Ríkisútvarpið. Verklag stjórnvalda við innheimtu og rannsókn mála. Starfssvið umboðsmanns Alþingis. Réttarágreiningur sem heyrir undir dómstóla.

(Mál nr. 1757/1996)

A kvartaði yfir því að hún og sambýlismaður hennar væru krafin um útvarpsgjald og yfir framkomu starfsmanna innheimtudeildar Ríkisútvarpsins við innheimtuna. Starfsmenn innheimtudeildar höfðu komið á heimili A og B í tvígang til að athuga hvort þar væri viðtæki. A hélt því fram að það viðtæki sem þar var er starfsmenn Ríkisútvarpsins komu þangað fyrst hefðu þau haft í láni og að ekkert viðtæki væri á heimilinu.

Umboðsmaður rakti ákvæði 24. gr. útvarpslaga nr. 68/1985 um skyldu til greiðslu útvarpsgjalds, og ákvæði 25. og 26. gr. sömu laga um skyldu eiganda, sem breytir afnotum sínum til að tilkynna það Ríkisútvarpinu og um skrá yfir viðtæki, sem Ríkisútvarpið skal halda. Þá vísaði hann til þess að í 2. mgr. 37. gr. útvarpslaga er kveðið á um að vanræksla á tilkynningum um eigendaskipti eða breytt afnot viðtækis varði sektum.

Umboðsmaður tók í fyrsta lagi til skoðunar, hvort innheimtudeild Ríkisútvarpsins hefði verið stætt á því að beina innheimtu útvarpsgjalds að B, sambýlismanni A. Í skýringum Ríkisútvarpsins kom fram, að þeirri reglu væri fylgt að skrá tæki sem fyndust á heimilum fólks á nafn þess maka, sem yrði fyrir svörum, nema hinn makinn væri þegar skráður fyrir viðtæki. Þá kom fram, að auðsótt mál væri að breyta skráningu. Umboðsmaður taldi, að þegar óskráð viðtæki fyndist mætti ganga út frá því, að skrá Ríkisútvarpsins yfir viðtæki, sbr. 26. gr. útvarpslaga, væri röng, annaðhvort um raunverulegan eiganda eða afnot hans. Þyrfti þá að upplýsa um réttan eiganda tækis. Yrði það ekki gert taldi hann réttast, að hver sá sem talist gæti húsráðandi með hliðsjón af þjóðskrá, yrði að svo stöddu skráður eigandi viðtækis. Með tilliti til þessa, þess að skýlaus skylda er að greiða af viðtæki og þess að auðsótt er að breyta skráningu, taldi umboðsmaður ekki ástæðu til að finna að því að B var skráður eigandi sjónvarpstækis þess sem var á heimili hans er starfsfólk innheimtudeildar heimsótti þau A fyrst, enda taldi hann að ekki yrði séð af gögnum málsins að B hefði ekki þá gefið upp nafn raunverulegs eiganda.

Í öðru lagi tók umboðsmaður til skoðunar vinnulag starfsmanna innheimtudeildar Ríkisútvarpsins við könnun á því hvort á heimili væri viðtæki eða ekki. Umboðsmaður vísaði til þess að í reglugerð nr. 357/1986, sem er sett á grundvelli 38. gr. útvarpslaga, nr. 68/1985, er m.a. kveðið á um það að innheimtudeild Ríkisútvarpsins hafi með höndum innheimtu útvarpsgjalds af viðtækjum og eftirlit með því að fyrirmælum útvarpslaga og reglugerðarinnar um tilkynningar sé fullnægt og annist könnun í því skyni. Væri álitaefni hversu langt slík könnun mætti ganga. Umboðsmaður rakti, að það varðar sektum samkvæmt útvarpslögum ef ekki er tilkynnt um breytt afnot eða eignarhald á viðtæki og að um rannsókn slíkra brota fer samkvæmt reglum laga nr. 19/1991, um meðferð opinberra mála. Hann tók fram, að í útvarpslögum væru engin fyrirmæli sem fælu innheimtudeild Ríkisútvarpsins rannsókn á slíkum brotum og að slíkum fyrirmælum yrði heldur ekki fundinn staður í reglugerð 357/1986. Það heyrði því undir lögreglu en ekki innheimtudeildina að rannsaka hvort brot, er varðaði refsingu samkvæmt útvarpslögum, hefði verið framið.

Umboðsmaður taldi ekki ástæðu til athugasemda við verklag starfsmanna innheimtudeildar Ríkisútvarpsins eins og því var lýst í greinargerð innheimtustjóra. Vegna þeirrar aðstöðu, er þeir sem heimsóttir eru neita því að á heimilinu sé viðtæki, tók hann fram, að hvorki í útvarpslögum né í reglugerð nr. 357/1986 væri mælt fyrir um sérstök úrræði til handa starfsmönnum innheimtudeildar við slíkar aðstæður. Umboðsmaður taldi, að hefðu starfsmenn innheimtu-deildarinnar rökstuddan grun um að viðtæki væri að finna á heimili, en heimilisfólk neitaði að sýna fram á annað gæti innheimtudeildin allt að einu krafið viðkomandi einstakling um útvarpsgjald og látið reyna á réttmæti kröfunnar fyrir dómi. Þá gæti hún enn fremur kært meint brot til lögreglu samkvæmt framansögðu, enda yrði ekki litið fram hjá yfirvofandi refsiábyrgð samkvæmt útvarpslögum. Umboðsmaður taldi hins vegar, að væri áskilnaður um rökstuddan grun ekki fyrir hendi, yrði kröfu um greiðslu útvarpsgjalds ekki haldið til streitu við þessar aðstæður. Hann taldi, að fenginni þessari niðurstöðu, ekki ástæðu til að fjalla um það hvort starfsmenn innheimtudeildar hefðu farið offari við könnun á því hvort viðtæki væri á heimili A og B.

Rúmum tveimur árum eftir að starfsmenn innheimtudeildar sóttu A og B fyrst heim leitaði A til innheimtudeildarinnar og óskaði upplýsinga um það, af hvaða tæki væri innheimt útvarpsgjald hjá B. Skýrði hún þá frá því að tæki það, sem fannst hjá þeim við heimsóknina hefðu þau haft í láni um takmarkaðan tíma. Umboðsmaður taldi, að til að skorið yrði úr því, hvort innheimtudeildinni bæri að lækka eða fella niður innheimtu útvarpsgjald vegna tímabilsins áður en A leitaði til innheimtudeildarinnar, kynni að vera þörf á að taka skýrslur af vitnum og meta sönnunargildi þeirra. Þá þyrfti eftir atvikum að taka afstöðu til þess hvaða þýðingu tómlæti B hefði í málinu. Þessi þáttur málsins varðaði því réttarágreining, sem ætti undir dómstóla og eðlilegt væri að þeir leystu úr. Af sömu ástæðum fjallaði umboðsmaður ekki um það hvort efni hefðu verið til þess af hálfu innheimtudeildarinnar að sinna ekki málaleitan A, í stað þess að líta á hana sem tilkynningu um breytt afnot viðtækis, né um það hvernig innheimtudeild Ríkisútvarpsins stóð að upplýsingaöflun hjá Íslenska útvarpsfélaginu hf.

I.

Hinn 10. apríl 1996 leitaði til mín A og kvartaði yfir framkomu starfsmanns innheimtudeildar Ríkisútvarpsins við innheimtu útvarpsgjalds. Taldi hún innheimtu þessa ekki réttmæta, þar sem hún ætti ekki og hefði ekki átt sjónvarpstæki, ef undanskilinn væri vikutími, er hún hefði haft sjónvarpstæki að láni. Þá taldi A, að innheimtu gjaldsins væri ranglega beint að sambýlismanni hennar, sem hvorki hefði átt sjónvarp né fengið sjónvarp að láni.

Í kvörtuninni tekur A fram, að hún hafi fengið sjónvarpstæki lánað hjá föður sínum um vikutíma í febrúar 1994. Í því sambandi vísar hún til vottorðs föður síns, þess efnis. Starfsmenn Ríkisútvarpsins hafi heimsótt hana 7. febrúar 1996, og hafi hún þá ekki haft sjónvarpstæki á heimilinu. Samt hafi innheimta ekki verið felld niður.

II.

Með bréfi til útvarpsstjóra 29. apríl 1996 óskaði ég eftir því, með vísan til 7. og 9. gr. laga nr. 13/1987, um umboðsmann Alþingis, að Ríkisútvarpið lýsti viðhorfi sínu til kvörtunar A og léti mér í té gögn málsins. Sérstaklega óskaði ég eftir því að fram kæmi, með hvaða hætti staðið hefði verið að rannsókn og undirbúningi framangreinds máls. Svar útvarpsstjóra barst mér með bréfi 19. júní 1996. Í því er m.a. vitnað til svohljóðandi greinargerðar innheimtustjóra Ríkisútvarpsins:

„Skv. 24. gr. útvarpslaga nr. 68/1985 skal eigandi viðtækis, sem nota má til móttöku á útsendingum Ríkisútvarpsins greiða afnotagjald, útvarpsgjald. Í 22. gr. 1. mgr. rgl. nr. 357/1986 um Ríkisútvarpið segir: „Innheimtudeildin hefur eftirlit með því að fullnægt sé fyrirmælum útvarpslaga og reglugerðar þessarar um tilkynningar viðtækja og annast könnun í því skyni“. Í þessu ákvæði eru því skýlaus fyrirmæli til starfsfólks innheimtudeildar að hafa upp á óskráðum viðtækjum og öðrum viðtækjum, sem eru gjaldskyld en ekki er greitt af. Eina leiðin til þess að framkvæma slíka leit, er að keyra saman í tölvu þjóðskrá og stofnskrá innheimtudeildar og þá þar með skrá yfir hjón, sambýlisfólk og einstaklinga, sem ekki eru skráðir notendur. Samkeyrsla þessi fer fram með leyfi tölvunefndar. Starfsfólk innheimtudeildar heimsækir síðan þau heimili, þar sem enginn notandi er skráður og kannar með viðtali við heimamenn hvort þar eru viðtæki eða ekki. Benda má á, að síðan skipulögð tækjaleit hófst hafa fundist liðlega 12.000 sjónvarpstæki og um 1.100 hljóðvarpstæki.

Upphaf þessa máls er það, að þann 27. október 1993 voru hjónin [A] og [B] heimsótt af tveimur starfsmönnum innheimtudeildar, þeim [C] og [D], þar sem enginn greiddi afnotagjald á þessu heimili. [B] varð fyrir svörum og sagði með semingi að lánssjónvarp væri á heimilinu en gaf ekki frekari upplýsingar. Skv. þessum upplýsingum [B] var hann skráður notandi sjónvarpstækis.

19. desember 1995 kom [A] í innheimtudeild og spurði af hvaða viðtæki væri verið að innheimta hjá þeim afnotagjald. Var henni tjáð að þau hefðu verið með sjónvarpstæki, þegar þau voru heimsótt í október 1993. Hún sagði þá að það tæki væri eign föður hennar og hefði hann lánað þeim tækið í eina viku. [A] var þá beðin um að koma með skriflega yfirlýsingu frá föður hennar þessu til staðfestingar. Skömmu seinna barst hingað ódagsett yfirlýsing frá [föður hennar] þar sem hann segist hafa lánað [A] „Tensai“ sjónvarpstæki sitt í eina viku á tímabilinu jan.–febr. 1994. Athygli er vakin á því að þau [A] og [B] voru heimsótt 27. október 1993. Þar sem yfirlýsing þessi þótti ekki trúverðug af framangreindum ástæðum, var hún ekki tekin til greina.

Þann 7. febrúar 1996 voru [A] og [B] heimsótt enn á ný og nú af tveimur starfsstúlkum innheimtudeildar, þeim [E] og [F], til þess að fá úr því skorið hvort þetta heimili væri algerlega án viðtækja. Hittu þær [A] að máli og lýsti hún því yfir að á heimilinu væri hvorki útvarps- né sjónvarpstæki. Aðspurð hvort [A] vildi sýna fram á að heimilið væri án viðtækja neitaði hún því. Þegar stúlkurnar gengu frá húsinu blöstu við þeim gegnum glugga bæði hljómflutnings- og sjónvarpstæki.

[A] sendi útvarpsstjóra bréf í mars 1996 þar sem hún biður um að hætt verði að innheimta afnotagjöld hjá [B] þar sem þau væru ekki með neitt viðtæki á heimilinu. Innheimtustjóri svaraði þessu bréfi að beiðni útvarpsstjóra og var beiðni hennar hafnað með tilvísun til fyrirliggjandi upplýsinga.“

Með bréfi útvarpsstjóra til mín fylgdu annars vegar bréf innheimtustjóra til A vegna erindis hennar, sem vísað er til í niðurlagi bréfsins, og hins vegar svohljóðandi greinargerð innheimtudeildar Ríkisútvarpsins:

„[A] kom 19.12.95 með spurningu um hvaða tæki væri verið að rukka fyrir. Eftir að athuga skýrslu sást að þau voru með tæki þegar komið var til þeirra. Hún sagði föður sinn hafa átt tækið og þau hefðu haft það í viku. Sagði henni að koma með það skriflegt frá föður hennar og hvaða viku.

[G, starfsmaður innheimtudeildar]

[...]

Farið var til þeirra 7.2.96 og var [B] ekki heima. Fyrir svörum varð [A] og neitaði hún bæði útv. og sjv. og ekkert útv. í bíl en hún sagðist eiga 5 ára Toyotu. Neitaði að sýna fram á tækjalaust heimili. Þegar við löbbuðum út þá blöstu við okkur þessar stóru græjur í stofuglugga en hann er beint fyrir ofan inngang og hengu snúrur út um allt. Græjurnar voru í einhverjum skáp, sáum við líka sjónvarpstæki ofan á skápnum og sá [E] skjáinn sjálfan. Við ákváðum að keyra aftur fram hjá svo [H] gæti staðfest þetta og ca. 10 mín. seinna var búið að draga fyrir stofugluggann en ekki hliðargluggann og sást þar greinilega sjónvarp og hefðum við stoppað bílinn hefðum við getað séð hvaða þáttur var í sjónvarpinu. [H] og [E].

Faðir [A] sendi yfirlýsingu í jan. 1996 þess efnis að hann hafi lánað þeim tækið í eina viku í jan–feb. 1996 þar sem fyrsti þáttur Hemma Gunn var sýndur (Þvílík vitleysa).

Þar sem [E] og [F] fóru í feb. 1996 verður þessi yfirlýsing ekki tekin til greina.

[...] 26/3 1996. [A] sendi útvarpsstjóra bréf í mars 1996 og heldur því fram með tilvísun til yfirlýsingar föður hennar að þau hafi verið með tæki í eina viku. Það athugist að tæki fannst hjá þeim í okt. 1993 en [faðir A] vottar að hann hafi lánað þeim tækið í eina viku í jan. til feb. 1994. Þau voru heimsótt 7/2 1996 af [F] og [E] og sáu þær tækið. [Innheimtustjóri] svaraði bréfinu að beiðni útvarpsstjóra.

3/4 1996. [...].“

Með bréfi 24. júní 1996 óskaði ég eftir því við A, að hún sendi mér þær athugasemdir, sem hún teldi ástæðu til að gera vegna skýringa Ríkisútvarpsins. Athugasemdir hennar bárust mér 15. ágúst 1996. Kom þar fram, að vel gæti verið, að starfsmenn innheimtudeildarinnar hefðu komið í heimsókn 27. október 1993 en ekki í janúar–febrúar 1994, svo sem hún og faðir hennar hefðu talið. Hefðu þau ekki munað dagsetningar nákvæmlega. Heimsóknin hefði verið í vikunni, sem sjónvarpstækið var í láni. Síðan segir í bréfi A:

„Þann 7. febrúar '96 þegar [E] og [F] komu æddu þær inn á stigaganginn án þess að hringja bjöllunni eins og allir sem komið hafa frá R.Ú.V. Þegar þær [E] og [F] komu var [A] stödd í ganginum fyrir framan hurðina að íbúð sinni á tali við konuna sem býr á móti henni. Var hurðin hjá [A] opin og stóðu þær í stiganum og heyrðu ekki í sjónvarpstæki, þar sem ekki er til sjónvarp. Svo sögðu þær að þær hefðu séð sjónvarp og hljómtæki inn um gluggann. Hvernig er hægt að sjá í gegnum glugga sem er dregið fyrir og uppi á annarri hæð? Er rétt staðið að innheimtu málsins að liggja á gluggum heimilanna?“

Með bréfi 22. nóvember 1996 óskaði ég eftir því við útvarpsstjóra, með vísan til 7. og 9. gr. laga nr. 13/1987, um umboðsmann Alþingis, að hann léti mér í té skýringar og gögn, þ. á m. tölulegar sundurliðanir, varðandi innheimtu útvarpsgjalds á hendur B, auk upplýsinga um, hvernig háttað væri starfsreglum, sem starfsmönnum væru settar við „eftirlit með því að fullnægt sé fyrirmælum útvarpslaga og reglugerðar [...]“. Enn fremur óskaði ég skýringa á því, hvað réði ákvörðun innheimtudeildar um það, hver teldist vera eigandi viðtækis í skilningi útvarpslaga nr. 68/1985. Með bréfi útvarpsstjóra, dags. 6. desember 1996, fylgdi greinargerð innheimtustjóra Ríkisútvarpsins frá 5. sama mánaðar, vegna fyrirspurnar minnar. Í greinargerðinni sagði svo:

„Ég vil í upphafi víkja nokkrum orðum að þeirri fullyrðingu [A] að máli þessu sé beint gegn röngum aðila. Við tækjaleit hefur þeirri reglu verið fylgt að skrá tæki þau sem finnast á nafn þess maka sem verður fyrir svörum, nema hinn makinn sé þegar skráður fyrir útvarpstæki, þá er sú skráning látin gilda áfram. Þegar þau hjón voru heimsótt 27. október 1993 ræddu leitarmenn við [B] og var hann því skráður fyrir sjónvarpstækinu. Eins og fram kemur í skýrslu leitarmanna var [B] tregur til að viðurkenna að sjónvarpstæki væri á heimilinu enda þótt leitarmenn heyrðu í tækinu. Ekki greindi [B] frá því hver ætti þetta tæki og enn síður að [A] kona hans væri með tækið í láni. Svo sem máli þessu er háttað skiptir ekki máli hvort þeirra hjóna er skráð sem eigandi eða notandi að sjónvarpstæki þar sem málið snýst eingöngu um það, að þau hjón neita því að á heimilinu sé sjónvarpstæki, þótt fyrirliggjandi gögn sanni hið gagnstæða. Ekki þarf að taka fram að auðsótt mál er að breyta skráningu tækja ef óskað er, en af augljósum ástæðum hefur ekki reynt á það í máli þessu. Einnig má benda á að undanþágu ákvæði 43. gr. l. nr. 90/1989 um aðför mun vera skýrt þannig að sjónvarpstæki teljist til þeirra lausafjármuna „sem nauðsynlegir eru gerðarþola og heimilismönnum hans til að halda látlaust heimili með þeim hætti, sem almennt gerist“ og verður því að ætla að afnotagjöld af sjónvörpum teljist til þeirra útgjalda sem hjón bera bæði ábyrgð á nema sérákvæði eigi við t.d. ef kaupmáli er til staðar.

Vil ég þá víkja að bréfi umboðsmanns Alþingis. Þar er í fyrsta lagi beðið um tölulegar sundurliðanir varðandi „innheimtu útvarpsgjalds á hendur [B]“. Til þess að upplýsa þetta fylgir hjálagt tölvuútskrift af reikningi [B] yfir tímabilið [frá] og með okt. 1993 til des. 1996.

Þá er spurt hvernig sé háttað starfsreglum, sem starfsmönnum eru settar við eftirlit með því að fullnægt sé „fyrirmælum útvarpslaga og reglugerðar“. Til viðbótar því sem þegar er fram komið vil ég taka fram eftirfarandi: Ávallt eru tveir saman við tækjaleitina og hefur leitarfólk í höndum eyðublöð með nöfnum fólks á þeim heimilum sem leita á. Gera skal þeim sem leitað er hjá grein fyrir tilefni heimsóknarinnar og framvísa skilríkjum sem sýni að um starfsfólk RÚV sé að ræða. Þær upplýsingar sem fram koma eru skráðar niður á staðnum á eyðublöðin. Algengt er að fólk viðurkenni að á heimilinu sé óskráð tæki og eru tækin þá sett á skrá. Í öðrum tilfellum verður að meta það hverju sinni hvort nægileg gögn séu fyrir hendi til nýskráningar. Fylgir hér hjálagt sýnishorn af eyðublaðinu.

Að lokum er spurt um skýringu á því hvað ráði ákvörðun innheimtudeildar á því hver teljist vera eigandi viðtækis í skilningi útvarpslaga. Þessari spurningu hefur þegar verið svarað hvað áhrærir tækjaleit en langalgengast er að viðtæki séu skráð á fólk skv. þeim upplýsingum sem tilgreindar eru á sölutilkynningu viðtækjaverslana. Þó gildir sama reglan hér og við leit að sé maki þegar skráður með viðtæki er viðbótartækið einnig skráð á hann nema óskað sé eftir því að annar háttur sé á hafður. Ennfremur er nokkuð um sölu viðtækja milli einstaklinga og er þá viðtækið skráð á hinn nýja eiganda skv. tilkynningu frá kaupanda eða seljanda.

Ég vil að endingu vekja athygli á eftirfarandi staðreyndum:

1.) Þ. 27.10.1993 viðurkennir [B] í viðurvist tveggja vitna að hann hafi sjónvarpstæki að láni.

2.) Veturinn 1994 barst innheimtudeild ódagsett yfirlýsing [föður A] þar sem fullyrt er að hann hafi lánað [A] sjónvarpstæki í eina viku á tímabilinu janúar–febrúar 1994. Framanritað staðfestir [A] í ódagsettu bréfi til útvarpsstjóra þótt viðurkennt sé að tæki var á heimili þeirra 27. okt. 1993.

3.) Þ. 2. febrúar 1996 heimsóttu tvær starfsstúlkur þau [A] og [B], og ræddu þar við [A] sem fullyrti að hvorki væri sjónvarp né útvarp á heimili þeirra og ekki heldur útvarpstæki í bifreið er þau eiga. Er stúlkurnar gengu frá húsinu blasti við þeim gegnum glugga á íbúðinni sjónvarpstæki, er stóð þar í skáp.

4.) S.l. vetur fékkst það upplýst hjá Stöð 2 að [A] er þar áskrifandi. Aftur var haft samband við Stöð 2 þ. 3. desember s.l. og reyndist [A] enn vera áskrifandi þar.

Þegar þessi atriði eru öll virt og með tilvísun til þeirra skriflegu gagna sem borist hafa frá þessu fólki til Ríkisútvarpsins og umboðsmanns Alþingis fæ ég ekki betur séð en að um sé að ræða meint brot á 147. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.“

Ég gaf A kost á því, með bréfi 10. desember 1996, að senda mér þær athugasemdir, sem hún teldi ástæðu til að gera vegna bréfs útvarpsstjóra. Í viðtali við starfsmann minn 6. febrúar 1997 sagði A að engu væri við fyrri röksemdir að bæta. Vegna fullyrðinga um, að hún væri áskrifandi að Stöð 2, tók hún fram, að systir hennar væri í raun áskrifandi en áskriftin væri gjaldfærð af greiðslukorti A. Taldi hún, að starfsmenn Ríkisútvarpsins hefðu sagt rangt til nafns, er þeir hringdu í Stöð 2, þeir hefðu sagst vera hún sjálf og þannig fengið þessar upplýsingar.

Með bréfi 11. febrúar 1997 óskaði ég eftir því við útvarpsstjóra, með vísan til 9. gr. laga nr. 13/1987, að hann upplýsti, með hvaða hætti hefði verið aflað upplýsinga um, að A væri áskrifandi að Stöð 2 og hvort um viðtekið verklag væri að ræða hjá innheimtudeildinni. Svar útvarpsstjóra barst mér með bréfi, dags. 4. mars 1997, og var þar vísað til greinargerðar innheimtustjóra Ríkisútvarpsins, dags. 25. febrúar 1997. Í greinargerðinni segir svo:

„Fram kemur í bréfi umboðsmanns að starfsmaður embættis hans hefur rætt við [A] vegna þeirrar fullyrðingar í bréfi innheimtudeildar til þín dags. 5. desember s.l. að [A] sé áskrifandi að Stöð 2. Aðspurð um þetta atriði svaraði hún því einu til, að hún drægi í efa að þessar upplýsingar innheimtudeildar væru fengnar með eðlilegum hætti.

Ég get ekki annað en látið undrun mína í ljós yfir því hvernig umboðsmaður Alþingis bregst við í máli þessu. Í stað þess að snúa sér í embættisnafni til Stöðvar 2 til þess að fá úr þessu skorið, er [A] sjálf spurð um þetta atriði. Er varla við því að búast að hún játi þessu þar sem hún kvartar til umboðsmanns yfir því að þau hjón séu krafin um afnotagjöld þar eð ekki sé sjónvarpstæki á heimili þeirra. Ég vek athygli á því að ekki sést af bréfi umboðsmanns hvort [A] játaði eða neitaði því að hún væri áskrifandi að Stöð 2 heldur einungis að hún efist um að framangreindar upplýsingar séu fengnar með eðlilegum hætti. Því er til að svara að hringt var til Stöðvar 2 og spurt hvort [A] væri þar áskrifandi og var því svarað játandi.

Einnig er spurt hvort hér sé um viðtekið verklag að ræða og er því svarað neitandi enda einsdæmi að kvartað sé til Umboðsmanns yfir starfsháttum innheimtudeildar svo sem hér er gert.“

III.

Í forsendum og niðurstöðu álits míns, dags. 9. janúar 1998, sagði:

„1.

A kvartar annars vegar yfir því, að hún eða sambýlismaður hennar, B, skuli vera krafin um útvarpsgjald, og hins vegar yfir framkomu starfsmanna innheimtudeildar Ríkisútvarpsins við þessa innheimtu. Í kvörtuninni er því haldið fram, að A og B hafi haft sjónvarpstæki í láni í eina viku, en tækið hafi verið í eigu föður hennar. Af hálfu Ríkisútvarpsins er á hinn bóginn byggt á því, að sjónvarpsviðtæki sé á heimili A og B og að það sé í þeirra eigu. Skráning B sem eiganda tækisins sé vegna þess, að hann hafi orðið fyrir svörum, þegar starfsmenn innheimtudeildar Ríkisútvarpsins heimsóttu heimilið fyrst. Eins og málið er vaxið, mun ég annars vegar taka til umfjöllunar, hvort innheimtudeild Ríkisútvarpsins hafi verið stætt á að beina innheimtu útvarpsgjalds að B, og hins vegar vinnulag starfsmanna innheimtudeildar Ríkisútvarpsins við könnun á því, hvort á heimili sé viðtæki eða ekki.

2.

Samkvæmt 1. mgr. 24. gr. útvarpslaga nr. 68/1985 skal eigandi viðtækis, sem nýta má til móttöku á útsendingum Ríkisútvarpsins, greiða afnotagjald, svokallað útvarpsgjald, af hverju tæki. Þó skal aðeins greiða eitt útvarpsgjald fyrir einkaafnot fjölskyldu á heimili, sbr. 2. málsl. 1. mgr. 24. gr. laganna. Samkvæmt 1. mgr. 25. gr. skal eigandi, sem breytir afnotum sínum, sbr. 24. gr., tilkynna það Ríkisútvarpinu þegar í stað. Í 26. gr. er kveðið svo á, að Ríkisútvarpið skuli halda skrá yfir öll viðtæki, sem notuð eru hér á landi og í íslenskum skipum og flugvélum og nota má til móttöku útvarpsefnis. Eru stofnuninni veitt ýmis úrræði til að tryggja, að skrá þessi sé rétt, m.a. með því að seljendum viðtækja er gert að tilkynna um kaupendur til Ríkisútvarpsins, sbr. 2. mgr. 25. gr. Því aðeins skal tæki afmáð, að sönnur séu færðar á, að tækið sé orðið ónýtt eða verði af öðrum ástæðum ekki lengur notað til móttöku útsendingar Ríkisútvarpsins. Eigendur viðtækja bera ábyrgð á greiðslu útvarpsgjalds þangað til tilkynning um eigendaskipti hefur borist Ríkisútvarpinu. Til áréttingar er m.a. kveðið svo á í 2. mgr. 37. gr. útvarpslaga, að vanræksla eiganda eða seljanda viðtækis á tilkynningum samkvæmt 25. gr. varði sektum.

3.

Í greinargerð innheimtustjóra Ríkisútvarpsins, sem fylgdi bréfi útvarpsstjóra til mín, dags. 6. desember 1996, kemur fram, að við tækjaleit sé þeirri reglu fylgt, að skrá tæki, sem finnast, á nafn þess maka, sem verður fyrir svörum, nema hinn makinn sé þegar skráður fyrir útvarpstæki. Þá sé sú skráning látin halda sér. Er bent á, að ekki skipti máli, hvor maki sé skráður, enda sé auðsótt að breyta skráningu, ef óskað sé.

Í greinargerð innheimtustjórans, sem fylgdi bréfi útvarpsstjóra til mín, dags. 19. júní 1996, segir, að síðan skipulögð tækjaleit hófst hafi liðlega 12.000 sjónvarpstæki og um 1.100 hljóðvarpstæki „fundist“. Ekki kemur fram, um hve langan tíma er að ræða, en þetta veitir vísbendingar um, að skrá Ríkisútvarpsins yfir viðtæki í notkun hérlendis gefi ekki rétta mynd af raunverulegum vörslum viðtækja. Er ljóst, að menn skirrast í ríkum mæli við að sinna lagaskyldu til að tilkynna um eigendaskipti eða breytt afnot viðtækis.

Þegar innheimtudeild Ríkisútvarpsins „finnur“ óskráð viðtæki í tækjaleit má ganga út frá því, sbr. framangreint, að skrá Ríkisútvarpsins sé röng, annaðhvort um raunverulegan eiganda eða afnot hans. Í slíkum tilvikum þarf að upplýsa um réttan eiganda tækis. Verði það ekki gert, tel ég réttast, að hver sá, sem talist getur húsráðandi með hliðsjón af þjóðskrá Hagstofu Íslands, verði að svo stöddu skráður eigandi viðtækis. Ber í þessu sambandi að líta helst til þess, sem fram kemur í greinargerð innheimtustjórans, að auðsótt er að breyta skráningu, en einnig til þess, að skýlaus skylda er til að greiða af hverju viðtæki, ef ekki er skráð viðtæki fyrir á sama heimili. Ég tel samkvæmt þessu ekki ástæðu til að finna að því, að B var skráður eigandi þess sjónvarpstækis, sem var á heimili hans, þegar starfsfólk innheimtudeildar Ríkisútvarpsins sótti hann heim 27. október 1993, enda verður ekki séð af gögnum málsins að hann ekki hafi þá gefið upp nafn raunverulegs eiganda.

4.

Samkvæmt því, sem fram er komið, leitaði A 19. desember 1995 til innheimtudeildar Ríkisútvarpsins og óskaði upplýsinga um, af hvaða viðtæki væri verið að innheimta útvarpsgjald hjá B. Að fengnum þeim upplýsingum, gaf hún þær skýringar, sem áður greinir, að hún hefði haft tækið í láni frá föður sínum í vikutíma. Lagði hún síðar fram yfirlýsingu föður síns sama efnis. Af ástæðum, sem raktar hafa verið í málinu, tók innheimtudeild Ríkisútvarpsins yfirlýsingu þessa ekki trúanlega og féll ekki frá innheimtu útvarpsgjalds.

Til að fá skorið úr því, hvort innheimtudeild Ríkisútvarpsins beri að lækka eða fella niður innheimtu útvarpsgjalds vegna tímabilsins fyrir 19. desember 1995, kann að vera þörf á að taka skýrslur af vitnum og leggja mat á sönnunargildi þeirra. Þá þarf eftir atvikum að taka afstöðu til þess, hvort, og að hvaða leyti, tómlæti B hafi þýðingu í málinu. Ég tel því, að þessi þáttur málsins varði réttarágreining, sem á undir dómstóla og eðlilegt sé, að þeir leysi úr. Af þessum sökum mun ég ekki fjalla nánar um þetta atriði.

Af sömu ástæðum mun ég ekki fjalla um það, hvort efni hafi verið til þess af hálfu innheimtudeildar Ríkisútvarpsins, að sinna ekki tilkynningu A og yfirlýsingu föður hennar, í stað þess að líta á hana sem tilkynningu samkvæmt 25. gr. útvarpslaga um breytt afnot viðtækis, sbr. 24. gr. sömu laga. Hið síðarnefnda hefði haft í för með sér, að innheimtu hefði verið hætt eftir 19. desember 1995.

5.

Í 38. gr. útvarpslaga nr. 68/1985 er ráðherra veitt heimild til að setja með reglugerð nánari ákvæði um framkvæmd laganna í heild eða einstakra kafla þeirra. Á þessum grundvelli setti menntamálaráðherra reglugerð nr. 357/1986, um Ríkisútvarpið. Samkvæmt 1. mgr. 22. gr. hennar hefur innheimtudeild Ríkisútvarpsins með höndum innheimtu útvarpsgjalds af viðtækjum. Innheimtudeildin hefur eftirlit með því að fullnægt sé fyrirmælum útvarpslaga nr. 68/1985 og reglugerðarinnar um tilkynningar viðtækja og annast könnun í því skyni. Það er álitaefni, hversu langt slík könnun má ganga.

Samkvæmt því sem áður er komið fram varðar það sektum samkvæmt útvarpslögum, ef vanrækt er að tilkynna Ríkisútvarpinu um breytt afnot viðtækis eða eignarhald á því. Um rannsókn slíkra brota fer samkvæmt reglum laga nr. 19/1991, um meðferð opinberra mála. Í 1. mgr. 66. gr. laganna er kveðið svo á, að rannsókn opinberra mála sé í höndum lögreglu, nema öðruvísi sé mælt fyrir í lögum. Skuli kærum um refsiverð brot og beiðnum um rannsókn beint til lögreglu eða ríkissaksóknara. Ekki er að finna í útvarpslögum fyrirmæli um, að innheimtudeild Ríkisútvarpsins sé falin rannsókn á brotum samkvæmt 36. gr., sbr. 25. gr. laganna. Ekki verður slíkum fyrirmælum heldur fundinn staður í reglugerð nr. 357/1986. Það heyrir því undir lögreglu, en ekki innheimtudeild Ríkisútvarpsins, að rannsaka, hvort framið hafi verið brot, sem varði refsingu samkvæmt útvarpslögum.

Í greinargerð innheimtustjóra Ríkisútvarpsins, sem fylgdi bréfi útvarpsstjóra til mín 19. júní 1996, segir meðal annars, að við framkvæmd könnunar samkvæmt 1. mgr. 22. gr. reglugerðarinnar séu bornar saman upplýsingar úr þjóðskrá Hagstofu Íslands og stofnskrá innheimtudeildar, og þannig fenginn listi yfir hjón, sambýlinga og einstaklinga, sem eru ekki skráðir notendur. Starfsmenn innheimtudeildar heimsæki síðan heimili þessa fólks og kanni með viðtali við heimamenn, hvort þar séu viðtæki eða ekki. Í greinargerð innheimtustjórans, sem fylgdi bréfi útvarpsstjóra til mín, dags. 6. desember 1996, kemur meðal annars fram, að í slíkum heimsóknum, sem hér ræðir um, séu ávallt tveir starfsmenn saman og hafi þeir með sér eyðublöð með nöfnum fólks, sem heimsækja á. Þeim sem leitað sé hjá sé gerð grein fyrir tilefni heimsóknarinnar og framvísað sé skilríkjum, sem sýni, að um starfsfólk Ríkisútvarpsins sé að ræða. Upplýsingar, sem fram komi, séu skráðar á staðnum. Fram kemur, að algengt sé, að fólk viðurkenni, að á heimilinu séu óskráð tæki, og eru þau þá sett á skrá.

Ég tel ekki ástæðu til að gera athugasemdir við verklag starfsmanna innheimtudeildarinnar, eins og því hefur hér verið lýst. Hins vegar er ástæða til að fjalla um þá aðstöðu, sem upp kemur, þegar sá, sem heimsóttur er, viðurkennir ekki að viðtæki sé á heimili hans. Hvorki í útvarpslögum né í reglugerð um Ríkisútvarpið er mælt fyrir um sérstök úrræði til handa starfsmönnum stofnunarinnar, sem að þessari aðstöðu lúta.

Um verklag innheimtudeildar Ríkisútvarpsins í þeim tilvikum, er maður neitar því að vera eigandi eða vörslumaður viðtækis, segir það eitt í greinargerð innheimtustjórans, að meta verði það hverju sinni, hvort nægileg gögn séu fyrir hendi til nýskráningar. Skýrslur þeirra starfsmanna, sem sóttu A og B heim, en skýrslur þeirra eru raktar fyrr í áliti þessu, gefa þó vísbendingar um, hvaða aðferðir eru viðhafðar í slíkum tilvikum.

Hafi starfsmenn innheimtudeildarinnar rökstuddan grun um, að viðtæki sé að finna á heimili, sem sætir athugun þeirra, en heimilismaður hefur hafnað málaleitan þeirra um að sýna fram á hið gagnstæða, tel ég að innheimtudeildin geti allt að einu beint kröfu um greiðslu útvarpsgjalds að þeim einstaklingi, sem í hlut á, og látið reyna á réttmæti kröfunnar fyrir dómi, eftir atvikum með rekstri sérstaks ágreiningsmáls samkvæmt lögum nr. 90/1989, um aðför. Þá getur innheimtudeildin jafnan gripið til þess úrræðis við þessar aðstæður og í þágu innheimtuhagsmuna sinna, að kæra meint brot samkvæmt framansögðu til lögreglu, enda verður ekki litið fram hjá yfirvofandi refsiábyrgð samkvæmt lögum nr. 68/1985. Sé áskilnaður um rökstuddan grun samkvæmt framansögðu ekki fyrir hendi, verður kröfu um greiðslu útvarpsgjalds að mínu áliti ekki haldið til streitu að óbreyttum lögum, ef aðstæður eru að öðru leyti með þeim hætti sem hér hefur verið lýst.

Að fenginni þessari niðurstöðu tel ég ekki ástæðu til að fjalla um það í þessu máli, hvort starfsmenn innheimtudeildar Ríkisútvarpsins hafi farið offari við könnun sína á því, hvort á heimili A og B væri viðtæki. Starfsmönnunum bar að skrá hjá sér afstöðu A og taka afstöðu til þess, hvort tilefni væri til frekari aðgerða, eftir því sem rakið er hér að framan.

6.

Að því er snertir þann þátt málsins, sem lýtur að upplýsingaöflun innheimtudeildar hjá Íslenska útvarpsfélaginu hf., þá tek ég ekki afstöðu til þess, hvernig staðið var að henni. Liggja til þess sömu rök og greinir í III. kafla 4. Ég tek á hinn bóginn fram, að ég tel almennt ekki aðfinnsluvert, að starfsmenn innheimtudeildar Ríkisútvarpsins afli þeirra upplýsinga, sem þeir telja þörf á og þeir hafa lögmætan aðgang að, áður en heimsótt eru heimili í tækjaleit.

IV.

Niðurstöður.

A kvartar yfir framkomu innheimtudeildar Ríkisútvarpsins við innheimtu útvarpsgjalds. Annars vegar byggist kvörtunin á því, að innheimtan eigi ekki rétt á sér, en hins vegar, að henni hafi verið beint að röngum aðila. Ég hef komist að þeirri niðurstöðu, að innheimtu útvarpsgjalds hafi, eins og á stóð, verið beint að réttum aðila. Þá tel ég, að í þeim tilvikum, er maður neitar að vera eigandi eða vörslumaður viðtækis, sem nýta má til móttöku á útsendingum Ríkisútvarpsins, og neitar jafnframt að sýna starfsmönnum innheimtudeildar Ríkisútvarpsins fram á það, en starfsmennirnir hafa engu að síður rökstuddan grun um, að á heimilinu sé slíkt tæki að finna, geti innheimtudeildin allt að einu beint kröfu um greiðslu útvarpsgjalds að þeim einstaklingi, sem í hlut á, og látið reyna á réttmæti kröfunnar, eftir atvikum fyrir dómi. Önnur úrræði til að varpa ljósi á málið að frátalinni kæru til lögreglu vegna þess réttarbrots sem felst í notkun óskráðs viðtækis, eru Ríkisútvarpinu ekki tæk undir þessum kringumstæðum lögum samkvæmt. Ég tek hvorki afstöðu til þess, hvort starfsmenn innheimtudeildar hafi farið offari í störfum sínum, né til þess, hvort efni séu til að lækka eða fella niður innheimtu útvarpsgjalds hjá B vegna tímabilsins fyrir 7. febrúar 1996.“