Menntamál. Flugvélavirkjun. Skilyrði þess að þreyta sveinspróf. Starfsnám. Rannsóknarreglan.

(Mál nr. 2119/1997)

A kvartaði yfir þeirri ákvörðun menntamálaráðuneytisins að synja beiðni hans um að fá að þreyta sveinspróf í flugvélavirkjun. Fram kom af hálfu menntamálaráðuneytis að um mat á því hvort mælt verði með heimild til að gangast undir sveinspróf, sé fylgt þeirri meginviðmiðun laga og reglugerðar að umsækjandi hafi lokið námi frá iðnmenntaskóla og starfsþjálfun hjá fyrirtæki í tilskilinn tíma. Skólinn verði og að vera viðurkenndur af þarlendum yfirvöldum.

Umboðsmaður rakti ákvæði IX. kafla laga nr. 80/1996, um framhaldsskóla, þar sem fjallað er um starfsnám og reglugerð nr. 560/1995, um löggiltar iðngreinar, námssamninga, sveinspróf og meistararéttindi, en hún var í gildi þá er umsókn A var synjað. Taldi umboðsmaður starfsnám fara fram í skóla og á vinnustað og einungis vera heimilt að taka til sveinsprófs þann, sem lokið hefði burtfararprófi frá iðnfræðsluskóla og verksamningi eða starfsþjálfunarsamningi. Hann rakti að flugvélavirkjun væri ekki kennd á Íslandi og að ekki hefði verið sett námskrá um iðngreinina. Heimild til töku sveinsprófs í greininni yrði því einungis veitt á grundvelli menntunar, sem aflað hefði verið erlendis. Við úrlausn þess hvort slík menntun fullnægði kröfum framhaldsskólalaga og reglugerðar yrði að líta til fyrirliggjandi upplýsinga um skipulag náms en þær yrðu ekki, eins og hér stæði á, bornar saman við íslenska námskrá.

Niðurstaða umboðsmanns var sú að við ákvörðun um það hvort skilyrði sveinsprófs um skólagöngu væri fullnægt yrði ekki eingöngu litið til þess hvort nám hafi farið fram í iðnmenntaskóla í skilningi framhaldsskólalaga. Menntamálaráðuneytinu hefði borið að leggja efnislegt mat á menntun A og eftir atvikum kalla eftir frekari upplýsingum við undirbúning ákvörðunar um það, hvort honum skyldi heimilað að taka sveinspróf í flugvélavirkjun. Þá benti umboðsmaður á heimild 5. gr. reglugerðar nr. 560/1995 til þess að leyfa einstaklingi að sanna kunnáttu sína með sveinsprófi, ef erfitt reynist að fá fram nægilega örugg gögn.

Beindi umboðsmaður þeim tilmælum til ráðuneytisins að það tæki mál A upp að nýju, óskaði hann þess.

I.

Hinn 12. maí 1997 leitaði til mín A, vegna þeirrar ákvörðunar menntamálaráðuneytisins frá 24. febrúar 1997, sem ítrekuð var í bréfi ráðuneytisins, dags. 7. maí 1997, að synja beiðni hans um að fá að þreyta sveinspróf í flugvélavirkjun.

II.

Samkvæmt kvörtuninni og gögnum málsins var 20. janúar 1997 farið fram á heimild til handa A til þess að þreyta sveinspróf í flugvélavirkjun. Umsókn hans fylgdi útskriftarskírteini frá Harless Aviation & Southeastern School of Aeronautics, ásamt flugvirkjaskírteini, útgefnu af Federal Aviation Administration í Bandaríkjunum. Beiðni A var synjað með bréfi menntamálaráðuneytisins, dags. 24. febrúar 1997. Þar segir, að menntamálaráðuneytið telji, að fenginni umsögn fræðslunefndar Flugvirkjafélags Íslands, ekki unnt að verða við beiðninni, þar eð ekki hafi borist óyggjandi gögn um að skólaganga og lokapróf A uppfylli þau skilyrði, sem gerð séu til nema, er gangist undir sveinspróf í iðninni.

Beiðni A var ítrekuð 20. apríl 1997. Af því tilefni tók menntamálaráðuneytið fram eftirfarandi í bréfi, dags. 7. maí 1997:

„Við afgreiðslu á umsóknum um sveinspróf í löggiltum iðngreinum er fylgt ákvæðum framhaldsskólalaga nr. 80/1996 og reglugerð um sveinspróf. Í 25. gr. laga um framhaldsskóla segir að starfsnám „skiptist á skóla og vinnustað eða fer eingöngu fram í skóla“. Ennfremur segir að námið sé bóklegt og verklegt. Í reglugerð um sveinspróf segir m.a. að umsókn um sveinspróf skuli fylgja burtfararprófsskírteini frá skóla.

Menntamálaráðuneytið leitar eftir umsögnum Fræðslunefndar Flugvirkjafélags Íslands um gögn þeirra er sækja um sveinspróf í flugvélavirkjun vegna sérþekkingar hennar á greininni. Flugvélavirkjun er ekki kennd á Íslandi og ekki er til íslensk námskrá fyrir iðngreinina. Því er stuðst við þá meginviðmiðun íslenskra laga og reglugerða að umsækjendur hafi lokið skólanámi í faginu og verklegri þjálfun hjá viðurkenndu fyrirtæki. Skólinn sem námi er lokið frá þarf að hafa öðlast viðurkenningu þarlendra yfirvalda og s.k. Air Certificate Number skv. Flight Aviation Regulation 147 eða hliðstæðu hennar annars staðar en í Bandaríkjunum (Joint Aviation Regulation í Evrópu). Grundvallarviðmiðun skólanámsins er að nemar ljúki 1000 klst. námi í Airframe-hlutanum, 1000 klst. námi í Powerplant-hlutanum og 500 klst. í almennum faggreinum.

Af fyrirliggjandi gögnum þykir ljóst að [A] hefur ekki lokið tilskildu skólanámi í flugvélavirkjun. FAA-skírteini hans byggist á reynslu af flugvélavirkjun og 30 mánaða starfi í iðngreininni, en þessi skilyrði nægja ekki til iðnréttinda á Íslandi.

Með vísan til framangreinds telur ráðuneytið að ekki hafi verið lagðar fram nægilegar efnislegar forsendur fyrir því að heimila sveinspróf samkvæmt íslenskum lögum og reglum.“

III.

Ég ritaði menntamálaráðuneytinu bréf 16. maí 1997, þar sem þess var óskað, sbr. 7. og 9. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, að ráðuneytið léti mér í té gögn málsins og skýrði viðhorf sitt til kvörtunar A. Umbeðin gögn ráðuneytisins bárust mér með bréfi þess, dags. 27. maí 1997. Í bréfinu er vísað til framangreinds bréfs ráðuneytisins, dags. 7. maí 1997, um rök fyrir synjun ráðuneytisins í málinu.

Ég ritaði menntamálaráðuneytinu bréf 24. júní 1997, þar sem segir meðal annars:

„Samkvæmt bréfi menntamálaráðuneytisins, dags. 24. febrúar 1997, er beiðni [A] um að fá að þreyta sveinspróf í flugvélavirkjun synjað, þar sem ekki hafi borist „óyggjandi gögn um að skólaganga og lokapróf [A] uppfylli þau skilyrði sem gerð [séu] til nema er ganga undir sveinspróf í iðninni“. Samkvæmt bréfi menntamálaráðuneytisins, dags. 7. maí 1997, er það skilyrði, að skóli, sem námi er lokið frá, hafi öðlast viðurkenningu yfirvalda viðkomandi lands. Jafnframt að grundvallarviðmiðun skólanámsins sé, „að nemar ljúki 1000 klst. námi í Airframe-hlutanum, 1000 klst. námi í Powerplant- hlutanum og 500 klst. í almennum faggreinum“.“

Með tilvísun til 9. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, óskaði ég þess, að menntamálaráðuneytið gerði grein fyrir því, hvernig háttað hafi verið mati ráðuneytisins á því, hvort framangreindum skilyrðum væri fullnægt. Í því sambandi óskaði þess ég sérstaklega, að ráðuneytið gerði grein fyrir því, hvort og þá að hvaða leyti mat ráðuneytisins væri byggt á upplýsingum samkvæmt bréfum frá Federal Aviation Administration, dags. 14. og 29. janúar 1997, og Harless Aviation, dags. 26. september 1991, um viðurkenningu og innihald náms A. Enn fremur var í þessu sambandi óskað upplýsinga um mat ráðuneytisins á stúdentsprófi og flugmannsprófi A, og viðhorfi ráðuneytisins til þess, að réttindi hans samkvæmt FAA-skírteini tækju til „Airframe“ og „Powerplant“.

Með vísan til þess, að ráðuneytið teldi, að ekki hefðu borist „óyggjandi gögn“ í málinu, var þess jafnframt óskað, að ráðuneytið gerði grein fyrir viðhorfi sínu til umsóknar A með tilliti til heimildar samkvæmt 2. málsl. 1. mgr. 5. gr. reglugerðar nr. 560/1995, um löggiltar iðngreinar, námssamninga, sveinspróf og meistararéttindi, til þess að leyfa einstaklingi, með starfsmenntun erlendis frá, að sanna kunnáttu sína með sveinsprófi, ef erfitt reynist að fá fram nægjanlega örugg gögn.

Í svarbréfi menntamálaráðuneytisins, dags. 2. september 1997, segir meðal annars svo:

„Um tilhögun sveinsprófa fer eftir lögum um framhaldsskóla nr. 80/1996 og reglugerð samkvæmt þeim sbr. 2. mgr. 24. gr. laganna. Reglugerð með stoð í þessu ákvæði var staðfest af menntamálaráðherra 17. apríl 1997, sbr. reglugerð um sveinspróf nr. 278/1997, sem birtist í B deild stjórnartíðinda 6. maí 1997. Fram að gildistöku þeirrar reglugerðar gilti reglugerð nr. 560/1995 um löggiltar iðngreinar, námssamninga, sveinspróf og meistararéttindi. Samkvæmt 29. gr. þeirrar reglugerðar er heimilt að taka hvern þann til sveinsprófs sem lokið hefur burtfararprófi frá iðnfræðsluskóla og verknámssamningi hjá meistara eða starfsþjálfunarsamningi á vegum iðnfræðsluskóla. Ennfremur þarf að fylgja staðfesting skóla á að námi sé lokið.

[A] hefur ekki lagt fram gögn um slík námslok þar sem kemur fram hvaða námsgreinar viðkomandi las í skóla og upplýsingar um námsmat. [A] lagði fram gögn um 30 mánaða vinnu hjá Harless Aviation, sem er ekki skóli heldur viðgerðarstöð. Þrátt fyrir að ítrekað hafi verið leitað eftir að fá burtfararskírteini frá iðnmenntaskóla hefur ekki verið orðið við því. Með hliðsjón af framangreindu reglugerðarákvæði byggðist synjun ráðuneytisins á því að óheimilt sé að meta 30 mánaða starf í faginu sem jafngildi skólanáms í iðngreininni. Þrátt fyrir að bandaríska flugmálastjórnin viðurkenni starf [A] til útgáfu á flugvirkjaskírteini honum til handa í því landi, sbr. bréf dags. 14. og 29. janúar 1997 jafngildir yfirlýsing þessarar stofnunar ekki útskrift úr iðnmenntaskóla.

Skilyrði bráðabirgðaákvæðis laga nr. 80/1996 um sveinspróf án undangengins skólanáms eru ekki uppfyllt í máli [A].

Í bréfi yðar óskið þér upplýsinga um mat ráðuneytisins á stúdentsprófi og flugmannsprófi [A] og viðhorfi ráðuneytisins til þess, að réttindi hans samkvæmt FAA skírteini taka til „Airframe“ og „Powerplant“. Það er mat ráðuneytisins að þrátt fyrir að tekið væri tillit til stúdents- og flugmannsprófs [A] hefði ekki verið sýnt fram á að hann hefði lokið fagnámi í flugvélavirkjun frá iðnmenntaskóla.

Að lokum óskið þér eftir því að ráðuneytið geri grein fyrir viðhorfi sínu til umsóknar [A] með tilliti til reglugerðar nr. 560/1995 um löggiltar iðngreinar, námssamninga, sveinspróf og meistararéttindi. Í þau skipti sem látið hefur verið reyna á heimild 2. málsl. 1. mgr. 5. gr. reglugerðar nr. 560/1995 hefur legið fyrir útskrift úr iðnmenntaskóla sem ráðuneytið hefur ekki treyst sér til að meta með samanburði við íslenska námskrá vegna skorts á upplýsingum um námskrá viðkomandi iðngreinar í upprunaríki. Um slíkt er ekki að ræða í máli [A].“

IV.

Í forsendum og niðurstöðu álits míns, dags. 6. janúar 1998, segir:

„1.

Fjallað er um starfsnám í IX. kafla laga nr. 80/1996, um framhaldsskóla. Þar segir í 25. gr.:

„Starfsnám skal stuðla að almennri menntun nemenda, veita þeim undirbúning til tiltekinna starfa og innsýn í hlutverk fyrirtækja og starfsfólks í atvinnulífi. Náminu er jafnframt ætlað að hvetja nemendur til að viðhalda þekkingu sinni og bæta við hana með endurmenntun eða áframhaldandi námi.

Starfsnám skiptist á skóla og vinnustað eða fer eingöngu fram í skóla. Námið er bóklegt og verklegt og skal mynda sem samfelldasta heild svo að nemendur fái betur skilið tengsl fræðilegra og hagnýtra þátta. Áhersla skal lögð á að innihald starfsnáms taki mið af þörfum starfsgreina fyrir fagmenntun starfsfólks á hverjum tíma.“

Í 26. gr. laganna er mælt fyrir um skipan samstarfsnefndar um starfsnám, sem skal hafa það hlutverk meðal annars að vera til ráðuneytis um stefnumótun í starfsnámi og setningu almennra reglna um skipan og framkvæmd starfsnáms. Starfsgreinaráð fyrir starfsgreinaflokka eða starfsgreinar, sem skipa skal samkvæmt 28. gr., hafa það hlutverk meðal annars að setja fram markmið starfsnáms, sbr. 29. gr., og gera tillögu um uppbyggingu slíks náms og námskrá í sérgreinum viðkomandi starfsnáms, svo og um tilhögun námsmats, þar með talin sveinspróf og eftirlit með gæðum kennslu og námsefnis. Samkvæmt ákvæði II til bráðabirgða í lögum nr. 80/1996 skulu ákvæði um starfsnám í 25.–32. gr. laganna vera komin til fullra framkvæmda innan fjögurra ára frá gildistöku laganna. Reglugerð um sveinspróf frá 17. apríl 1997, nr. 278/1997, sbr. 2. mgr. 24. gr. framhaldsskólalaga, var birt í B-deild Stjórnartíðinda 9. maí 1997.

Starfsgreinaráð koma í stað fræðslunefnda í lögum nr. 57/1988, um framhaldsskóla. Hlutverk þeirra síðarnefndu var meðal annars að gera tillögu að námskrá, sbr. 23. gr. laganna, sem menntamálaráðuneytið skyldi setja samkvæmt 20. gr.

Samkvæmt 29. gr. reglugerðar nr. 560/1995, um löggiltar iðngreinar, námssamninga, sveinspróf og meistararéttindi, sem í gildi var á þeim tíma, er umsókn A var synjað, er heimilt að taka hvern þann til sveinsprófs, sem lokið hefur burtfararprófi frá iðnfræðsluskóla og verknámssamningi hjá meistara eða starfsþjálfunarsamningi á vegum iðnfræðsluskóla.

Um iðnmenntun, sem aflað er erlendis, segir svo í 1. mgr. 5. gr. reglugerðarinnar:

„Menntamálaráðuneytið getur viðurkennt iðnmenntun sem aflað er erlendis gegn framvísun prófvottorðs og veitt starfsleyfi hér á landi án þess að viðkomandi gangi undir sveinspróf, enda séu kröfur til námsins sambærilegar við þær sem gerðar eru til viðkomandi starfsréttinda hér á landi. Einnig er heimilt að leyfa einstaklingi með starfsmenntapróf erlendis frá að sanna kunnáttu sína með sveinsprófi ef erfitt reynist að fá fram nægilega örugg gögn.“

2.

Samkvæmt framansögðu fer starfsnám fram í skóla og á vinnustað og er einungis heimilt að taka til sveinsprófs þann, sem lokið hefur burtfararprófi frá iðnfræðsluskóla og verksamningi eða starfsþjálfunarsamningi.

Samkvæmt niðurstöðu ráðuneytisins í máli því, sem hér um ræðir, var talið, að A hefði ekki lokið tilskildu skólanámi í flugvélavirkjun. FAA-skírteini hans byggðist á reynslu af flugvélavirkjun og 30 mánaða starfi í iðngreininni, sem ekki nægði til iðnréttinda á Íslandi. Hefðu því ekki verið nægilegar efnislegar forsendur til þess að heimila sveinspróf samkvæmt íslenskum lögum og reglum.

Í málinu liggur fyrir, að flugvirkjun sé ekki kennd á Íslandi og að ekki hafi verið sett námskrá fyrir iðngreinina, sbr. 23. og 20. gr. laga nr. 57/1988, nú 29. gr. laga nr. 80/1996. Í umsögn fræðslunefndar Flugvirkjafélags Íslands, sem ráðuneytið leitaði til vegna umsóknar A, segir, að umsækjendur um sveinspróf þurfi að leggja fram gögn frá viðurkenndum skóla, þar sem fram komi, hvaða námsgreinar hafi verið stundaðar, árangur í námi og vottorð um verklegt flugvirkjastarf frá viðurkenndu flugvirkjaverkstæði. Í bréfi ráðuneytisins segir, að um mat á því, hvort mælt verði með heimild til að gangast undir sveinspróf, sé fylgt þeirri meginviðmiðun laga og reglugerðar, að umsækjandi hafi lokið námi frá iðnmenntaskóla og starfsþjálfun hjá fyrirtæki í tilskilinn tíma. Í því sambandi sé þess krafist, að nám hafi verið stundað við erlendan skóla, sem viðurkenndur sé af þarlendum yfirvöldum.

Í málinu liggur fyrir bréf frá Harless Aviation, dags. 26. september 1991. Þar segir:

„This is to notify interested parties that [A] has been enrolled in a course of educational and practical training at Southeastern Aero Tech in Douglas, Ga.

The sucessful completion of this course of study will head to the issuance of a U.S. certified Airframe and Powerplant certificate.

This course consists of the necessary preparation to pass the FAA written and practical test.

All testing is conducted at Southeastern Aero Tech by FAA approved test examiners and staff mechanics. The duration of this course will be approximately 24 months.

Enclosed is a list of the course subject areas.“

Í bréfi Federal Aviation Administration, dags. 14. janúar 1997, er staðfest, að Harless Aviation sé viðurkennd af hálfu Federal Aviation Administration til að leggja próf fyrir nemendur, sem gefi þeim rétt til útgáfu umrædds skírteinis. Í bréfi Federal Aviation Administration, dags. 29. janúar 1997, segir svo um nám það, sem hér um ræðir:

„According to the records in Oklahoma City, Oklahoma, Mr. [A], has mechanic certificate number 2474749 with an Airframe & Powerplant Rating. This certificate was issued on 07–05–92. This certificate is not inferior to a certificate that was issued by Spartan School of Aeronautic, or any other certificated Aviation Maintenance Technician School.

Our system allows an applicant to obtain a mechanics certificate by presenting either an appropriate graduation certificate or certificate of completion from a certificated aviation maintenance technician school or documentary evidence, satisfactory to the adminstrator, of at least 30 months of practical experience concurrently performing the duties appropriate to both the airframe and powerplant ratings.

Mr. [A] was issued authorization to be tested for a mechanics certificate with Airframe & Powerplant ratings based on his previous 30 months experience as provided for in FAR 65.77(b). He passed all the required testing and was issued a mechanic certificate with an airframe & powerplant rating.

Mr. [A] obtained his aviation experience while working under the supervision of a certificated mechanic for a minimum of thirty (30) months. FAA certificated schools such as Spartan are intended for persons without experience to be trained and then issued a mechanic certificate.

Mr [A] attended a non FAR approved course of study designed to provide additional preparation for him to pass the 3 written examinations, and to prepare him to pass the Federal Aviation Mechanics practical test(s).

The mechanics certificate was issued to Mr. [A] after he had completed three the (3) written tests and a practical examination. This examination was conducted by Robert Harless, who is designated by the FAA to conduct the mechanics practical examination and issue a temporary mechanics certificate.

The mechanics certificate Mr. [A] currently holds will allow him to perform any/all duties as prescribed in FAR 65, Subpart D and FAR 43. This is the same privilege that a mechanic who graduated from a certificated mechanics school would have.“

Sú niðurstaða ráðuneytisins, að synja um heimild til að þreyta sveinspróf, er á því byggð, að A hafi ekki lokið tilskildu skólanámi í flugvélavirkjun, sbr. kröfur laga og reglugerðar þar að lútandi. Flugvélavirkjun er, eins og áður hefur komið fram, ekki kennd á Íslandi og ekki hefur verið sett námskrá um iðngreinina. Heimild til töku sveinsprófs í iðngreininni verður því einungis veitt á grundvelli menntunar, sem aflað hefur verið erlendis. Við úrlausn þess, hvort slík menntun fullnægi kröfum framhaldsskólalaga og reglugerðar samkvæmt þeim, verður því að líta til fyrirliggjandi upplýsinga um skipulag námsins. Þær upplýsingar verða þó, eins og hér stendur á, ekki bornar saman við íslenska námskrá í greininni.

Í málinu liggur fyrir bréf Harless Aviation, þar sem fram kemur, að A hafi tekið þátt í „course of educational and practical training“, og þar sem gerð er grein fyrir þeim réttindum, sem slíkt nám veiti honum, nái hann tilskildum árangri. Jafnframt kemur fram í gögnum málsins, að sú stofnun, sem útskriftarskírteini A stafar frá, sé viðurkennd af þar til bærum yfirvöldum til að leggja próf fyrir nemendur, og að í kjölfar slíkra prófa hafi verið gefið út flugvirkjaskírteini honum til handa með „Airframe & Powerplant Rating“. Með vísan til framangreinds og þess að ekki hefur verið gefin út námskrá eða aðrar opinberar upplýsingar um kröfur til þess náms, sem hér um ræðir, er það skoðun mín, að ekki verði fullyrt án frekari athugunar, að sú námsleið, sem A valdi til að öðlast umrædd réttindi, teljist ekki skólanám, sem fullnægi þeim kröfum, er gerðar eru til slíks náms, sem hér um ræðir. Ég tel, að ekki verði gerðar kröfur um að nám, sem eingöngu verður stundað erlendis, falli nákvæmlega að ramma íslensks skólakerfis. Úrlausn málsins verði þannig ekki eingöngu byggð á því, hvort nám fari fram við iðnmenntaskóla, í skilningi framhaldsskólalaga, heldur verði að leggja efnislegt mat á viðkomandi nám með tilliti til skilyrða til iðnréttinda á Íslandi.

Samkvæmt skýringum menntamálaráðuneytisins í málinu hefur, þrátt fyrri skort á námskrá í iðngreininni, verið við það miðað, að nemendur hafi lokið 1.000 klst. námi í „Airframe-hlutanum“, 1000 klst. námi í „Powerplant-hlutanum“ og 500 klst. í almennum faggreinum, til þess að unnt sé að veita þeim heimild til þess að þreyta sveinspróf í greininni. Samkvæmt FAA-skírteini A taka réttindi hans, sem hann öðlaðist á grundvelli náms síns, til „Airframe“ og „Powerplant“. Jafnframt fylgdu umsókn hans til menntamálaráðuneytisins upplýsingar um nám í almennum faggreinum, þ.e. afrit stúdentsprófs og flugmannsprófs.

Ég tel rétt að ítreka, að framangreindar reglur um, hvaða námi skuli lokið, hafa ekki verið birtar í námskrá. Ég tek þó fram, að menntamálaráðuneytinu er heimilt að setja og styðjast við viðmiðunarreglur, sem til þess eru fallnar að stuðla að samræmi og jafnrétti við framkvæmd umræddra laga, enda sé þess jafnframt gætt að tekið sé tillit til allra aðstæðna í hverju einstöku máli og ákvarðanir teknar, sem best eiga við í því.

Það er skoðun mín, að fyrirliggjandi upplýsingar hafi gefið ráðuneytinu tilefni til þess að leggja efnislegt mat á innihald náms A með tilliti til þeirra krafna, sem gerðar eru til slíks náms, og eftir atvikum leita frekari upplýsinga, sbr. rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, teldi ráðuneytið að þær gæfu ekki nægilega skýra mynd af námi hans. Þá tel ég rétt, í þessu sambandi, að vísa til heimildar 5. gr. reglugerðar nr. 560/1995 til þess að leyfa einstaklingi að sanna kunnáttu sína með sveinsprófi, ef erfitt reynist að fá fram nægilega örugg gögn.

V.

Samkvæmt framansögðu er það niðurstaða mín, að við ákvörðun um það, hvort skilyrði sveinsprófs um skólagöngu sé fullnægt, verði ekki eingöngu litið til þess, hvort nám hafi farið fram í iðmenntaskóla í skilningi framhaldsskólalaga. Eins og máli þessu er háttað, tel ég, að menntamálaráðuneytinu hafi borið að leggja efnislegt mat á menntun og eftir atvikum kalla eftir frekari upplýsingum við undirbúning ákvörðunar um það, hvort honum skyldi heimilað að taka sveinspróf í flugvélavirkjun. Eru það því tilmæli mín til menntamálaráðuneytisins, að það taki mál A upp að nýju, komi fram ósk um það frá honum, og leysi þá úr því í samræmi við þau sjónarmið, sem ég hef gert grein fyrir í áliti þessu.“

VI.

Með bréfi, dags. 5. apríl 2000, óskaði ég eftir upplýsingum menntamálaráðuneytisins um hvort A hefði leitað til ráðuneytisins á ný og þá hvort einhverjar ákvarðanir hefðu verið teknar af því tilefni.

Í bréfi menntamálaráðuneytisins, dags. 25. apríl 2000, segir m.a.:

„[...]

Í framhaldi af áliti yðar var [A] sent bréf dags. 12. janúar 1998, þar sem honum er tilkynnt að menntamálaráðherra hefði ákveðið að taka mál hans til endurskoðunar og honum jafnframt gefinn kostur á að leggja fram ítarlegri matshæf gögn um nám sitt. [A] lagði ekki fram nein ný gögn en ritaði ráðuneytinu bréf dags. 25. janúar 1998 sem varpar ekki frekara ljósi á nám hans. Ráðuneytið leitaði eftir frekari upplýsingum frá þeim aðilum í Bandaríkjunum, sem [A] kvaðst hafa aflað sér menntunar hjá: Harless Aviation og Southeastern School of Aeronautics. Sú eftirgrennslan skilaði ráðuneytinu ekki neinum viðbótar upplýsingum er gætu orðið til þess að breyta fyrri ákvörðun í málinu. Þá funduðu fulltrúar ráðuneytisins með fulltrúa Flugmálastjórnar til þess að fá álit óháðs aðila með sérþekkingu á þeim gögnum sem [A] hafði upphaflega lagt fram með umsókn sinni. Sá fundur varð til þess að renna enn frekari stoðum undir þá skoðun ráðuneytisins að ákvörðun um að hafna beiðni [A] um heimild til að gangast undir sveinspróf í flugvélavirkjun hefði verið réttmæt.

[...]“