Mannréttindi. Ráðstöfun sóknargjalda. Trúfrelsi.

(Mál nr. 683/1992 og 684/1992)

Máli lokið með bréfi, dags. 19. ágúst 1993.
A bar fram kvörtun, þar sem vikið var að því, að sá hluti sóknargjalda, sem greiðist Háskóla Íslands vegna einstaklinga, sem hvorki væru í þjóðkirkjunni né skráðu trúfélagi, rynni óskipt til guðfræðideildar Háskóla Íslands.

I.

Í bréfi mínu til A, dags. 19. ágúst 1993, rakti ég bréfaskipti mín við Háskóla Íslands og helstu málsatvik. Sagði svo um þessi atriði í bréfinu:

"Af þessu tilefni óskaði ég, með bréfi 27. október 1992, eftir upplýsingum frá háskólanum um ráðstöfun gjaldsins. Með bréfi háskólarektors 11. nóvember 1992 bárust mér umbeðnar upplýsingar, þar sem meðal annars kom fram, að umrædd sóknargjöld rynnu til Háskólasjóðs. Samkvæmt skipulagsskrá fyrir Háskólasjóð, sem samþykkt var á fundi háskólaráðs 4. apríl 1974, fer háskólaráð með stjórn sjóðsins og úthlutar fé úr honum í samræmi við 3. lið skipulagsskrárinnar, en þar segir:

"Fénu skal verja til að efla menningarstarfsemi innan Háskólans, s.s. útgáfustarfsemi, fyrirlestrahald fyrir almenning, tónleikahald og til annarrar menningarviðleitni, sem verðug er að mati háskólaráðs. Einnig skal heimilt að leita til sjóðsins vegna óvæntra fjárþarfa Háskólans, sem upp kunna að koma, þannig að ekki gefist ráðrúm til að afla fjár eftir venjulegum leiðum."

Með ofangreindu bréfi háskólarektors fylgdu reikningar sjóðsins fyrir árin 1990 og 1991. Athugasemdir A við framangreint bréf bárust mér með bréfi, dags. 20. desember 1992, þar sem A óskaði meðal annars eftir því að athugað yrði, hvort tilteknum fjárframlögum Háskólasjóðs til Siðfræðistofnunar hefði verið varið til Guðfræðideildar Háskóla Íslands.

II.

Með bréfi 26. janúar 1993 óskaði ég eftir því, að háskólarektor léti mér í té upplýsingar um eftirtalin atriði:

"1) Hverjar hafi verið styrkveitingar Háskólasjóðs á árinu 1992.

"2) Hvort veittur hafi verið styrkur til Siðfræðistofnunar á árinu 1992.

"3) Hvenær Háskólaráð hafi tekið ákvörðun um styrkveitingar til Siðfræðistofnunar á árinu 1991.

"4) Hvernig greint sé frá reikningshaldi Siðfræðistofnunar í heildarreikningum Háskólans fyrir árið 1991."

Upplýsingarnar bárust mér með bréfi háskólarektors 3. mars 1993. Að því er varðaði fyrstu tvær spurningar mínar, vísaði háskólarektor til yfirlits um styrkveitingar úr Háskólasjóði, er fylgdi bréfi hans. Í yfirlitinu kemur fram, að alls hafi styrkveitingar úr sjóðnum á árinu 1992 verið kr. 13.873.816,- og þar af hafi verið veittar til Siðfræðistofnunar kr. 600.000,-. Í gögnum málsins kemur fram, að styrkveitingar ársins 1991 til Siðfræðistofnunar hafi verið kr. 1.200.000,-. Um þriðju spurningu mína sagði svo í bréfi háskólarektors:

"Með hliðsjón af 3. gr. skipulagsskrár sjóðsins hafa styrkir verið veittir til að styðja ýmis nýmæli í starfsemi Háskólans, þar til þau hafa fengið fastan sess í fjárveitingum. Þar á meðal má nefna stuðning við Siðfræðistofnun Háskólans og Alþjóðamálastofnun Háskólans, sem enn hafa ekki fengið beina fjárveitingu. Rektor tekur ákvörðun um þessa styrki í umboði Háskólaráðs. Svo er um flesta styrki úr sjóðnum. Ef styrkur er hár eða tilefni óvanalegt kynnir rektor málið í Háskólaráði og fær umboð til að taka ákvörðun. Engin bókun var gerð í Háskólaráði vegna styrkja til Siðfræðistofnunar árið 1991."

Um fjórðu spurningu mína sagði svo í bréfi háskólarektors:

"Ársreikningur Siðfræðistofnunar er hluti af ársreikningi Háskólans. Í bókhaldi Háskólans eru 900 aðskilin verkefni. Eitt þeirra er Siðfræðistofnun. Reikningar Háskólans eru endurskoðaðir af Ríkisendurskoðun."

Í niðurlagi bréfs háskólarektors sagði síðan:

"Til viðbótar þessum svörum fylgja upplýsingar um starfsemi Siðfræðistofnunar skólaárið 1991-1992... og greinargerð með upphaflegri tillögu um stofnunina... Þess má geta, að ef það skiptir kvartanda máli, að Siðfræðistofnun takmarkar sig ekki við kristna siðfræði, heldur fræðigreinina allt frá dögum Aristótelesar."

Athugasemdir A við framangreint bréf háskólarektors bárust mér með bréfi, dags. 4. maí 1993. Í bréfi A segir meðal annars:

"Varðandi kvörtun okkar um meinta misnotkun Háskóla Íslands á ígildi sóknargjalda bendum við á að í svari háskólans kom fram að hluti þess fjár sem rennur til háskólasjóðs fer til siðfræðistofnunar en guðfræðideild á hlutdeild að henni. Með hliðsjón af því teljum við [að] skoða þurfi hvort sú ráðstöfun brjóti í bága við ákvæði stjórnarskrárinnar um trúfrelsi."

Ég gerði A grein fyrir niðurstöðum mínum með svofelldum hætti:

III.

"Í 1. gr. laga nr. 91/1987 um sóknargjöld o.fl. segir: "Þjóðkirkjusöfnuðir, skráð trúfélög samkvæmt lögum um trúfélög, nr. 18/1975, og Háskólasjóður skulu eiga ákveðna hlutdeild í tekjuskatti..." Í 2. gr. laganna er ákveðið, að ríkissjóður skuli skila 15. hvers mánaðar af óskiptum tekjuskatti fjárhæð, sem renni til þjóðkirkjusafnaða, skráðra trúfélaga og Háskóla Íslands. Samkvæmt 3. lið 1. mgr. 3. gr. laga nr. 91/1987 greiðist gjaldið til Háskóla Íslands vegna þeirra einstaklinga, sem hvorki eru í þjóðkirkjunni né skráðu trúfélagi.

Siðfræðistofnun starfar á grundvelli reglugerðar nr. 449/1988 um rannsóknastofnun í siðfræði. Í 1. gr. reglugerðarinnar segir, að á vegum Háskóla Íslands og Þjóðkirkjunnar starfi rannsóknastofnun í siðfræði og er hún vísindaleg rannsókna- og fræðslustofnun samkvæmt 1. gr. laga nr. 77/1979 um Háskóla Íslands, sbr. nú lög nr. 131/1990 um Háskóla Íslands. Í 2. gr. reglugerðarinnar er tekið fram, að hlutverk stofnunarinnar sé að vera vettvangur rannsókna í siðfræði. Þá segir í 3. gr. reglugerðarinnar:

"Hlutverki sínu gegnir stofnunin einkum með því að:

1. Veita starfsmönnum stofnunarinnar og gestum fyrirgreiðslu við rannsóknir.

2. Útbúa fræðsluefni um siðfræði sem nota megi í skólum landsins.

3. Gangast fyrir námskeiðum, umræðufundum og fyrirlestrum um siðfræði handa almenningi og starfshópum."

Samkvæmt 4. gr. reglugerðar nr. 449/1988 er stjórn stofnunarinnar skipuð þremur mönnum. Er einn tilnefndur af Heimspekistofnun, annar af Guðfræðistofnun og sá þriðji af kirkjuráði þjóðkirkjunnar. Í 6. gr. reglugerðarinnar er tekið fram, að rekstur stofnunarinnar greiðist af ríkisfé eftir því sem fé er veitt til á fjárlögum, og að aðrar tekjur séu meðal annars styrkir til einstakra verkefna og gjafir og aðrar tekjur, er stofnuninni kunna að berast. Jafnframt er ákveðið, að reikningshald stofnunarinnar skuli vera hluti af heildarreikningum háskólans.

IV.

Eins og fram kemur hér að framan, hefur Háskólasjóður veitt styrki til Siðfræðistofnunar. Ekki liggur fyrir, hvort styrkirnir hafi verið ætlaðir til einstakra verkefna á vegum stofnunarinnar eða til almenns reksturs hennar. Verður ekki annað ráðið en að styrkirnir hafi runnið til reksturs stofnunarinnar vegna þeirra verkefna, sem þá hafi verið unnið við. Kvörtun yðar lýtur að því, hvort með ráðstöfun umrædds fjár úr háskólasjóði, sem meðal annars er tilkomið vegna heimtu sóknargjalda af þeim, sem utan trúfélaga standa, sé brotið gegn 64. gr. stjórnarskrárinnar, en þar segir í 2. og 3. mgr.:

"Enginn er skyldur til að inna af hendi persónuleg gjöld til neinnar annarrar guðsdýrkunar en þeirrar, sem hann sjálfur aðhyllist.

Nú er maður utan þjóðkirkjunnar, og geldur hann þá til Háskóla Íslands eða einhvers annars styrktarsjóðs við þann skóla, eftir því sem á verður kveðið, gjöld þau, er honum ella hefði borið að greiða til þjóðkirkjunnar, enda heyri hann ekki til öðrum trúarbragðaflokki, er viðurkenndur sé í landinu."

Ofangreind stjórnarskrárákvæði banna, að mönnum, sem ekki eru í Þjóðkirkjunni, sé gert skylt að greiða Þjóðkirkjunni persónuleg gjöld. Þau hindra hins vegar ekki framlag slíkra manna til Þjóðkirkjunnar með óbeinum hætti, svo sem með fjárveitingum á því fé, sem heimt er í ríkissjóð með sköttum. Við úrlausn þess, hvort framangreindar styrkveitingar til Siðfræðistofnunar séu andstæðar 2. og 3. mgr. 64. gr. stjórnarskrárinnar verður að mínum dómi að líta til þess, hvort styrkveitingunum sé ætlað að renna til guðfræðideildar eða til sérþarfa deildarinnar. Þó svo að guðfræðideild og kirkjuráð þjóðkirkjunnar tilnefni tvo af þremur í stjórn stofnunarinnar, leiðir það eitt sér ekki til þess að umræddar styrkveitingar séu andstæðar 2. og 3. mgr. 64. gr. stjórnarskrárinnar. Samkvæmt framansögðu verður ekki annað ráðið en að umræddar styrkveitingar hafi runnið til Siðfræðistofnunar vegna þeirrar starfsemi, sem stofnunin hefur almennt með höndum. Þegar litið er til þess hlutverks Siðfræðistofnunar, að vera vettvangur rannsókna í siðfræði, og skýrslu stjórnar Siðfræðistofnunar fyrir skólaárið 1991-1992, verður ekki ráðið að rannsóknum og fræðastörfum á vegum stofnunarinnar sé ætlað að sinna sérstaklega sérþörfum guðfræðideildar Háskóla Íslands. Einnig er rétt að benda á, að Háskólasjóður hefur aðrar tekjur en umrædd gjöld.

Samkvæmt framansögðu er niðurstaða mín sú, að kvörtun yðar gefi ekki tilefni til athugasemda af minni hálfu."