Heilbrigðismál. Valdsvið nefndar um ágreiningsmál skv. lögum um heilbrigðisþjónustu. Eftirlitsskyldur landlæknis.

(Mál nr. 1999/1997)

A kvartaði yfir afgreiðslu nefndar um ágreiningsmál skv. lögum nr. 97/1990, um heilbrigðisþjónustu, á erindi sem hann sendi henni í tilefni útgáfu læknisins B á læknisvottorði vegna sonar A.

Settur umboðsmaður rakti ákvæði 5. mgr. 3. gr. nefndra laga um skyldu landlæknis til að sinna kvörtunum eða kærum er „varða samskipti almennings og heilbrigðisþjónustunnar“, þar sem er og að finna heimild til að vísa ágreiningsmálum til sérstakrar nefndar. Taldi settur umboðsmaður ljóst að nefndinni væri ætlað að fjalla um sömu ágreiningsefni og landlækni bæri að sinna. Þá vísaði hann og til þess að í 18. gr. læknalaga nr. 53/1988 væri að finna reglur um eftirlit landlæknis með störfum lækna og til 28. gr. sömu laga um áminningu sem landlæknir getur veitt læknum.

Hann féllst á það með nefnd um ágreiningsmál skv. lögum 97/1990, að nokkur vafi væri um verksvið nefndarinnar að því er tæki til sjálfstætt starfandi lækna. Þá rakti hann að í nefndum lögum segði ekkert um með hvaða hætti landlæknir eða nefndin um ágreiningsmál skyldi leysa úr kvörtunum eða kærum. Taldi hann, með vísan til 1. mgr. 7. gr. starfsreglna nefndarinnar nr. 150/1985, að ekki yrði litið á niðurstöðu nefndarinnar sem stjórnvaldsákvörðun. Til nefndarinnar væri engu að síður stofnað með lögum og væri hún sem slík hluti af stjórnsýslu ríkisins.

Niðurstaða setts umboðsmanns var, að í starfi læknisins á lækningastofu sinni og við útgáfu umrædds vottorðs hefði hann ekki verið hluti af þeirri starfsemi er felld yrði undir heilbrigðisþjónustu í merkingu laga nr. 97/1990, sbr. 2. mgr. 1. gr. laganna, sbr. og skilgreiningu sömu laga á heilsugæslu skv. 11. gr. og 2. mgr. 12. gr. Hann vakti og athygli á því að þrátt fyrir að ákvæði í 2. mgr. 1. gr. starfsreglna nr. 150/1985 felldi störf lækna utan sjúkrastofnana undir starfssvið nefndarinnar væri ekki gert ráð fyrir skyldu þeirra til að láta nefndinni í té upplýsingar, sbr. 9. gr. starfsreglnanna. Sem sjálfstætt starfandi læknir hefði B hins vegar fallið undir eftirlit landlæknis, sbr. 18. gr. læknalaga nr. 53/1988, og 1. mgr. 3. gr. laga nr. 97/1990. Athugasemdum vegna útgáfu umrædds læknisvottorðs hefði því verið hægt að beina til landlæknis sem þá hefði borið að taka afstöðu til þess hvort tilefni væri til afskipta af starfi læknisins á grundvelli eftirlitsskyldna landlæknis.

Með því að læknirinn B var ekki að störfum innan heilbrigðisþjónustunnar taldi settur umboðsmaður að það hefði fallið utan starfssviðs úrskurðarnefndarinnar að fjalla um erindi A. Nefndinni hefði því borið að vísa erindinu frá. Í samræmi við þá niðurstöðu kvað settur umboðsmaður ekki tilefni til þess að hann fjallaði frekar um efni kvörtunar A, en vegna efnis svarbréfs nefndar um ágreiningsmál skv. lögum nr. 97/1990, beindi hann þeim tilmælum til nefndarinnar, að hún tæki mál A upp að nýju, óskaði hann þess.

I.

Með bréfi, dags. 8. janúar 1997, leitaði A, til umboðsmanns Alþingis og bar fram kvörtun vegna afgreiðslu nefndar um ágreiningsmál skv. lögum nr. 97/1990, um heilbrigðisþjónustu, á erindi sem hann sendi nefndinni í tilefni af útgáfu C, læknis á læknisvottorði vegna sonar A.

Umboðsmaður Alþingis, Gaukur Jörundsson, óskaði með bréfi, dags. 28. janúar 1997, eftir því að víkja sæti við meðferð málsins og fór þess á leit við forseta Alþingis, að skipaður yrði sérstakur umboðsmaður til að fara með þetta mál, sbr. 14. gr. reglna nr. 82/1988, um störf og starfshætti umboðsmanns Alþingis. Með bréfi, dags. 14. apríl 1997, skipaði forseti Alþingis Tryggva Gunnarsson, hæstaréttar-lögmann, til að fara með málið sem umboðsmaður Alþingis.

Máli þessu var lokið með áliti, dags. 15. júlí 1998.

II.

Hinn 29. júní 1996 gaf C, barnalæknir, sérfræðingur í smitsjúkdómum barna, út vottorð að beiðni móður sonar A en fram kemur í gögnum sem fylgdu kvörtun A að hann og barnsmóðir hans áttu á þessum tíma í forsjárdeilu um barnið og var túlkun á samkomulagi um dvalarstað barnsins mismunandi. Í vottorði C sagði:

„Það vottast hér með, að ég hef nýlega skoðað [B], og var hann talsvert lasinn og m.a. með eyrnabólgu. Hann er því á sýklalyfjum, sem nauðsynlegt er að hann taki reglulega eins og fyrir var mælt.

Ekki er ráðlegt að barnið sé mikið úti við meðan á þessum veikindum stendur, sérstaklega er óráðlegt að fljúga með barnið, nema brýn nauðsyn krefji.“

A lýsir atvikum málsins svo að þeir feðgar hafi flogið til Akureyrar, laugardaginn 29. júní 1996, samkvæmt samkomulagi þeirra hjóna. Móðir drengsins hafi ekki verið sátt við þetta ferðalag feðganna og sendi fyrir atbeina lögmanns síns símskeyti til A þar sem vísað var til ofangreinds læknisvottorðs. Í skeytinu kom síðan fram að skorað var á A að skila barninu þá þegar en að öðrum kosti yrði leitað til stjórnvalda og lögreglu og barnið tekið af honum með fógetavaldi.

A sagði í bréfi sínu til nefndar um ágreiningsmál skv. lögum nr. 97/1990, um heilbrigðisþjónustu, dags. 1. ágúst 1996, að framangreint læknisvottorð hefði þegar haft veruleg áhrif á forsjárdeilu þeirra hjóna og samtímis hafi því verið beitt til að sýna hann í afar neikvæðu ljósi. A óskaði eftir því að nefndin hlutaðist til um að vottorðið yrði ógilt. Í bréfi sínu færði A fram eftirfarandi rök:

„Viðkomandi læknir hafði skoðað son minn tvisvar, áður en til útgáfu vottorðsins kom. Vottorðið var útgefið laugardaginn 29. júní að beiðni móður nokkrum klukkustundum eftir að við feðgar lentum á Akureyri. Þá voru liðnir 5 dagar frá seinni skoðun af tveim. Við þá skoðun hafði vökvi í eyrum „að vísu“ þróast í eyrnabólgu. Móður var þá ráðlagt að: „hafa barnið inni við og fara varlega með hann meðan hann væri lasinn.“

Í vottorði, sem ritað er 5 dögum síðar eins og áður er vikið að, án skoðunar eða nokkurrar viðleitni til að meta ástand drengsins, t.a.m. við að inna mig álits, er tekið miklu dýpra í árinni. Nú er drengurinn orðinn talsvert lasinn og gefið í skyn að eyrnabólga sé einungis einn af fleiri sjúkdómum, sem skyldu hrjá hann. Í vottorði telur [C] 5 daga skoðun vera nýlega. Í eyrnabólgusamhengi er það óumdeilanlega „gömul“ skoðun og vart á byggjandi við útgáfu vottorðs.

Í vottorði gætir einnig þversagna um útiveru miðað við fyrri ráðleggingar. Nú þykir: „ekki ráðlagt að hann sé mikið úti,“ en áður var ráðlagt: „að hafa barnið inni við.“

Í vottorði er tiltekið að: “sérstaklega er óráðlegt að fljúga með barnið, nema brýna nauðsyn krefji.“ Þetta er afar undarlegt niðurlag vottorðs og bersýnilega pantað í sérstökum tilgangi, sem [C] hefði mátt vita hver væri ellegar þá getað kynnt sér. Því er umrætt vottorð læknisfræðilega tilgangslaust og falsgagn að telja. Útgáfa þess helgast einvörðungu af undirróðurstilgangi umbeiðanda. Því má við bæta, að stráksi hélt áfram að taka sín lyf og læknisskoðun daginn eftir sýndi snert af eyrnabólgu í hægra eyra. Að öðru leyti var sonurinn hress og kátur.

Samkvæmt framansögðu tel ég nefndan [C] hafa brotið af sér með hliðsjón af 11. gr. læknalaga og 3. og 4. gr. reglna frá 6. des 1991 um gerð og útgáfu læknisvottorða.“

Nefnd um ágreiningsmál skv. lögum nr. 97/1990 um heilbrigðisþjónustu afgreiddi erindi A með svohljóðandi bréfi, dags. 17. desember 1996:

„Nefndin hefur kynnt sér framlögð gögn í máli nr. 7/1996, [A] gegn [C], lækni. Eftir athugun á gögnum málsins telur nefndin að ekki sé ástæða til athugasemda við útgáfu læknisvottorðsins sem kvörtun þín lítur að.“

A segir í kvörtun sinni til umboðsmanns Alþingis að honum þyki svar nefndarinnar óásættanlegt. Umfjöllunartími nefndarinnar hafi verið óhæfilega langur og úrskurðurinn firrtur öllum rökstuðningi. A segir að svo virðist sem hér hafi verið brotin rökstuðningsregla stjórnsýslulaga og jafnvel rannsóknarregla einnig.

III.

Með bréfi, dags. 30. apríl 1997, óskaði ég sem settur umboðsmaður Alþingis í þessu máli með tilvísun til 7. gr. þágildandi laga nr. 13/1987, um umboðsmann Alþingis, að nefndin léti mér í té afrit af gögnum málsins, þ.e. þau gögn sem lágu fyrir nefndinni við afgreiðslu á málinu. Jafnframt óskaði ég eftir að nefndin léti mér í té í samræmi við 9. gr. laga nr. 13/1987 skýringar í tilefni af kvörtun A vegna þeirra atriða sem hann tilgreindi í bréfi sínu frá 8. janúar 1997.

Svör nefndarinnar bárust mér með bréfi, dags. 9. maí 1997, og þar kom fram að nefndin byggði niðurstöðu sína á þeim gögnum sem fylgdu kvörtuninni en aflaði engra nýrra gagna frá aðilum málins eða öðrum. Síðan segir í bréfinu:

„Þrátt fyrir nokkurn vafa um verksvið nefndarinnar taldi nefndin, að rétt væri að fjalla efnislega um kvörtun þessa, sem beinist gegn sjálfstætt starfandi lækni á Læknastöðinni í Glæsibæ, Reykjavík.

Varðandi meðferð málsins fyrir nefndinni er rétt að minnast á það, að niðurstöður nefndarinnar fela ekki í sér bindandi ákvarðanir um réttindi eða skyldur málsaðila. Engu að síður hefur nefndin til hliðsjónar við málsmeðferð allar meginreglur stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Vegna framangreindra sjónarmiða telur nefndin, að hún geti takmarkað rökstuðning sinn í þeim málum, þar sem kvörtunin gefur augljóslega, þegar í upphafi, ekkert tilefni til nánari athugunar. Byggir nefndin þetta verklag sitt á svipuðum sjónarmiðum og fram koma í 1. mgr. 10. gr. laga nr. 13/1987, um umboðsmann Alþingis.

Álitsbeiðandi óskar í kvörtun sinni eftir því, að nefndin hlutist til um að læknisvottorð, útgefið 29. júní 1996 af C, lækni, verði ógilt. Telur álitsbeiðandi að C hafi brotið gegn reglum, sem settar hafa verið læknum, um útgáfu læknisvottorða. Byggir álitsbeiðandi á því að C hafi ekki haft forsendur til að gefa út læknisvottorðið þar sem 5 dagar höfðu liðið frá læknisskoðun og hafi hann því ekki getað vottað um heilsu barnsins. Þá telur álitsbeiðandi læknisvottorðið vera læknisfræðilega tilgangslaust falsgagn, þar sem fram komi vegna áróðurs vottorðsbeiðanda, að óráðlegt sé að fljúga með barnið. Nefndin taldi að læknisvottorðið uppfyllti öll skilyrði laga og reglna, sem gerðar væru til útgáfu slíkra vottorða og votta það eitt, sem sannanlega hefði komið fram við nýlega læknisskoðun barnsins. Þá taldi nefndin, að athugasemd C, læknis, um að óráðlegt hefði verið að fljúga með veikt barnið væri í fullu samræmi við almennt þekkta og viðurkennda læknisfræði.

Álitsbeiðandi kvartar einnig til umboðsmanns Alþingis yfir óhæfilega löngum umfjöllunartíma. Nefndin fjallar um mál, að meginstefnu til, í þeirri röð sem þau hafa borist. Eðli þessa máls er þó þannig, að réttast hefði verið að ljúka því með framangreindum hætti á undan öðrum málum og varð því óþarfa dráttur á meðferð málsins.“

IV.

Eins og fram er komið hér að framan og vikið er að í bréfi nefndar um ágreiningsmál skv. lögum nr. 97/1990, um heilbrigðisþjónustu, dags. 9. maí 1997, var vottorð það sem er tilefni kvörtunar A gefið út af sjálfstætt starfandi lækni sem starfar á einkarekinni lækningastofu í Reykjavík.

Í 5. mgr. 3. gr. laga nr. 97/1990 um heilbrigðisþjónustu segir:

„Landlækni er skylt að sinna kvörtunum eða kærum, er varða samskipi almennings og heilbrigðisþjónustunnar. Heimilt er að vísa ágreiningsmálum til sérstakrar nefndar, sem í eiga sæti 3 menn, tilnefndir af Hæstarétti og ráðherra skipar til fjögurra ára í senn. Enginn nefndarmanna má vera starfsmaður heilbrigðisþjónustunnar, og einn skal vera embættisgengur lögfræðingur og jafnframt formaður. Sömu reglur gilda um varamenn. Ráðherra setur nefndinni starfsreglur að fengnum tillögum hennar. Kostnaður vegna starfa nefndarinnar greiðist úr ríkissjóði. Landlæknir og nefndin gera árlega grein fyrir þeim kvörtunum sem borist hafa og afdrifum mála.“

Í lagaákvæðinu er efni kvörtunar eða kæru bundið við samskipti almennings og „heilbrigðisþjónustunnar“ en í 2. mgr. 1. gr. laga nr. 97/1990, um heilbrigðisþjónustu, segir:

„Heilbrigðisþjónusta tekur til hvers kyns heilsugæslu, heilbrigðiseftirlits, lækningarannsókna, lækninga og hjúkrunar í sjúkrahúsum, læknisfræðilegs endurhæfingastarfs, tannlækninga og sjúkraflutninga.“

Ákvæðum laga nr. 97/1990, um heilbrigðisþjónustu, er skipað í 5 kafla og fjallar sá fyrsti um yfirstjórn, annar um læknishéruð og heilbrigðismálaráð, þriðji um heilsugæslu, fjórði um sjúkrahús og fimmti hefur að geyma ýmis ákvæði. Í lögum um heilbrigðisþjónustu nr. 97/1990 er ekki fjallað um starfsemi sjálfstætt starfandi lækna.

Í starfsreglum fyrir nefnd um ágreiningsmál skv. lögum nr. 59/1983, nú lög nr. 97/1990, um heilbrigðisþjónustu, sem heilbrigðisráðherra hefur sett samkvæmt heimild í 5. mgr. 3. gr. laganna, birtum í B-deild Stjórnartíðinda nr. 150/1985, er í fyrstu grein tekið fram að nefndin eigi að taka til meðferðar ágreiningsmál sem rísa vegna samskipta almennings og heilbrigðisþjónustu og vísað er til nefndarinnar. Þá segir í 2. og 3. mgr. 1. gr.:

„Nefndinni ber að skila álitsgerð í slíkum málum, þar með talið um ætlaðan skaða á heilsu sjúklings vegna aðgerðar lækna í eða utan sjúkrastofnana, rangra aðgerða eða seint framkvæmdra, svo og vegna hjúkrunar eða vistunar á heilbrigðisstofnunum, svo og önnur þau atriði, sem kærur eða kvartanir fjalla um.

Nefndin skal leitast við að meta ábyrgð aðila og bótaskyldu, komi fram beiðni um það.“

Þá er í 2. gr. starfsreglnanna sagt að nefndin skuli láta í té álitsgerð eftir skriflegri beiðni dómstóla svo og málsaðila um ætlað persónulegt tjón sjúklings af völdum starfsfólks heilbrigðisþjónustunnar.

Í 1. og 2. mgr. 9. gr. starfsreglanna segir:

„Yfirvöld skulu veita nefndinni þá aðstoð, sem hún kann að þurfa til að geta gegnt hlutverki sínu. Forstöðumönnum stofnana innan heilbrigðiskerfisins, eða deilda í slíkum stofnunum, er skylt að veita nefndinni allar þær upplýsingar, sem hún telur nauðsynlegar til rannsóknar máls, nema slíkt brjóti beint gegn lagafyrirmælum.

Sama skylda hvílir á einstaklingum starfandi í ofangreindum stofnunum, sem leitað er til um upplýsinga í máli, sem er til meðferðar í nefndinni.“

Með tilliti til ákvæðis 5. mgr. 3. gr. laga nr. 97/1990 og þess að kvörtun sú sem borin var fram við umboðsmann Alþingis fjallaði um vottorð sem gefið var út af sjálfstætt starfandi lækni við Læknamiðstöðina hf. í Glæsibæ í Reykjavík, ritaði ég nefnd um ágreiningsmál skv. lögum nr. 97/1990, landlækni og heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytinu bréf hinn 8. september 1997.

Í bréfum mínum til þessara aðila óskaði ég eftir að þeir létu mér í té skýringar sínar á því hvort læknisverk, þ.m.t. útgáfa læknisvottorða sjálfstætt starfandi lækna, þ.e. lækna sem ekki starfa hjá þeim stofnunum sem lög nr. 97/1990 taka til eða eru með öðrum hætti starfsmenn hins opinbera, falli undir starfssvið nefndarinnar samkvæmt 5. mgr. 3. gr. laga nr. 97/1990. Sérstaklega óskaði ég eftir að aðilarnir gerðu grein fyrir því á hvaða lagagrundvelli þeir byggðu skýringar sínar. Í bréfi mínu til heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytisins óskaði ég einnig sérstaklega eftir að ráðuneytið gerði grein fyrir því á hvaða lagagrundvelli ákvæði 2. og 3. mgr. 1. gr. starfsreglna nr. 150/1985 um að störf lækna utan sjúkrastofnunar falli undir starfssvið nefndarinnar væri byggt.

Í svarbréfi heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytisins, dags. 8. september 1997, sagði að ráðuneytið vildi í tilefni af fyrirspurn minni taka eftirfarandi fram:

„Í 3. gr. laga nr. 97/1990, um heilbrigðisþjónustu, er fjallað um landlækni. Í 5. mgr. 3. gr. laganna segir m.a.: „Landlækni er skylt að sinna kvörtunum eða kærum, er varða samskipti almennings og heilbrigðis-þjónustunnar. Heimilt er að vísa ágreiningsmálum til sérstakrar nefndar, sem í eiga sæti […]“.

Starfssvið og hlutverk nefndarinnar hefur verið skýrt með hliðsjón af hlutverki landlæknis og skyldu hans til að sinna kvörtunum og kærum er varða samskipti almennings og heilbrigðisþjónustunnar, skv. 5. mgr. 3. gr. laga nr. 97/1990. Heilbrigðisyfirvöld hafa litið svo á að almenningur geti borið kvartanir sínar undir landlækni, skv. framangreindu ákvæði vegna samskipta við lækna innan og utan sjúkrastofnana, enda ber landlækni að hafa eftirlit með heilbrigðisstéttum skv. 1. mgr. 3. gr. laganna, sbr. einnig 18. gr. læknalaga nr. 53/1988.

Á sama hátt er heimilt á grundvelli 2. ml. 5. mgr. 3. gr. laga nr. 97/1990 um heilbrigðisþjónustu, að vísa málum er landlækni væri skylt að sinna og rísa vegna samskipta almennings og heilbrigðisþjónustunnar, til umræddrar nefndar um ágreiningsmál í heilbrigðisþjónustu, vegna samskipta lækna innan og utan sjúkrastofnana. Hefur því verið litið svo á að læknisverk „sjálfstætt starfandi lækna“ eins og útgáfa læknisvottorða, falli undir starfssvið nefndarinnar.

Í svarbréfi nefndar um ágreiningsmál skv. lögum nr. 97/1990, um heilbrigðisþjónustu, dags. 20. ágúst 1997, sagði:

„Eins og fram kom í bréfi nefndarinnar til yðar, dags. 9. maí 1997, telur nefndin að nokkur vafi sé um það hvort valdsvið nefndarinnar nái til sjálfstætt starfandi lækna. Ákvæði 2. mgr. 1. gr. laga nr. 27/1990 nefna ekki sjálfstætt starfandi lækna sérstaklega en það getu samræmst orðalagi 2. gr. 1. gr. starfsreglna nr. 150/1985, að nefndin fjalli um læknisverk þeirra. Í 2. mgr. 1. gr. starfsreglnanna segir: „Nefndinni ber að skila álitsgerð […] vegna aðgerðar lækna í eða utan sjúkrastofnana […]“ Þar sem það getur samræmst orðalagi 2. mgr. 1. gr. starfsreglnanna, að sjálfstætt starfandi læknar eigi undir verksvið nefndarinnar, fór nefndin þá leið að fjalla efnislega um mál [A] nr. 7/1996.

Vegna sumarleyfa nefndarmanna dróst að svara bréfi yðar.“

Landlæknir svaraði með svohljóðandi bréfi, dags. 25. september 1997:

„Skilningur landlæknis er að vísa má málefnum varðandi útgáfu læknisvottorða til nefndar ef menn sætta sig ekki við úrskurð landlæknis.“

V.

Fyrsti kafli laga um heilbrigðisþjónustu, nr. 97/1990, ber heitið yfirstjórn og þar segir að heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið fari með yfirstjórn heilbrigðis-mála, sjá 2. gr. Í 3. gr. er síðan annars vegar fjallað almennt um skipun og starfsskyldur landlæknis og hins vegar um skipun og verkefni þeirrar nefndar sem fjallað er um í þessu máli. Samkvæmt 1. mgr. 3. gr.er landlæknir ráðunautur ráðherra og ríkisstjórnar um allt er varðar heilbrigðismál og annast framkvæmd tiltekinna málaflokka f.h. ráðherra samkvæmt lögum, reglum og venjum er þar um gilda. Þá skal landlæknir hafa „eftirlit með starfi og starfsaðstöðu heilbrigðisstétta.“

Í upphafi 5. mgr. 3. gr. laga nr. 97/1990, um heilbrigðisþjónustu, segir að landlækni sé skylt að sinna kvörtunum eða kærum er „varða samskipti almennings og heilbrigðisþjónustunnar.“ Síðan segir: „Heimilt er að vísa ágreiningsmálum til sérstakrar nefndar.“ Af þessu tel ég ljóst að nefndinni er ætlað að fjalla um þau sömu ágreiningsefni og landlækni ber að sinna og „varða samskipti almennings og heilbrigðisþjónustunnar.“

Samkvæmt 1. mgr. 3. gr. laga nr. 97/1990 er það, eins og að framan greindi, meðal verkefna landlæknis að hafa eftirlit með starfi og starfsaðstöðu heilbrigðisstétta. Fyrst var stofnað til nefndar um ágreiningsmál skv. lögum um heilbrigðisþjónustu með lögum nr. 40/1983. Þegar heilbrigðisráðherra mælti fyrir frumvarpi til þeirra laga, sem síðar urðu lög nr. 40/1983, sagði hann m.a.:

„Í 2. gr. er veigameiri breyting. Þar er gert ráð fyrir því að stofnuð verði sérstök nefnd til þess að sinna kvörtunum og kærum sem varða samskipti almennings og heilbrigðisþjónustunnar. Nú eru þessi mál í höndum landlæknis eins. Hér er sem sagt lagt til að til hliðar við landlæknisembættið verði ákveðin sérfræðinganefnd sem auk þess megi vísa málum beint til ef upp koma klögumál á heilbrigðisþjónustuna eða starfsemi hennar.

Ég tel að hér sé um að ræða mjög mikilsvert ákvæði sem hefði iðulega getað afstýrt misskilningi, togstreitu og erfiðleikum, bæði fyrir viðskiptamenn heilbrigðisþjónustunnar og fyrir starfsmenn heilbrigðisþjónustunnar.“

Því hefur áður verið lýst að samkvæmt 2. mgr. 1. gr. laga nr. 97/1990 tekur heilbrigðisþjónusta samkvæmt þeim lögum til hvers kyns heilsugæslu, heilbrigðiseftirlits, lækningarannsókna, lækninga og hjúkrunar í sjúkrahúsum, læknisfræðilegs endurhæfingastarfs, tannlækninga og sjúkraflutninga. Í 1. mgr. 11. gr. laganna segir að heilsugæsla merki í þeim lögum: „heilsuverndarstarf og allt lækningastarf, sem unnið er vegna heilbrigðra og sjúkra sem ekki dveljast á sjúkrahúsum.“ Síðan segir í 1. mgr. 12. gr. laganna að starfrækja skuli „heilsugæslustöðvar til þess að annast heilsugæslu samkvæmt lögum þessum.“ Í ákvæðum laganna um heilsugæslu er ekki fjallað um starfsemi sjálfstætt starfandi lækna.

Reglur um eftirlit landlæknis með störfum lækna eru einnig í 18. gr. læknalaga nr. 53/1988 en þar segir m.a.:

„Læknir er háður eftirliti landlæknis. Ber landlækni að gæta þess að læknir haldi ákvæði laga þessara og önnur ákvæði í heilbrigðislöggjöf landsins. Landlæknir heimtir skýrslur af lækni viðvíkjandi störfum hans að heilbrigðismálum í samræmi við reglur þar að lútandi, sem ráðherra setur að fengnum tillögum landlæknis og Læknafélags Íslands.

Verði læknir í starfi sínu var við mistök eða vanrækslu af hálfu lækna eða annarra heilbrigðisstarfsmanna skal hann tilkynna það landlækni. Sama skylda hvílir á öðrum heilbrigðisstéttum og öðrum þeim sem vinna með læknum.

Hljótist skaði af læknisverki skal læknir sá sem verkið vann eða yfirlæknir tilkynna það til landlæknis.

Lækni ber að tilkynna landlækni eins fljótt og við verður komið verði hann var við skottulækningar, sbr. 22. gr. laga þessara.

Ráðherra setur reglur um meðferð landlæknis á málum skv. 2. og 3. mgr.“

Í 28. gr. læknalaga nr. 53/1988 segir að landlækni beri, verði hann þess var að læknir vanræki skyldur sínar, fer út fyrir verksvið sitt eða brýtur í bága við fyrirmæli heilbrigðislaga landsins að áminna hann. Áminning skal vera skrifleg og rökstudd. Þá eru frekari úrræði í læknalögum um aðgerðir gegn lækni komi áminning landlæknis ekki að haldi.

Þegar lagaákvæði um eftirlit landlæknis með störfum lækna eru virt og afmörkun laga nr. 97/1990 á hugtakinu heilbrigðisþjónusta í merkingu þeirra laga, verður að fallast á það með nefnd um ágreiningsmál skv. lögum nr. 97/1990, um heilbrigðisþjónustu, að nokkur vafi sé um verksvið nefndarinnar að því er tekur til sjálfstætt starfandi lækna.

Heilbrigðisráðherra hefur samkvæmt heimild í 5. mgr. 3. gr. laga nr. 59/1983, sbr. nú lög nr. 97/1990, sett nefndinni starfsreglur, sjá auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda nr. 150/1985, og þar kemur fram í 1. mgr. 1. gr. að nefndin skuli taka til meðferðar ágreiningsmál, sem rísa vegna samskipta almennings og „heilbrigðisþjónustunnar“ og vísað er til nefndarinnar. Í 2. mgr. 1. gr. starfsreglnanna segir að nefndinni beri „að skila álitsgerð í slíkum málum, þar með talið um ætlaðan skaða á heilsu sjúklings vegna aðgerðar lækna í eða utan sjúkrastofnana, rangra aðgerða eða of seint framkvæmdra, svo og vegna hjúkrunar eða vistunar á heilbrigðisstofnunum, svo og önnur þau atriði, sem kærur eða kvartanir fjalla um.“ Þá segir í 3. mgr. sömu greinar: „Nefndin skal leitast við að meta ábyrgð aðila og bótaskyldu komi fram beiðni um það.“

Í 5. mgr. 3. gr. laga nr. 97/1990, um heilbrigðisþjónustu segir ekkert um með hvaða hætti landlæknir eða nefnd sú sem starfar samkvæmt ákvæðinu, skuli leysa úr kvörtun eða kærum sem bornar eru fram samkvæmt ákvæðinu. Í 1. mgr. 7. gr. þeirra starfsreglna, sem ráðherra hefur sett um nefndina, segir að „ákvörðun eða niðurstaða nefndarinnar í máli“ skuli vera skrifleg og nefnast „álitsgerð“. Þó að nefndinni sé samkvæmt starfsreglunum ætlað að láta í té álitsgerð og því verði ekki litið á niðurstöðu nefndarinnar sem stjórnvaldsákvörðun þar sem tekin er með bindandi hætti ákvörðun um rétt og skyldu viðkomandi, kann niðurstaða nefndarinnar, og þá sérstaklega mat nefndarinnar á ábyrgð aðila og bótaskyldu að hafa þýðingu um framhald og niðurstöðu í ágreiningsmáli þeirra einstaklinga og heilbrigðisstofnana sem í hlut eiga. Til nefndarinnar er stofnað með lögum og hún er sem slík hluti af stjórnsýslu ríkisins. Með hliðsjón af framangreindu og í samræmi við þá grundvallarreglu að stjórnsýsla er lögbundin, verður að telja að í þeim tilvikum þegar kvartanir eða kærur beinast að störfum einstaklinga úr röðum heilbrigðisstétta þurfi að vera fyrir hendi skýr lagaheimild um að viðkomandi einstaklingur falli undir starfssvið nefndarinnar.

Í máli þessu er fjallað um erindi sem A bar fram við nefnd um ágreiningsmál skv. lögum nr. 97/1990, um heilbrigðisþjónustu, vegna læknisvottorðs sem sjálfstætt starfandi læknir á einkarekinni lækningastofu í Reykjavík gaf út. Í starfi sínu á lækningastofu sinni og við útgáfu á umræddu vottorði var viðkomandi læknir ekki hluti af þeirri starfsemi sem felld er undir heilbrigðisþjónustu, sbr. 2. mgr. 1. gr. laganna, sjá einnig um skilgreiningu á heilsugæslu 11. gr. og 1. mgr. 12. gr. laganna. Ég vek líka athygli á því að þrátt fyrir að ákvæði 2. mgr. 1. gr. starfsreglna nr. 150/1985 felli störf lækna utan sjúkrastofnana undir starfssvið nefndarinnar er ekki gert ráð fyrir skyldu þeirra til að láta nefndinni í té upplýsingar, sbr. 9. gr. starfsreglnanna.

Sem sjálfstætt starfandi læknir féll C hins vegar undir eftirlit landlæknis, sbr. 18. gr. læknalaga nr. 53/1988 og 1. mgr. 3. gr. laga nr. 97/1990, um heilbrigðisþjónustu. Athugasemdum vegna útgáfu á umræddu læknisvottorði var því hægt að beina til landlæknis sem bar þá að taka afstöðu til þess hvort tilefni væri til afskipta hans af starfi læknisins, í þessu tilviki á grundvelli eftirlitsskyldna landlæknis.

VI.

Þar sem C, barnalæknir, var ekki við útgáfu þess vottorð sem hann gaf út 29. júní 1996 og var tilefni erindis A til nefndar um ágreiningsmál samkvæmt lögum nr. 97/1990, um heilbrigðisþjónustu, að störfum innan heilbrigðisþjónustunnar, eins og hún er skilgreind í lögum nr. 97/1990, féll það utan starfssviðs nefndarinnar að fjalla um erindi A, dags. 1. ágúst 1996. Nefndinni bar því að vísa erindi A frá. Í samræmi við þessa niðurstöðu mína er ekki tilefni til að ég fjalli frekar um efni kvörtunar A en vegna efnis svarbréfs nefndar um ágreiningsmál skv. lögum nr. 97/1990, um heilbrigðisþjónustu, dags. 17. desember 1996, beini ég þeim tilmælum til nefndarinnar, komi fram ósk um það frá A, að hún taki málið upp að nýju og hagi þá afgreiðslu þess í samræmi við þau sjónarmið sem gerð hefur verið grein fyrir hér að framan.