Heibrigðismál. Auglýsing lyfsöluleyfa.

(Mál nr. 1816/1996)

Apótekarafélag Íslands kvartaði yfir því að ný lyfsöluleyfi hefðu ekki verið auglýst laus til umsóknar. Í bréfi sínu til félagsins rakti umboðsmaður að í lyfsölulögum nr. 30/1963 hefði kveðið á um það í 2. mgr. 7. gr. að þegar veita skyldi lyfsöluleyfi, bæri ráðherra að auglýsa eftir umsóknum með þeim hætti sem segði í 5. gr. laga nr. 38/1954, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins. Þessi ákvæði hefðu verið felld úr gildi með lögum nr. 76/1982 en í 2. mgr. 10. gr. þeirra laga hefði verið tekið fram að lyfsöluleyfi skyldu auglýst.
Umboðsmaður vísaði til þess að í gildandi lyfjalögum væri hvergi kveðið á um það að skylt væri að auglýsa lyfsöluleyfi laus til umsóknar. Ekki væri heldur að finna neina ráðagerð þess efnis eins og verið hefði í eldri lögum. Umboðsmaður féllst því á það sjónarmið ráðuneytisins að ekki væri skylt samkvæmt lyfjalögum að auglýsa lyfsöluleyfi. Þá tók hann fram að það væri skoðun sín, að þar sem markaðsaðstæður ættu nú í aðalatriðum að ráða því, hversu margar lyfjabúðir væru starfræktar og hvar, yrði ekki talið að á heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra hvíldi ólögfest skylda til að auglýsa lyfsöluleyfi laus til umsóknar. Tók hann fram að hann teldi skyldu ráðherra skv. 3. mgr. 20. gr. lyfjalaga nr. 93/1994 til þess að afla umsagnar sveitarstjórnar um ný lyfsöluleyfi og til þess að meta sjálfur, sbr. dóm Hæstaréttar, Hrd. 1996, bls. 3962, með tilliti til íbúafjölda að baki lyfjabúð og fjarlægðar hennar frá næstu lyfjabúð, engu breyta í þessu efni, enda tilgangur ákvæðisins fyrst og fremst að koma í veg fyrir að óheft samkeppni stofnaði rekstrargrundvelli apóteka í dreifbýli í hættu.

Í bréfi mínu til Apótekarfélags Íslands, dags. 8. janúar 1998, sagði m.a.:

„Hinn 26. júní sl. óskaði ég eftir því við heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra, með vísan til 9. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, að ráðuneyti hans skýrði viðhorf sitt til þess atriðis í kvörtun félagsins, að ný lyfsöluleyfi hefðu ekki verið auglýst laus til umsóknar. Í svari ráðuneytisins, dags. 24. september 1997, segir meðal annars svo:

„Ráðuneytið vill taka það fram í ljósi lyfjalaga nr. 93/1994, er heimiluðu aukið frjálsræði í lyfjadreifingu, að ekki er ráð fyrir því gert að ráðuneytið hlutist til um að auglýsa laus til umsóknar lyfsöluleyfi. Falli lyfsöluleyfi niður af ástæðum er um getur í 22. gr. lyfjalaga, verður ekki um frekari lyfsölu að ræða á þeim stað og í þeirri lyfjabúð er lyfsöluleyfið tók til, nema sótt verði um nýtt lyfsöluleyfi að frumkvæði umsækjanda.

Ráðuneytið lítur svo á að það sé lyfsalans að auglýsa eftir kaupanda að rekstri lyfjabúðar, en ráðuneytisins að veita þeim lyfsöluleyfi sem uppfyllir skilyrði laganna og um slíkt leyfi sækir skv. 2. mgr. 20. gr. lyfjalaga.“

Í lyfsölulögum nr. 30/1963 var kveðið á um það í 2. mgr. 7. gr., að þegar veita skyldi lyfsöluleyfi, bæri ráðherra að auglýsa eftir umsóknum með þeim hætti, sem segði í 5. gr. laga nr. 38/1954, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins. Í 3. mgr. sömu greinar var fjallað um meðferð umsókna. Ákvæði þessi voru felld úr gildi með lögum nr. 76/1982. Í þeim lögum var ekki að finna ákvæði um það, hvernig lyfsöluleyfi skyldu auglýst, en í 2. mgr. 10. gr. þeirra kom fram ráðagerð um, að lyfsöluleyfi væru auglýst laus til umsóknar. Þar sagði, að geta skyldi þess „í auglýsingu um lyfsöluleyfi, sem laust er til umsóknar, hvenær verðandi lyfsali [skyldi] hefja reksturinn.“

Lög nr. 76/1982 voru felld úr gildi með lyfjalögum nr. 93/1994. Í 20. gr. þeirra segir meðal annars svo:

„Leyfi til lyfsölu hafa þeir aðilar einir sem til þess hafa hlotið leyfi ráðherra.

Ráðherra veitir lyfsöluleyfi þeim sem uppfyllir eftirtalin skilyrði og um slíkt leyfi sækir:

1. Er lyfjafræðingur sem hefur starfsleyfi hér á landi, sbr. lög um lyfjafræðinga.

2. Hefur starfað sem lyfjafræðingur í þrjú ár. Veita má undanþágu frá þessu skilyrði ef sérstaklega stendur á.

3. Hefur verslunarleyfi eða hefur gert samning við aðila með verslunarleyfi.

Umsóknir um ný lyfsöluleyfi skal ráðherra senda viðkomandi sveitarstjórn til umsagnar. Við mat umsóknar skal m.a. stuðst við íbúafjölda að baki lyfjabúðinni og fjarlægð hennar frá næstu lyfjabúð. Leggist umsagnaraðili gegn veitingu nýs leyfis er ráðherra heimilt að hafna umsókninni.“

Í greininni er ekki, frekar en annars staðar í lögunum, kveðið á um það, að skylt sé að auglýsa lyfsöluleyfi laus til umsóknar. Ekki er heldur að finna í lögunum neina ráðagerð þess efnis, eins og var í lögum nr. 76/1982. Í greinargerð með frumvarpi því, er varð að lyfjalögum nr. 93/1994, segir, að aukið frelsi til þess að setja á stofn lyfjabúðir sé ein af þeim grundvallarbreytingum, sem ætlunin sé að gera frá þágildandi lögum (Alþt. 1993–1994, A-deild, bls. 1560). Í 1. gr. laganna er markmið þeirra sagt vera að tryggja landsmönnum nægilegt framboð af nauðsynlegum lyfjum með sem hagkvæmastri dreifingu þeirra á grundvelli eðlilegrar samkeppni og í samræmi við þær reglur, sem gildi á hinu Evrópska efnahagssvæði.

Með hliðsjón af því, sem hér að framan hefur verið rakið, er það skoðun mín, að fallast beri á það með heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytinu, að ekki sé skylt samkvæmt lyfjalögum að auglýsa lyfsöluleyfi laus til umsóknar.

Í tíð eldri laga var aðeins veittur tiltekinn fjöldi staðbundinna lyfsöluleyfa, sbr. 2. gr. laga nr. 76/1982, og reglugerðir settar með stoð í þeirri grein. Með gildistöku laga nr. 93/1994 var þessi skipan hins vegar afnumin og þess í stað stefnt að því, sbr. 1. gr. laganna, að landsmönnum væri tryggt nægilegt framboð af nauðsynlegum lyfjum með sem hagkvæmastri dreifingu þeirra á grundvelli eðlilegrar samkeppni. Það er skoðun mín, að þar sem markaðsaðstæður eiga nú í aðalatriðum að ráða því, hversu margar lyfjabúðir eru starfræktar og hvar, verði ekki talið, að á heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra hvíli ólögfest skylda til þess að auglýsa lyfsöluleyfi laus til umsóknar. Ég tel að skylda ráðherra, samkvæmt 3. mgr. 20. gr. lyfjalaga, til þess að afla umsagnar sveitarstjórnar um ný lyfsöluleyfi og til þess að meta sjálfur, sbr. dóm Hæstaréttar (Hrd. 1996, bls. 3962), með tilliti til íbúafjölda að baki lyfjabúð og fjarlægðar hennar frá næstu lyfjabúð, hvort veita skuli nýtt lyfsöluleyfi, breyti engu í þessu efni, enda er tilgangur ákvæðisins fyrst og fremst að koma í veg fyrir, að óheft samkeppni stofni rekstrargrundvelli apóteka í dreifbýli í hættu (Alþt. 1993–1994, A-deild, bls. 4524).

Samkvæmt því, sem að framan hefur verið rakið, er það niðurstaða mín, að ekki sé ástæða til athugasemda við það, að heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið auglýsi ekki lyfsöluleyfi laus til umsóknar. Mun ég því ekki aðhafast frekar í tilefni af kvörtun yðar, sbr. a-lið 2. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.“