Hæfi. Sérstakt hæfi. Stjórnsýslunefndir.

(Mál nr. 2358/1998)

Alþjóðastofnunin Friður 2000 bar fram kvörtun þar sem því var haldið fram að menntamálaráðherra hefði brotið gegn 3. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 um sérstakt hæfi, með skipun X og Y í nefnd til að vinna að framgangi hugmynda um starfsemi í Reykholti og stofnun rekstrar- og eignarhaldsfélags. Taldi Friður 2000 að X og Y hefðu hvor um sig sótt um aðstöðu í Reykholti eða komið fram með ákveðnar hugmyndir um nýtingu Reykholts, auk þess að koma að ákvarðanatöku fyrir hönd ráðuneytisins í málinu.

Í bréfi sem umboðsmaður ritaði í tilefni kvörtunarinnar sagði m.a. svo: „Samkvæmt 2. mgr. 1. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 gilda þau, þegar stjórnvöld, þar á meðal stjórnsýslunefndir, taka ákvarðanir um rétt eða skyldu manna. Í 3. mgr. sömu greinar er kveðið svo á, að ákvæði II. kafla laganna um sérstakt hæfi gildi einnig um gerð samninga á sviði einkaréttar. Samningar einkaréttarlegs eðlis teljast til dæmis þeir samningar, sem stjórnvöld gera um kaup, lán eða leigu. Giltu því hæfisreglur II. kafla stjórnsýslulaga um þá, sem komu að samningsgerð fyrir hönd menntamálaráðuneytisins.

Í 3. gr. stjórnsýslulaga eru greindar vanhæfisástæður og í henni segir meðal annars svo:

„Starfsmaður eða nefndarmaður er vanhæfur til meðferðar máls:

1. Ef hann er aðili máls, fyrirsvarsmaður eða umboðsmaður aðila.

[...]

5. Ef málið varðar hann sjálfan verulega, [...] stofnun eða fyrirtæki í einkaeigu sem hann er í fyrirsvari fyrir.“

Starfsmenn, sem taka þátt í undirbúningi að samningagerð, svo sem forvali á viðsemjendum, undirbúningi samningsdraga, samningaviðræðum o.fl., verða á sama hátt og þeir starfsmenn, sem undirbúa stjórnvaldsákvörðun, að uppfylla hæfisskilyrði 3. gr. stjórnsýslulaga, sbr. 1. mgr. 4. gr. laganna. Verkefni undirbúningsnefndarinnar eru rakin hér að framan og er ljóst, að þau eru með þeim hætti, að hæfisreglur stjórnsýslulaga taka til nefndarmanna.

Kemur þá til athugunar, hvort einhverjar þær ástæður séu fyrir hendi, sem valdið geta því, að X og Y teljist vanhæfir skv. 3. gr. stjórnsýslulaga. Í 1. tölul. 3. gr. stjórnsýslulaga, sem rakin er hér að framan, kemur fram, að starfsmaður eða nefndarmaður [sé] vanhæfur til meðferðar máls, ef hann er aðili þess.

X og Y settu ekki fram hugmyndir í eigin nafni heldur fyrir hönd aðila, sem þeir voru í fyrirsvari fyrir. Á hinn bóginn stóð aldrei til, að þeir sjálfir eða aðilar, sem þeir voru í fyrirsvari fyrir, stæðu að rekstri Reykholts eða kæmu að honum á nokkurn hátt. Tillögur þeirra fólu því ekki í sér, að þeir aðilar, sem þeir voru í fyrirsvari fyrir, gætu orðið viðsemjendur menntamálaráðuneytisins. Ekkert kemur heldur fram um það í gögnum málsins, að þeir hafi átt einhverra annarra hagsmuna að gæta við vinnu að framgangi framkominna hugmynda. Verður því ekki séð, að þeir hafi átt beinna og svo verulegra hagsmuna að gæta, að telja beri þá aðila umrædds máls í skilningi 1. tölul. 3. gr. stjórnsýslulaga.

Nátengt ákvæði 1. tölul. 3. gr. er 5. tölul. sömu greinar, en þar er meðal annars tekið fram, að vanhæfi valdi, varði mál verulega „stofnun eða fyrirtæki í einkaeigu sem hann er í fyrirsvari fyrir“.

X lagði fram tillögu fyrir hönd héraðsnefndar Borgarfjarðarsýslu. Héraðsnefndir eru settar á fót skv. 4. mgr. 6. gr. þágildandi sveitarstjórnarlaga nr. 8/1986 og starfa að þeim verkefnum, sem sveitarfélög fela þeim eða eru falin þeim með lögum. Ljóst er því, að héraðsnefnd Borgarfjarðarsýslu fellur ekki undir 5. tölul. 3. gr. stjórnsýslulaga, þar sem hún telst hvorki stofnun eða fyrirtæki í einkaeigu. Fjárfestingarskrifstofa Íslands er rekin á vegum Útflutningsráðs og viðskiptaráðuneytisins. Rekstur hennar er greiddur úr ríkissjóði og telst hún því heldur ekki falla undir ákvæði 5. tölul. 3. gr., enda hefur hún með höndum rækslu opinberra verkefna. Þar sem ekki kemur fram, að X og Y hafi átt sérstakra og verulegra hagsmuna að gæta við úrlausn málsins, verður heldur ekki séð, að ákvæði 6. tölul. 1. mgr. 3. gr. stjórnsýslulaga hafi tekið til þeirra. Tel ég því ekki tilefni til athugasemda við þátttöku þeirra í undirbúningi og meðferð málsins. […]

Samkvæmt framansögðu gefur kvörtun yðar ekki tilefni til frekari afskipta af minni hálfu.“