Opinberir starfsmenn. Fæðingarorlof. Jafnræðisregla.

(Mál nr. 2196/1997)

A kvartaði yfir því að mismunur á rétti starfsmanna til greiðslna í fæðingarorlofi eftir því hvort þeir féllu undir 12. gr. laga nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, eða 2. mgr. í ákvæði til bráðabirgða í sömu lögum, bryti gegn jafnræðisreglu 65. gr. stjórnarskrárinnar.

Umboðsmaður rakti efni 12. gr. laga nr. 70/1996 og 2. mgr. ákvæðis til bráðabirgða í sömu lögum og athugasemdir í lögskýringargögnum um þau. Gat hann þess að umrædd ákvæði hefðu í raun haft í för með sér að réttarstaða starfsmanna var hin sama og fyrir gildistöku laganna. Með þessari skipan mála hefði Alþingi eftirlátið stéttarfélögum að semja um rétt starfsmanna til greiðslna í fæðingarorlofi. Hvorki lög nr. 70/1996 né aðrar réttarreglur stæðu því í vegi að jafnræði næðist milli annars vegar þeirra sem nú féllu undir 12. gr. laganna og hins vegar þeirra, sem heyrðu undir 2. mgr. ákvæðis til bráðabirgða.

Taldi umboðsmaður því ekki tilefni til frekari afskipta af málinu, sbr. a-lið, 2. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997.

Í bréfi mínu, dags. 13. október 1998, segir svo:

„Ég vísa til kvörtunar, dags. 25. júlí 1997, sem þér báruð fram fyrir hönd A. Þar er kvartað vegna misréttis, sem A telur sig beitta vegna greiðslna í fæðingarorlofi.

Kvörtun A lýtur að því, að sú mismunun, sem sé á rétti starfsmanna til greiðslna í fæðingarorlofi eftir því, hvort þeir falli undir 12. gr. laga nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, eða 2. mgr. í ákvæði til bráðabirgða í sömu lögum, brjóti gegn jafnræðisreglu 65. gr. stjórnarskrárinnar nr. 33/1944, sbr. stjórnarskipunarlög nr. 97/1995 og jafnræðisreglu 11. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Í 12. gr. laga nr. 70/1996 segir:

„Starfsmenn skulu eiga rétt til launa í veikindaforföllum og fæðingarorlofi eftir því sem fyrir er mælt í lögum og, eftir atvikum, ákveðið eða um samið með sama hætti og laun, sbr. 1. mgr. 9. gr.“

Í athugasemdum með 12. gr. frumvarps þess, sem varð að lögum nr. 70/1996, segir meðal annars svo:

„Í 1. mgr. segir að sömu aðilar og fjalla um laun og önnur kjör skuli fjalla um rétt starfsmanna til launa í veikindaforföllum og fæðingarorlofi. Fyrir þá starfsmenn, sem nú falla undir lög nr. 38/1954 og ekki eru skilgreindir sem embættismenn samkvæmt þessu frumvarpi, myndi þetta þýða að um réttindi þeirra færi með sama hætti og annarra starfsmanna á íslenskum vinnumarkaði, þ.e. að þeim yrði tryggður lágmarksréttur til greiðslna í veikindaforföllum, en um frekari rétt yrði viðkomandi stéttarfélag að semja. Hvað varðar greiðslur í fæðingarorlofi þá færi það eftir 15. og 16. gr. laga nr. 117/1993. Hér er um töluverða breytingu að ræða en í 2. mgr. ákvæðis til bráðabirgða er gert ráð fyrir að þeir sem falli undir núgildandi reglur haldi þeim réttindum eins og í ákvæðinu greinir.“ (Alþt. 1995–96, A-deild, bls. 3148–49.)

2. mgr. ákvæðis til bráðabirgða í lögum nr. 70/1996 er eftirfarandi:

„Þrátt fyrir ákvæði 12. gr. laganna skulu reglugerðir nr. 410/1989, um barnsburðarleyfi starfsmanna ríkisins, og nr. 411/1989, um veikindaforföll starfsmanna ríkisins, gilda um starfsmenn ríkisins, sem skipaðir hafa verið eða ráðnir í þjónustu ríkisins fyrir gildistöku laga þessara og fallið hafa undir lög nr. 38/1954, uns laun í veikindaforföllum og fæðingarorlofi hafa verið ákveðin eða um þau samið, sbr. 1. mgr. 9. gr. Sama á við um þá sem ráðnir verða í sömu eða sambærileg störf á þessu tímabili á grundvelli þessara laga. [...]“

Í athugasemdum með ákvæði til bráðabirgða segir meðal annars svo:

„Í ákvæðinu er mælt svo fyrir að þeir starfsmenn ríkisins, sem skipaðir hafa verið eða ráðnir í þjónustu ríkisins fyrir gildistöku laganna haldi áunnum, stjórnarskrárvörðum réttindum sínum. Í 2. og 4. mgr. er tekið af skarið um það að réttur til launa í veikindaforföllum og fæðingarorlofi verði sá sami og verið hefur hjá þeim starfsmönnum sem skipaðir hafa verið eða ráðnir í þjónustu ríkisins fyrir gildistöku laganna, [...].“ (Alþt. 1995–96, A-deild, bls. 3158.)

Eins og fram kemur í athugasemdum með 12. gr. frumvarpsins, var um talsverðar breytingar á gildandi fyrirkomulagi að ræða, en með 2. mgr. ákvæðis til bráðabirgða var tryggt, að starfsmenn héldu áunnum réttindum. Í 12. gr. segir, að starfsmenn eigi rétt til launa í fæðingarorlofi eftir því, sem fyrir er mælt í lögum og eftir atvikum ákveðið eða um samið með sama hætti og laun, sbr. 1. mgr. 9. gr. Í 9. gr. laga nr. 70/1996 segir: „Starfsmenn eiga rétt á launum fyrir störf sín samkvæmt ákvörðun Kjaradóms eða kjaranefndar, sbr. 39. gr., eða samkvæmt kjarasamningum, sbr. 47. gr. Í 47. gr. laga nr. 70/1996 segir, að „stéttarfélög eða samtök þeirra [geri] kjarasamninga við ríkið um laun félagsmanna sinna og launakjör eftir því sem nánar er fyrir mælt í lögum“.

Ákvæði 12. gr. laga nr. 70/1996 og 2. mgr. ákvæðis til bráðabirgða höfðu í raun það í för með sér, að réttarstaða starfsmanna var hin sama og fyrir gildistöku laganna. Um rétt starfsmanna, sem féllu undir gildissvið laga nr. 38/1954, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, gilti eins og áður reglugerð nr. 410/1989, um barnsburðarleyfi starfsmanna ríkisins, og um rétt starfsmanna, sem féllu utan gildissviðs laga nr. 38/1954 en eiga undir ákvæði laga nr. 70/1996, giltu ákvæði 15. og 16. gr. laga nr. 117/1993, um almannatryggingar, og ákvæði viðkomandi kjarasamninga. Eins og fram kemur í 2. mgr. ákvæðis til bráðabirgða, gildir hún „uns laun í veikindaforföllum og fæðingarorlofi hafa verið ákveðin eða um þau samið.“

Með þessari skipan mála hefur Alþingi eftirlátið stéttarfélögum og samtökum starfsmanna að semja um rétt þeirra til greiðslna í fæðingarorlofi. Hvorki lög nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, né aðrar réttarreglur standa í vegi fyrir því, að jafnræði náist milli annars vegar þeirra, sem nú falla undir 12. gr. laganna, og hins vegar þeirra, sem heyra undir 2. mgr. ákvæðis til bráðabirgða.

Ég tel því, með vísan til a-liðar 2. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, ekki tilefni til frekari afskipta af máli þessu af minni hálfu.“