnaður gagnaðila.

Hvað varðar þá málsástæðu að jafnræðis hafi ekki verið gætt, vill ráðuneytið benda á, að eðli málsins samkvæmt var nokkur munur á aðstöðu málsaðila þegar gjafsóknarbeiðnir þeirra bárust til meðferðar gjafsóknarnefndar og ráðuneytis. Hins vegar hefur að mati ráðuneytisins ekkert komið fram, sem bendir til annars en að mat nefndarinnar á beiðnunum hafi verið framkvæmt eftir sömu almennu viðmiðum.“

Samkvæmt athugasemdum A, sem hann kom á framfæri á skrifstofu umboðsmanns Alþingis í nóvembermánuði 1997, telur hann, að ráðuneytið hafi ekki lagt mat á þau atriði, sem nefnd séu í bréfi ráðuneytisins, og kveður kostnað vegna málsins hafa íþyngt sér verulega.

Umboðsmaður Alþingis ritaði dóms- og kirkjumálaráðuneytinu bréf á ný 27. janúar 1998. Í bréfinu er vísað til þess, sem segir í bréfi ráðuneytisins um mat á ráðstöfunartekjum, og til ummæla í beiðni um endurskoðun málsins um ráðstöfunartekjur A síðustu mánuði ársins 1996, samkvæmt launaseðlum. Með vísan til 7. og 9. gr. laga nr. 85/1997, óskaði umboðsmaður Alþingis nánari upplýsinga um mat gjafsóknarnefndar á því atriði, að umsækjandi hefði ekki sýnt fram á, að honum væri fyrirsjáanlega ofviða að kosta málsvörn af ráðstöfunartekjum sínum. Þá var þess óskað, að ráðuneytið gerði nánari grein fyrir ummælum í bréfi þess frá 15. júlí 1997, að eðli málsins samkvæmt hafi verið nokkur munur á aðstöðu málsaðila, þegar gjafsóknarbeiðnir þeirra hefðu borist til meðferðar gjafsóknarnefndar og ráðuneytis.

Í svarbréfi dóms- og kirkjumálaráðuneytisins, dags. 14. apríl 1998, segir um framangreind ummæli ráðuneytisins, að þeim hafi verið ætlað að undirstrika þá afstöðu ráðuneytisins, að ekkert hefði komið fram, sem hnekkti mati gjafsóknarnefndar varðandi umrædda gjafsóknarbeiðni, og að við þetta mat nefndarinnar hefði málefnalegra sjónarmiða verið gætt. Þannig hafi sömu sjónarmið komið til athugunar vegna beiðni A og tíðkist við slíkt mat í öðrum tilvikum. Um mat gjafsóknarnefndar á því atriði, sem óskað var eftir í bréfi umboðsmanns Alþingis, vísaði ráðuneytið til meðfylgjandi bréfs gjafsóknarnefndar, dags. 30. mars 1998. Þar vísaði gjafsóknarnefnd til fyrri umsagna sinna í málinu, þar sem fram hefði komið rökstuðningur fyrir því, að með hliðsjón af tekjum umsækjanda hafi ekki verið sýnt fram á, að honum hafi verið fyrirsjáanlega ofviða að kosta málsókn sína, sem sé eindregið skilyrði a-liðar 1. mgr. 126. gr. laga nr. 91/1991 fyrir veitingu gjafsóknar. Þá vísar gjafsóknarnefnd til þess rökstuðnings, sem hún hafi komið á framfæri í öðrum málum og til tímaritsgreinar um þá viðmiðun, sem nefndin leggi til grundvallar við mat á því, hvort umræddum skilyrðum sé fullnægt. Athugasemdir A vegna málsins bárust umboðsmanni Alþingis 3. júní 1998.

IV.

Í forsendum og niðurstöðu álits míns, dags. 16. desember 1998, sagði svo:

„Um gjafsókn er fjallað í XX. kafla laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála. Samkvæmt 1. mgr. 126. gr. laganna verður gjafsókn:

„[...] aðeins veitt ef málstaður umsækjanda gefur nægilegt tilefni til málshöfðunar eða málsvarnar og öðru hvoru eftirfarandi skilyrða er að auki fullnægt:

a. að efnahag umsækjanda sé þannig háttað að kostnaður af gæslu hagsmuna hans í máli yrði honum fyrirsjáanlega ofviða, [...].

b. að úrlausn máls hafi verulega almenna þýðingu eða varði verulega miklu fyrir atvinnu, félagslega stöðu eða aðra einkahagi umsækjanda.“

Samkvæmt 2. mgr. 125. gr. laga nr. 91/1991 skal gjafsóknarnefnd veita umsögn um umsóknir um gjafsókn. Í 3. mgr. 125. gr. er greint frá því með hvaða hætti beiðni um gjafsókn skuli vera. Henni skulu fylgja gögn eftir þörfum og rökstyðja skal að skilyrðum fyrir gjafsókn sé fullnægt. Samkvæmt 4. mgr. ákvæðisins veitir dóms- og kirkjumálaráðherra gjafsókn eftir umsókn aðila, en tekið er fram, að hún verði „því aðeins veitt að gjafsóknarnefnd mæli með því“.

Samkvæmt framansögðu metur gjafsóknarnefnd, hvort skilyrðum 126. gr. fyrir meðmælum með gjafsókn eða gjafvörn er fullnægt og er neikvæð niðurstaða nefndarinnar bindandi fyrir dóms- og kirkjumálaráðherra. Í lokamálslið 2. mgr. 125. gr. laga nr. 91/1991, sbr. 4. gr. laga nr. 38/1994, um breyting á lögum um meðferð einkamála, nr. 91 31. desember 1991, er að finna heimild til handa dómsmálaráðherra til að setja nánari reglur í reglugerð um starfshætti gjafsóknarnefndar, þar á meðal um viðmiðunarmörk í mati hennar á skilyrðum fyrir gjafsókn skv. a-lið 1. mgr. 126. gr. laganna. Reglugerð um þetta hefur þó ekki verið sett.

Eins og rakið hefur verið hér að framan var það niðurstaða gjafsóknarnefndar í málinu að mæla ekki með gjafsókn. Var sú niðurstaða á því byggð að skilyrðum a-liðar 1. mgr. 126. gr. laga nr. 91/1991 væri ekki fullnægt þar sem umsækjandi hefði ekki sýnt fram á, að honum væri fyrirsjáanlega ofviða að kosta málsvörn af ráðstöfunartekjum sínum. Samkvæmt umsögn gjafsóknarnefndar leggur nefndin þar tekjur umsækjanda á árinu 1996 samkvæmt skattframtali til grundvallar að teknu tilliti til greiðslubyrði hans og fjölskylduhaga.

Í skýringum gjafsóknarnefndar til umboðsmanns Alþingis vísar nefndin til þess, sem áður hafi komið fram um þau viðmið er hún leggi til grundvallar við mat á því hvort framangreint skilyrði varðandi efnahag teljist uppfyllt. Lítur nefndin meðal annars til skattleysismarka í þessu sambandi. Ég tel í sjálfu sér ekki ástæðu til athugasemda við það að gjafsóknarnefnd setji sér slík viðmið, enda er beinlínis gert ráð fyrir því í lokamálslið 2. mgr. 125. gr. laga nr. 91/1991, sbr. 4. gr. laga nr. 38/1994, að dómsmálaráðherra setji nefndinni viðmiðunarmörk í mati hennar á skilyrðum fyrir gjafsókn í formi reglugerðar. Ekki verður heldur séð að framangreind viðmið byggi á ómálefnalegum sjónarmiðum.

Ég tel hins vegar ástæðu til að árétta að jafnframt slíkum almennum sjónarmiðum verður að koma til heildstætt mat á aðstæðum í hverju máli fyrir sig. Ákvæði a-liðar 1. mgr. 126. gr. laga nr. 91/1991 fela gjafsóknarnefnd að meta efnahagslega burði umsækjanda til að standa straum af þeim kostnaði, sem er því samfara að reka dómsmál. Við það mat er vissulega heimilt að hafa tiltekin viðmið til hliðsjónar, sbr. það sem að framan er rakið, en endanleg ákvörðun hlýtur ávallt að byggjast á mati á aðstæðum í hverju tilviki.

Það leiðir af ákvæðum 4. mgr. 125. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, að umsögn gjafsóknarnefndar er bindandi fyrir dóms- og kirkjumálaráðherra, þar sem gjafsókn verður einvörðungu veitt að gjafsóknarnefnd hafi mælt með því.

Í áliti umboðsmanns Alþingis frá 25. nóvember 1993 (SUA 1993:83) í málinu nr. 753/1993 var vikið að skyldu gjafsóknarnefndar til þess að rökstyðja umsagnir sínar. Í ljósi þess að umsögn gjafsóknarnefndar er bindandi, verður að telja að meginreglur þær, sem 21. og 22. gr. stjórnsýslulaga eru byggðar á, leiði óhjákvæmilega til þess að gjafsóknarnefnd beri að rökstyðja þá niðurstöðu sína að mæla ekki með gjafsókn. Að öðrum kosti liggja ekki fyrir þau sjónarmið, sem sú niðurstaða byggist á. Afleiðingin yrði þá sú að dóms- og kirkjumálaráðuneytið væri ekki fært um að rökstyðja synjun, svo sem því ber samkvæmt 21. og 22. gr. stjórnsýslulaga, og í rökstuðningi væri þá ekki að finna þær upplýsingar sem gerðu aðila máls kleift að skilja hvers vegna niðurstaða máls hefði orðið sú sem raun varð á.

Eins og ákvæði 126. gr. laga nr. 91/1991 eru úr garði gerð er ljóst að umsögn gjafsóknarnefndar byggist á matskenndum grundvelli. Samkvæmt síðari málsl. 1. mgr. 22. gr. stjórnsýslulaga skal við rökstuðning matskenndra ákvarðana greina frá þeim meginsjónarmiðum, sem ráðandi voru við matið. Í fyrrnefndu áliti umboðsmanns Alþingis (SUA 1993:83) er að því vikið að almennar staðhæfingar, svo sem að fjárhagur umsækjanda gefi ekki tilefni til að mæla með gjafsókn, uppfylli ekki þau skilyrði sem gera verði til rökstuðnings nefndarinnar.

Samkvæmt gögnum málsins taldi gjafsóknarnefnd í umsögn sinni frá 13. nóvember 1996 að A uppfyllti ekki skilyrði 1. mgr. 126. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, með hliðsjón af tekjum og efnahag hans. Þess var óskað að málið yrði tekið til meðferðar á ný og nýjar og ítarlegri upplýsingar lagðar fram um skuldastöðu A. Í umsögn gjafsóknarnefndar frá 17. apríl 1997 kemur fram sú meginröksemd að með hliðsjón af tekjum umsækjanda árið 1996, greiðslubyrði hans og fjölskylduhögum sé það mat gjafsóknarnefndar að umsækjandi hafi ekki sýnt fram á að honum sé fyrirsjáanlega ofviða að kosta málsvörn sína.

Með hliðsjón af því að um endurupptöku málsins var að ræða, þar sem lagðar höfðu verið fram ítarlegri upplýsingar um skuldir, greiðslubyrði og tekjur A, tel ég að rökstuðningur nefndarinnar hefði átt að vera mun ítarlegri um það hvaða sjónarmið voru ráðandi við matið um þessi fjárhagslegu atriði og hvernig þeim var beitt við úrlausn málsins. Þar þurfti að koma fram hvaða áhrif einstakir þættir í eigna- og skuldastöðu A höfðu í niðurstöðu nefndarinnar og þar með hvaða ráðstöfunartekjur nefndin byggði á að hann hefði til að standa straum af kostnaði af gæslu hagsmuna sinna í dómsmálinu. Þegar haft er í huga það sem á undan var gengið gat gjafsóknarnefnd ekki búist við að rökstuðningur fyrir niðurstöðu hennar í umsögn, dags. 17. apríl 1997, uppfyllti það grundvallarskilyrði að aðili máls gæti skilið af lestri hans hvers vegna niðurstaða máls hafði orðið sú sem raun varð á.

Ég tek það fram að ég hef ekki í þessu áliti tekið afstöðu til þess hvort dóms- og kirkjumálaráðuneytinu og eftir atvikum gjafsóknarnefnd var rétt að afla frekari upplýsinga um greiðslubyrði A vegna skulda hans, sbr. 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, áður en beiðni hans um gjafsókn var afgreidd öðru sinni.

V.

Í samræmi við það, sem að framan hefur verið rakið, eru það tilmæli mín til gjafsóknarnefndar og dóms- og kirkjumálaráðuneytisins að mál A verði tekið upp að nýju, ef ósk kemur um það frá honum, og síðan úr því leyst í samræmi við framangreind sjónarmið.”

VI.

Með bréfi til dóms- og kirkjumálaráðuneytisins, dags. 5. apríl 2000, óskaði ég eftir upplýsingum um hvort A hefði leitað til ráðuneytisins á ný og þá hvort einhverjar ákvarðanir hefðu verið teknar í framhaldi af því.

Í svari dóms- og kirkjumálaráðuneytisins, dags. 25. apríl 2000, kemur fram að A hafi ekki óskað eftir því að mál hans yrði tekið upp að nýju. Jafnframt vakti ráðuneytið athygli á því að sett hefði verið reglugerð um starfshætti gjafsóknarnefndar nr. 69/2000.