Hæfi. Almennt hæfi. Sérstakt hæfi.

(Mál nr. 2308/1997)

L kvartaði yfir því að formaður áfrýjunarnefndar skv. 63. gr. laga nr. 45/1997, um vörumerki, væri vanhæfur til meðferðar tiltekins máls hjá áfrýjunarnefndinni.

Umboðsmaður tók fram, að í vörumerkjalögum væru ekki ákvæði um sérstakt hæfi nefndarmanna til meðferðar máls en þar sem nefndin teldist til stjórnsýslu ríkisins og úrskurðir hennar væru stjórnvalds-ákvarðanir giltu ákvæði stjórnsýslulaga um málsmeðferð áfrýjunar-nefndar. Hafa bæri í huga við úrlausn framangreinds álitaefnis að hæfisreglum væri ætlað að hindra að aðilar að máli gætu haft réttmæta ástæðu til að ætla að óviðkomandi sjónarmið hefðu haft áhrif á ákvarðanir. Einnig að í úrskurðum áfrýjunarnefndarinnar væri iðulega fjallað um verulega fjárhagslega hagsmuni og að oft réði mat miklu um niðurstöðu.

Umboðsmaður tók afstöðu til tveggja meintra vanhæfisástæðna er vörðuðu sérstakt hæfi og einnar er varðaði almennt hæfi. Í kvörtuninni var því í fyrsta lagi haldið fram að formaðurinn væri vanhæfur þar eð hann starfaði á lögmannsstofu sem kæmi fram sem umboðsmaður í skilningi 35. gr. vörumerkjalaga fyrir eigendur vörumerkja sem ekki væru búsettir hér á landi. Lögmannsstofan og L væru því í beinni samkeppni á þessu sviði. Umboðsmaður taldi að þótt lögmannsstofan hefði tekið að sér að annast skráningu vörumerkja í nokkrum tilvikum, yrði ekki séð að það ylli sjálfkrafa vanhæfi formannsins til þess að úrskurða í sérhverju máli, þar sem deilt væri um skráningu vörumerkja. Það yrði heldur ekki séð, að í umræddu máli reyndi á svo sérstaka og verulega samkeppnishagsmuni á þessu sviði að það gerði formanninn vanhæfan til meðferðar málsins.

Í kvörtuninni var því í öðru lagi haldið fram að formaðurinn væri vanhæfur til meðferðar málsins þar sem hann kæmi fram sem lögmaður tiltekinnar bílaleigu í dómsmáli sem L hefði höfðað á hendur bílaleigunni. Umboðsmaður taldi rétt að taka fram, að því væri ekki haldið fram að málin tengdust efnislega eða gætu að öðru leyti haft fordæmisgildi hvort fyrir annað og einnig að árétta að það væru ekki sömu aðilar sem tækjust á í umræddu dómsmáli og í því stjórnsýslumáli sem áfrýjunarnefndin hefði til úrlausnar. Umboðsmaður vísaði til athugasemda í greinargerð með stjórnsýslulögum og dró af þeim þá lögskýringarályktun að þurfi dómari ekki víkja sæti við ákveðnar aðstæður skv. lögum um meðferð einkamála þurfi starfsmaður í stjórnsýslu ekki heldur að gera það við sömu aðstæður. Umboðsmaður vísaði til dóms Hæstaréttar, H 1984:742 og taldi með hliðsjón af honum og því að ekki var haldið fram að framganga formannsins hefði verið með þeim hætti að ástæða væri til að draga óhlutdrægni hans í efa, að formaðurinn hefði ekki verið vanhæfur til meðferðar umrædds máls.

Í þriðja lagi var því haldið fram í kvörtuninni að starfsskyldur lögmanns sem sér um gæslu hagsmuna fyrir eigendur vörumerkja og starfsskyldur formanns áfrýjunarnefndar um vörumerki séu þess eðlis að til hagsmunaárekstra hljóti að leiða. Umboðsmaður athugaði hversu oft formaðurinn hefði orðið að víkja sæti í málum vegna vanhæfis og umboðsmenn hversu margra vörumerkja lögmannsstofa hennar væri og komst að þeirri niðurstöðu að ekki væri hægt að fullyrða að formaðurinn yrði fyrirsjáanlega vanhæfur til meðferðar það margra mála sem ættu eftir að koma til kasta áfrýjunarnefndarinnar að hann teldist vanhæfur skv. hinni almennu óskráðu hæfisreglu, að ekki skuli skipa þá menn til nefndarsetu, sem fyrirsjáanlegt er að verði oft vanhæfir til meðferðar einstakra mála eða sem gegna stöðu, sem vegna ákveðinna tengsla við nefndina veldur sjálfkrafa því að þeir geta ekki talist hæfir til að fjalla um sömu mál í báðum störfum.

I.

Hinn 14. nóvember 1997 leitaði til mín L, héraðsdómslögmaður hjá B ehf., f.h. A á Ítalíu, og kvartaði yfir því, að formaður áfrýjunarnefndar samkvæmt 63. gr. laga nr. 45/1997, um vörumerki, X, væri vanhæfur til meðferðar máls nr. 4/1997 hjá áfrýjunarnefndinni.

II.

Hinn 21. nóvember 1997 ritaði ég áfrýjunarnefnd samkvæmt 63. gr. laga nr. 45/1997, um vörumerki, bréf og óskaði þess, með vísan til 7. og 9. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, að nefndin skýrði viðhorf sitt til kvörtunarinnar. Ég óskaði þess sérstaklega, að áfrýjunarnefndin gerði grein fyrir því, hvort ákvörðun um hæfi formanns nefndarinnar, sem kynnt var B ehf. með bréfi, dags. 3. nóvember 1997, hefði verið tekin af áfrýjunarnefndinni án þátttöku formanns, sbr. 4. mgr. 5. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Svör nefndarinnar bárust mér með bréfi, dags. 15. desember 1997, og sagði þar meðal annars svo:

„... Í fyrsta lagi er þess sérstaklega óskað, að áfrýjunarnefndin geri grein fyrir því, hvort ákvörðun um hæfi formanns nefndarinnar, sem kynnt var [B] ehf. með bréfi, dags. 3. nóvember 1997, hafi verið tekin af áfrýjunarnefndinni án þátttöku formanns, sbr. 4. mgr. 5. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

[...]

Varðandi fyrri þátt erindis umboðsmanns Alþingis kýs nefndin að gera svofellda bókun:

„Bréf formanns nefndarinnar, [X], til [B] ehf. varðandi áfrýjunarmálið nr. 4/1997 vegna vörumerkjaumsóknar nr. 703/1996 var dagsett 3. nóvember 1997.

Hinn 13. nóvember 1997 skipaði iðnaðarráðherra [Y] lögfræðing og [Z] hrl. til að taka sæti í nefndinni við úrlausn á málinu nr. 4/1997.

Fyrsti fundur nefndarinnar til meðferðar á málinu er haldinn í dag 12. desember 1997.

Bréf formanns nefndarinnar er ritað áður en nefndin var fullskipuð sbr. 2. mgr. 63. gr. laga nr. 45/1997. Meðnefndarmennirnir [Y] lögfræðingur og [Z] hrl., tóku því hvorki þátt í ritun bréfsins né í þeirri afstöðu sem þar kemur fram af hálfu formannsins“.“

Með bréfi, dags. 16. desember 1997, sendi D hrl. mér athugasemdir f.h. B ehf. við framangreind svör áfrýjunarnefndarinnar, en hann hafði áður komið að frekari skýringum og athugasemdum um málið með bréfum, dags. 5. og 12. desember 1997.

Með bréfi, dags. 20. janúar 1998, sendi B ehf. mér stefnu og greinargerð í máli því, sem lögmaður fyrirtækisins hafði höfðað sem umboðsmaður eiganda tilgreinds vörumerkis, á hendur bílaleigunni Ö, til þess að stöðva notkun bílaleigunnar á þessu vörumerki, „þar sem notkunin væri án heimildar eigenda þess“, eins og segir í bréfi B ehf. til mín, dags. 29. janúar 1998.

Með bréfi, dags. 27. janúar 1998, óskaði ég eftir því að áfrýjunarnefnd samkvæmt 63. gr. laga nr. 45/1997, um vörumerki, skýrði viðhorf sitt til kvörtunar B ehf. með vísan til 9. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis. Þá óskaði ég þess einnig, að áfrýjunarnefndin veitti mér upplýsingar um, hve mörg mál hefðu komið til úrskurðar hjá áfrýjunarnefndinni frá því að X tók við störfum formanns nefndarinnar. Ennfremur óskaði ég upplýsinga um, í hve mörgum af þessum málum hún hefði vikið sæti.

Svör áfrýjunarnefndarinnar bárust mér með bréfi, dags. 10. febrúar 1998. Þar segir meðal annars svo:

„Álit nefndarinnar varðandi framangreind atriði er:

1. Að sú staðreynd að [X] hrl. starfi hjá fyrirtækinu [Æ] ehf., sem sinni m.a. óskum umbjóðenda sinna um skráningu vörumerkja, geti ekki leitt til vanhæfis hennar til þess að fara með formennsku í áfrýjunarnefndinni, enda taki hún ekki þátt í afgreiðslu og víki sæti ef slíkar umsóknir frá [Æ] ehf. koma til meðferðar hjá áfrýjunarnefndinni.

2. Að því er varðar málsástæðu nr. 2, er ljóst að í héraðsdómsmáli því sem lögmaður áfrýjanda vísar til, eru aðilar aðrir en þeir sem standa að máli nr. 4/1997 sem hér er til meðferðar.

[X] hrl. hefur í bréfi sínu til lögmanns áfrýjanda, lýst afskiptum sínum af framangreindu héraðsdómsmáli, en bréf þetta er meðal málsskjala sem hafa verið send umboðsmanni Alþingis.

Með vísan til þess sem fram er komið um afskipti [X] hrl. og [D] hrl. af fyrrgreindu héraðsdómsmáli, vill nefndin ítreka það álit sitt, sem fram kom í afstöðu nefndarinnar á fundi hennar 12. desember 1997, að hún telur, að afskipti [X] hrl. af fyrrgreindu héraðsdómsmáli leiði ekki til vanhæfis hennar til meðferðar á áfrýjunarmáli nr. 4/1997.

Samkvæmt upplýsingum sem áfrýjunarnefndin hefur tekið saman, hafa 20 mál komið til meðferðar hjá áfrýjunarnefndinni eftir að [X] hrl. tók við formennsku í nefndinni. Þar af hefur [X] hrl. vikið sæti án kröfu í þremur málum.

Mál þessi sundurliðast þannig:

Áfrýjað Afturkölluð Úrskurðuð Ólokið

Vörumerkjamál 15 1 10 4

Einkaleyfamál 5 1 2 2“

Með bréfi, dags. 9. febrúar 1998, óskaði formaður stjórnar Æ ehf., eftir því að koma að eftirfarandi sjónarmiðum í máli þessu:

„Frá 1975 til 1995 var rekstur lögfræðideildar [Þ] hf., innan félagsins sjálfs og á mínu nafni og ábyrgð. Á árinu 1995 var stofnað sérstakt einkahlutafélag um rekstur deildarinnar og ber það nafnið [Æ] ehf. Er undirritaður formaður stjórnar félagsins en [X] hrl. framkvæmdastjóri þess. Félagið er í 100% eigu [Þ] hf.

[X] réðst til starfa hjá lögfræðideildinni á árinu 1984 og starfaði sem starfsmaður [Þ] hf. þar til hún var ráðin sem framkvæmdarstjóri [Æ] ehf. við stofnun þess félags. Er hún fastur starfsmaður félagsins og nýtur fastra launa án nokkurrar ágóðaþóknunar.

Hvorki á meðan lögfræðistörfin voru unnin í mínu nafni né [Æ] ehf. hefur verið lögð áhersla á skráningu vörumerkja hjá skrifstofunni og í flestum þeirra fáu tilvika sem við höfum annast skráningu vörumerkja hefur það verið sem liður í þjónustu við viðskiptavini [Þ] hf. Meðfylgjandi er listi yfir þær umsóknir sem sendar hafa verið Einkaleyfastofu frá 1975 til dagsins í dag. Auk þargetinna umsókna aðstoðuðum við [...] á árinu 1991 við umsóknir 8 vörumerkja, sem hann er umboðsmaður fyrir. Í heildina höfum við sent inn umsóknir eða veitt aðstoð vegna umsókna fyrir 1 aðila 1985, 1 aðila árið 1986, 1 aðila árið 1991, 2 aðila 1995, 5 aðila 1996 og 2 aðila 1997 ([4 tiltekin félög] eru tekin saman sem einn aðili, þar sem félögin eru alfarið dótturfélög sama félags).

Að lokum vil ég taka það fram að það var með samþykki mínu að [X] tók sæti í áfrýjunarnefnd í vörumerkja- og einkaleyfamálum á árinu 1991 og skyldi hún vinna þau störf utan starfa sinna hjá lögfræðifyrirtækinu og njóta þess endurgjalds, sem fyrir það yrði greitt. Þess hefur verið farið á leit við Einkaleyfastofuna, í tilefni af samantekt stofunnar á umboðsmönnum vörumerkja, að hún bendi ekki þeim, sem leita þjónustu á þessu sviði á lögfræðifyrirtæki okkar, sbr. meðfylgjandi bréf.“

Með bréfi, dags. 17. febrúar 1998, gaf ég fyrirsvarsmönnum B ehf. færi á að koma að viðhorfum sínum og athugasemdum við fyrrnefnd bréf áfrýjunarnefndar og stjórnarformanns Æ ehf.

Svör B ehf. bárust mér með bréfi, dags. 27. febrúar 1998.

III.

Hinn 14. október 1997 kærði B ehf. þá ákvörðun Einkaleyfastofunnar frá 21. ágúst 1997, að hafna vörumerkjaumsókn nr. 703/1996 um vörumerkið VESPA, til áfrýjunarnefndar samkvæmt 63. gr. laga nr. 45/1997, um vörumerki. Í kærunni var tekið fram, að það væri skoðun kæranda, að formaður áfrýjunarnefndarinnar, X, væri vanhæf til meðferðar málsins.

Með bréfi, dags. 3. nóvember 1997, svaraði X framangreindu erindi í nafni áfrýjunarnefndarinnar. Í bréfinu tekur X til rökstuddrar úrlausnar, hvort hún sé vanhæf til meðferðar málsins. Það var niðurstaða hennar, að ekki væri ástæða til þess að hún viki sæti í málinu.

Samkvæmt 2. mgr. 63. gr. laga nr. 45/1997, um vörumerki, skipar ráðherra formann nefndarinnar til þriggja ára í senn og skal hann vera lögfræðingur með sérþekkingu á hugverkarétti. Aðra nefndarmenn skipar ráðherra til að úrskurða í einstökum málum.

Samkvæmt 4. mgr. 5. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 ákveður stjórnsýslunefnd, hvort nefndarmönnum, einum eða fleiri, beri að víkja sæti. Þeir nefndarmenn, sem ákvörðun um vanhæfi snýr að, skulu ekki taka þátt í ákvörðun um það.

Þar sem því var borið við í kæru B ehf., að formaður nefndarinnar, X, væri vanhæf til meðferðar málsins nr. 4/1997 hjá nefndinni, var X hvorki hæf né bær til þess að taka þátt í úrlausn um hæfi sitt og svara því erindi í nafni áfrýjunarnefndarinnar, sbr. 4. mgr. 5. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Samkvæmt síðastnefndu ákvæði féll það undir áfrýjunarnefndina að taka ákvörðun um hæfi X án þátttöku hennar.

Hinn 12. desember 1997 var haldinn fyrsti fundur áfrýjunarnefndarinnar fullskipaðrar. Var þá tekin formleg afstaða til hæfis X til meðferðar málsins nr. 4/1997 með svofelldri bókun:

„Nefndin hefur kynnt sér öll gögn sem henni hafa borist og varða kvörtun [L] hdl., varðandi meint vanhæfi formanns nefndarinnar, [X].

Nefndin fær ekki séð að í þeim gögnum komi fram nein þau tilvik sem leitt gætu til sérstaks vanhæfis formannsins til meðferðar á málinu nr. 4/1997. Þá verður ekki séð af gögnum málsins að [X] sé almennt vanhæf til að gegna stöðu formanns nefndarinnar. [...]

Ákveðið er að senda endurrit þessarar fundargerðar til umboðsmanns Alþingis sem svar við erindi hans.

Þá verður umboðsmanni áfrýjanda tilkynnt um frestun málsins.

Þannig fram farið

[Y], lögfr (sign.)

[Z], hrl. (sign.)“

Þar sem áfrýjunarnefndin hefur án þátttöku formanns tekið formlega afstöðu til hæfis formannsins til meðferðar máls nr. 4/1997, eru uppfyllt skilyrði til þess að ég taki kvörtun B ehf. til efnismeðferðar.

IV.

Í forsendum og niðurstöðu álits míns, dags. 26. mars 1998, sagði:

„1.

Samkvæmt 63. gr. laga nr. 45/1997, um vörumerki, má skjóta ákvörðunum og úrskurðum Einkaleyfastofunnar til áfrýjunarnefndar innan tveggja mánaða frá þeim degi, er ákvörðun var tekin. Í áfrýjunarnefnd eiga sæti þrír menn, sem ráðherra skipar. Hann skipar formann nefndarinnar til þriggja ára í senn og skal hann vera lögfræðingur með sérþekkingu á hugverkarétti. Aðra nefndarmenn skipar ráðherra til að úrskurða í einstökum ágreiningsmálum.

Í lögum nr. 45/1997, um vörumerki, eru ekki ákvæði um sérstakt hæfi nefndarmanna til meðferðar máls. Áfrýjunarnefndin telst til stjórnsýslu ríkisins. Þar sem úrskurðir hennar eru stjórnvaldsákvarðanir, gilda ákvæði stjórnsýslulaga um málsmeðferð nefndarinnar, sbr. 1. og 2. mgr. 1. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Um hæfi nefndarmanna áfrýjunarnefndar samkvæmt 63. gr. laga nr. 45/1997 gilda því ákvæði II. kafla stjórnsýslulaga.

Hafa ber í huga, að hæfisreglur stjórnsýslulaga miða ekki eingöngu að því að hindra að óviðkomandi sjónarmið hafi áhrif á ákvarðanir í stjórnsýslunni, heldur einnig að koma í veg fyrir, að almenningur eða þeir, sem hlut eiga að máli, geti haft réttmæta ástæðu til að ætla að svo geti verið.

Eins og hér að framan greinir, er áfrýjunarnefndin samkvæmt 63. gr. laga nr. 45/1997, um vörumerki, sjálfstæður úrskurðaraðili á æðra stjórnsýslustigi. Þá er einnig rétt að hafa í huga við skýringu hæfisreglnanna, að í úrskurðum áfrýjunarnefndarinnar er iðulega fjallað um verulega fjárhagslega hagsmuni og oft ræður mat miklu um niðurstöðu.

2.

Í fyrsta lagi er því haldið fram, að X sé vanhæf til meðferðar áfrýjunarmáls nr. 4/1997, þar sem hún vinni hjá Æ ehf., sem komi fram sem umboðsmaður í skilningi 35. gr. vörumerkjalaga fyrir eigendur vörumerkja, sem ekki séu búsettir hér á landi. Æ ehf. og B ehf. séu því í beinni samkeppni á þessu sviði, og fyrirtækin hafi tekist á um skráningu vörumerkja fyrir hönd umbjóðenda sinna.

Samkvæmt gögnum málsins vinnur X hjá Æ ehf. Fyrirtækið hefur aðstoðað aðila búsetta hér á landi við að fá vörumerki skráð. Þá hefur fyrirtækið einnig annast slíka þjónustu fyrir nokkra eigendur vörumerkja búsetta erlendis og gerst síðan umboðsmaður þeirra í skilningi 35. gr. laga um vörumerki. Af þessum sökum ber X að víkja sæti í málum á grundvelli sérstakra hæfisreglna, þar sem reynir á hagsmuni umbjóðenda Æ ehf. Það á ekki aðeins við um þau mál, þar sem umbjóðendur Æ ehf. hafa beinna hagsmuna að gæta sem aðilar máls, heldur getur það einnig átt við um úrlausn mála, sem geta haft fordæmisgildi eða hafa að öðru leyti sérstaka þýðingu fyrir vörumerki umbjóðenda Æ ehf., sbr. 1., 5. og 6. tölul. 1. mgr. 3. gr. stjórnsýslulaga. Af gögnum málsins verður ekki séð, að framangreindar vanhæfisástæður eigi við um formann nefndarinnar í máli nr. 4/1997.

Af hálfu B ehf. er því haldið fram, að Æ ehf., sem X vinnur hjá, séu í beinni samkeppni við B ehf.

Í málinu liggur fyrir yfirlýsing frá stjórnarformanni Æ ehf., þar sem upplýst er, að í rekstri fyrirtækisins hafi ekki verið lögð áhersla á skráningu vörumerkja. Í II. kafla hér að framan eru raktar upplýsingar um fjölda þeirra mála, sem lögmannsstofan hefur tekið að sér á þessu sviði.

Þótt Æ ehf. hafi tekið að sér að annast skráningu vörumerkja í nokkrum tilvikum, verður að mínum dómi ekki séð, að það valdi sjálfkrafa vanhæfi X til þess að úrskurða í sérhverju máli, þar sem deilt er um skráningu vörumerkja. Þá verður heldur ekki séð, að í máli nr. 4/1997 hjá áfrýjunarnefndinni reyni á svo sérstaka og verulega samkeppnishagsmuni á þessu sviði, að það geri X vanhæfa til meðferðar málsins.

3.

Af hálfu fyrirsvarsmanna B ehf. er því einnig haldið fram, að X sé vanhæf til meðferðar áfrýjunarmáls nr. 4/1997, þar sem hún komi fram sem lögmaður bílaleigunnar Ö í dómsmáli, sem B ehf. hafi höfðað á hendur bílaleigunni. Í þessu dómsmáli komi X fram sem lögmaður gagnaðila B ehf. á sama tíma og hún hafi vörumerkjamál nr. 4/1997 til meðferðar sem formaður áfrýjunarnefndarinnar, en í því máli komi B ehf. fram sem umboðsmaður eiganda vörumerkis. Því er haldið fram, að óeðlilegt sé að formaður áfrýjunarnefndarinnar úrskurði í málum, þar sem B ehf. sé umboðsmaður rétthafa vörumerkis, samtímis því sem formaður nefndarinnar sé lögmaður fyrir fyrirtæki í dómsmáli, þar sem dómkröfur umbjóðanda B ehf. byggist á vörumerkjaskráningu.

Ég tel rétt að benda á, að því er ekki haldið fram, að málin tengist efnislega eða geti að öðru leyti haft fordæmisgildi hvort fyrir annað. Þá virðist óumdeilt af gögnum málsins, að aðilar dómsmálsins eru ekki aðilar að neinum málum, sem eru eða hafa verið til meðferðar í áfrýjunarnefnd, og að dómsmálið varði ekki málefni, sem þar hefur verið til meðferðar. Þá skal einnig áréttað, að það eru ekki sömu aðilar, sem takast á í umræddu dómsmáli og því stjórnsýslumáli, sem áfrýjunarnefndin hefur til úrlausnar. Það álitamál, sem hér er til úrlausnar, er því einungis það, hvort það valdi vanhæfi X til meðferðar máls nr. 4/1997 hjá áfrýjunarnefndinni, að í því máli kemur B ehf. fram sem umboðsmaður aðila málsins. Lögmaður B ehf. kemur einnig fram sem umboðsmaður annars aðila fyrrnefnds dómsmáls, en í því kemur X fram sem lögmaður gagnaðila.

Í athugasemdum við II. kafla frumvarps þess, er varð að stjórnsýslulögum nr. 37/1993, kemur fram, að ákvæði kaflans séu sniðin eftir 5. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála. Síðan segir:

„Hins vegar þykir ekki fært að gera eins strangar hæfiskröfur til þeirra starfsmanna sem hafa stjórnsýslu með höndum og gerðar eru til dómara. Er því að öðru leyti höfð hliðsjón af hæfisreglum dönsku og norsku stjórnsýslulaganna.“ (Alþt. 1992–1993, A-deild, bls. 3285).

Samkvæmt framangreindum ummælum er hægt að byggja á því lögskýringarsjónarmiði við skýringu hæfisreglna stjórnsýslulaga, að þurfi dómari ekki að víkja sæti við ákveðnar aðstæður, þurfi starfsmaður í stjórnsýslu heldur ekki að gera það við sömu aðstæður, þar sem vægari hæfisskilyrði felast almennt í hæfisreglum 3. gr. stjórnsýslulaga en 5. gr. laga um meðferð einkamála.

Í dómi Hæstaréttar frá 25. maí 1984 (Hrd. 1984:742) var deilt um uppgjör samkvæmt verksamningi. Upplýst var við meðferð málsins fyrir Hæstarétti, að í ljós væri komið, að meðdómandi málsins í héraði hefði haft á sama tíma til innheimtu fjárkröfu út af öðrum lögskiptum á hendur einum af aðilum dómsmálsins. Í dómi Hæstaréttar var ekki talið, að þetta ætti valda ómerkingu héraðsdómsins.

Enda þótt skýring hæfisreglna dómara hafi nokkuð breyst s.l. áratug og strangari hæfisskilyrði séu nú gerð að mörgu leyti til héraðsdómara, tel ég hægt, engu að síður, að hafa hliðsjón af þessum dómi við túlkun hæfisreglna stjórnsýslulaga, enda er, eins og áður segir, lagt til grundvallar, að þær hafi almennt að geyma vægari hæfisskilyrði en lög um meðferð einkamála.

Í fyrrnefndu dómsmáli voru málsatvik frábrugðin því máli, sem hér eru til úrlausnar, að því leyti, að aðili málsins var hinn sami, bæði í dómsmálinu og í því máli, þar sem lögmaðurinn kom fram sem umboðsmaður kröfuhafa við innheimtu fjárkröfunnar. Þessar aðstæður eru fremur til þess fallnar að valda vanhæfi en í því máli, sem hér er til úrlausnar. Þeim mun síður ættu því fyrrnefndar aðstæður X að valda vanhæfi hennar til meðferðar umrædds stjórnsýslumáls á grundvelli hæfisreglna stjórnsýslulaga.

Að þessu athuguðu og með tilliti til þess, að því er ekki haldið fram, að framganga X hafi verið með þeim hætti, að ástæða sé til að draga óhlutdrægni hennar í efa, tel ég, að X sé ekki vanhæf af framangreindum ástæðum til meðferðar áfrýjunarmáls nr. 4/1997.

4.

Fyrirsvarsmenn B ehf. halda því fram, að starfsskyldur lögmanns, sem sér um gæslu hagsmuna fyrir eigendur vörumerkja annars vegar, og starfsskyldur formanns áfrýjunarnefndar samkvæmt 63. gr. laga nr. 45/1997, um vörumerki, hins vegar, séu þess eðlis, að til hagsmunaárekstra hljóti að leiða. Kemur þá til athugunar, hvort hér sé um að ræða slíka hagsmunaárekstra, að X fái ekki gegnt báðum þessum störfum á sama tíma.

Í lögum má finna ákvæði, er mæla fyrir um, að sami maður megi ekki gegna tilteknum störfum á sama tíma. Þar má t.d. nefna 3. mgr. 7. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997, er fjallar um almennt hæfi starfsmanna byggingar- og skipulagsnefnda. Í lögum nr. 45/1997, um vörumerki, er ekki að finna lagaákvæði, er lýtur að slíkum almennum hæfisskilyrðum formanns áfrýjunarnefndarinnar.

Eins og nánar kemur fram í skýrslu minni fyrir árið 1992, bls. 108, verður að ganga út frá því, að sú grundvallarregla gildi um almennt hæfi nefndarmanna í opinberum nefndum, að ekki skuli skipa þá menn til nefndarsetu, sem annaðhvort er fyrirsjáanlegt að verði oft vanhæfir til meðferðar einstakra mála eða gegna stöðu, sem vegna ákveðinna tengsla við nefndina veldur sjálfkrafa að þeir geta ekki talist hæfir til að fjalla um sömu mál í báðum störfum.

Samkvæmt upplýsingum, sem áfrýjunarnefndin hefur tekið saman, hafa 20 mál komið til meðferðar í áfrýjunarnefndinni eftir að X tók við formennsku. Þar af hefur hún vikið sæti í þremur málum. Hefur X því verið vanhæf til meðferðar 15% þeirra mála, sem komið hafa til meðferðar hjá áfrýjunarnefndinni. Þótt þetta séu hlutfallslega nokkuð mörg mál, tel ég, að líta verði jafnframt til annarra atriða. Í þessu sambandi er rétt að hafa í huga, að Æ ehf. eru samkvæmt upplýsingum frá Einkaleyfastofu umboðsmenn 17 umsókna um vörumerki, sem borist hafa á árunum 1985–1997. Á þessum árum bárust u.þ.b. 15.400 umsóknir og af þeim voru u.þ.b. 13.800 vörumerki skráð. Þegar haft er í huga hversu fá vörumerki Æ ehf. hafa séð um skráningu á og eru umboðsmenn fyrir, tel ég, með tilliti til núverandi aðstæðna, að ekki sé hægt að fullyrða, að X verði fyrirsjáanlega vanhæf til meðferðar það margra mála, sem eiga eftir að koma til kasta áfrýjunarnefndarinnar, að hún teljist vanhæf samkvæmt hinni almennu óskráðu hæfisreglu.

V.

Niðurstaða.

Samkvæmt framansögðu er það niðurstaða mín, í tilefni af þeirri kvörtun, sem hér hefur verið fjallað um, að X hafi hvorki verið hæf né bær til þess, í nafni áfrýjunarnefndar samkvæmt 63. gr. laga nr. 45/1997, um vörumerki, að svara B ehf. um það, hvort hún væri hæf til meðferðar áfrýjunarmáls nr. 4/1997. Samkvæmt 4. mgr. 5. gr. stjórnsýslulaga féll það undir áfrýjunarnefndina að taka ákvörðun um hæfi X án þátttöku hennar. Hinn 12. desember 1997 skar nefndin úr hæfi X til meðferðar umrædds máls.

Eins og nánar getur hér að framan, er það niðurstaða mín, að þær ástæður, sem færðar hafa verið fram í málinu, leiði ekki til vanhæfis X til meðferðar áfrýjunarmáls nr. 4/1997.“